Sunday, April 24, 2005

 

Blíða.

Dásamleg blíða úti.Örfáir smáskaflar eftir í fjallinu mínu til norðurs. Kennt við Ingólf Arnarbur, íturhreinan í lundu. Buinn að greiða Þorgils ehf Volaleyfin 9. og 10. júní. Raikonen á ráspól á eftir en þýski skósmiðurinn í 14. sæti. Indælt.Framtölum að ljúka og veiði að hefjast. Líka indælt. Þó skemmir það fyrir lífsgleðinni að sitja uppi með þessa landsfeður sem við höfum haft yfir okkur svo lengi sem elstu menn muna. Og ég sem hélt að Íslendingar væru gáfuð þjóð. Vitkast vonandi fyrir næstu þingkosningar. En það hefur verið sagt að hver þjóð verðskuldi þá herra sem hún kýs yfir sig. Ég er orðinn svo leiður á þessum höfðingum að það jaðrar við grænar bólur ef ég heyri á þá minnst.Datt í hug staka rétt í þessu.

Annar er hundur, hinn er svín
höfðingjarnir okkar.
Dóri geltir, Davíð hrín
drullu- fjandans sokkar.

Fari þeir í rass og rófu. Hættulegir geðprýðinni hjá almennilegu fólki. Lýk þessu hér því ég bókstaflega verð ég að skreppa út í veðrið góða. Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 21, 2005

 

Sumarið.

Gleðilegt sumar góða fólk. Líklega er þessa yndislegi árstími að verða staðreynd. Birtan að ná völdum og ylurinn að þoka kuldanum burt.Dásemdirnar allar á næstu grösum. Fór í afmæli lyfjafræðingsins í gærkvöldi. Hálfurfjórði áratugur liðinn síðan frú Hatseput ól hann með þrautum meðan undirritaðaur slappaði af og fékk sér smávegis í ranann. En svona er kynjaskiptingin. Tómur skepnuskapur. Þórbergur lenti reyndar í því að verða óléttur en hann var svo heppinn að fóstrið gufaði upp áður en þrautirnar hófust. Leið þó mikla sálarangist. Þegar mikið liggur við hjá mér og ég þarf að ná skjótum árangri við erindi mín dettur mér Þórbergur stundum í hug. Ég geri mig " heiðarlegan í andlitinu " og það ber oftast góðan árangur. Það má margt læra af meistaranum.Ég er nú á leið útí Hveragerði. Boðið þar til snæðings hjá frænda mínum, Pjetri Hafstein Lárussyni. Menningarlega sinnaður. Yrkir, þýðir og semur smásögur. Ég telst nú ekki frændrækinn maður. En auðvitað þigg ég góð boð. Ekki svo margt um að vera hér í fásinninu hvort eða er. Og undrin upphófust heldur betur í gær. Veflyklar þeirra Lögmannssundsbúa komust loks á réttan stað. Verður því vonandi hægt að gjalda keisaranum það sem hans er.Kom við í Hjallaseli á leið í afmælið í gær. Kaffi og indælt spjall við hitt afmælisbarnið. Þ.e. verðandi tengdamóður skáldsins míns. Sem sagt gott. Hösmagi, óhemjuhress á nýbyrjuðu sumri.

Sunday, April 17, 2005

 

Það andar af suðri.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum. Mér komu þessar upphafslínur úr kvæði í hug í morgun. Vorið er á leiðinni.Skárri í dag eftir einhverja andskotans luðru. Kom hríðskjálfandi úr vinnunni á föstudaginn, fór í lopapeysu, undir dúnsængina og hélt áfram að skjálfa. Kannski eftirhreytur frá þeima arma skálki, Rumsfeld. Held ég hafi sigrast á þessu og það án day nurse og skáldsins míns. Sem sagt allt í nokkuð góðum gír. Langt komin með að ljúka við framtölin. Öllu skal lokið fyrir mánaðamót. Og þá taka við endalausir leikir. Vinnan truflar þá að vísu en lítið við því að gera. Nú eru rúmir 2 mánuðir í þann eðla fisk, laxinn, en silungarnir eru líka fiskar. Ég sagði í síðasta bloggi frá hálendisfiðringnum. Það sló nú á hann aftur enda var hér linnulaust slagveður í allan gærdag. Líklega bíða Laugarnar enn um sinn. Aurbleyta og snjór enn á þeim slóðum. Kannski bíð ég líka eftir skáldinu. Dómadalsvatn, Ljótipollur og Frostastaðavatn í leiðinni inneftir. Og jafnvel mætti athuga Kirkjufellsvatnið. Man vel eftir þegar skáldið veiddi fyrsta fiskinn þar. Var afar smár og faðirinn sleppti honum í vatnið aftur. Þá varð skáldið skyndilega dapurt. Þetta var þess fiskur og það var nú ekki góður pabbi sem hagaði sér svona. En eins og jafnan áður og jafnan síðar urðum við vinir á ný. Skáldið veiddi sem sé þó nokkra fiska til viðbótar. Fátt er fegurra á Íslandi en líparítið í Landmannalaugum. Einkum eftir rigningu og sólin fer að skína. Svona álíka og sólarupprásin í Veiðivötnum á fallegum sumardegi.Það er blátt áfram unaðslegt að eiga þetta allt í vændum í sumar. Hösmagi er með hugann við þessar dásemdir nú á sunnudagsmorgni. Bestu kveðjur í allar áttir, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 14, 2005

 

Fiðringur.

