Monday, January 24, 2005

 

Hrútspungar og hláka.

Sumir borða hrútspunga þó þeim finnist þeir vondir. Halda bara að það sé þjóðlegt. Mér finnst þeir bara akkoti góðir og er ekkert að reyna að vera þjóðlegur. Nú er komin hláka hér á ísa köldu landi. Og verður áfram fram yfir helgi. Og vonandi áfram. Hvað er svona gott við snjóinn? Mér er ekki vel við hann. Hann er einungis til óþurftar og vandræða. Og drepur fólk. Hér á Selfossi eru allir aurarnir búnir sem skyldu notaðir til snjómoksturs á árinu 2005. En svona er þetta nú.
Skíði, snjósleðar og fleira fínerí. Gleður suma en gerir aðra þunga og dapra. Og svo verður maður að keyra Opel Astra í vinnunni sem kemst ekki spönn frá rassi ef snjókorn er á jörðu. Má ég þá heldur biðja um Cherokee. Bestu kveðjur til allra bloggara. Ykkar Hösmagi.

Monday, January 03, 2005

 

2005.

Nýtt ár byrjað. Skáldið mitt og Helga á leið til Íslands. Gott mál. Verður þó líklega lítið um veiðiskap að þessu sinni. En þegar við höfum þraukað Þorrann og Góuna kemur vorið og stöngin dregin fram. Svolítið vetrarlegt hér núna. Snjóflóð á Vestfjörðum í fyrsta sinn í níu ár. Allir þó heilir á húfi og eignatjón ekkert. Svona er nú landið okkar. En undirritaður þráir vorið sem fyrr. Bjartar nætur og ilminn af landinu þegar það byrjar að blómstra á ný. Hafiði verið stödd útí skógi að vori til? Svo kemur allt í einu steypiregn. Skyndilega styttir upp og landið angar. Dásamlegt.Ætla svo sannarlega að njóta sumarsins. Lokka marga stóra fiska á öngulinn. Og minni fiska líka. Veiðivötnin bíða mín í ágúst. Fer þangað frjáls maður og vonandi verður skáldið mitt með mér. Og bróðir þess kannski einnig. Kominn tími til að sýna þeim enn á ný hverskonar snillingur faðir þeirra er með stöngina. Galdramaður. Er annars ekki í lagi að vera svolítið drjúgur með sig kominn á þennan aldur? Og jafnvel þó fyrr hefði verið? Það er líka nauðsynlegt fyrir sálina. Enda er jafnvægi hugans í góðu lagi og það er enn mikilvægara en hin líkamlega heilsa. Sem sagt glaður og hress karl sem tekur fagnandi á móti nýja árinu. Bless í bili kæru vinir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online