Friday, December 28, 2007

 

Naddur.

Naddurinn nístir inn að beini utandyra. Hér komst frostið í 12 gráður í nótt og þegar vindurinn nær sér á strik verður óskemmtilegt að dvelja utandyra. Líklega dregur úr þessu í dag og hitastigið yfir frostmarkinu um áramótin.
Eftir allt kjötátið fékk ég steinbít í kvöldmatinn í gærkvöldi. Vinur minn og frændi, Pjetur Hafstein Lárusson, bauð í mat og spjall. Ekki frá því að ég hafi komið mun gáfaðri heim aftur. Við erum of fastheldin í matarvenjunum. Það er mikið af úrvalsfiski á boðstólum.Samt étum við yfirleitt ýsu. Steinbítur er sérlega ljúffengur. Bestur er hann þó hertur. Eldrauður með lýsið vellandi úr sér.
Ég er einn að störfum hér. Frekar rólegt en tíminn æðir samt áfram. Skálka hér klukkan 5 og ætla að hafa það náðugt næstu 4 daga. Mæti svo galvaskur til starfa á nýju ári. Kvíði því ekki og vona að það verði sem flestum gott og gjöfult.Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, December 27, 2007

 

Rólegheit.

Eftir 5 daga letilíf er aftur virkur dagur. Eða hvað? Ég er einn mættur til vinnu. Hér hefur enginn komið og síminn þegir. Kannski var ekki við öðru að búast. 4-5 stiga frost, myrkur og vindbelgingur. Ég mun þó halda mig hér til 5 að venju. Síðasti vinnudagur ársins á morgun og þá byrja 4 letidagar í röð.Skáldið mitt og Helga komu í heimsókn í gær og eru nú flogin til Skotlands. Skosku hálöndin á dagskrá næstu daga og svo Barselóna fram á vor. Líklega verð ég að halda stórpartí á gamlárskvöld til að koma öllum veisluföngunum í lóg. Mér hættir enn til að kaupa inn eins ég sé með stórfjölskyldu. Reyndar er hægt að frysta mest af þessum góða mat og borða svo eftir þörfum úr kistunni. Við tróðum í okkur heilum hellingi í gær en verulegar birgðir eru ósnæddar. Kimi étur rækjur og bláhvítar mýslur. Hann er nú við sín embættisverk heima fyrir. Fannst kalt í morgun eftir að hafa hnusað af snjó og frosti. Ég læt þennan snjó ekki á mig fá. Held að hann spái rigningu um áramótin og svo vonar maður það besta fyrir nýja árið. Það leggst vel í mig. Ég fékk gjafabréf í jólagjöf. Jólagjöfin verður gróðursett á fyrirheitnalandinu næsta vor. Það verður indælt í birtunni sem ég bíð eftir. Eftir að hafa algjörlega misst áhuga á veiði í nokkrurn tíma eftir síðasta Veiðivatnatúrinn í ágúst, hugsa ég gott til þessarar indælu tómstundaiðju næsta sumar. Það er nokkurskonar endurheimting gleðinnar yfir að fá að vera til. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 25, 2007

 

Jólakyrrð.

Við Kimi erum vaknaðir að morgni jóladags. Hér ríkir kyrrð yfir öllu. Vindurinn sefur og hitastigið mínus 1 gráða. Morgundöggin frá Kaffi-Tár bragðast sérstaklega vel á þessum ljúfa morgni. Ég var komin heim rétt fyrir miðnætti. Í farteskinu var m.a. snakk handa Kimi sem systir mín yngri skenkti honum í jólagjöf. Þetta voru litlar, grænar og hvítar mýs. Innihald þeirra var m.a. silungur. Og kötturinn varð nánast trítilóður af lyktinni einni. Hakkaði í sig 10 stykki með stjarnfræðilegum hraða.Ég las jólakortin og kíkti síðan í nýju bókina Ólafs Ragnarssonar, til fundar við skáldið Halldór Laxness. Lofar góðu. Nóg lestrarefni fram yfir áramót. Englar dauðans eftir Þráinn Bertelsson og frá himnaríki til helvítis eftir Jón Kalman Stefánsson. Ég hef stundum sagt það hér hve leiðinlegt mér finnst að liggja veikur í bælinu. En nú er ég stálhress. Þá er ágætt að liggja í rólegheitunum og lesa góðar bækur. Renna sér svo aðeins í steik og sauðalæri inná milli.Við Kimi munum ekki svelta á þessum jólum. Hann hafði lokið við soðnu ýsuna og fékk rækjur til morgunverðar. Snuddar nú hér í kring um fóstra sinn og virðist líða vel að venju. Ég ætla í göngutúr þegar skíma kviknar. Örugglega hressandi að hreyfa sig aðeins í þessu indæla veðri. Það var skemmtilegt að keyra austur í gærkvöldi. Þó mér sé lítið um snjó gefið verður því ekki neitað að myrkrið verður bærilegra í návist hans. Það var smámugga og snjólag yfir Hellisheiði. Græna þruman sannaði enn og aftur ágæti sitt. Spól- og skriðvörnin er tölvustýrð í hvert hjól og þessi unaðslega rennireið skilaði mér heilum heim sem jafnan áður. Ef veðrið helst svona í dag kíkjum við örugglega á fyrirheitnalandið. Óðalið, sem kúrir nú í myrkrinu við rætur Búrfells, bíður eftir vorinu eins og ég. Það mun koma með birtu og angan gróðurs.

