Saturday, May 13, 2006

 

Atkvæðin

Það hefur lengi verið lenska hjá stjórnmálaflokkum að telja kjósendur einungis vera atkvæði. Ekki fólk með langanir, hugsjónir, vonir eða þrár. Einkum á þetta við um stóru flokkana. Þeir halda því fram að atkvæði greidd öðrum kunni að "falla dauð". Við búum við hlutfallskosningar og óhjákvæmilega nýtast ekki öll atkvæði til fulls. Fyrir síðustu alþingiskosningar hamraði samfylkingin á því að ekki mætti kjósa vinstri græna. Þá féllu atkvæði dauð og kröftum vinstri manna væri dreift. Því miður virtist þessi áróður hrífa. Hef meira að segja illan grun um að dóttir mín, þó skynsöm sé, hafi látið blekkjast af þessu villuljósi. Eldri sonur minn er nú svo óábyrgur í stjórnmálum að hann er vís til að kjósa íhaldið ef þannig liggur á honum. Og flokkinn sem þolir ekki lengur nafnið sitt. Ég hef reyndar líka grun um að skáldið hafi ekki kosið rétt í síðustu kosningum. En þetta þýðir alls ekki að ég hafi minnsta vilja til að segja börnum mínum fyrir verkum. Þau gera upp við sína sannfæringu eins og ég við mína. Og það mun örugglega aldrei henda mig að kjósa gegn sannfæringu minni. Margir hafa í gegnum tíðina kosið íhaldið af því það hefur löngum verið stærsti flokkurinn. Össur hefur lengi haldið því fram að samfykingin " ætti að vera " 40% flokkur. Þvílík steypa. Og sementið í henni handónýtt. Menn eiga ekki að kasta skoðunum sínum og hugsjónum á haugana til að gera einhvern flokk stóran. Það er reyndar að verða gömul tugga hjá mér að samfylkingin er algjörlega hugsjónalaus moðsuða. En hún er jafnsönn ennþá. Við skulum einfaldlega kjósa eins og hjartað slær. Ef við gerum það ekki munu enn fleiri atkvæði falla dauð eins og sagt er. Ef gott veður verður á kjördag ætla ég á vespunni á kjörstað. Íklæddur íslenska þjóðbúningnum. Haldiði að ég verði ekki voða flottur þannig? Og auk þess ætla ég að kjósa rétt. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online