Monday, August 28, 2006

 

Nýju fötin keisarans.

Farsinn um Kárahnjúka heldur áfram. Stjórnarformaður Landsvirkjunar er gamall uppgjafaþingmaður litla flokksins sem vill ekki kannast við nafn sitt lengur. Það má skilja hann svo að þeir sem gagnrýna pukrið, leyndina og óheilindin séu að saka hann og aðra hans líka um að stofna fjölda mannslífa í hættu. Kannski er það bara rétt. Ef stíflan brysti eftir að hafa verið fyllt verða afleiðingarnar skelfilegar. Af hverju má ekki doka við og láta óháða aðila segja álit sitt. Ef virkjanaherinn trúir á sérfræðinga í jarðfræði, jarðeðlisfræði og stíflugerð af hverju þarf þá að gera upp á milli þeirra. Gamla máltækið um að ekki valdi sá er varar á hér við. Það er með ólíkindum að upplýsingum um jarðhita og sprungusvæði skuli hafa verið haldið leyndum fyrir þeim sem tóku ákvarðanir um þessa virkjun. En það er þó með enn meiri ólíkindum hvernig Valgerður, VirkjunarGeir, Skeifugeir og fleiri bregðast við þegar upp um þau kemst. Og véfréttin hagar sér á sama veg. Valgerður segir í einu orðinu að engu hafi verið leynt en í hinu að þingmenn hefðu ekki komist yfir að lesa skýrslu Gríms Björnssonar. Ég hef alltaf haldið að núverandi orkumálastjóri væri heiðursmaður. Kannski er hann það. Hann sá þó strax að upplýsingar Gríms gætu komið virkjunarsinnum illa. Hann hefur ekki gefið haldbæra skýringu á því að hann skyldi stimpla þessar upplýsingar sem trúnaðarmál. Það hefur verið upplýst af upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar að 500 milljónum hafi verið eytt vegna þessara upplýsinga og það séu smáaurar miðað við heildarkostnaðinn. En það má alls ekki hleypa óvilhöllum sérfræðingum að málinu. Það eru bara valinkunnir sérfræðingar virkjunarsinna sem eiga að ráða ferðinni. Ætlar þjóðin að sætta sig við þennan skandala? Rök þeirra sem vilja skoða þetta nánar eru sterk. Nánast skotheld. Og vítin eru til að varast þau. Það eru til svona minnisvarðar annarsstaðar í heiminum. Þar sem menn skutu fyrst og spurðu svo. Hann yrði nú svo sem ekki til prýði þessi minnisvarði við Kárahnjúka. En hann yrði þó skárri en það sem getur gerst ef flanað verður áfram eins og virkjunardátarnir vilja. Dokum við og fylgjumst grannt með.

Bara rúmlega 6 gráður og gjóla. Það haustar að en landið skartar sínu fegursta. Við kisi vökum þó nóttin sé ung. Rauðhausarnir báðir. Samkomulagið gott sem fyrr og lífið heldur áfram með öllum sínum tilbrigðum. Líklega leggjum við okkur bara aftur og látum okkur dreyma eitthvað fallegt. Biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

 

Hrekkjusvín.

Ljótu hrekkjusvínin þeir Ögmundur og Steingrímur. Össur, Árni náttúra og ýmsir aðrir. Véfréttin segir það illa gert að benda á óþægilegar staðreyndir. Og hún er sammála Álgerði að það hefði verið þingmönnum ofviða að lesa þessa 3ja blaðsíðna skýrslu Gríms Björnssonar. Hvað er inní hausnum á þessu liði. Álheili? Það er með ólíkindum hvernig Valgerður Sverrisdóttir bregst við þegar menn benda á afglöp hennar. Og hinn nýi formaður tekur undir og segir að hann hefði líka haft rangt við í hennar sporum. Af hverju mátti þingheimur ekki fá þessar upplýsingar? Það er einfaldlega af því að sumir þurfa alltaf að hafa rangt við þegar spilað er. En þessir aumingjar eru ekki búnir að bíta úr nálinni með þetta. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls næstu vikurnar. Og ekki síst vegna þess að þingkosningar nálgast. Það verður auðvitað prófsteinn á pólitískan þroska íslendinga hvernig þar kosningar fara. Ekkert breyttist við flokksþingið mikla um daginn þar sem allir sigruðu þó þeir töpuðu. Nýi formaðurinn málaði sig út í horn með hraða eldingarinnar. Hafi menn haldið að nýtt blóð færi að renna um æðar þessa útbrunna flokks þá verða þeir hinir sömu fyrir vonbrigðum. Siðferði draugsins og Álgerðar er enn í forsæti í litla flokknum. Og það eru litlar líkur á bata. Tilgangurinn mun áfram helga meðalið. Manni verður hreinlega illt af þessu.