Nú er nóg kveðið að sinni. Við kisi minn sendum ykkur enn og aftur bestu kveðjur.Þökkum sérstaklega kveðju frá gömlum granna og kisum hans. Okkur líður sérlega vel og við vonum að það sama gildi um ykkur öll, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 23, 2007

 

Dagur heilags Þorláks.

Það er fallegur dagur núna. Sólin glampar á Ingólfsfjall og það bærist vart hár á höfði.Í morgunsárið hafði tunglið tyllt sér á brún þessa ágæta fjalls. Það var líka falleg sjón sem varpaði fölri birtu yfir okkur hér. Ég var að taka saltlærið úr ofninum. Jólalærið, sem lengi hefur verið hefð fyrir á heimilinu. Þegar líður á daginn kemur ný og góð lykt aftur. Hangikjötsilmurinn af norðlenska sauðalærinu. Það er ró yfir mannlífinu. A.m.k ennþá. Það er líka sunnudagur og margir hafa það bara rólegt heima eins og við Kimi. Hann fylgist náið með öllum hreyfingum mínum hér innandyra. Gluggaþvotti, eldamennsku og ýmsu öðru. Jólapappír og límband er líka ákaflega spennandi. Við plumum okkur alveg af þessu standi. Ég læt skápana í friði að innanverðu. Segi eins og frúin sem var spurð hvort hún væri búin að þrífa skápana að innan: "Ég ætla ekki að halda jólin inní skáp". Og sumir siðir eru löngu aflagðir. Eins og Þorláksdroparnir. Bollan sem gerð var úr hvítvíni, vodka og ananassafa. Gerði það að verkum að maður vaknaði með hausverk og þorsta á aðfangadag.Þó ég hafi ekkert á móti áfengum drykkjum sakna ég ekki þessa siðar. Hentar örugglega betur á öðrum tímum. Ég hlakka til að hitta afkomendur mína á morgun. Nú eru þeir allir á landinu og veðurspáin er ágæt. Í gamla daga var stundum harðsótt að komast heim aftur. Nú hef ég úrvalsvagn til umráða og jörð nánast auð. Og svo verður mér fagnað þegar heim kemur. Þá er líka hægt að bæta á sig meiri krásum og lesa jólakortin. Á jóladag taka þeir svo við Ólafur Ragnarsson og Halldór Laxness. Og ef veðrið verður fallegt ætla ég að kíkja á fyrirheitna landið í Grímsnesinu. Njóta þess að vera í fríi, við góða heilsu til líkama og sálar. Þetta er nú meira en margir fá að njóta. Við Kimi sendum ykkur öllum bestu jóla og nýárskveðjur. Ykkar Hösmagi.

Thursday, December 20, 2007

 

Hið ljúfsára.

Ég hef stundum áður minnst á hið ljúfsára í þessum pistlum mínum. Í dag, 21. desember 2007, eru liðin 3 ár síðan skáldið mitt kynnti mig fyrir bloggveröldinni. Í litlu notalegu íbúðinni í Lögmannasundi í Edinborg. Daginn eftir lagðist heimsvaldaflensan á mig. Þá tók skáldið til sinna ráða.Þorláksmessa leið án vitundar minnar. Á nokkura tíma fresti gaf skáldið föður sínum Day nurse. Kraftaverkalyf, sem að sjálfsögðu er bannað á Íslandi. Ég held að þetta hafi borgið lífi undirritaðs.Reis upp um hádegi á aðfangadag og átti einstök jól með skáldinu og Helgu. Þau minnisstæðustu á síðustu árum. Og eins og áður stendur það ljúfa uppúr. Hið sára nánast gleymt. Það hefur ævinlega verið svo að ég festi mér það góða betur í minni en það sem miður fer. Það sannar líka að erfiðleikar eru til að sigrast á þeim.Lífið væri ekki jafnskemmtilegt ef það væri stöðugur dans á rósum.

Hér er nú 7 stiga hiti. Síðasti vinnudagur fyrir jól. Kaupsamningur hjá mér kl. 11. Býst nú við fremur rólegum vinnudegi. Flestir að hugsa um aðra hluti en kaup eða sölu á fasteignum. Á morgun, sólstöðudaginn, ætla ég að ljúka við þrif á vistarverum okkar kisa míns. Á Þorláksmessu sýð ég norðlenska sauðinn. Ætla að passa vel upp á pottinn, því sagan segir að Kjötkrókur sé á ferðinni þennan dag. Lyktin af hangikjötinu er samofin þessum ágæta degi. Þetta er líka dagur fyrsta hænufetsins í átt til birtunnar. Það er nú ekki lítið fagnaðarefni.

