Monday, November 28, 2005

 

Morgunkorn.

Klukkan er bara rúmlega 4. Samt er kominn morgunn hjá okkur Raikonen. Og kornið hans orðið að morgunkorni. Kvöldkorn í gærkvöldi og næturkorn eftir miðnætti. Virðist þrífast nokkuð vel af þessum þurrmat. Fær nú ýsu og skyr svona annað slagið. Og undirritaður heldur svona nokkurnveginn holdum líka. Kannski ætti ég bara að drífa mig í líkamsrækt og fara að safna vöðvum. Líklega þó of latur til þess. Fæ nú líka heilmikla hreyfingu á morgungöngunni. Örugglega hollasta og besta hreyfingin. Kannast við nokkra skokkara hér á staðnum sem eiga það sameiginlegt að vera búnir að hlaupa sig hálfvitlausa. Misvitlausa reyndar. Endorfínið segir til sín og þeir svífa í draumum sínum. Telja sig fullkomna og vitra. Verði þeim að góðu.

Kvefskrattinn er að plaga mig ennþá. Engiferrótin og hvítlaukurinn virðast koma að litlu haldi. Sit nú reyndar á mér við hvítlaukinn. Gengur bara ekki í vinnunni. Nógu rólegt fyrir. Það er reyndar verið að mála kjallarann og lakklyktin fyllir húsið. Óþverraþefur mikill og varla hollur.

Og svo dreymdi mig í nótt. Og ég varð alveg óskaplega feginn að vakna. Ég var sem sagt búinn að gifta mig. Shit. Botnaði bara ekkert í sjálfum mér. Rugl draumanna á sér engin takmörk. En allt er gott sem endar vel.

Af hverju stendur kötturinn kyrr?
Það kvelur hann líklega efinn.
Og það er ´ann Hösmagi heitur sem fyrr
sem hamrar nú snilldin´á vefinn.

Bestu kveðjur úr myrkrinu, ykkar Hösmagi.

Friday, November 25, 2005

 

Opinberun Hannesar.

Ef ég man rétt var gerð kvikmynd með þessu nafni eftir einhverri sögu sem yfirnagarinn í seðlabankanum setti saman einhverntíma. Í kastljósi sjónvarpsins í gjarkvöld kom svo ný útgáfa af opinberun Hannesar. Hannesar prófessors. Besti vinur frelsisins hefur talað. Útskýrði nákvæmlega fyrir lýðnum hvað felst í því að segja sannleikann. Einkanlega um Jón Ólafsson. Hannes hefur hlotið dóm fyrir meiðyrði um Jón. Fullyrti að Jón hefði stundað dópsölu og þannig komið undir sig fótunum í bisness sínum. Ég neyddi sjálfan mig til að hlusta á viðtalið til enda. Nauð mín felst í því að mér verður alltaf flökurt ef ég sé eða heyri þennan mann. Manninn sem skyldi ekki spurninguna um hvort hann hefði enga siðferðiskennd. Nú er það svo að lífseigar kjaftasögur um dópsölu Jóns Ólafssonar lifa enn góðu lífi. Enda voða þægilegt fyrir vissan hóp manna að trúa þeim. Staðreyndin er þó sú að ekkert hefur sannast á hann í þessum efnum. Jafnvel Hannes Hólmsteinn verður að viðurkenna það. Samt sem áður telur hann sig segja sannleikann með því að fullyrða að Jón hafi efnast á dópsölu. Og hvernig má það nú vera? Jú, þessi orð voru sönn í því samhengi sem þau voru sögð. Haugalýgi getur sem sagt orðið sannleikur ef lygin er sögð í réttu samhengi. Og hvert var svo samhengið? Kjaftasögur gulu pressunnar fyrir 10 árum. Hvorki meira né minna. Eru þetta fræðin sem þessi maður er að kenna uppí háskóla? Fræðin um að það megi ljúga að vild sinni ef tilgangurinn helgi meðalið? Krossförum frelsisins er allt leyfilegt. Þegar lögin um fjármagnstekjuskatt voru sett að undirlagi yfirnagarans og skoðanabræðra hans, var ákveðinn þjóðfélagshópur hafður í huga. En svo fóru bara andstæðingar sjálfstæðisflokksins að notfæra sér þetta líka. Fóru bara að lifa í vellystingum praktuglega og borga vinnukonuútsvar. Helvítis dólgarnir. Hljóta að vera stórtækustu skattsvikarar íslandssögunnar. Ekki dettur mér í hug að Jón Ólafsson væri í þessari stöðu ef hann hefði látið eitthvað af sviknu skattpeningunum og ágóðanum af dópsölunni renna í flokkssjóði sjálfstæðisflokksins. Dettur yfirleitt nokkrum það í hug? Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði hér einu sinni um þá Hannes og Rumsfeld. Fari þeir bara í fúlan rass.

