Thursday, January 31, 2008

 

Hagfræði.

Einkennileg er fræðigreinin hagfræði.Borgarstjóri Reykjavíkur sagði það góð kaup að hafa aðeins greitt 580 millur fyrir 2 ónýta kofa við Laugaveginn.Og ástæðan? Seljandinn vildi fá meiri peninga fyrir ruslahauginn. Þessi maður stendur við stóru orðin. Lætur verkin tala. Skyldu reykvíkingar vera ánægðir með þetta verk? Ég efast stórlega um það. Og svo lætur hann bóka að þessi kaup séu ekki fordæmisgefandi um kaup á mörgum örðrum hreysum við þessa fornfrægu götu.Sem þau ættu nú að vera ef þau eru borginni svona hagstæð.Meirihlutinn kynnti sér ekki einu sinni verðmatið á þessum eignum. Svona vinnubrögð heita fum og fát.Stóllinn verður dýr íbúum höfuðborgarinnar þegar upp verður staðið. Fyrsta vika borgarstjórans í þessu háa embætti sýnir að hann er óhæfur í starfið.Farsinn mun halda áfram. Gíslimarteinn vill gera flugvöllinn að lóðum undir íbúðabyggð.Þvert á nýjan málfefnasamning.Stundum er talað um tifandi tímasprengjur við svona aðstæður.Það væri farsælast fyrir reykvíkinga að bomban springi sem fyrst undir stól borgarstjórans. Hagfræðin blívur. Menn leggja að jöfnu lækkun fasteignagjalda og lækkun á skatthlutfalli. Sem er bara tjaran tóm. Fasteignagjöld reykvíkinga og árborgara verða hærri í ár en í fyrra. Þrátt fyrir lækkun skatthlutfallsins. Það er vegna þess að mat eignanna hefur hækkað meira milli ára. Þetta eru talnakúnstir sem einungis eru iðkaðar til að blekkja lýðinn. Vond hagfræði í mínum augum. Svona hagfræði eins og Jón forseti stundar hér í Árborg. Hann, ásamt meðreiðarsveinum og meyjum, hefur gert mörghundruðmilljóna leigusamning um húsnæði sem enn hefur ekki fengist leyfi til að byggja. Sama húsnæðið og hann lofaði að koma í veg fyrir að byggt yrði ef hann næði kjöri og kæmist í aðstöðu til þess.Þetta er pólitíkin sem ég vil ekki. Þegar ég sá hvert stefndi bað ég alla árborgara afsökunar á að hafa kosið yfirhirðfífl meirihlutans hér. Hann er gott dæmi um hvernig ekki á að starfa í stjórnmálum. Álíka og borgarstjórinn í Reykjavík. Vegtyllurnar eru svo ljúfar og gefa heilmikla aura líka. Eitt stykki loforð skiptir litlu þegar menn hafa komið sér makindalega fyrir í rétta stólum. Einu sinni var talað um hagfræði andskotans. Þetta eru góð dæmi um hana.

Gjóla og 10 stiga gaddur hér. Janúar lokið og afmælismánuður byrjaður. Siggi, Begga og Egill. Ég gætti mín ekki nægilega í rokinu í gær og skemmdi eina hurðina á grænu þrumunni. Hún fauk úr hendi mér og nú er að ræða við Hörð Húdíni bílameistara.Galdramanninn, sem ævinlega finnur lausnir á vandamálum sem tengjast sjálfrennireiðum. Hef sagt það áður og segi það enn að það er gott að þekkja svoleiðis karaktera. Ég hlakka til helgarinnar og ætla að framkvæma eitthvað vitrænt þessa 2 frídaga. Smáhláka framundan eftir helgi og það er góð tilfinning. Sennilega síðasti dagur Sölva og Helgu í Prag að sinni. Bestu kveðjur þangað, til Köben og til ykkar allra. Ykkar Hösmagi.

Tuesday, January 29, 2008

 

Strik.