Það er sem sagt allt í réttum skorðum hér í Ástjörn. Vinátta okkar fósturfeðga söm og fyrr. Líkamleg vellíðan og sálarró beggja í besta lagi. Kvörtunardeildin víðs fjarri.Við sendum öllum kveðjur úr vætusömu myrkri sem brátt minnkar. Ykkar Hösmagi.

Monday, December 17, 2007

 

Sættir.

Það hefur stundum hent undirritaðan að verða ósáttur við sjálfan sig. Það er vond tilfinning. Veldur vandræðum á borð við depurð og drunga. Óróleiki tekur við af rólyndi hugans. Hann fer á flökt og svefnvenjur úr skorðum. Nóvember var óvenju erfiður nú. Klóraði mig þó einhvernveginn fram úr honum.Smátt og smátt hefur þetta verið að breytast til hins betra. Hösmagi og Siggi Sveins eru orðnir sáttir aftur. Sín á milli og við flesta aðra.Ekki alveg alla eins ykkur rennir grun í.Það er mikið myrkur þessa daga. Vætusamt í meira lagi en hitastigið oftast vel yfir frostmarkinu. Samkvæmt spám verður engin breyting þar á næstu daga. Sólstöðudagurinn á laugardaginn, Þorláksmessa, jólahátíð og áramót að bresta á. Sauðahangikjötið komið í ísskápinn, pækillinn komin í pott og gúrmet lærið fer í hann annað kvöld.Laufabrauð,síld og nú óviðjafnanlega góður reyktur lax og urriði.Sama ferðalag á aðfangadag og undanfarin ár. Heimsæki systkyni mín, börn og barnabörn. Aftur austur um kvöldið og rólegheit með Kimi á jóladag. Það verður a.m.k. þríréttað borð fyrir hann. Soðin ýsa, rækjur og þurrfóður.Og svo koma skáldið mitt og heitkona þess í heimsókn á annan jóladag. Ég þarf ekki að kvarta og hlakka til nýs árs. Árið 2007 verið mér ágætt um margt þrátt fyrir nokkrar erfiðar vikur á síðari hluta þess. Hollvættir nálægt mér þegar mest reið á. Útlitið var heldur dökkt þann 17. ágúst, enda byrjaði ég þá að undirbúa jarðarför mína. En ég tapaði ekki áttum og hélt ró minni. Eins og ég sagði frestaði ég svo jarðarförinni um mörg ár. Stundum líkt mér við köttinn sem talinn er eiga níu líf. Ég á eitthvað eftir í pokahorninu og hyggst njóta þess eins lengi og auðið verður.Hin góðu öfl, frábær læknir og yndislegt hjúkrunarlið komu mér yfir erfiðan hjalla sem skyndilega varð á vegi mínum Þó ég hafi nánast lagt haglabyssunni þá verða stangirnar í mikilli notkun áfram. Veiðivötnin halda aðdráttarafli sínu. Ölfusá mun áfram streyma fram og ég mun verða á bökkum hennar næsta sumar. Meðan lífsgleðin og bjartsýnin ríkir verður áfram gaman að vera til. Það vona ég að eigi við um sem allra flesta.
Kimi lagstur endilangur hér á borðið.Samkvæmt veðurstöðinni á Reynivöllum 4 hefur hitastigið dansað í kringum 9 gráður í nótt. Og Kári situr á strák sínum í bili. Hlakka til dagsins enda nóg að gera í vinnunni Það styttir þessa stuttu daga enn meira.Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, December 14, 2007

 

Miðbær.

Það eru örugglega fáir sem sakna húsanna sem voru jöfnuð við jörðu í miðbæ Selfoss í sumar. Gamla sláturhúsið var orðið heldur hryggt. Mér fannst reyndar þægilegt að versla í Krónunni, en það var nú aldrei nein reisn yfir húsinu. Nú þegar árið er senn á enda hefur ekki verið tekið almennilega til á lóðunum. Fullt af drasli. Skýringin gæti verið sú að bæjarstjórnarmeirihlutinn vilji hafa þetta svona. Þá getur maðurinn með ofurheilann, forsetinn sjálfur, haldið áfram að taka myndir af bílhræjum og óþrifnaði til að réttlæta skýjaborgirnar sem hann vill reisa þarna.Þessum snillingi hefur nú þegar tekist að þurrka nánast allt fylgið af VG hér á staðnum. Flokksins, sem kennir sig við umhverfisvernd og réttlæti.Forysta flokksins leggur blessun sína yfir gerðir Jóns forseta með þögninni. Með því tekur hún fulla ábyrgð á gerðum hans. Uppskera flokksins hér og í kjördæminu mun verða í samræmi við það í næstu kosningum. Eftir að hafa unnið bæjarfulltrúa hér í Árborg og náð inn þingmanni í þingkosningum blasir hrunið við flokknum.Það sannar að þegar útsæðið er gallað verður uppskeran rýr. Mér er hulin ráðgáta hvernig flokksforustan getur látið þetta gerast. En mér er orðið sama. Löngu orðinn flokkslaus maður vegna afglapans sem nú baðar sig í faðmi jafnoka sinna í bæjarstjórnarmeirihlutanum. Ég vona að næst fáum við meirihluta sem vinnur fyrir alla íbúana en ekki bara fyrir útvalda.