Það hefur aðeins kólnað og september nálgast.Norðangola og bjart yfir. Hösmagi nokkuð hress eftir afslöppun helgarinnar. Letin réði ríkjum. Það er ágætt svona inná milli. Áin orðin hrein og falleg aftur en líklega fáir fiskar í henni. Það er þó lengi von á einum eins og sagt er. Einn dagur eftir hjá undirrituðum. Svo verður ef til vill farin haustferð í Landmannalaugar og vötnin þar í kring athuguð. Það væri nú ekki amalegt í septemberblíðu þegar landið skartar haustlitunum. Krúttkveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, August 25, 2006

 

Gúrkutíð.

Oft er talað um gúrkutíð þegar lítið er fréttnæmt. Finnst það oft vera þannig á þessum árstíma. En það er það kannski alls ekki. Farsinn um skýrslu Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings er nú engin gúrka. Litla gamalmennið Birkir Jón hefur boðað til fundar í iðnaðarnefnd Alþingis. Það var með Ögmundi í kastljósinu í gærkvöldi. Og það sem segir í þessari skýrslu skiptir að sjálfsögðu engu máli. Litla gamalmennið trúir því að þarna sé allt í lagi. Hann trúir útsendurum Landsvirkjunar. Og forsætisráðherrann trúir ekki að neinu hafi verið haldið leyndu fyrir Alþingi.Eitt er þó óumdeilanleg staðreynd. Það var Alþingi sem tók ákvörðun um virkjunina við Kárahnjúka. Áður en þessi ákvörðun var tekin lágu upplýsingar Gríms fyrir. Þeim var haldið leyndum fyrir þinginu. Álgerður hafði þessar upplýsingar. Hún þagði að sjálfsögðu. Auðvitað er þetta eitt alsherjarreginhneyksli. Þeir sem bera ábyrgð á þessu ættu að taka pokann sinn strax. En siðferðismat sumra stjórnmálamanna hér er nú ekki uppá marga fiska. Álgerður mun halda áfram að leika sér í útlöndum á okkar kostnað. Og litla gamalmennið, fulltrúi viskunnar í framsóknarflokknum, mun aldrei skilja þetta. Gamla mottóið að skjóta fyrst og spyrja svo er í fullu gildi. Ef sannleikur er óþægilegur verður að halda honum leyndum. Og hálfur milljarður er bara skítur. Það á eftir að fylla Hálslón. Enginn veit enn hvað gerast kann. En það er deginum ljósara að ákveðnir stjórnmálamenn gerðu í buxur sínar. Fnykurinn af þessu hneyksli sannar það. Það er rétt hjá Ögmundi Jónassyni að þessu máli lýkur ekki með einum fundi í iðnaðanefnd með litla gamalmennið við stjórnvölinn. Og málið snýst ekki um hvort menn voru á móti þessari virkjun eða meðmæltir henni. Ef menn sjá ekki hversu alvarlegt er að halda þessum upplýsingum leyndum þá eru þeir staurblindir. Þetta minnir á þjóðníðinginn. Mengaða vatnið. Eitt eftirminnilegasta útvarpsleikritið frá því í gamla daga. Það er því miður enn lítil von til þess að menn verði gerðir ábyrgir gerða sinna. Siðferðisþrek stjórnmálamanna á borð við Álgerði er alþekkt. Og erfingjarnir, litla gamalmennið og fleiri, eru á sama fleyinu. Svart er hvítt og hvítt svart eftir þörfum. Með kveðjum úr kyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Monday, August 21, 2006

 

Staðviðri.

Rólegt yfir veðrinu. Myrkur og kyrrð. Hösmagi heldur uppteknum hætti. Vaknar snemma og kaffið er indælt að venju. Vindillinn er líka enn uppá borðinu. Líklega ekki það hollasta með morgunkaffinu. Og kettir eru líka vaknaðir. Raikonen að koma inn úr morgunrannsóknum sínum og Pési vinur hans dormar hér í stól. Líf hans er bara Sovétlíf. Gerir held ég ekkert annað en éta og sofa. Ný styttist í vertíðinni. Ætla að skreppa í ána f.h. á laugardag og síðan í tvöfalt sjötugsafmæli eftir hádegið. Kannski fæ ég líka að skreppa í Tunguá þann 1. sept. Litlu ána í Lundarreykjadal. Alltaf indælt að koma að Reykjum. Fyrst eftir að veiði lýkur á haustin myndast svolítið tómarúm í tilverunni. Nýr biðtími sem skiptist í nokkurskonar áfanga. Myrkrið sækir í sig veðrið, jólin koma og birtan sækir á að nýju. Hugmyndin að hollvinafélaginu verður vonandi að veruleika í næsta mánuði. Kannski verður þetta fyrst og fremst táknræn barátta. Munum beina athyglinni sterklega að þessum hrikalegu náttúruspjöllum. Vonandi verður okkur eitthvað ágengt. Og það hefur verið ánægjulegt að finna að ég stend ekki einn í baráttunni.
Sem stendur er rólegt á vinnustað. Of rólegt fyrir undirritaðan. Þegar mest er að gera er vellíðanin tryggð. En gamla lögmálið um hæðir og lægðir er enn í fullu gildi. Kannski er ekki von á góðu meðan landið er hálfstjórnlaust og stjórnmálamenn að skríða ofaní skotgrafirnar fyrir orrahríðina næsta vor. Við þurfum vonandi ekki að segja okkur úr þjóðfélaginu þegar henni lýkur. Nú er að verða sauðljóst eins og sagt var í sveitinni forðum. Kominn tími á að anda að sér hreina loftinu eftir vindilsogið. Megi friðurinn ríkja í sálum ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 20, 2006