Eftir síðasta þátt spaugstofunnar hafa eldar logað.Sumir vilja banna þennan þátt.Borgarstjóri sjálfur kallar þetta svívirðilegar persónuárásir. Ég get að sumu leyti tekið undir að þreytumerki eru á þættinum. Margt er þó þokkalegt en annað slakt. Einu sinni heimtaði fólk að spaugstofumenn yrðu ákærðir fyrir guðlast. Það má ekki fara yfir strikið eins og það er orðað. Ég var nú að halda uppi vörnum fyrir borgarstjórann á moggablogginu. Líklega hefði ég betur látið það ógert. Viðbrögð hans við spaugi sýna það. Margir hafa nú fengið afleita meðferð í þessum þáttum án þess að kveinka sér. Síðustu dagar hafa sýnt að nýi meirihlutinn í borginni er gjörsamlega glataður. Þar stendur ekki steinn yfir steini.Fulltúar íhaldsins tala út og suður. Bakland borgarstjórans er ekkert og fylgið sem F listi fékk í síðustu kosningum tvístrað í allar áttir. Hann er nú sjálfur í íslandshreyfingunni sem enginn veit hvað er. Þetta er lýðræði okkar núna, eins og reyndar oft áður. Það má ekki anda á það án þess það séu persónuárásir. Hið pólitíska nef formanns sjálfstæðisflokksins er ekki lengra en það að hann leggur blessun sína yfir þetta.Allt í fína lagi ef valdastólar eru í boði. En það er að verða sama rotnunarlyktin af íhaldinu í Reykjavík og framsóknarflokknum. Og kemur innanfrá líka.Baráttan í næsta prófkjöri þess í höfuðborginni verður hatrömm. Þar munu menn vega hvern annan. Og ekki í neinu bróðerni. Ég er og mun verða flokkslaus maður. Ýldulyktin af pólitíkinni hefur gert þetta að verkum. Fnykurinn er líka til hér á Selfossi. Þetta gerist allsstaðar þegar menn svíkja hugsjónir sínar og loforð eru einskis virði. Framapot og græðgi ofar öllu.

Davis veðurstöðin á Reynivöllum virðist biluð. Ég nota vef vegagerðarinnar og sé að það er 3ja stiga frost undir Ingólfsfjalli. Og vindhraðinn aðeins 1 metri á sekúndu. Flott veður. Ýmislegt að gerast í vinnunni svo ég væli nú ekkert sérstaklega yfir tilverunni. Ætla nú að ljúka við morgundöggina og strjúka skott Raikonens. Sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, January 28, 2008

 

Kuldatíð.

Veðrið er nú ágætt hér í morgunsárið. Smáfrost og vindurinn með rólegra móti. Ef við sleppum við snjókomu næstu daga er það gott. Búist er við að frostið nái strax 2ja stafa tölu á morgun. Gamla kínverska loðhúfan mun koma sér vel næstu daga. Þó Hösmagi haldi nú hári sínu sæmilega enn, þá veitir ekki af að verja hausinn ef spáin gengur eftir. Jafnvel búist við 15-20 stigum um næstu helgi. Þorrinn byrjar því eins og svo oft áður í gamla daga. Þetta er þó orðið svo fátítt hin seinni ár að aðdáandi birtunnar og ylsins verður að standa vaktina. Við höfum góða hitaveitu hér og lagnir nýlegar í götunni.Gólfhiti í bílskúrnum svo græna þruman er notaleg á morgnana. Við þraukum þessa tíð af okkur. Hlákan kemur örugglega innan tíðar. Ég er nú ekki að biðja um 17 gráður eins og voru í Barselóna í gær. Samkvæmt Mogganum sem aldrei lýgur. Svona 4-5 væri ágætt.
Ég var að vinna nokkuð stórt, og að sumu leyti snúið verðmat í gær. Verðmöt fasteigna eru nokkuð fyrirferðarmikill þáttur í starfinu. Oftast skemmtilegur enda heilmikil ferðalög tengd honum. Hér var um að ræða land, húseignir og námaréttindi. Það spillti heldur ekki fyrir að viðkomandi á hlutdeild í Holta- og Landmannaafrétti. Mér varð hugsað til Rauðagígs, Ónefndavatns og annara yndislegra staða í Veiðivötnum.Erfitt að tengja þá við peninga. Þar mun líka verða kalt á næstunni. Urriðinn hefur lifað það af í árþúsundir og mun gera það áfram. Þegar ég kom þaðan síðast var ég þreyttur. Ánægður að venju. Næstu dagar og vikur urðu tími vangaveltna og hugleiðinga um lífið. Svolítið tregablandinn og ljúfsár. Innistæðan í banka reynslunnar jókst aðeins. Ekkert er sjálfgefið en hugarfarið skiptir jafn miklu og jafnan áður. Nú eru rúmir 5 mánuðir liðnir, nýtt ár runnið upp og ég bíð vorsins galvaskur. Það kemur þó nú sé napurt. Við Kimi báðir hressir í dag. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 27, 2008

 

Sálarbót.