Yndislegt helgarfrí byrjað. Dásemdarlogn úti. Skáldið komið heim. Farinn að kynna Gleðileikinn og hugsa um fiska. Þarf örugglega ekki að leggja hart að föður sínum ef færi gefst til stangveiði.Horfir nú ekki illa í þeim efnum. Guð mun að vísu ráða hvar við dönsum næstu jól. En eins og Jón Grindvíkingur sagði gjarnan: Sem sagt gott. Ykkar einlægur, Hösmagi, með smá velgju eftir fyrri hluta pistilsins.

Thursday, November 24, 2005

 

Aumingi með hor.

Það voru vond skammaryrði í gamla daga að vera kallaður aumingi með hor. Hafði þó ekkert með kvef að gera. Þetta er þó lýsandi ástand á undirrituðum þessa stundina. Var ekki fyrr laus við pestina en kvefið tók að herja á mig. Er þó vel vinnufær en mikið andskoti er þetta samt hvimleitt. Símatæknirinn á Bakka ráðleggur engiferrót og hvítlauk. Er að hugsa um að leggjast í hvítlaukinn eftir vinnu í dag. Það verður þá bara Raikonen einn sem þarf að þola andardráttinn. Hann liggur reyndar hér utan í handleggnum á mér. Lygnir aftur glyrnum sínum og sýnist líða afar vel. Stálhraustur og ekki aumingi með hor.

Hér er nú stilla og svolítið frost. Spáir aftur þíðu eftir helgi. Nóvember að verða lokið og þá er stutt í nýja árið.Vona að það verði ekki síðra veiðiár en 2005. Og það er hægt að rjúfa þessa 9 mánaða meðgöngu með Tangavatnsferð ef veður verður hagstætt. Hyggst fara með 3 stórurriða og 4 laxa í reykhúsið á eftir. Nokkur ættmenni og vinir njóta svo er nær dregur jólum. Heldur dýrari þessi jólakort mín en örugglega miklu vinsælli. Líka gott að geta étið þau með jólabrauðinu. Það er að verða jólalegt umhverfið hér. Brúin í ljósaskrúða og Gleðileikurinn djöfullegi kominn í Nóatún. Hef nú ekki séð dóma um þetta stóra kver enn. Bíð bara spenntur eftir umsögn menningarvitanna. Annars virðist öll bókmenntaumræðan snúast um glæpasögurnar. Annar hver maður farinn að skrifa krimma. Ekkert farinn að lesa af þessu ennþá, enda á kafi í upprifjun um Ofvitann mikla. Elskuna hans og Millilandafrumvarpið. Góðu íslendingana annarsvegar og dönsku íslendingana hinsvegar. Hefði örugglega verið í flokki með meistaranum. Dáðst að Magnúsi Arnbjarnarsyni lögspekingi og sungið níðvísur um dani. Finnst þó vænt um þessa þjóð. Kynnst nokkuð mörgum dönum sem undantekningarlaust er skemmtilegt sómafólk. Hrifnari af þeim en svíunum að ég nú ekki tali um þetta lið í Noregi sem alltaf er kallað frændur vorir. Vona að ég sé ekkert skyldur þeim. Enda handviss um að ég er af írsku konungakyni. Kannski verið írskur munkur í fyrra lífi? Sendi ykkur góðar helgarkveðjur, ykkar Hösmagi með minniháttar lekanda.