Fiðringur í sálinni. Fjallafiðringur. Held að það sé alls ekki grái fiðringurinn. Eftir kaldar nætur að undanförnu virðist vera að hlýna verulega. Og líklega sæmilega þurrt á laugardaginn. Dreplangar til fjalla. Rétt að kanna með færi í Landmannalaugar. Efast reyndar um að í það sé leggjandi strax. Enn stundum kemur þessi þrá til fjalla alveg óforvarindis. Birtan eykst með hverjum deginum og þá fer hálendið að toga. Það er reyndar komin upp sú staða að undirritaður verður að semja við Hösmaga um afnot af hinu eðla farartæki firmans. Samningaviðræður verða þó ekki torveldar, að ég held. Ég er eins og allir þekkja alltaf jafn ljúfur. Fæddur diplómat og geðprúður í betra lagi. Fer vel að Hösa og hann bráðnar um leið. Hið besta mál. Læt deginum í dag og morgundeginum nægja þjáningar sínar og laugardagurinn mun verða dásamlegur, hvað sem gerast kann. Sem sagt: Bjartsýni, vongleði og lífsgleði. Bið að heilsa í bili,S

Friday, April 08, 2005

 

Hösmagi staðinn upp af koppnum.

Jæja. Loksins er Hösmagi ehf. orðin staðreynd. Eins og þið vitið öll erum við ekkert ef við höfum ekki kennitölu. Bara 0 og ekki til í neinu kerfi. Enginn er til fyrr en hann hefur fengið þessa 10 talna runu. Ýmist með eða án bandstriks. Ef eitthvað er ofnotað og misnotað í þessu þjóðfélagi þá er það kennitalan. Ef þú þarft að leysa vind á almannafæri er vissara að tilkynna kennitöluna áður. Því hvað er viðrekstur án kennitölu? Nákvæmlega ekkert. Svona er þetta bara. Held að persónuvernd ætti að taka þessa grafalvarlegu staðreynd til rækilegrar athugunar. En svona að öllu gamni slepptu er þetta bara hið besta mál. Nú kemur nýtt vasknúmer, veflykill til vefrænna skila á þessum afarlágu sköttum sem Doktor Hösmaga ehf þóknast að greiða til samneyslunnar og fleira og fl. Voða gaman að dunda við þetta. Og svo verður yndislegt að millifæra aurana í tíma og ótíma á milli reiknings Sigurðar Sveinssonar annarsvegar, og Hösmaga ehf. hinsvegar.Skapa þannig mikla veltu á reikningunum og gúddvill í bankanum. Einfalt og snjallt. Í morgun helltist föstudagurinn yfir. Búinn að fara austur á Hvolsvöll og ætla nú að bregða mér til snæðings. Dagurinn því fljótur að líða og indælt helgafrí framundan. Held áfram framleiðslu peninga heima í Ástjörn og læt mig svo dreyma inná milli. Um þann stóra í sumar og fleira. Kærar kveðjur að sinni.

Hösmagi ehf.
Kt. 480405-0210

Sunday, April 03, 2005

 

Blessaður páfinn.

Komiði sæl. Páfinn genginn á vit feðra sinna. Líklega nokkuð góður kall.Fyrsti páfi í 400 ár sem ekki var Ítali. Og nú hefjast seremóníurnar.Kardínálarnir lokaðir inni þar til nýr páfi hefur verið fundinn. Og fólkið fylgist með reyknum sem stígur upp um stromp kapellunnar. Þeir kjósa og kjósa. Meðan ekki fæst niðurstaða er reykurinn dökkur. Dökkur af bruna stráanna sem þá eru brennd með atkvæðaseðlunum. En þegar björninn vinnst liðast ljós reykurinn af pappírnum einum upp í loftið. Vonum bara allra vegna að þeir finni þann eina rétta.
Svolítið bakslag hjá blessuðu vorinu hér. Kuldaskítur fram eftir nýbyrjaðri viku.Það lagast vonandi brátt. Fyrsti dagurinn í langan tíma sem vinur minn í næstu íbúð hefur ekki litið inn. Þessi með skottið loðna. Orðinn nokkuð tíður gestur hjá mér og aufúsugestur. Langt síðan ég hef heyrt malað með álíka krafti. Fyllist stundum smáöfund yfir að búa ekki yfir þessum skemmtilega hæfileika. Annars er ég bara nokkuð ánægður með tilveruna. Klukkan orðin 9 og dágóð skíma. Stutt í hinar albjörtu nætur. Líklega eru þessar björtu nætur það besta við landið okkar. Sannarlega tilhlökkunarefni. Sá nýtt blogg frá hálfkaþólsku frúnni. Óska henni til hamingju. En það heyrist lítið frá golfaranum. Stendur vonandi til bóta.Þar sem andleysið er að ná yfirtökunum og lífsspekin stendur kolföst einhversstaðar í heilasellunum kveður Hösmagi að sinni. Bestu kveðjur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online