Nú er stund milli stríða í veðurfarinu. Kári hefur hægt um sig og við Kimi fjallhressir á laugardagsmorgni. Ryksuga, tuskur, kústar og klútar tilbúin til orustu við skít og skúm. Bara ein vika eftir í vetrarsólstöður og jólafrí.Eftir mótbyr síðustu vikna blæs vel í segl Hösmaga nú. Allt að komast í góðar skorður á ný. Það er ljúft og gott. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, December 13, 2007

 

Nytsöm jólagjöf.

Sumir eru svo góðir fyrir jólin að þeir ráða ekki við sig fyrir gjafmildi. Valinkunnir eru þeir nú sveinarnir, Stekkjastaur og bræður hans, sem byrja snemma.
Undirritaður fékk fyrstu jólagjöfina senda í pósti núna í vikunni. Ég veit nú ekki hvaða auðmenn eiga Tryggingamiðstöðina h.f.þessa stundina. Það er allavega einhver grúppa. Gott ef ekki FL. Ég er nú að greiða þessum góðmennum á 4ða hundraðþúsund á ári í tryggingariðgjöld. En þeir launa það líka með því að senda nytsama jólagjöf. Tryggustu lesendur mínir muna eftir pistlinum um dularfulla reykskynjarann og músina sem dó. Ég var að sjálfsögðu spenntur þegar ég opnaði umslagið frá TM. Lítill harður pakki innaní. Skyndilega hélt ég á rafhlöðu í höndunum. Hún passaði í reykskynjarann sem hafði legið í leyni í þvottahúsinu í 3 ár. Með fylgdu ómetanlegar upplýsingar um hvernig ég gæti sparað TM mikla peninga með því að hafa eldvarnir í góðu lagi. Slökkvitæki, eldvarnarteppi og reykskynjara. Ég á þetta allt saman. Reyni að passa vel uppá þetta. Svo gæti ég mín vel í umferðinni á bílunum sem ég tryggi hjá TM. Fer líka ákaflega varlega í lögmannsstörfum mínum svo ekki þurfi að grípa til starfsábyrgðartryggingarinnar. Ef ég gerði stórar skyssur þar þyrfti TM að borga.Enda er það aðall og einkenni allra tryggingafélaga á Íslandi að borga þegjandi og hljóðalaust alla skapaða hluti. Og iðgjöldin svo skammarlega lág að þau eru öll nánast á vonarvöl. En ég þakka samt vel fyrir battaríið. Nú munu þeir þegja lengi, félagarnir.
Kyrrð og ró og stillt vetrarveður. Vindurinn komst þó í 21 meter í nótt. Raikonen heima við húsvarðarstörf. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 11, 2007

 

Óféti.

Ég hafði nú rétt lokið morgunpistlinum þegar óvænt uppákoma varð hér í Ástjörn 7. Friðurinn var skyndilega rofinn og það fauk hreinlega í mig. Það gerist þó afar sjaldan. Mitt kæra rauðskott var að sniglast hér eins og vanalega. Brá sér aftur út og fljótlega heyrði ég einhver ámátlegustu vein sem ég hef heyrt. Ég var snöggur út. Eins og eldflaug. Þar var þjófótta kvikindið á góðri leið með að gera út af við fóstursoninn. Mér er illa við ofbeldi. Þetta ódó hafði bitið vin minn í aðra afturlöppina og hárflygsur svifu allt um kring. Hann sleppti þó takinu og flýði af hólmi þegar ég birtist. Og rauðskotti var hjálpinni feginn.Skaust innum dyrnar hálffrávita af skelfingu. Og draghaltur eftir þessa fólskulegu árás. Þó ég titli mig kattavin þá hugsa ég þessari ofbeldisskepnu þegjandi þörfina. Helst vildi ég finna leið til að hrekja hana endanlega á brott frá hýbýlum okkar Kimi. Gluggar lokaðir hér í bili. Reyni að upphugsa góð ráð í dag. Ódóið fær að finna til tevatnsins ef ég næ taki á skotti þess. Kalt vatnsbað gæti líklega vanið það af slíkum fólskubrögðum. Kimi fær rækjur í kvöld. Ekki nokkur spurning.Og ég ætla að vera á varðbergi og halda uppi njósnum um þenna stórglæpakött. Þjófur og fantur. Uss, uss. Meira síðar,
ykkar Hösmagi.