Tuesday, November 22, 2005

 

Köttur útí mýri.

Verulegur hluti af starfi mínu á fasteignasölunni er að skoða eignir. Eignir sem okkur er falið að selja eða bara að verðmeta þær. Það hefur komið mér á óvart hvað það er algengt að köttur sé á heimilinu. Líklega vita flestir sem hafa rýnt í bloggið mitt að mér er ekki mjög illa við þessa dýrategund. Þessi dýr eru lík mönnunum að því leyti að þau eru líklega jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum eru mjög hofmóðug. Halda að þau séu miðja alheimsins. Aðalnúmerið á heimilinu a.m.k. Ég hitti eina kattarafmán í gær. Og þessi afmán sá strax að þarna var vera sem vert væri að athuga nánar. Dýrið skynjaði þelið frá þessari veru. Ég hafði vart frið til að ljúka verkum mínum í þessu húsi. Taka myndir og skrá niður það sem ég þurfti. Við kötturinn urðum sem sé perluvinir um leið og ég kom innúr dyrunum. Nuddaði sér utan í lappirnar á mér, sleikti hendur mínar og malaði hátt.Gæti verið einhverskonar andlegur skyldleiki. Veiðieðli í báðum. Mér finnst þetta skemmtilegt. Miklu skemmtilegra að skoða svona hús en þau kattlausu. Sumir skilja þetta reyndar alls ekki. Hata þessi kvikindi eins og pestina sjálfa. Ég læt mig það litlu varða. Held bara áfram að láta mér lika vel við við þessar loðnu og yfirleitt ljúfu verur.

Enn er hitinn vel yfir frostmarkinu. Snjórinn farinn og klakinn sömuleiðis. Og sumir væla yfir þessu. Finnst myrkrið svart og heimta hvíta jörð. En snjórinn er bara til óþurftar. Kostar mikla fjármuni og veldur mörgum slysum. Minningin um hundslappadrífu á aðfangadagskvöld lifir samt ennþá. En mér líður afskaplega vel á rauðum jólum.

Ég er að láta mig dreyma þessa dimmu daga. Dreyma um veiðiferð til Rússlands á næsta sumri.Veiða í heila viku í Acta ánni. Hún er bókstaflega full af laxi. Og þeir ku vera stórir þarna. Ætla að spekúlera í þessu. Flogið til Helsinki og þaðan til Rússíá. Allt innifalið, matur, gisting, veiði og leiðsögn. Þetta kostar innan við 200 þúsund. Svona álíka og mánaðarfyllerí. Hvað er það milli vina? Skítur á priki. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi, hugsandi um ógurlega stóra laxfiska.

Sunday, November 20, 2005

 

Gúrka.

Virðist vera gúrkutíð hjá bloggurum þessa dagana. Kannski bara gott. Engar fréttir eru góðar fréttir. Allavega ekki mjög slæmar. Held að þau Ingunn Anna og Egill hafi skemmt sér þokkalega í leikhúsinu í gær. Og undirritaður reyndar einnig. Syrpa úr verkum H.C. Andersens. Næturgalinn, Eldfærin, Litla stúlkan með eldspýturnar, Hans klaufi, Svínahirðirinn og fleira. Það var lymskuleg færð á leiðinni austur. Slydda og hitinn við frostmark. Mætti löggu og sjúkrabíl í Ölfusinu. Sá á vefnum að jeppi hafði oltið í Kömbunum. Það hefur sennilega ekki verið nokkur vandi fyrir bílstjórann. En það hefði líka verið enn minni vandi að láta þetta ógert. Auðvitað lítur svona dræver ekki í eigin barm. Allt hálkunni að kenna. Þegar svona veður er gilda gömlu, góðu reglurnar hans Óla Ket. Nr. 1. Aka hægt. 2. Aka hægt og 3ja reglan alveg eins. Og svo er ég á svo fínum og dýrum vagni að ég hef einfaldlega ekki efni á að velta honum. Guð gefi bílnum góðan dag í Kömbum.