Hlákan kom eins og veðurvitarnir höfðu lofað. Notaði tækifærið og kláraði að moka af svölunum. Svalaganginum framan við íbúðina líka. Örugglega gott fyrir lungun því snjórinn var þungur á skóflunni. Læt veðurguðina um afganginn. Því miður mun þetta veður vara stutt. Spáð hörðu frosti næstu daga. Þó það sé nú allhvasst lét Kimi sig hafa það að viðra skott sitt og sleikir það nú af ákefð. Eitt þrifnasta kvikindi sem ég hef kynnst. Í dag kveður handboltinn að sinni. Mér fannst nú ekki mjög leitt að sjá Króata vinna Frakka. Hinsvegar voru þeir Adolf Ingi og Ólafur meðreiðarsveinn hans báðir óþolandi leiðinlegir. Dónaskapurinn í garð Króata með endemum. Hinn afarskrautlegi markvörður Króata, Sola, er sennilega hættur í íþróttinni. Stundum með grænt hár en hinn daginn rauðgult. Afar eftirminnilegur þegar Króatar urðu heimsmeistarar fyrir nokkrum árum. Mér finnst nú alltaf vænt um Dani. Samt hélt ég að venju með Þjóðverjum í gær. Óska Dönum til hamingju með að hafa þó a.m.k. tryggt sér silfur. Fyrir unnendur handboltans er helgin ein samfelld veisla. Allar veislur taka enda og það er gott. Mér varð nú lítið úr verki í gær vegna handboltans. Lauk þó við leiðinlegasta heimilisverkið þ.e. að skipta um rúmföt. Skúringar og uppvask hátíðin sjálf miðað við það.
S.l. vika var viðburðarík. Feigðarmerkin á nýja meirihlutanum í Reykjavík strax augljós. Reykjavík var nú lengst af höfuðborg íhaldsins. Höfðu oftast 10 borgarfulltrúa af 15. Það var því mikið afrek að fella það í fyrra sinnið. Og jafnvel enn meira í það seinna. Ég hef áður minnst á þátt ISG í því og hann verður aldrei frá henni tekinn. Ég vona að VG og SF nái hreinum meirihluta næst. Mun einhver sakna frjálslyndra og framsóknar? Varla margir. Verst ef þessum meirihluta tekst að fremja enn frekari afglöp í samgöngu- og skipulagsmálum áður en hann hrökklast frá. Þessvegna væri best að hann gerði það sem fyrst. Það dettur engum í hug að friður og sátt sé hjá íhaldinu í borginni eftir það sem gerst hefur síðan í haust. Hjaðningavígin byrjuð um leið og valdaskiptin urðu á fimmtudaginn. Vonandi nær íhaldið í borginni aldrei vopnum sínum á ný. Það er nú rúið trausti margra sem hafa kosið það í blindni alla tíð. Það er jákvætt eitt og sér. Nóg af borgarpólitík í dag. En ég er ekki alveg búinn með framsókn. Guðni gæti verið hálftimbraður eftir Selfossþorrablótið í gærkvöldi. Læt hann því í friði í dag.
Symfónía vindsins sem nú gnauðar hljómar dásamlega í eyrum. Sannarlega "gott vont" veður í dag. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, January 25, 2008

 

Valdsmenn Íslands.

Minn gamli lærifaðir, Sigurður Líndal, prófessor emeritum, ritar grein í Fréttablaðið í dag um nýlega ráðningu héraðsdómara. Staðan var veitt af settum dómsmálaráðherra sem jafnframt er fjármálaráðherra. Þið vitið öll hver hann er. Það hefur enginn dregið í efa að samkvæmt reglunum hefur ráðherrann skipunarvaldið. Sigurður veit það manna best. En hann upplýsti vel í greininni hvernig ráðherrann þverbraut önnur lög í leiðinni. Það tók ráðherrann nokkra klukkutíma að meta hæfni umsækjenda en síðan 3 vikur að reyna að rökstyðja hana. Sem betur fer er málinu ekki lokið. Það er nú komið til umboðsmanns Alþingis og gæti endað með dómstólaleiðinni.Ég vona sannarlega að það fari þá leið. Þetta er með þvílíkum endemum að ekki nokkru tali tekur. Persóna Þorsteins Davíðssonar og ætterni er algjört aukaatriði í þessu máli. Ég óska honum sannarlega farsældar í starfi. Virtist vera hinn viðkunnanlegasti maður í viðtali í sjónvarpinu um daginn. Valdhroki ráðherrans er ekki á hans ábyrgð. Mér finnst frábært að minn gamli skólafélagi úr lagadeildinni, Guðmundur Kristjánsson, sitji ekki þegjandi undir þessum vinnubrögðum. Annar þeirra sem talinn var best hæfur í stöðuna.Grein Sigurðar er t.d. á visir.is í dag.
Það er augljóst að ef ég ætla að halda þessari bloggiðju áfram þarf ég að setjast á skólabekk á ný. Kannski myndi nú ein handbók duga. Þær eru ansi flottar sumar síðurnar á moggablogginu. Linkar, myndir og allskonar kúnstir. Ég kann ekkert af þessu. Blaðra bara og blaðra eftir hendinni. Það má líka senda mér tölvupóst ef einhver vildi gefa mér smáinnsýn í þessa veröld. Nú um stundir er betra að senda hann á siggi@bakki.com. Sé hann líka á hosmagi@simnet.is en get ekki svarað þaðan eins og er.
Það haugaði niður þessu hvíta í gær. Nánast allt kolófært í morgun nema aðalgöturnar hér. Græna þruman prjónaði sig auðveldlega gegnum nýja skaflinn sem hafði myndast við bílskúrinn. Bráðum verð ég líklega að leggjast á bæn. Reyndar spurning um hvort það þýðir nokkuð eftir að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni á dögunum. Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 23, 2008