 

Styrkurinn.

Sá er nú aldeilis í góðum málum sem er í framsóknarflokknum. Þar er sama hvort menn vinna eða tapa. Styrkurinn vex. Mestur er líklega styrkur Hauks Haraldssonar sem fékk heilt atkvæði í slagnum um formannssætið. Véfréttin er sterk, styrkur Jónínu frambærilegu er óhemjulegur eftir annað tapið í röð fyrir Guðna. En Guðni var svo snjall að láta frúna dreyma fyrir úrslitunum. Jónína varaði sig bara alls ekki á þessu trikki og beið því lægri hlut. Og varaþingmaður draugsins er líka óhemjusterkur. Kristinn og litla gamalmennið lyppuðust bæði niður og studdu hann. Það er í raun allt við það sama. Tíðindalaust af framsóknarvígstöðvunum.Dóri Móri brosir út í annað. Plottið gekk upp að mestu. Eina vandamál draugsins er Guðni varaformaður. Það er illt þegar menn eru ekki reiðubúnir að ganga í dauðann með foringja sínum. Allt að því dauðasök. Hinn raunverulegi uppskurður fór alls ekki fram. Uppskurðurinn á uppdráttarsýkinni sem mun halda áfram. Ef Guðni hefði raunverulega viljað láta sverfa til stáls hefði hann gefið kost á sér sem formaður. Loftið er enn lævi blandið og spá mín er sú að veturinn verði erfiður fyrir þennan flokk sem kastað hefur öllum skástu stefnumálum sínum á ruslahaugana. Líklega eru nú fá sæti á listum flokksins örugg í komandi þingkosningum. Og lítið pláss fyrir véfréttina. Finnst mönnum líklegt að meyjarnar tvær gefi eftir?Eða Guðni. Alveg fráleitt. Eða Kristinn óþægi? Jafnfráleitt. Nýi formaðurinn hefur traust frá rúmlega 50 prósentum þessa tætingsliðs. Ekkert frá þjóðinni. Það á eftir að reyna á það. Kannski á það fyrir honum að liggja að vera formaður í stjórnmálaflokki án þess að fá umboð frá óbreyttum kjósanda til að sitja á þingi. Kæmi mér ekki á óvart. En það verður allt reynt. Draugsi með lúkurnar í spottunum enn. Spurning um styrkleika þeirra. Sagan staðfestir að strengir geta slitnað þegar verst gegnir. Það reyndist örlagaríkt á Hlíðarenda forðum. Það er ekki líklegt að Langbrækur framsóknar hagi sér á annan veg en Hallgerður. Þökk mun gráta þurrum tárum. Með kveðjum úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

 

Máltæki kerlingar.........