Monday, December 10, 2007

 

Upprifjun.

Um miðja síðustu öld var undirritaður lítill strákur. Ég var 6 ára 1950. Á þessum árum var óhemjumikll snjór hér sunnanlands. Ég minnist þess t.d. að hafa kastað mér út um glugga á 2. hæð á Selfossvegi 5. Í snjóskaflinn mikla sem þar hafði hlaðist upp. Svo varð ég að grafa mér leið út úr snjófjallinu. Þetta var að sjálfsögðu ákaflega skemmtilegt. Mjólkurbílarnir voru klukkutíma frá gamla kaupfélaginu austur að mjólkurbúinu. Og sífellt voru bílstjórarnir að brjóta drifin og gírkassana í bílunum. Nú er öldin önnur. Það hefur varla sést snjór hér síðustu 10 vetur.Þó ég hafi áður sagt frá veiðitúr í Tangavatn fyrir rétt tæpum 10 árum ætla ég að rifja þá sögu upp. Það var gott veður þann 20 desember 1997. Ég bjó þá í sænska húsinu með mínum kæra vini, fresskettinum Hösmaga. Hann hafði reyndar mjög gaman af miklum snjó.Það var okkur ekki sameiginlegt. Ég fékk skyndilega þá hugmynd að liðka Herconinn þennan dag. Hélt að Tangavatni í svartamyrkri um tíuleytið. Þar var blankalogn, 8 gráðu hiti, ekki snjókorn nálægt og ekki bærðist hár á höfði. Ég dvaldi þarna fram eftir degi. Og mokaði upp stórurriða. Sá stærsti 7 pund og þónokkrir litlu minni. Þessi dagur mun alltaf verða mér ógleymanlegur. Ég var einn þarna við rætur Heklu. Átti nánast staðinn þennan fallega dag. Mér leið óvenjulega vel þegar ég kom heim aftur síðdegis. Það er kannski ástæðan fyrir að ég tek veiðiferð í Tangavatn fram yfir snjó. Eða smáföl. Samkvæmt langtímaspám veðurfræðinga gæti ég hugsanlega endurtekið leikinn. Vetrarsólstöður eru nú laugardaginn 22. desember. Ég ætla að fylgjast vel með veðri og hitastigi næstu daga.

Við Selfyssingar sluppum að mestu við rok næturinnar og nú er hér hægur andvari og nokkrar plúsgráður. Kimi snöggur út þegar ég opnaði gluggann.Ég fór á fund í gærkvöldi.Sat þar í 2 tíma umvafinn ágætum konum. Eina karlremban á þessum fundi.Þetta er félagsskapur sem heitir Bandið og er sjálfshjálparhópur fólks sem greinst hefur með krabbamein.Mér fannst þetta góð stund. Þetta fólk kemur ekki saman til að kveina og kvarta. Stutt í hláturinn og fólk gerir grín að sjálfu sér. Kom þaðan betri maður eins og af septemberfundinum. Nú er ég útsofinn, hress og kaffið jafnvel enn betra en aðra morgna. Aðeins 11 vinnudagar eftir af árinu 2007. Ég kvíði ekki nýju ári. Birtu, hlýju, veiði og lífsgleði. Það er indælt. Við rauðliðar sendum góðviðriskveðjur úr mildri desemberblíðunni, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 09, 2007

 

Kjaftur.

Það eru einkenni á sumum stjórnmálamönnum að þeir eru lítið annað en kjafturinn einn.Gott dæmi um það er Sverrir Hermannsson. Enda stundum kallaður strigakjaftur. Það gat þó reyndar verið gaman að Sverri. Hitti oft naglann á höfuðið í sinni óstöðvandi munnræpu. Össur Skarphéðinsson er svipuðu marki brenndur. Nema það er sjaldnast hægt að hafa gaman af kjafthætti hans. Sjálfbirgingshátturinn, montið og vitleysan er alveg yfirgengileg þegar hann stingur niður penna eða hefur upp raust sína. Smámunir eins og hugsjónir og staðfesta í málflutningi eru þessum manni ákaflega fjarlægir. Nýjasta dæmið er raup hans um góðmennskuna í garð gamla fólksins og öryrkja. Sannleikurinn er sá að meirihlutinn fær ekkert. Þeir verst settu í sömu sporum og áður. Össur hreykir sér af að hafa gert miklu meira en VG hafði lofað að gera. Mér dettur ekki í hug að taka upp hanskann fyrir Steingrím J. og Ögmund. Þeir eru fullfærir um það sjálfir og ég orðinn flokkslaus maður hvort eð er. Ég treysti þeim tveim samt sem áður miklu betur til að koma fram baráttumálum mínum í jafnréttismálum og málefnum gamals fólks og öryrkja. Að ógleymdum umhverfismálum. Þó ég eigi ekki samleið með VG nú um stundir af alkunnum ástæðum, mun ég ekki saka forystufólk VG um að sigla undir fölsku flaggi. Þessir mánuðir sem liðnir eru frá stjórnarmyndun íhalds og SF hafa dugað síðarnefnda flokknum til að svíkja flest ef ekki öll kosningaloforð sín. Össuri og Ingibjörgu virðist standa á sama. Völdin eru sæt á bragðið. Það er líka svo skemmtilegt að ferðast. Birta sviðsljósanna ofurljúf.Vonandi njóta þau þó skötunnar saman á Þorláksmessu. Mér er sannarlega ekki illa við þetta blessaða fólk. Langt í frá. Samt vona ég að ég nái að lifa það að þau hverfi úr pólitíkinni. Enda er ég eiginlega tilneyddur að verða 100 ára svo ég geti dáið skuldlaus maður.Ég tók íbúðarlán til 40 ára árið 2004. 2044 á ég að hafa lokið greiðslu þess. Fæðingarárið 1944 svo þetta passar bara ágætlega.