 

Rætinn sannleikur.

Í dag, 24.janúar 2008, er góður dagur. Þó klukkan sé einungis tæplega 6 að morgni erum við Kimi á fótum. Ég að hella í mig morgundögginni en hann hreiðrar um sig á handklæði inní einum svefnherbergisskápnum. Yngri systir mín á afmæli og fær mínar bestu kveðjur. Það eru nákvæmlega 2 ár í dag frá því ég keypti grænu þrumuna.Rétt búið að tilkeyra hana eða 19.500 km. Hún er nú á stalli sínum í 24 gráðu hita en frostið úti 4 stig. Veður kyrrt, en enn hefur aðeins aukið við snjóinn. Hláka á sunnudaginn bætir það upp. Það er þó ekki gleðiefni við daginn að nýr borgarstjórnarmeirihluti verður myndaður í höfuðborginni. En þar er smáuppbót líka. Björn Ingi ætlar að segja af sér. Og ástæðan? Óvenjurætnar persónulegar árásir sem vakið hafa þjóðarathygli. Fyrrverandi vinur og samherji sannaði með illa fengnum gögnum að Boss bindin, jakkafötin, skyrturnar og allt hitt voru greidd af flokknum hans. Allt til einskis því þetta dót er orðið allt of lítið á hann. Bindin orðin of stutt líka. Jafnvel von á fyrirspurn frá skattinum. Mikið djöfull getur sannleikurinn stundum verið rætinn. Svona var þetta líka með strákskrattann í Bykó sem þótti einkennilegt að vörur merktar Þjóðleikhúsinu væru sendar til Vestmannaeyja.Það var voðalega rætið líka.
Svo vonar þessi hugumprúði, vel klæddi riddari, að framsóknarflokkurinn nái að efla samstöðuna og rétta úr kútnum. Guðni mun sjálfsagt taka undir þetta. Nýbúinn að lýsa fullu trausti á riddarann og senda fyrrverandi vininum og þingmanni flokksins kaldar nótur. Högg undir beltisstað eins og svo oft áður. Hvenær skyldu sumir menn átta sig á því að framsóknarflokkurinn rotnar innan frá en ekki útfrá pólitískum andstæðingum?
Þegar stórt er spurt verður stundum erfitt um svör. Það hlýtur þó að vera huggun harmi gegn hjá dressmanni, að hann hefur örugglega samúð mikla frá Halldóri og Finni.

Ég fór uppí Bláskógabyggð í gær. Þar var snjór. Ég var heppinn að velta ekki Landkrúser jeppanum fasteignasölunnar. Slapp með skrekkinn. Tel mig þokkalegan bílstjóra og jeppinn ágætur og traustur vagn. Eftir 3ja tíma basl tókst góðum manni að bjarga málunum.Ég og krúserinn báðir heilir. Það stóðst á endum þegar heim kom að leikurinn við ungverja var að byrja. Ég hugsa að Hreiðar Guðmundsson sé búinn að tryggja sér aðalmarkvarðastöðuna í liðinu. Eftir allar hremmingarnar undanfarna daga er smávon um miðjusæti. Góð uppbót líka.

Ég hugsa fallega til ykkar í dag og við Kimi sendum kveðjur til vina okkar, ykkar Hösmagi.

Tuesday, January 22, 2008

 

Bót.