Nú lifir aðeins 41 dagur af árinu 2005. Bara mánuður í að birta taki á ný. Og meðan veðrið helst svona tekur maður hverjum degi með fögnuði. Hitti Tangavatnshjónin í vikunni. Boðaði komu mína í desember ef vel viðraði. Jafnvel við annan mann. Myndi stytta biðina í vorið og dásemdirnar sem því fylgja. Stundum kenna börnin okkur einföld sannindi. Ég var oft að lýsa því yfir að ég vildi hafa nóttlausa voraldar veröld allt árið. Eilífa Jónsmessu. En skáldið sagði mér að þá gæti ég ekki hlakkað til vorsins lengur. Þetta er auðvitað alveg rétt. Enda verðum við öll að una þessu.

Fremur rólegt í starfinu þess dagana. Þó var síðasta vika fljót að líða. Er að vona að ég sé endanlega laus við pestarskrattann eftir pilluátið. Ég er sem sagt hættur á pillunni. Gerir ekkert til því ég er svo skelfilega stilltur. Svona akkúrat eins og er. Held nú samt að skjortejegerinn sé nú ekki alveg útdauður. En það getur auðvitað verið erfitt að sitja endalaust á strák sínum. Bestu kveðja, ykkar Hösmagi, hrosshraustur.

Wednesday, November 16, 2005

 

Enn af miðjumoði.

Sonur minn yngri commenteraði á bloggið mitt um miðjumoðið. Sagði að verstu glæpaverkin væru unnin af öfgasinnuðum stjórnmálamönnum. Margt rétt í því. Þegar ég hef verið að tala um miðjumoðið í íslenskum stjórnmálum hefur mér orðið tíðrætt um samfylkinguna og framsóknarflokkinn. Samfylkinguna sem hefur enga stefnu nema að komast að kjötkötlunum. Það er ákaflega varasamt að gagnálykta. T.d. um það að þeir sem ekki eru á miðjunni séu öfgasinnaðir. Það er auðvitað alveg fráleitt. Þetta eru rök ýmissa stjórnmálamanna. Halldór Ásgrímsson talar t.d. um að VG sé á móti öllu. Svona talar bara rökþrota fólk. VG er afgreidd með íslenskri sveitarómantík. Gamaldags þjóðernissósíalisma og eitthverju þaðanaf verra. Auðvitað er þetta ekki þannig. Og sem betur fer eru fleiri og fleiri að vitkast. Samfylkingin, þessi arftaki krata og stofukommanna í alþýðubandalaginu sáluga, þetta stefnulausa rekald, þessi gjörsamlega hugsjónalausa hjörð, mun aldrei vinna nein stór afrek í íslenskri pólítík. Kratarnir hafa t.d. alltaf stjórnað Tryggingastofnun ríkisins. Núverandi forstjóri gamall þingmaður krata, forveri hans einnig og forveri hans líka. Sitja við ketilinn og útdeila til gamla liðsins og öryrkjanna. Þeir eiga sér svo ágæta bandamenn. Pétur Blöndal t.d. Hefur enda sjálfur lýst því yfir að enginn vandi sé að lifa af 80.000 á mánuði. Og verði elli- og örorkulífeyrir hækkaður kaupi gamla liðið bara meira brennivín fyrir aurana. Ég hef ekki neina trú á að ástandið myndi skána þó samfylkingin kæmist til valda. Ég er á hinn bóginn sannfærður um að breytingar yrðu hinum tekjuminni í hag, ef Ögmundur Jónasson yrði heilbirgðisráðherra. En það eru auðvitað til öfgamenn í öllum flokkum. Líka VG. Jafnvel í moðinu á miðjunni. Líkast til nóg komið af pólitík í bili. Ég ætla að vona að enginn geti nokkurntíman kallað mig miðsækinn félagshyggjumann með réttu.

