Sunday, June 28, 2009

 

Fiskinn minn...

nammi nammi namm. Í gær voru 36 ár liðin frá því ég veiddi fyrsta laxinn minn. Og 22 ár frá stórveiðinni á halta hanann. Þessi afmælisdagur föður míns sæla hefur löngum reynst mér drjúgur við veiðiskapinn. Það hefur verið ljúft að koma að ánni undanfarna góðviðrisdaga. Hitinn hér er nú kominn í 18 gráður og þetta gæti orðið heitasti dagur ársins til þessa hér á Selfossi. Að kvöldi gærdagsins voru komnir 14 laxar á land úr fljótinu mínu góða. Ekkert mok en vel ásættanlegt í júnímánuði.Ég hygg gott til glóðarinnar næstkomandi miðvikudag. Ákveðinn í að gefa túpunni góðan tíma. Fyrst verður það æskrím étur hann, síðan rauða hættan, Kolskeggur og Collie dog. Það voru stórveiðimenn sem hófu veiði í morgun. Fremstir í fylkingu Viktor Óskarsson og Sveinn Þórarinsson. Veðrið frábært og vatnið eins og það best getur orðið. Það er svo spáð rigningu seinnipartinn og kannski get ég önglað upp nokkrum ánamöðkum eftir miðnættið. Þrátt fyrir kreppu, stjórnvöld sem ég hef orðið fyrir vonbrigðum með og óskemmtilegar spár um framtíðina ætla ég að njóta þessa sumars. Ekki hleypa neinu volæði að.Veiða sem mest í byggð og til fjalla. Mér fannst um daginn eins og áhuginn væri að dofna. En Tangavatnsförin sannaði annað. Það var ljúft að renna í Veiðivötnin á mánudaginn var. Hitti Bryndísi vinkonu mína. Veiðivörðinn sem alltaf virðist vera í góðu skapi. Einnig nokkra veiðimenn sem voru alsælir með tilveruna í paradís hálendisins. Afli ágætur og veðrið sömuleiðis. Og græna þruman naut sín vel í þessum ágæta túr. Ég held að þessi ólmi gæðingur hafi glaðst yfir að koma mér inní draumalandið í Veiðivötnum þó Herconinn hafi verið skilinn eftir heima. Hans tími kemur á miðvikudaginn. Kimi nýtur tilverunnar til fullnustu þessa yndislegu sumardaga. Hnusar af grösum og er ekkert mannlegt eða dýrslegt óviðkomandi.Hann var nálægt fóstra sínum á föstudaginn þegar við tókum aðra yfirferð á bílskúrnum. Nú er guli liturinn horfinn og engin eftirsjá að honum. Ég mála svo vindskeiðarnar í vikunni.Það er semsé allt hið besta að frétta úr Ástjörn 7. Annað kvöld koma svo Sölvi og hin þungaða heitmey hans til landsins. Brauð og leikir sumarsins í algleymingi á næstunni og bágindi og kreppa send út í hafsauga. Ég og Dýri sendum nóttlausar sumarkveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Monday, June 22, 2009

 

Mjór er.....