Sjaldan hef ég orðið eins glaður yfir roki og rigningu eins og í dag.Þegar hitastigið fer í 4-5 gráður og vindurinn nær sér vel á strik er snjórinn fljótur að hörfa. Sálarlífið lyftist upp og ég verð bjartsýnn á ný. Mánuður frá vetrarsólstöðum og nú er enn bjart þegar komið er heim úr vinnu klukkan 5. Þorrinn og Góan reyndar bæði eftir. Ég er kannski óvenjulega viðkvæmur fyrir miklum snjó. Hann má vera uppá jöklum en á ekki heima hér á götunum. Eingöngu til óþurftar, kostar mikla peninga að halda götunum akfærum og gangstéttum færum fyrir venjulegt fólk, auk slysahættunnar.Nóg um snjó að sinni.
Nú hef ég afskrifað " strákana okkar". Þeir eru gjörsamlega út á þekju í þessari keppni. Ég kíkti á netið annað slagið á leikinn við þjóðverja. Ég ætla að horfa á leikinn við ungverja á morgun því hann er ekki fyrr en kl. 19:15 Það bendir allt til þess að við munum verma 12. sætið. Það er arfaslakt. Bara hreinn skandall.
Ég nenni hreinlega ekki að skrifa mikið um nýjustu tíðindin í pólitíkinni. En ekki finnst mér hann gæfulegur nýi meirihlutinn í höfuðborginni. Og aðdragandinn að þessum ósköpum mun ekki efla tiltrú fólks á stjórnmálamönnum. Sama daginn viðurkenndi Björn Ingi að hafa keypt föt sem skrifuð voru á flokkinn hans. En það var bara ekkert athugavert við það. Þetta væri svona hjá mörgum stjórnmálaflokkum.Sem er að sjálfsögðu haugalýgi. Og svo voru fötin orðin of þröng því hann hefði bætt á sig. Hafi stjórnmálamaður nokkurntíma opinberað siðblindu sína þá var það þessi maður í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hvernig skyldi Guðna greyinu líða yfir þessu?
Ég hef nú ekki verið neinn sérlegur aðdándi Dags B. Það voru viðtöl í kastljósinu í kvöld. Fyrst við gamla góða Villa og síðan við Dag. Sama þvælan í Villa og áður. Kann þetta allt. Búinn að vera lengi í bransanum og formaður samtaka íslenskra sveitarfélaga í 16 ár. En ég held að það sem Dagur sagði sé allt satt og rétt. Sérílagi eftir að hafa hlustað á Ólaf Magnússon í gærkvöldi. Enda komið í ljós að hann var búinn að undirbúa þetta plott í nokkra daga með fornvini sínum, Kjartani Magnússyni. Ég hafði einu sinni nokkuð álit á Ólafi. Fyrst og fremst vegna umhverfismála. Það hvarf alveg í gær. Ég votta reykvíkingum samúð mína með nýju stjórnarherrana.
Kimi sefur hér í horninu fyrir aftan mig. Á teppinu góða sem þau Helga og Sölvi gáfu mér á jólum í Edinborg. Við sendum ykkur bestu kveðjur að venju, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 20, 2008

 

Vetrarríki.

Það er langt síðan ég hef séð svona mor af snjótittlingum eins og nú flögra hér um.Þetta er svona svipað og á bolluárunum þegar hann byrjaði að snjóa í október. Og reyndar síðar einnig. Þegar ég bjó á Austurvegi 19 í kringum 1990 fóðraði ég marga fugla. Snjótittlingar í meirihluta. Svo komu starrar, hrafnar og jafnvel mávar og dúfur. Og fóðrið var korn, brauð og matarafgangar. Það var oft atgangur við krásirnar og gaman að horfa á þessa baráttu um brauðið. Því verður ekki neitað að það er fallegur dagur í dag. Glampandi sól og frostið bara 2 stig. En það er leiðinlegt göngufæri nema fyrir skíðamenn. Ég brá mér því á grænu þrumunni í Nóatún að ná mér í sviðakjamma og hrútspunga. Hvorttveggja gott með lífrænt ræktuðum íslenskum kartöflum. Át þetta undir Silfri Egils þar sem einn framsóknarmaðurinn lýsti fyrrum stórvini sínum, Birni Inga. Þar var af nógu að taka. Lokaorð þessa fyrrum þingmanns framsóknar voru þau að hann væri með mörg hnífasett í bakinu frá þessum núverandi borgarfulltrúa framsóknar. Uppdráttarsýkin í þessum gamla flokki tekur sífellt á sig nýjar myndir. Ég hef oft sagt það áður að þessi flokkur væri á grafarbakkanum. Ég spái því að það verði fáir viðstaddir hina óumflýjanlegu útför hans. Kannski dregst hún þó fram á vorið þegar mestu snjódyngjurnar verða horfnar.
Ég ligg nú aðallega í leti í dag. Heilsan ágæt en hálfgerður doði yfir gömlum karli sem líkar ekki við mikinn snjó. Ætla nú að fylgjast með lokaleiknum í riðlinum okkar á eftir. Ég hef ekki mikla trú á að við leggjum frakka þó við höfum leikið þá grátt í fyrra. Það hefur lengst af verið þannig að við getum ekki spilað heilan leik almennilega. Eins og sannaðist í gær þó okkur tækist að vinna slóvaka. Og ég verð nú bara að segja það að mér finnst nýja baráttulagið hans Valgeirs svona heldur klént.Kannski alveg smekklaus maður í tónlistinni. Við sjáum hvað setur. Bestu kveðjur til Barselóna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, January 18, 2008