Í dag stendur til að tendra jólaljósin á Selfossi. Mér hefur nú fundist þetta nokkuð snemmt. En ég sætti mig þó vel við það. Lýsir upp þetta mikla myrkur skammdegisins á Íslandi. Bíð samt sjálfur fram í desember. Leikhúsferð á Klaufa og Kóngsdætur á sunnudaginn. Með Ingunni Önnu og Agli sterka. Raikonen gætir hússins á meðan. Spáð góðu vetrarveðri eftir frost og norðannæðing að undanförnu. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, November 15, 2005

 

Stærðfræðin.

Í fyrradag lagði undirritaður leið sína á heilsugæslustöðina. Eftir að hafa reitt fram 1.750 kr. fékk ég svo að bíða í 75 mínútur eftir viðtali við doktor. Greindi honum frá markvissum árásum pestarsýkilsins sem ég var að segja frá um daginn. Fékk ávísun á sýklalyfið Citromax. Þrjár töflur sem étast skyldu á þrem dögum. Ein í gær, önnur í dag og sú þriðja á morgun. Fór í Lyf og heilsu í gærmorgun og sótti lyfið. Kaupverð: 2.671 kr. Labbaði nokkuð drjúgur út og að skrifborði mínu á Bakka. Töflurnar voru í litlum, smekklegum pappakassa. Poki þar utanum. Varúðarmerktur og með sundurliðun á verði innihaldsins. Heildarverð: kr. 2.670. Hluti trygginga: kr. 0 Hluti sjúklings: kr. 2.670 Afsláttur 0,0% kr. 1 Til greiðslu: kr. 2.671 Einhvernveginn fannst mér að afsláttur ætti að lækka verðið. En úr því hann var sagður 0,0% átti hann líklega að vera kr. 0. Enginn, ekkert, ekki einu sinni pínku pons. En afslátturinn samkvæmt þessum útreikningi lyfjamafíunnar var mínus ein króna fyrir mig og því plús ein króna fyrir mafíuna. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir ofsagróðanum. Gerir ekki margt smátt lítið eitt? Líklega er þetta bara bútur af þessum órannsakaða vegi almættisins. Eða hin nýja leið einkaframtaksins til að reikna út afslátt í viðskiptum. Það endar með því að taka verður fram að afslátttar sé alls ekki óskað.Vona að þetta lyf virki.Þó taflan kosti 1.463,66 kr. með afslætti er það auðvitað ekkert ef hún virkar. Og ef ég hefði beðið á taxta lögmanna hefði þetta kostað miklu meira. En ég sökkti mér bara niður í biðstofubókmenntirnar á meðan. Svona ársgömul eintök af Séð og heyrt, Vikunni og Heilbrigðismálum. Unaðsleg og uppbyggjandi lesning fyrir alla. Miklu betra en að dúsa fangageymslur eins og það heitir á Rúv.is

Norðanáttin gengin niður. Kyrrt og dimmt og djúpt. Segi eins og dr. Gúdman Singman: Ungi maður, sem ert að leggja á Djúpið. Legg þú á Djúpið. Ykkar Hösmagi, hugsandi um hinar nýju víddir stærðfræðinnar.

Sunday, November 13, 2005

 

131105.