mikils vísir. Fyrsti laxinn úr Ölfusá þetta sumarið kom á land í gær. Veiddist í Víkinni á seinni vaktinni. Hann var 3 kg. og 72 centimetrar og því fremur mjósleginn. Fallegur fiskur samt sem áður. Ég held að mokið byrji ekki fyrr en 1. júlí. Þá ætlar undirritaður að planta sér á bakkann og róta upp laxfiskum. Stórum aðallega, en smærri í bland. Fátt er meira lostæti en nýveiddur fimmpundari úr Ölfusá. Áin er tær og fremur lítið í henni. Þetta er þó sama stórfljótið og áður og lítil hætta þó þurrkatíð verði. Nú er bara vika í skáldið og heitkonuna og aldrei meiri spenningur en nú að hitta þau.Litlan fylgir með. Ljúfir dagar framundan og jónsmessunóttin að bresta á. Það skyggir aðeins svona í hálftíma eftir miðnættið og þá er albjart aftur. Ég mun seint þreytast á að dásama þennan árstíma. Hina nóttlausu voraldar veröld. Það er þess virði að þrauka af vetur og vond stjórnvöld til að upplifa enn eitt sumar á ísaköldu landi. Ef spáin gengur upp fer ég í maðkinn þarnæstu nótt. Það er veiðiskapur út af fyrir sig. Skæð beita, maðkurinn. Það er líka óhemjuskemmtilegt að veiða á túpuna og spúninn.Það er bara óskaplega gaman að veiða. Ég er einkar stoltur yfir að hafa smitað syni og sonarsyni af þessari bakteríu. Hefði örugglega getað gert þeim eitthvað verra. Nú er Kimi mættur inn aftur og varla friður við tölvuna. Malar og vill endilega þrífa skegg mitt. Gott að eiga svona góðan félaga þó ekki sé hann margmáll. Skilur þó margt sem ég segi við hann. Að mestu þægur og hlýðinn. Og svona allt í einu. Eftir símtal er Veiðivatnaför afráðin í dag. Það verður yndislegt að koma inneftir í þessa margrómuðu paradís. Sem sagt gott og bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, June 15, 2009

 

Líf.

Ég var eiginlega búinn að afskrifa Tangavatn. Tómar hrakfarir þangað síðustu árin. Á föstudaginn hringdi ég í frúna og hún sagði mér að þokkalega hefði veiðst á miðvikudaginn. Ég væri velkominn án endurgjalds. Þegar ég fór út í bílskúr víbraði Herconinn og græna þruman brosti með öllu heila grillinu. Þegar ég kom í hlaðið á Galtalæk var farið að rigna þónokkuð. Fremur hlýtt svo það skipti ekki öllu. Tveir veiðimenn úr Sandgerði nýfarnir með 8 fiska sem höfðu tekið spún. Ég hélt glaðbeittur að vatninu og setti undir bus spesial. Sígildur spónn bæði á lax og silung. Fljótlega tók fiskur. Rétt náði spæninum upp við landið. Tveggjapundari sem hefur ekki ætlað að missa af þessu hnossgæti því ég var lengi að losa hann af. Fljótlega setti ég í annan en hann spýtti spæninum út úr sér. Það var kviknað í mér. Loksins, loksins eitthvert líf. Hálftími leið. Setti rækju undir en ekkert gerðist. Ég reyndi aðra spúna með engum árangri. Eftir 2ja tíma barning færði ég mig í austurenda vatnsins. Kastaði spinner og sá fiskinn elta. Bus spesial, salamander og fiskurinn kom bara í humátt á eftir. Þá var bara eftir að kasta rauða hammernum. Stundum reynst ómótstæðilegur. Brátt hafði 3ja pundari bætst við. Og svo kom sá þriðji, líka nokkuð vænn. Það var fjör næsta hálftímann. Margir tóku grannt og burgu lífinu. Ég hélt heim síðla dags með fallega veiði. Þetta var góður dagur og vatnið eins og ég þekkti það í gamla daga. Hér hefur verið silungsveisla frá því á laugardagskvöld. Svo styttist ört í laxinn. Gamli veiðimaðurinn er glaður í hjarta. Vertíðin rétt að byrja og Tangavatnsferðin var bara fyrirboði um það sem kemur.
Ég nenni ekki að blogga um pólitíkina. Sennilega best að gefa henni frí út vertíðina.Í fyrsta sinn í langan tíma steig ég á baðvigtina í gær. Mér er öfugt farið við marga aðra um að vera í sífelldri baráttu við að halda holdum. Ég varð alveg gólandi glaður þegar ég sá að ég er orðinn yfir 70 kíló. Það hefur ekki gerst í nokkur ár. Þetta er bara andskoti efnilegt. Kannski er það bandaríski kornmaturinn, kanilsnúðar og kleinur sem gera þetta að verkum. Þó hef ég líklega létst um nokkur grömm í morgun. Ég fór á spítalann og lét skera smáflyksu úr vinstri löppinni. Kunni ekki við að hafa hana þarna. Saumarnir verða svo teknir í næstu viku.Ungi doktorinn gerði þetta af stökustu vandvirkni og ég hélt glaður á brott og fékk mér kaffi hjá Grétu. Sá rauðbröndótti liggur hér á gamla tágastólnum og sefur fast. Ég ætla að bregða mér bæjarleið í góða veðrinu. Sækja mér meira lestrarefni á bókasafnið góða sem nú heldur uppá 100 ára afmælið. Með bestu kveðju frá mér og ketti mínum, ykkar Hösmagi.