sannaðast enn og aftur í gær. Um að það sem aldrei hafi komið fyrir áður geti alltaf komið fyrir aftur. Ég hélt til fjalla á föstudaginn. Þegar ég kom inneftir var hitinn 21°á Celsíusi. Sól, logn og svolítil fluga. Það var köttur í bóli bjarnar við Sigurðarsjó. Fullt af fólki að veiða á staðnum eina. Þegar dagur var að kvöldi kominn hafði Urriðaskelfi tekist að skelfa einn smátitt til dauða. Hann var síðan mættur með fyrra fallinu að Hösmagavatni. Eftir að hafa dorgað, kastað túpu og spúnað í 12 klukkutíma án þess að einn einasti fiskur sýndi nokkurn áhuga ákvað Hösmagi að halda heimleiðis. Þetta hafði aldrei komið fyrir áður en kom þó fyrir aftur. Enn Hösmagi kvaddi Veiðivötnin sáttur sem fyrr. Það eru ekki alltaf jól í þessu fremur en öðru. Sál og líkami endurnærður af dvölinni þarna. Veðrið frábært og nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna. Og svo urðu fagnaðarfundir þegar heim kom. Raikonen kunni sér ekki læti eftir að hafa endurheimt fóstra sinn. Undirritaður svaf svo hinum djúpa draumlausa og endurnærandi svefni til morguns. Nú bíða Vötnin næsta árs. Fiskarnir stækka en töfrarnir verða óbreyttir. Meðgangan hefst og verður ekkert erfið. Líður undrafljótt enda herðir gangrimlahjólið enn á sér. Ég ætla að geyma úttektina á litla nafnlausa flokknum. Draugnum, véfréttinni, unga gamalmenninu, Jónínu frambærilegu sem tók að lokum afstöðu til sjálfrar sín og svo litlu góðu strákunum Guðna og Kristni. Og Siv. Henni ku líka vel að hafa mótorfák milli læranna. Íklædd leðri og með flottan hjálm. Meira um allt þetta síðar, ykkar Hösmagi, slappandi af yfir morgunkaffinu.

Wednesday, August 16, 2006

 

Snemma.........

beygist krókurinn. Mér datt þetta gamla máltæki í hug þegar sænski nafni minntist á Árna Nonsens. Árið 1964 fór ég á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þá var til siðs að keppa þar í frjálsum íþróttum. Hösmagi var tvítugur og Árni líka. Báðir ungir og " efnilegir". Þeir og einhverjir aðrir ungir menn reyndu með sér í 100 metra hlaupi. Viðbúnir, tilbúnir og skothvellur. Ég beið eftir hvellinum en það gerði Árni ekki.Sá í hælana á honum nokkru áður. Ég hikaði en hljóp svo á eftir honum. Og þetta átrúnaðgoð þeirra Eyjajarla kom fyrstur í markið. Fékk gull og brosti út að eyrum. Ég gekk til þess sem hleypti af fallbyssunni og spurði hann af hverju hann leyfði mönnum að þjófstarta. Jú, Árni var aðeins of fljótur af stað en " þetta var svo lítið". Ég sagði ekki neitt en hugsaði mitt. Kannski tók því ekki að dæma Árna í tugthúsið mörgum áratugum síðar. Þetta voru nú engin ósköp sem hann stal. Enda sýndi hann enga iðrun. Og auðvitað var það bara níðingsháttur vondra manna að hleypa honum ekki frá hótel Kvíabryggju til að gaula á þjóðhátiðinni. Góð ráð verða dýr fyrir þennan dýrling. Hvernig getur hann sótt um uppreisn æru svo hann fái að bjóða sig fram til þings að nýju? Þessi æruprýddi dýrlingur. Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ekki öll vitleysan eins. Það hringlar enn í hausnum og það mun halda áfram. Ef Árni verður þingmaður á ný undirstrikar það bara siðferðismat þeirra sem kjósa hann til þess.Ný rós í hnappagat íhaldsins hér í suðurkjördæmi.
Enn að veðri. Við nafni með það á heilanum báðir. Fallegur ágústdagur hér í gær. Hitinn 19 gráður langt fram á kvöld. Logn og sól. Svaladyrnar opnar og angan af grillkræsingum lagði inn um dyrnar. Hösmagi kominn hálfa leið í Veiðivötnin í huganum. Sannfærður um að þeir stóru bíði. Kannski er þetta svona svipað og með börnin og jólin. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. En eitt er víst að alltaf verður, ákaflega ljúft að halda í Veiðivötn.
Það verður skýrsla þegar heim er komið. Og líklega fleiri en ein. Von til þess að Hösmagi þurfi eitthvað að tjá sig um sjónarspil fáránleikans eftir flokksþingið mikla um næstu helgi. Góðar kveðjur til Köben, Spánar og í allar áttir, ykkar Hösmagi.

 

Auli.