Sunnudagur og rigning. Gott veður á þessum árstíma.Snjórinn er á hröðu undanhaldi. Undirritaður vaknaði óvenjuseint í morgun. Klukkan að verða 6. Raikonen bara nokkuð spakur í nótt. Hóf daginn að venju með kaffidrykkju. Og lagði síðan land undir fót í rigningunni. Þetta varð eiginlega listdans á gúmmístígvélum. Einkum spennandi að labba á blautum klakanum. Datt í hug gömul sannindi úr barnaskóla. Maður færir annan fótinn fram fyrir hinn til að verjast falli. Ég hafði nú ósjálfrátt alltaf fært fótinn fram til að komast áfram. Svo er auðvitað hægt að labba afturábak. Annað hvort aftur á bak, ellegar nokkuð á leið.... Ég lét mig nú hafa það að dragnast til vinnu á föstudaginn. Gekk nú svona nokkuð vel bara. Pestin á undanhaldi og heilsan bara góð í dag. Dreif mig niður á strönd í gær svona til að þefa aðeins af sjónum. Ók fram hjá Litla-Hrauni, eða Letigarðinum eins og þessi staður var nú lengst af kallaður. Hugsaði með mér, að andskoti væri nú gott að þurfa ekki að vera lokaður þarna inni. Varð hugsað til þess þegar ég var fangelsaður fyrir 14 árum. Að sumu leyti varð það nú svolítð skemmtilegt. Ég var handtekinn, grunaður um lögbrot. " Valdstjórnin" lætur ekki að sér hæða. Og þegar ég vildi ekki meðganga glæpinn var mér stungið í svartholið. Og svona til öryggis var greiðan tekin af mér og einnig beltið. Aldeilis afleitt ef glæponinum tækist að hengja sig áður en hann játaði. Eða að hálfsarga af sér hausinn með greiðunni. Einhvernveginn leið nóttin. Og löggan taldi víst að nú myndi þrjóturinn játa allt. En hann var jafnvel enn forhertari en kvöldið áður. Harðneitaði áfram að hafa brotið lögin. Og þeim hafði stundum tekist að fá skálka til að játa með því að hóta þeim innilokun uns þeir játuðu og iðruðust. Stungu mér inn aftur. En ég krafðist þess að vera leiddur fyrir dómara. Og kauðar vissu að ég hafði verið að vasast í lögfræði. Dómarinn kom og ég heimtaði frelsi mitt. Og fljótlega eftir hádegi sigraði réttlætið, aldrei þessu vant. Lögmaðurinn var leystur úr prísund sinni. Og mér þótti svolitið skondið að einn þessara laganna varða tók jafnan á sig krók næstu mánuði ef hann sá þessum grunaða glæpamanni bregða fyrir. Faldi sig bak við hillur í Vöruhúsinu og snarsnéri sér við í dyrum. Ég lét mér vel líka. Svo liðu árin og í fyrra keypti ég mína ágætu íbúð af þessum sama laganna verði. Vorum löngu sáttir. Og eftir afsalið kyssti ég konuna hans á kinnina. Hann brosti út að eyrum. Ég lét nú nægja að taka í höndina á honum.Og kannski var það bara hollt fyrir lögmann að fá að kynnst reynsluheimi glæpamannsins af eigin raun. Betur til þess fallinn að vera í sporum verjandans. Svona getur nú tilveran verð fjölbreytt, krúttin mín, ykkar Hösmagi, enn með ritræpu.

Friday, November 11, 2005

 

Miðjumoðið.

Undirritaður var að lesa grein eftir Sigga sænska á Sellunni. Ég get ekki betur séð en þessi skrif séu fúlasta alvara. Framsókn og Samfylkingin í eina sæng. Hin miðsæknu félagshyggjuöfl. Og hvað er nú það? Fátt er ömurlegra í pólitík en að vera miðsækinn. Endurspeglar einungis hugsjóna- og afstöðuleysi í pólitíkinni. Bara að geta verið við katlana og veitt upp úr þeim. Og Björn Ingi orðinn einn efnilegasti stjórnmálamaður landsins. Þessi brynvarða senditík Halldórs Ásgrímssonar. Þess hins sama og hélt ræðuna í gærkvöldi. Ræðuna um vanþakklæti þjóðarinnar gagnvart framsókn. Flokknum sem gaf útvöldum símann og báða ríkisbankana. Þetta fyrirbæri sem kallast forsætisráðherra opinberaði í gærkvöldi hvað hann er í raun og veru. Einfaldlega nátttröll í íslenskum stjórnmálum. Hann lýsti því yfir að framsókn ætlaði ekki að "neyða bandaríkjamenn" til að vera hér ef þeir vildu það ekki. Ég hef reyndar aldrei skilið veru Halldórs í framsóknarflokknum. Kannski er hann á réttum stað miðað við hvernig flokkurinn er orðinn eftir allt samstarfið með íhaldinu. Samvinnuhugsjónirnar löngu fyrir bí og ómenguð hægri stefnan ein eftir. Það er óravegur frá því að Halldór skilji einfalda hluti. Kanarnir hafa aldrei verið á Íslandi í þágu íslendinga. Þeir hafa verið hér í eigin þágu en ekki okkar. Nú þjónar það tilgangi þeirra ekki lengur. Vantar mannskap í góðverkin í Írak. Og aumingja við verðum varnarlausir og berstrípaðir eftir. En það gerir auðvitað ekkert til. Hin nýja breiðfylking hinna miðsæknu félagshygguafla mun vernda okkur. Fram, fram hin nýja breiðfylking, hallelúja, ykkar Hösmagi.