Það er enn gott vetrarveður. Hlýnar á þriðjudag og spáð er 3-6 stiga hita hér sunnanlands um jólin. Sem þýðir væntanlega rauð jól. Það eykur tilhlökkun mína mjög til þessara hátíðisdaga. Margir kunna nú betur við hvít jól. En það verður aldrei hægt að gera okkur öllum til hæfis á sama tíma. Það er bara þannig.
Við Kimi hengdum útiseríu á svalirnar í gær. Hann sýndi þessu verki næstum of mikla athygli. Stökk á allt sem hreyfðist. Ágætur dagur hjá báðum. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Friday, December 07, 2007

 

Fiskur.

Ég er fiskur. Stórlax, eins og ég hef sagt hér áður.Í fiskamerkinu miðju. Mér finnst líka ákaflega skemmtilegt að veiða fisk. Fiskur er sérstaklega ljúffeng fæða. Ég eldaði nætursaltaða ýsu í gærkvöldi. Við Kimi átum næstum á okkur gat.Á síðustu árum hafa menn sparað saltið meira en áður við verkun á fiski. Þessvegna getum við Kimi nánast étið af sama diskinum. Svo hef ég heyrt að fiskát auki gáfur fólks. Og hreysti. Það er stór bónus einnig. Þó nú sé dimmt og kalt og viðri ekki til stangveiða er hugurinn stundum á bökkum árinnar góðu. Ég veit heldur ekki hvar himbriminn heldur sig nú. En við hittumst aftur næsta sumar. Það er alveg pottþétt.Við vötnin fögru, sem hafa heillað mig frá því ég sá þau fyrst fyrir margt löngu. Eftir nokkrar erfiðar vikur líður mér nú miklu betur. Ég hef oft talað hér um hina endalausu bylgjuhreyfingu lífsins. Tinda og dali. Toppa og djúpar lægðir.Þetta hefur alltaf verið svona og það verður engin breyting á því. Þó ég hafi nú ekki sofið alveg nóg held ég hress til starfa á eftir. Gott að eiga svo 2ja daga frí. Ætla að nota helgina sem best hér heima fyrir. Í pappírsvinnu og heimilisstörf. Lax og urriði fóru í reykhúsið í gær. Farinn að rifja upp handeringarnar á lærinu ljúfa. Pækillærinu, sem sterk hefð er fyrir á þessum bæ. Sannkallað sælkerafæði.

Frostið er um 5 gráður. Við vinir búnir að viðra okkur. Ég held áhyggjulaus til starfa. Langflottasti kötturinn á Selfossi gætir bæjarins á meðan. Við sendum báðir bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, December 05, 2007

 

Herrar og frúr.