 

Kuldi.

Nú er 12 stiga frost hér utandyra. Veður þó kyrrt sem betur fer. Ég slapp úr prísundinni í fyrradag eftir heilmikil átök við stóra skaflinn. Þegar því var lokið frétti ég að húsfélagið hefði ákveðið að láta ryðja allt planið hér fyrir framan blokkina. Þá var næsta vers að moka Lancerinn lausan líka svo hann yrði ekki fyrir.Það hafðist eftir mikið puð og ég kom honum fyrir í bílskúrnum. Um kvöldið var planið mokað og nú eru heilu fjöllin af snjó hér í kring. Þó það muggaði annað slagið í gær er þó sæmilega greiðfært um bæinn. Samkvæmt spám munu þessi nýju fjöll verða hér áfram. Vona bara að það bæti ekki mikið í þau. Lancerinn aftur kominn út í kuldann en græna þruman inní hlýjuna. Og gamli Hösmagi orðinnn þokkalegur í bakinu aftur. Það var samt ágætt að eiga 2ja daga frí að loknum vinnudegi í gær. Þrátt fyrir verulega andúð mína á snjó ætla ég að halda ró minni. Ég stjórna nú ekki veðri og vindum eins og sumir þykjast geta. Tek því bara rólega heimafyrir um helgina og mæti tvíefldur til starfa á mánudaginn. Heilmikið að gera í vinnunni og það er alltaf fagnaðarefni.
Það verður fróðlegt að sjá hvort íslenska handboltalandliðinu hefur tekist að girða upp um sig síðan í fyrradag. Ég hef nú efasemdir um það en óska þeim samt alls hins besta í baráttunni í dag og á morgun. Gamla svíagrýlan var alls ekki dauð. Reyndar var andleysið og metnaðarleysið yfirgengilegt hjá okkar mönnum í fyrradag. Spurning hvort þeir ná áttum á ný.
Kimi lætur sig hafa kuldann úti en ég ylja mér við kaffið hér í hlýjunni. Við sendum bestu kveðjur að venju, ykkar Hösmagi.

Thursday, January 17, 2008

 

Fangi.

Ég lagðist í pest á sunnudaginn.Hiti, beinverkir og tilheyrandi.Hugðist svo mæta til vinnu í morgun þó það væri á mörkunum að ég treysti mér til þess. Lancerinn á bólakafi í snjó. Og heilt fjall af snjó fyrir framan bílskúrinn, þar sem græna þruman er innanveggja. Ég hringdi í Þröst en hann sagði mér bara að halda mig heima í dag. Það eru engar líkur á að þessi snjór hverfi næstu daga. Nú er ég að safna kröftum til að moka frá skúrnum. Það er sko hreint ekki áhlaupaverk.Veður er þó ágætt en þrekið er af skornum skammti. Ég hefði líklega ekki átt að vera að tala um snjólausa vetur hér um daginn. Ég þori ekki annað en moka vel frá því dyrnar eru frekar þröngar og ekki vil ég taka áhættu á að skemma þennan sómavagn.Kominn í ullarpeysu, stígvélin í skúrnum og svo er það skinnhúfan og úlpan. Ef þetta gengur ekki sækir Þröstur mig í fyrramálið. Líka leigubílar á staðnum. En mér finnst bara fúlt að hafa hér tvo gangfæra bíla og komast ekki spönn frá rassi.Ég ætla að minnsta kosti að gera tilraun.Og ég ætla ekki að ofgera mér við að sleppa úr prísundinni.Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, January 10, 2008

 

Salt jarðar.