Thursday, November 10, 2005

 

Eymd og volæði.

Undirritaður neyddist til að yfirgefa vinnustað sinn á hádegi í gær. Hríðskalf í úlpunni við skrifborðið. Fór heim, í góða peysu og beint undir sængina.Finnst þetta bara ekki sanngjarnt. Aftur og nýbúinn eins og sagt er. Skárri í dag þó ég reikni tæpast með að komast til vinnu á morgun. Þegar ég fékk heimsvaldaflensuna hjá Helgu og skáldinu mínu í fyrra voru liðin 15 flensulaus ár.Þeir Bush og Rumsfeld eru að sjálfsögðu undir grun. Og útsendarar þeirra á hverju strái. En maður þraukar. Ekkert annað dugir. Er búinn að sofa mikið og líkaminn er nú besti læknirinn. Hefði þó sannarlega fengið mér day nurse ef það væri tiltækt. Þröstur vinnufélagi minn fékk álíka skratta í sig um daginn. Pabbi hans fór í biðröð á sjúkrahúsinu til að fá flensulyf.Eftir að hafa reitt fram 800 krónur. Þegar kom að honum eftir dúk og disk og hann bar upp erindið brást læknirinn ókvæða við. Sjúklingurinn gæti bara komið sjálfur. Faðirinn tjáði lækninum að hann væri ekki ferðafær. Nú, þá er bara að fá sjúkrabíl. Faðirinn gafst upp, fleygði bleðlinum í lækninn og kvaddi með ófögrum kveðjum. Tókst svo að útvega flensulyf eftir krókaleiðum. Þetta er nú hið frábæra heilbrigðiskerfi okkar í hnotskurn.

Sem ég sit hér sé ég tvö eyru í baðvaskinum. Það er það sem nú sést af herra Raikonen. Búinn að sofa þarna í 3 klukkutíma. Hleypti honum út í nótt kl 4. Nokkru síðar upphófst mikill kattakonsert í stofunni. Svo leið tíminn og konsertinum lauk. Dýrið skreið uppí rúm til fóstra síns og við héldum áfram að sofa. Ekkert er nú dásamlegra en svefninn þegar Lasarus er í heimsókn.Fæ mér sopa af kóki annað slagið. Engin löngun í aðra næringu. Og svona í lokin. Mikið djöfull er nú eldri sonurinn útsmoginn. Hroðaleg pyntingaraðferð sem hann hefur upphugsað. Bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi á leið undir sængina aftur.

Sunday, November 06, 2005

 

Hinir staðföstu.