Einar Oddur segist vera auli. Stundum gott að geta viðurkennt staðreyndir. En ef hann væri mesti aulinn í þinginu væri ástandið þó miklu betra. Það eru því miður fleira aular þarna og svo miklir aulastaular að það er bara sorglegt að hugsa til þess. Þegar ríkisendurskoðandi bendir á að ráðuneytin hafi farið 9 milljarða fram úr á fjárlögum þá kippast þessir menn við og segja að þetta sé alveg rétt. Og Einar Oddur viðurkennir kinnroðalaust að vera auli. Það gerir dýralæknirinn sem nú heldur ríkiskassanum volgum hinsvegar ekki. Enda engin von til þess. Hann er nefnilega miklu meiri auli en Einar Oddur. Segist vera að vinna í málunum og allt sé á réttri leið. Þær sagnir ganga nú fjöllum hærra að þessi gullormur sé nú að þreifa fyrir sér um framboð hér í suðurkjördæmi í næstu þingkosningum. Menntamálaráðherrann orðinn varaformaður og verður að fá 1. sætið á Reykjanesi. Gullormurinn getur ekki verið þekktur fyrir að vera bara númer 2. Hverskonar djöfuls della er þetta eiginlega? Við sunnlendingar höfum ekkert með þennan mann að gera. Mér koma framboðsmál íhaldsins hér raunar lítið við. Það hefur lengi loðað við þingmenn sunnlendinga að vera ekki skörungar úr hófi fram. Heiðarlegar undantekningar eru teljandi á tveim þrem puttum. Vonandi verða þó breytingar á þessu. Við ættum að geta komist upp úr þessari yfirgengulegu meðalmennsku sem tröllriðið hefur þinginu að undanförnu. Eða hvað? Kannski vilja menn bara hafa þetta svona. Eða vill ekki almennilegt fólk útsvína sig á þessu. Kannski birtir til. Með kveðju úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Monday, August 14, 2006

 

Unglingarnir.

Nú á unga fólkið að taka við í framsókn. Sif yngist upp um helming við að fara úr ritaranum í formanninn. Þeir Guðni og Kristinn alltaf jafn síungir. Og Birkir Jón virðist hafa fæðst sem gamalmenni. Með steinbarn draugsins fyrir brjóstinu. Vilji draugsa er alveg augljós. Véfréttin verði formaður, Jónína frambærilega verði varformaður og litla viljalausa merkikertið Birkir á að skrifa söguna. Þetta verður nú aldeilis hlöðuball í lagi um næstu helgi. Hver uppskera töðugjaldanna verður mun koma í ljós síðar. Það er þó hætt við að uppdráttarsýkin haldi áfram að grassera í þessum dauðvona stjórnmálaflokki. Hvað skyldi þetta lið taka til bragðs í komandi kosningabaráttu? Það verður að sjálfsögðu breitt yfir nafn og númer eins og að undanförnu. Siglt undir fölsku flaggi. Þjóðinni lofað gulli og grænum skógi. Það mun bylja hátt í þessari galtómu tunnu. Tunnan valt og úr henni allt eins og Óli Jó sagði forðum. Það yrði þjóðinni til góðs að þessum limum fækkaði hressilega í kosningunum á næsta ári. Mun einhver sjá eftir draugnum, Álgerði og litla gamalmenninu? Ég efast um það. Eða Hjálmari hneykslaða og Magga féló? Varla. Þegar holdgervingurinn hvarf á sínum tíma úr pólitíkinni í seðlabankann sagði Sverrir Hermannsson að það jákvæða væri landhreinsunin í pólitíkinni. Líklega eitt af því fáa sem sá maður hefur satt mælt á ævinni. Undirritaður mun fá fréttirnar þegar hann kemur af hálendinu á laugardag eða sunnudag. Ég ætla að njóta öræfanna og fegurðar þeirra án hugsunar um töðugjöldin. Það er nokkuð augljóst að það verður bara ekki nokkur sæt stelpa á þessu hlöðuballi. Menn fara tómhentir heim. Engin til að gagnast þeim. Djöfulsins bömmer.

Það er að draga úr norðanáttinni. Spáin fyrir föstudag mjög góð. Hugurinn kominn hálfa leið. Skáldið mitt fjarri góðu gamni. Verður í rannsóknarleiðangri á Spáni. Koma tímar, koma stórurriðar. Sjálfur er ég að magna mig upp. Verð orðinn segulmagnaður, rafmagnaður og þrælmagnaður þegar ég kem að Ónefndavatni. Kannski það verði bara nefnt. Sigurðarsjór? Hösmagavatn? Nú verða líka gular maísbaunir meðferðis. Og ýmsar aðrar kræsingar fyrir konungana og drottningarnar. Megi lífið leika við ykkur, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 13, 2006

 

Fidel.

Castró er áttræður í dag. Ég sendi honum mínar bestu óskir. Um bata og langlífi.Ég er nú reyndar ekki með þennan mann á heilanum eins og sumir aðrir. Fylgst með honum úr fjarlægð frá því ég var 15 ára. Hann er auðvitað ekki yfir gagnrýni hafinn. En hann hefur gert margt gott fyrir þjóð sína. Kanasleikjunum er illa við hann. Það eru bara meðmæli í mínum augum. Ég er að hugsa um að heimsækja Kúbu í náinni framtíð. Nóg um Castró að sinni.
Komin rigning hér enn og aftur. Leggst nú til bæna og bið um gott veður um næstu helgi. Veiðivötnin bíða. Síðasta vika var besta veiðivika á þessum árstíma í mörg ár. Og stærsti fiskurinn úr Ónefndavatni 9 pund. Þeir eru þar örugglega fleiri á svipuðu reki. Hef trú á næstu helgi. Það verða nú líklega lokin eða um það bil á gjöfulli vertíð. Þá byrjar bara 9 mánaða meðganga á ný. Sami niður tímans tekur við. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, August 08, 2006

 

Enn af kraftaverki.