Getur kona verið herra? T.d. ráðherra. Eins og er er það nú þannig. Mér finnst nú ekkert óeðlilegt við það. Herra í þessari merkingu er bara sá sem stjórnar. Ræður, drottnar. En mér finnst líka vel koma til greina að breyta þessu ef konum finnst þetta plaga sig. Það eru komnar fram ýmsar tillögur. Hér áður fyrr voru það aðeins 2 embættismenn þjóðarinnar sem varð að nefna herra þegar þeir voru ávarpaðir. Herra forseti og herra biskup. Engum datt þó í hug að kalla Vigdísi herra forseta. Vonandi fáum við konu sem biskup næst. Þá mun heldur engum detta í hug að kalla hana herra. Mér finnst orðið frú alls ekki eiga við um þann sem er í ríkisstjórn. En stýra finnst mér ágætt. Utanríkisráðstýra hljómar ekki illa. Eða það sem er jafnvel enn betra. Utanríkisráðfreyja. Karlarnir yrðu ráðherrar áfram en konurnar yrðu ráðstýrur eða ráðfreyjur. Þetta myndi venjast á nokkrum mánuðum. Að nokkrum árum liðnum yrðu allir sáttir og teldu þetta eðlilegt og sjálfsagt. Ég er reyndar óttalegt íhald inn við beinið á sumum sviðum þó ég hafi alltaf verið til vinstri í pólitíkinni. Illa við breytingar breytinganna vegna. Tel mig jafnréttissinna. En fólk er ekki sammála um leiðir í baráttunni. Launamunur eftir kynjum er gjörsamlega óþolandi hér á landi. Það er óskiljanlegt hvað hægt miðar í þeim efnum. Ranglætið flestum augljóst en það vantar slagkraft frá fleiri körlum til að ná þessu fram. Hinsvegar hef ég aldrei skilið kvótasetninguna sem eru ær og kýr sumra í þessari baráttu. Það er af því að konan er líka maður. Homo sapiens. Því verður ekki breytt og það mun verða svo. Hún gengur áfram með börnin. Við karlarnir munum ekki gera það. Þó við fegnir vildum. Öfgarnar eru alltaf til ills á öllum sviðum. Þessvegna skulum við hugsa okkur vel um í jafnréttisbaráttunni. Taka vel á þar sem við getum en hætta að reyna að breyta því sem ekki er hægt að breyta.

Enn er gott vetrarveður hér. Styttist í vetrarsólstöður og jólahátíð. Þokkalega líflegt á vinnustað og dagarnir nokkuð fljótir að líða. Lítið um hagamýs innandyra í Ástjörn 7 og reykskynjararnir þegja báðir. Við Kimi nokkuð sáttir með tilveruna. Hann þó enn slakari en undirritaður. Ég vona að stutt verði í að við stöndum alveg jafnfætis á ný í þeim efnum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 02, 2007

 

Bloggheili.

Eftir spaugstofuþáttinn í gær er ég ekki lengur í neinum vafa með mitt eigið heilabú. Ég er með bloggheila. Það skemmtilegasta við þennan þátt var að aðalmennirnir voru aukaatriði. Læknarnir Óttar og Kári skýrðu þetta allt meistaralega. Þór var líka góður. Og nafni minn Líndal, minn gamli og ágæti lærimeistari úr lagadeildinni, var alveg frábær. Nú get ég aldeilis látið gamminn geysa á næstunni. Alls óhræddur við smámuni. Svona eins og meiðyrðamál, t.d. Nú get ég látið allt vaða, því Sigurður sagði að við bloggheilamenn værum ósakhæfir. Það væri í hans augum alveg skothelt samkvæmt íslenskri löggjöf. Ég þóttist sjá að Sigurði leiddist ekki mjög á meðan hann útskýrði þessa hluti. Löngum verið brosmildur sá ágæti maður. Kári var líka alveg klár á framsóknargeninu. Og staðfesti reyndar það sem ég hef oft sagt að það vantar allan heilann í framsóknarmenn. Engin heilabrot þar. Mér létti líka yfir að ég var aðeins í fáa mánuði flokksbundinn í VG. Það er ekki einu sinni grænt í þeim vinstra hvelið. Litli heilinn miklu stærri en sá stóri. Það eina sem ég saknaði var útskýring á feministaheilanum. Líklega sérsmíðaður og svo flókinn að enginn botnar neitt í neinu. Læknarnir hafa ekki lagt í að kryfja hann. Þessi fræðsluþáttur spaugstofunnar var kærkomin tilbreyting í skammdegismyrkrinu. Staða mín hefur líka styrkst í baráttunni við yfirfíflið í bæjarstjórnarmeirihlutanum hér á Selfossi.

Talandi um skammdegismyrkur þá á það varla við nú í augnablikinu. Sólin skín glatt þó ekki sé hún nú hátt á lofti. Líklega væri þjóðráð að viðra grænu þrumuna aðeins. Bregða sér bæjarleið áður en myrkrið grúfir sig yfir okkur aftur. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Saturday, December 01, 2007

 

Dularfulli reykskynjarinn og músin sem dó.