Þegar ég fór til vinnu í morgun hélt ég að það hefði mígrignt. Hitastigið var þó bara nálægt núllinu. Ók Langholtið til að losna við 4 hraðahindranir. Mér lá þó ekkert á því ég lagði tímanlega af stað. Fannst þetta þó svolítið undarlegt. Braut heilann smástund og komst strax að niðurstöðu. Það er byrjað að strá salti jarðar á göturnar hér. Svona eins og í höfuðborginni. Hér hljóta bæjaryfirvöld að vera að verki. Vegagerðin afgreiðir þjóðvegina. Kannski eru það einkavinir bæjarstjórnarmeirihlutans sem hér standa að verki. Myrkraverk meirihlutans eru að verða alkunn. Nýjustu fréttir af mjólkurbúshverfinu sanna það. Vetur á Íslandi eru að verða þannig að við þurfum ekki á þessari vitleysu að halda. Hæfileg dekk undir bílunum okkar og aðgætni árstímans er alveg nægileg vörn. Allir fjölmiðlar landsins ala á þessari dellu. Ef óhapp eða alvarlegt slys verður er eina skýringin að það hafi verið hálka. Það er mikið framboð af úrvalshjólbörðum eins og af flestöllu öðru sem við þurfum á að halda. Það ætti að vera búið að banna nagladekkin fyrir löngu. Þau veita falskt öryggi og fólk ekur eins og á besta sumardegi. Það eru mörg ár síðan ég hætti að nota nagladekk. Eyðileggingin sem þau valda er mikil. Og enn mæti ég bæjarstarfsmönnum á Tryggvagötunni á trakorsgröfum til að fylla uppí holurnar. Mikið vildi ég heldur að sýslumaðurinn okkar beitti sér í þessu en að leggja til að virkja Hvítá. Hann lagði til fyrir nokkrum árum að banna nagladekkin. Það jók álit mitt á honum til muna.
Ég er reyndar ekkert í miklu nöldurstuði nú. Allt gengið þokkalega þessa viku. Ferð í uppsveitir á morgun og stórir hlutir að gerast í starfinu í næstu viku. Þó ég hafi stundum talað um þrældóm fyrir kapitalista þá fer hagur Bakka ehf. og minn saman meðan ég starfa þar. Kimi er að viðra sig í þessu indæla vetrarveðri. Fanturinn, kynbróðir hans, varð enn frá að hverfa í morgun. Við sendum ykkur bestu kveðjur. Ein færsla frá SB á árinu. Áfram Helga eins og þú minntist á. Ykkar Hösmagi.

Tuesday, January 08, 2008

 

Enn af pólitíkinni.

Kannski ætti ég aldrei að skrifa um stjórnmál. Oft einfari í þeim efnum. Fengið skammir frá yngri syninum og fóstbróðir hans má ekki heyra gagnrýni um flokkinn sinn. Mér finnst vænt um báða þessa stráka. Og fleiri stráka reyndar einnig.Og allar drottningarnar mínar. Hvaða viðreisn hefur núverandi ríkisstjórn staðið fyrir? Við embættisveitingar kannski? Við að leiðrétta það sem mest ríður á? Að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu? Meira að segja Jóhanna er bara gjörsamlega útbrunnið eldfjall sem ekkert er að marka lengur.Aðalvandamálið er að núverandi ríkisstjórnarflokkar eru bara sammála um að völdin eru góð. Deilum og drottnum og hlustum ekki á kjaftæði nöldraranna. Það er reyndar ekki nema rúmt hálft ár sem þessi stjórn hefur setið að völdum. Ég er alveg sáttur með að gefa henni smáséns. Ég á þó eftir að sjá hana standa við gefin loforð. T.d. um að afnema stimpilgjöldin. Yfirlýsingagleði viðskiptaráðherrans um afnám seðilgjalda, uppgreiðslugjöld lána, fitkostnað og fleira eru upphrópanir sem ætlaðar eru til eigin vinsælda. Það þarf nú aðeins meira til. Halda menn að gróðahyggjan, ránið og þjófnaðurinn sem hefur blómstrað svo vel undanfarin ár hverfi við slíkar yfirlýsingar. Aldeilis ekki. Nóg að sinni. Og færri pistlar um pólitík á næstunni. Margt betra og skemmtilegra að tala um. Bestu kveðjur frá okkur Kimi. Og svona í leiðinni sem ég hef nú einstöku sinnum sagt áður. Hann kúrir nú á gamla stólnum, vel saddur, ykkar Hösmagi.