Kraftaverkið á Jóni forseta var nú ekki merkilegt ef grannt er skoðað. Hann var út í Mexíkó fyrir nokkrum árum. Og fékk þursabit. Fór inní kirkju og sá mynd af Maríu mey eins og eru í flestum guðshúsum katólskra landa. Honum datt í hug að biðja hana um að taka úr sér þursabitið. Og nokkru síðar uppgötvaði hann að það var bara horfið. Rétt sisvona. Án þess að ég vilji gera lítið úr mætti Maríu þá hverfur nú þursabit venjulega af sjálfu sér. En það sem verra er að véfréttin trúir á að kraftaverk muni gerast á framsóknarflokknum. Hann virðist ekki þekkja muninn á þursabiti og uppdráttarsýki. Uppdráttarsýkin er ólæknandi og nú er einungis spursmál um dauðastund þessa úrelta, stefnulausa og gjörspillta flokks. Ég hef ekki trú á að Jón, þó vænn maður sé, muni nokkru breyta. Meðan draugurinn Dóri Móri er með puttana á taumunum mun þessi þróun halda áfram.
Faðir véfréttarinnar frá Bifröst var Sigurður Ólason hæstaréttarlögmaður. Hann var húmoristi og hinn skemmtilegasti karl. Líklega hefur nú Jón erft eitthvað af þeim góðu hæfileikum föður síns. Einu sinni var ég á uppboði niður á Eyrarbakka. Þar var Páll sýslumaður og heill her af lögfræðingum. Það voru margir búnir að gera fjárnám í eigninni. Í svokölluðum réttindum samkvæmt kaupsamningi. Í þá tíð var ekki venja að þinglýsa kaupsamningum. Látið var duga að þinglýsa afsali því annars urðu menn að greiða stimpigjaldið tvisvar. Allir vissum við nú lögmennirnir að maðurinn sem bjó í eigninni hafði keypt hana. En enginn okkar hafði afrit af kaupsamningnum undir höndum. Stendur þá ekki allt í einu upp téður Ólason. Með sitt Hitlersskegg. Og mælir: Hvað eruð þið eiginlega að gera hér? Hvaða uppboðsheimild liggur hér fyrir? Einhverjar sögusagnir utan úr þjóðfélagi um kaupsamning. Og hann mótmælti að uppboðið færi fram. Hann snéri þarna á allan þennan óvíga her sem ætlaði að gæða sér á aurunum sem kæmu inn við sölu eignarinnar. Lögmenn smokruðu sér heimóttarlegir út úr húsinu og sumir gáfu hressilega í til að komast frá þessari forsmán sem fyrst. Undirritaður leit aðeins um öxl um leið og hann hvarf út úr húsinu. Og sá ekki betur en þeir glottu báðir Páll sýslumaður og herra Ólason hrl. Ég kynntist nú þessum nafna mínum lítillega í gamla daga. Líklega góður karl og sérstaklega skemmtilegur. Nái Jón Sigurðsson kjöri sem formaður er líklegt að hann verði skemmtilegasti formaður flokksins í langa hríð. Það þarf að vísu ekki mikið til. Skemmtilegheitin hafa nú ekki beinlínis geislað af Dóra Móra hingað til.

Sól hátt á lofti. Það bærist varla hár á höfði en hitastigið undir 10 gráðum. Við Raikonen löngu komnir á stjá. Hressir í morgunsárið að vanda. Ætla með Rauðku í skoðun kl. 8. Svo tekur brauðstritið við. Vonandi verður þetta góður dagur fyrir okkur öll, ykkar Hösmagi.