Þegar maður fær skondið og skáldlegt komment á bloggið sitt verður að bregðast við. Þó Hösmagi sé nú kunnur fyrir ritsnilld, mega væntingarnar þó ekki verða of miklar. Þegar ég flutti hingað fyrir rúmum 3 árum byrjaði reykskynjarinn að gefa frá sér smápíp við og við. Sem þýðir að rafhlaðan er að verða tóm. Ég fór og keypti nýja. Svo var bara að skipta um. En hvar var skynjaraskrattinn? Eitthvað sem líktist þessu tæki var fyrir ofan innri forstofudyrnar. Litla trappan hentaði því vel. Þá var að hefjast handa. En þessi skynjari var öðruvísi en þeir sem ég hafði átt við áður. Hér þurfti verkfæri. Svo var skrúfað. Og skrúfað meira. Andskotans vesen hjá þessu liði að vera sífellt að breyta hlutunum. Að lokum náðist lokið af. Og undir lokinu var dyrabjalla íbúðarinnar. Það fauk næstum í mig. Enda enn ein sönnunin um léleg tök mín á hverskonar tækni .Tel mig þó sjaldan gera " tæknileg mistök".Hér í íbúðinni er hátt til lofts. Yfir 4 metrar þar sem hæst er. Ég leit upp. Og þar var skynjarinn í 4 metra hæð. Steinþagði að sjálfsögðu á meðan ég bardúsaði við dyrabjölluna. Þá var að ná stóru tröppunni úr bílskúrnum hjá Bjarna. Það tókst. Og ég skipti um rafhlöðu. Það varð þögn þangað til fyrir nokkrum vikum þegar djöfsi byrjaði á ný. Tíst, tíst og Raikonen botnaði ekkert í hvar fuglinn feldi sig. Ég var illa fyrir kallaður, dimmt og kalt úti, tröppu- og rafhlöðulaus, svo ég lét mig hafa þennan fjanda. Sofnaði, og um morguninn var kauði þagnaður. Svona gekk þetta í nokkra daga. Og ekki keypti ég rafhlöðuna. Svo um kvöldmatarleitið einn dag í þarsíðustu viku keyrði um þverbak. Þetta var voðalegt. Sálardrepandi. Bjarni var heimavið og fljótlega náði ég rafhlöðunni úr. Pípið hvarf. Ég komst í stól minn og fagnaði. En ekki lengi. Tíst, tíst og aftur tíst. Ég varð mér út um nýja rafhlöðu. Þögn. Og tíst á ný. Nú var geðheilsan orðin í verulegri hættu. Best væri líklega að rífa þennan ófögnuð alveg burt og drekkja honum í ánni. Ég klifraði upp tröppuna. Eins gott að vera tryggður við heimilisstörf. Og í þessu skapi sem ég var.
Rafhlaðan snéri rétt. Ég hringdi í Hörð. Bílamanninn, sem er snjall við margt annað en bíla. Ég hafði gert þetta rétt. Og Hörður varð hugsi á svip. Svo fór hann inn í þvottahús og setti gömlu rafhlöðuna í reykskynjaradjöfullinn sem hafði legið þar í leyni árum saman og setið þar á svikráðum við mig. Eða staðið sína plikt, öllu heldur.Mér kom í hug gamla máltækið: Margur er ríkari en hann hyggur. Ég á sem sagt 2svona tæki en ekki bara eitt. En ég vona sannarlega að þau séu ekki fleiri. Reyndar kryddaði þetta nú tilveruna í drunganum heilmikið. Og sýnir mér enn og aftur hvað lífið getur verið skemmtilegt.

Þegar ég var að sofna eitt kvöldið í vikunni var Kimi að læðupokast hér fram og aftur um íbúðina. Ég sofnaði. Svolítið svefnstyggur í þessari viku.Rumskaði við djöfulgang undir rúminu. Sennilega harður eltingaleikur við bréfkúlur. Ég sofnaði bara aftur. Um þrjúleitið var Kimi farinn að hnoða. Og nudda og mala hátt. Ég varð að rísa á fætur. Kveikti ljós, gekk að vaskinum í eldhúsinu og fékk mér kalt vatn að drekka. Ekki kominn tími á kaffi í þetta sinn. Varð svo litið á gólfið. Blóðdropi. Og annar skammt frá. Hvað hafði gerst? Átti ég að hringja í Hermann í rannsóknarlögreglunni? Fleiri dropar. Slóðin lá inní svefnherbergið. Kveikti fleiri ljós. Við enda slóðarinnar lá dáin hagamús. Ég bölvaði í hljóði, fjarlægði líkið og þreif gólfið. Svo fór ég að hugsa. Allir gluggar og dyr harðlokaðar. Er nýleg íbúð á efri hæð í blokk á Selfossi ekki músheld? Ég hugsaði meira. Út og inngönguglugginn á kontornum hafði verið opinn nokkurn tíma um kvöldið.
Og Kimi laumast út í haga. Minnti mig á snjótittlinginn sem kötturinn Hösmagi geymdi bak við stofuskápinn í Sænska húsinu forðum. Og kunni fóstra sínum litlar þakkir fyrir að láta tilla þennan sleppa frjálsan ferða sinna út í himinblámann. Kimi hefur fundist nauðsynlegt að upplýsa fóstra sinn strax um afrek sitt. Meðan hann er hér innan dyra munu hagamýs ekki þrífast hér. Það er auðvitað ágætt, svona eitt og sér.

Þetta var sem sé pistillinn sem skáldið var að minnast á. Fremur svalt í dag en mesta rokið búið. Í bili. Þokkaleg spá í kortunum, að ég held. Kominn desember og stutt í að myrkrið byrji að víkja fyrir birtunni. Það er í seinni tíð meira fagnaðarefni fyrir mig en jól og áramót. Bestu kveðjur frá okkur Kimi. Ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online