Thursday, January 03, 2008

 

Fátt er svo með öllu illt....

að ekki boði nokkuð gott. Við Kimi höfum verið að hamast við að éta. Tómatar, ostur, rækjur, sjómaður ( spesial góður harðfiskur), gullfiskur, þó ekki þessi litli sem geymdur er í búrum heldur indælt sjávarfang sem er grjóthart en bráðnar í munni. Árið byrjar vel. Ég hef ekki einu sinni mætt yfirfíflínu í bæjarstjórnarmeirihlutanum. Alltaf góðir dagar þegar það skeður. Vona að þeir verði sem flestir á árinu. Ég hugsa að ríkisstjórnin falli á árinu. Tel það nánast öruggt. Yfirnagarinn í seðlabankanum mun stýra þar stóru hlutverki. Núverandi formaður sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherrann sjálfur, getur ekki leitt þessa ríkisstjórn mikið lengur. Ingibjörg Sólrún leikur lausum hala. Það mun ekki líðast lengi.Hinir í Sf, Össur og Björgvin blaðra áfram. Þórunn er þó lángskárst. Talar yfirleitt af skynsemi. Hvort sem það verða kosningar á þessu ári eða ekki munum við fá nýja ríkisstjórn. Kannski er ég bjartsýnn á nýju ári. Eigum við ekki alltaf að vera það?Svona talar nú gamall gaur sem hefur nóg í sig og köttinn sinn. Og jafnvel aðra ketti líka. En vil breytingar samt. M.a. þær að Sf. standi við loforð sín og sé ekki sýndarmennskan ein. Við Kimi höldum snart til náða. Bestu kveðjur, ykkar Hösmgai.

 

Morgundögg.

Það nú aðeins meira en dögg á jörðu í morgunsárið.Slagveður og mig langaði mest til að kúra lengur undir sænginni heima. Svo er ég orðinn svo kræsinn á kaffi að Merild kaffið sem boðið er uppá hér á kontórnum verð ég að hálfneyða mig til að drekka. Enda drekk ég bara Morgundöggina góðu heima. Við kisi vorum nú á fótum á nokkuð guðlegum tíma í morgun. Ég opnaði gluggann en kisi kom fljótlega á öðru hundraðinu og faldi sig undir rúmi.Ég hafði nú grun um ástæðuna. Fyrir utan gluggann var þjófurinn mættur aftur. Þessi ofbeldissinnaði sem áður hefur komið við sögu hér. Við horfðumst í augu og mér datt í hug barnagæla Davíðs Stefánssonar: Sofðu nú svínið þitt, svartur í augum, farðu í fúlan pytt, fullan af draugum.Ég hvæsti og skipaði þessum óvelkomna gesti á brott. Sem hann gerði með semingi. Síðan lokaði ég glugganum aftur. Hvort eð er lítið gaman fyrir Kimi utandyra í þessu veðri. Næsta ráð mitt verður líklega að koma upp fjarstýrði vatnsdælu til fæla kauða í burtu. Kannski svolítið snúið en ég kann ekki að meta framferði þessa kvikindis sem stelur mat og leggur sig í líma við að misþyrma besta vini mínum. Hann dormar nú örugglega í mjúku fleti heimafyrir.

Hér er enn með rólegra móti þó ekki sé það nú ördeyða. Ég að mestu einn að störfum. Símavörðurinn í fríi og forstjórinn droppar hér við annað slagið. Vona að allt fari á fullan skrið eftir að síðasti sveinstaulinn hverfur aftur til fjalla.Það hefur nú verið venjan undanfarin ár og ég vona að það verði í sömu veru nú. Við Kimi sendum bestu kveðjur úr roki og rigningu, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 02, 2008

 

Nýtt ár.

Nýja árið gekk í garð með svipuðum hætti og það gamla kvaddi. Undirritaður klúkir nú hér og bíður þess að klukkan verði 5. Hef verið hér einn lungann úr deginum og sinnt því brýnasta sem hér hefur þurft að gera. Verslanir og bankar að metsu lokað og rélegt yfir mannlífinu. Vindurinn gnauðar og regnið glymur hér á glugga. Þíða í kortunum næstu daga. Það verður bara indælt að koma heim í hlýjuna og fá sér snarl af eftirstöðvum hátíðarfæðunnar. Mikil veisluhöld að baki hjá þjóðinni og annarhver bloggari á leið í megrun. Og hinir líka. Við fósturfeðgar eru reyndar ekki í þeim hópi og höfum þó ekki alldeils soltið þessa daga. Hænufetin verða heldur styttri í þessu þungbúna veðri. En vitundin um að allt tosast í rétta átt léttir lundina.Ég horfi allavega nokkuð björtum augum til nýja ársins. Völva vikunnar spáir falli ríkisstjórnarinnar og forsetinn hefur gefið kost á sér áfram. Úr því sem komið var kom mér það ekki sérlega á óvart. En við bíðum bara og sjáum hvað setur. Bestu óskir til ykkar allra á nýju ári og þökk fyrir það nýliðna, Ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online