Monday, August 07, 2006

 

Umferðarstofa...

er ein af þessu svokölluðu ríkisstofnunum. Hana á að leggja niður strax.Og þó fyrr hefði verið. Vitagagnslaus peningasóun að halda úti öllum blaðurskjóðunum sem þarna starfa. Og þær eru margar og hafa lítið til málanna að leggja. Keyrðu ekki hratt og ekki keyra fullur. Algildar staðreyndir sem óþarfi er að þrástagast á ár eftir ár. Enda árangurinn enginn. Peningunum ætti að verja í þarfari hluti. Efla lögregluna t.d. Aðallega þjóðvegaeftirlitið. Og laga verstu slysagildrurnar á þjóðvegunum. Þar sem verstu slysin verða hvert af öðru. Auglýsingarnar frá þessari ríkisstofnun eru alþekktar. Svo ógeðslegar að engu tali tekur. Sumar reyndar verið bannaðar af þessum sökum. Og svo er það mannvirkið fyrir ofan Draugahlíðina við Litlu Kaffistofuna í Svínahrauni. Í einkaeign stofnunarinnar. Þar fer líktalningin fram. Upphengd bílhræ, kross fyrir talninguna svo við fáum nú öruggar fréttir af hvað margir hafa látist. Einhverjum Frökkum blöskraði þetta svo um daginn að þeir tóku til sinna ráða. Að sjálfsögðu voru þeir gómaðir og fengu kárínur fyrir tiltækið. Ég er viss um að enginn þeirra sem stendur fyrir þessum viðbjóði á um sárt að binda eftir umferðarslys. Gamla málttækið um aðgæslu í nærveru sálar á hér við. Losum okkur strax við þennan hroða. Skoðunarfyrirtækin geta séð um skráningar og eigendaskipti. Eða bankarnir t.d. Við höfum enga þörf fyrir umferðarstofu. Burt með hana strax.
Ég fór og keypti Mannlíf. 974 krónur. Og nú hef ég allt á hreinu um kraftaverk Maríu á véfréttinni. Leiðtoganum sem ef til vill slær Kim Il Jong út. Vona að þursabitið hafi ekki tekið sig upp aftur. Geymi frekari fregnir af þessu mikla kraftaverki þar til síðar. Efni í annan pistil bráðlega. Með Maríukveðjum, ykkar Hösmagi.

Saturday, August 05, 2006

 

Sálgreining.

Þegar við feðgar komum úr Veiðivötnum um síðustu helgi sat kattarfóstra hér á fleti fyrir. Eins og umtalað var. Og kisi minn hinn brattasti. Eins og ég hafði svo sem búist við hafði Raikonen nú ekki einn katta verið á sveimi hér í íbúðinni. Pési matgámur hafði verið iðinn við kolann sem fyrr. Og afétið kisa minn að sögn frúarinnar. Hún hafði orðið að grípa til róttækra aðgerða svo hann fengi nú eitthvað í sig. Kannski var þetta nú aðeins dramatiserað. Meðan kisi minn varð að kúra sig niður í baðvaskinum lá forsætisráðherran makindalega í hægindastólnum. Hann var sem sé drottnarinn í þessu vináttusambandi. Held að þetta sé nú a.m.k. að sumu leyti rétt. Auk þess að vera matgrannur er kisi minn séntilketti. Kurteis og vel upp alinn. Pési vinur hans er hinsvegar alveg botnlaust átvagl. Hann er samt bara nokkuð prúður og stilltur. Og kann lagið á vini sínum, mér. Mal og blíðuhót notar hann óspart. Og nær umtalsverðum árangri. Og vinir eru þeir. Það fer ekkert á milli mála. Ég hafði mjög gaman af þessum pælingum frúarinnar. Hún hafði átt hér góðar stundir skildist mér. Ekki spillti örlítil brjóstbirta fyrir. Ég var henni þakklátur fyrir að vilja vera hér á meðan fyrrverandi eiginmaður og ástarávextirnir voru að stórurriðadrápi á hálendinu. Leysti hana út með gjöfum og tók við búsforræði á ný. Þ.m.t. fóstri kisa. Aldrei að vita nema þetta verði fastur siður næstu árin. Þriðjungur ávaxtanna, skáldið, kemur hér á eftir. Með Helgu sína með sér. Vona að þau rigni ekki alveg niður í fyrirheitna landinu. Green Highlander bíður þolinmóður við dyrnar á bílskúrnum. Fullur af eldsneyti og eldmóði hinna 330 stóðhestafla. Mun örugglega skila þeim Helgu og vinum á áfangastað og heim á ný. Pabbi og tengdapabbi munu báðir hafa það næs heimavið. Og kannski að hinn finnski Raikonen vinni sinn fyrsta sigur í dag. Þessi geðþekki Finni sem ég tel reyndar langbesta ökumann formúlunnar nú. Hrokagikkirnir báðir, skósmiðurinn og spanjólaskrattinn, báðir aftarlega á truntunni eftir að hafa skandalíserað í tímatökunum. Hlakka bara til að fylgjast með kappakstrinum í dag. Og vona að Trójuhesturinn í Mac Laren liðinu komi ekki fram vilja sínum nú.
Klukkan langt gengin í fimm. Og loks komin skíma. Rólegt yfir bænum enda margir að bleyta í sér einhversstaðar langt í burtu. Verði þeim að því. Hösmagi þurr, utan og innan í hlýjunni heima. Ætla þó í eftirlitsferð um bæinn fljótlega. Þeir Kimi og forsætisráðherann gæta hússins á meðan. Ykkar Hösmagi.