Monday, June 08, 2009

 

Stilla.

Gúrkublogg.Klukkan er nú hálfsex að morgni þess 9. júní anno 2009.Það bærist vart hár á höfði. Fremur þungbúið og hitastigið enn undir 10 gráðum. Við Kimi vöknuðum of snemma í morgun. Eða nótt öllu heldur. Ég hleypti dýrinu út í blíðuna og hélt síðan sjálfur sömu leið eftir kaffi og Bagatelló. Ölfusá er ákaflega falleg í dag og veiðileg mjög. Tæpar 2 vikur í að aðallinn í félaginu, ásamt bæjarstjóranum, renni færum sínum í fljótið góða. Undirritaður byrjar svo 1. júlí og mér segir svo hugur að mín alkunna snilld með Herconinn muni bera góðan árangur í sumar. Þá er ég þess fullviss að línur okkar feðga muni stengjast verulega á hinum rómaða 3ja stangadegi þann 16. Það er tilhlökkun í huga gamals veiðimanns. Veiðivötnin eru strax farin að toga og mér finnst líklegt að ég skjótist inneftir fljótlega. Nú er ég ekki bundin af starfi og get valið mér fallegan dag. Græna þruman er alltaf reiðubúin. Svo stendur til að mála bílskúrana hér við blokkina. Í runinni einungis til að breyta litnum svo þeir verði í stíl við blokkina sjálfa. Mig klægjar í puttana eftir að hefjast handa. Okkur Kimi líður einstaklega vel hér og því betur sem lengra líður.
Það gengur heilmikið á í pólitíkinni. Ég ætla þó að verða nokkurnveginn stikkfrí með hana í bili. Mér verður þó hugsað til eins víkinganna sem ég sá nýlega í sjónvarpinu. Brosandi út að eyrum með spúsu sinni um borð í einhverri snekkjunni. Þetta er eigandi Novators sem fékk stórt lán frá Landsbankanum í London. Icesave lán sem við eigum svo að borga. Rannsókn á glæpaverkum þessa hyskis er með hraða snigilsins. Enginn hefur verið settur í járn ennþá þó lagaheimildir séu til staðar.Engar eignir hafa verið frystar þó sömu lagaheimildir heimili það. Ég hef ekki enn afskrifað þessa ríkisstjórn endanlega. Samt ósáttur við mjög margt sem hún er að gera og lætur ógert.
Ég sagði ykkur um daginn frá hinni dularfullu hljómkviðu sem reyndist vera eitt laganna í júróvisjón söngvakeppninni. Fyrir nokkrum dögum gerðist svipað nema að það er varla hægt að segja frá því kinnroðalaust. Ég sat í makindum í stól mínum í stofunni. Gott veður og svaladyrnar galopnar. Þá heyri ég alltíeinu hljóð. Stundum kallað svefnherbergishljóð. Þetta var einhverntímann um kvöldmatarleytið og mér fannst þetta dularfullt.Voru þetta grannar mínir að drekka eitthvað annað en malt? En fljótlega komst ég að raun um að þetta var inní íbúðinni. Einhver skötuhjú að fremja dodo einhversstaðar og hljóðvörpuðu athöfninni í tölvuna mína. Þessi verknaður hefur verið vellukkaður því miklar voru stunurnar. Ég slökkti áður en leiknum lauk og hef það nú sem reglu ef ég vil ekki hafa hljóðið á tölvunni.
Kimi dormar nú með hausinn út um gluggann. Nú verður notalegt að skríða uppí aftur, lesa nokkrar blaðsíður og dorma svo í klukkutíma. Pappírsvinna framundan. Við vinirnir sendum ykkur öllum bestu kveðjur úr morgunkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online