Friday, August 04, 2006

 

María mey.

Ég rakst inní Krónuna eftir vinnu í gær. Vantaði svona ýmislegt smálegt. Sykur og brauð eins og sótt var á Rauð. Þegar ég kom að kassanum rak ég augun í tímarit, Mannlíf held ég örugglega. Og þar gat að líta. Kraftaverk Maríu meyjar á véfréttinni frá Bifröst. Og þar með á Framsóknarflokknum öllum. Ég verð eiginlega að fara aftur í dag og kaupa þetta rit svo ég fái nú allan sannleikann og ekkert nema sannleikann um þetta kraftaverk. Hinn verðandi foringi mun hafa upplifað þetta. Það er árátta sumra að blanda guði og hirð hans í flesta hluti. Það hefur véfréttin mikla nú gert. Þannig er búið að leggja línurnar fyrir flokksþingið hjá þessum litla flokki. Guð almáttugur er kominn í spilið. Það má líka vel vera að þetta verði bara hallelújasamkoma. Ekki amalegt fyrir nýjan foringja að hefja stórsókn uppfullur af heilögum anda. Við skulum vona að þetta sé ekki einhver púkaskratti að villa á sér heimildir. Það væri nú alveg voðalegt. Uppgötva alltíeinu að sóknin hefur snúist í flótta. Að bjargbrúninni og jafnvel alveg framaf. Ég verð hreinlega að draga upp þær krónur sem þarf til að eignast ritið svo ég geti ályktað rétt. Ef fram fer sem horfir að framsóknarflokkurinn sé að þurrkast út mun endanlega sannast að ekki dugar alltaf að treysta á kraftaverk. Flokksins sem einu sinni átti hugsjónir en hefur kastað þeim öllum fyrir róða. Hentistefnan ein eftir og ástríða foringjanna að skara eld að eigin köku helsta stefnumarkið. Mér verður bara flökurt yfir þessu. En, bíðum samt aðeins þar til ég hef inntak kraftaverksins á hreinu.
Rigning. Ekki mótar fyrir Ingólfsjalli. Fjallinu sem bíður og vonar. Það nýjasta sem ég hef heyrt um andstæðinga námuvinnslunnar er að það sé fólk sem verður vitlaust ef einhversstaðar er " stungið niður skóflu " Þetta eru svona álíka og rökin um umhverfisstefnu vinstri grænna. Hún felist í því að tína ber og fjallagrös á ósnortnu landi. Allt saman skotheld rök að sjálfsögðu. En virka samt ekki á Hösmaga gamla. Eigið góðar stundir í dag, ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 02, 2006

 

Lúmsk baktería.

Hösmagi garmurinn varð að yfirgefa vinnustað sinn um hádegi í gær. Byrjaður að skjálfa á ný og þráði sæng sína heitast af öllu. Sofnaði skjótt og var meira og minna rænulaus í 16 klukkutíma. Og sá sem verður veikur á Selfossi er í vondum málum. Ekki nokkur von til þess að ná tali af lækni. Eftir að hafa beðið lengi í símanum á heilsugæslustöðina þar sem mér var lofað viðtali við hjúkku gafst ég upp. Fann gömul sýklalyf og tók sénsinn á að prófa þau. Drattaðist í vinnu eftir hádegið og er nú á hraðferð undir sæng mína aftur.Raikonen stálhress og kúrir hér í stól á móti mér. Best gæti ég trúað að þetta sé einhverskonar framsóknarveira sem er að herja á mig. Aldrei að vita nema þessir andskotar hafi skotið að mér þessari slæmu sendingu. Og ég blásaklaus. Eða það finnst mér sjálfum. Vona nú samt að mér takist að yfirvinna þetta. Enda líkaminn sjálfur yfirleitt besti læknirinn. Eins segir í vísunni, löngum var ég læknir minn, lögfræðingur.............. En það er sama sagan og áður ef ég fæ pest. Hef nú ekkert étið í 2 sólarhringa og langar ekki í neitt.
Veðrið hér er nú þokkalegt. Rigningin á leiðinni og henni spáð fram á sunnudag. Sölvi, Helga og vinir á leið í Veiðivötn á sunnudaginn. Fá líklega bara ágætt veður og vargurinn á undanhaldi eftir því sem á líður.
Ég er ekki á því að leggjast í sút yfir þessari djöfuls bakteríu. Kveð hana niður brátt og held áfram að agnúast út í framsókn. Tvíefldur þegar ég rís upp á ný. Bestu kveðjur krúttin mín öll, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online