Eftir innrásina í Írak ákváðu þeir Davíð og Halldór að íslendingar skyldu vera í hópi "hinna staðföstu þjóða" Standa og falla með glæpagengi Bush og Rumsfeld. Fyrsta verk þeirra félaga var að koma upp herfangelsum í Írak. Og þeir voru ekki í vandræðum með fangaverði. Þeir sendu þangað menn sem höfðu verið reknir úr starfi í bandarískum fangelsum fyrir grimmd. Úrþvætti þjóðfélagsins voru alveg upplögð til þeirra starfa. Cheney varaforseti hefur nú útlistað fyrir fréttamönnum að ríkisstjórn bandaríkjanna verði að vera undanskilin alþjóðalögum um pyntingar á föngum. Bush og stjórn hans sé nauðsynlegt að beita grimmilegum, ómannúðlegum og niðurlægjandi aðferðum í heilögu stríði. Skyldu þeir Davíð og Halldór vera þessu sammála? Ég vona að svo sé ekki. Bandaríski herinn er nú talin hafa fangelsað 70.000 manns algjörlega fyrir utan lög og rétt. Nóg verkefni fyrir úrþvættin sem ekki var hægt að nota heima í Guðs eigin landi. Og Páll Baldvin Baldvinsson blaðamaður spyr hvort við íslendingar eigum ekki að stíga skrefið til fulls. Sanna staðfestu okkar með því að bjóða Rumsfeld og glæpagengi hans upp á aðstöðu upp á Velli fyrir pyntingastofnun. Þar sé næg aðstaða og samdráttur í öllu hermangi hvort eð er. Þetta sé framfaramál fyrir Hjálmar, Siv, Árna og Þorgerði. Til að sanna staðfestuna.
Hvenær skyldi renna upp ljós fyrir þessu fólki? Væri nú ekki ráð að opna augun. Segja okkur úr félagsskap þessara glæpamanna. Viðurkenna staðreyndir og breyta samkvæmt því. Kannski er það borin von.

Í dag er 7. nóvember. Afmælisdagur rússnesku byltingarinnar. Rússar eru reyndar nýbúnir að skipta um þjóðhátíðardag. Völdu 4. nóvember í staðinn. Svo eru þeir líka að hugsa um að jarða Lenín. Líklega kominn tími á það eftir rúmlega 80 ár. Heldur hefur mér nú fundist fáfengilegt að hafa þessa múmíu til sýnis og líst vel á að hún fái endanlega hvíld.

Þetta er hundraðasta bloggið mitt. Bráðum ár liðið frá fyrsta blogginu úr Lögmannasundi. Er örugglega kominn á skrá hjá CIA. Læt mér það í réttu rúmi liggja. Menn verða að þora að standa við skoðanir sínar og sannfæringu. Líklega hafa nú atburðir líðandi stundar mest áhrif á þessi skrif. Sá að ég var ansi iðinn við skrif um veiðiiðjuna í sumar. Einskonar dagbók í leiðinni. Nú er friðurinn úti. Skyrgámur mættur og lætur ófriðlega. Með kveðju úr vetrarblíðunni, ykkar Hösmagi.

Saturday, November 05, 2005

 

Sjálfumgleðin.

Kominn sunnudagur og rauðhausarnir í Ástjörn löngu komnir á stjá. Veðrið gott þó myrkrið sé svart. Horfði á skemmtiþátt í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hljómsveitin heitir hann og er eins og við Sverrir bílasali. Kom í stað þáttarins Leiðindakvöld með Gísla heilaskurðlækni. Yfirgengilega fáfengileg leiðindi að þeirri skemmtan. Þessi snillingur lenti í 3ja sæti í prófkjöri íhaldsins. Þó hann hafi tapað vann hann samt. Hélt þennan voða fína fund um daginn þar sem fundarmenn migu á sig hver um annan þveran yfir þessari sól sem skein svo glatt á þá. En úrslitin í prófkjörinu eru okkur vinstrimönnum vonbrigði. Nú geta menn kosið íhaldið óttalausir um að snillingurinn sjálfumglaði verði borgarstjóri í Reykjavík. Sjáum hvað setur.

Í þessum ágæta þætti hennar Möggu Stínu í gærkvöldi var Helgi Björnsson að syngja með ágætum kvintett. M.a. með nafna minn Flosason innanborðs. Og tónlistin ekki af verri endanum. Lögin hans Magnúsar Mannakorns. Mér er nú vel til Helga Björnssonar. En það getur verið tvíbent að troða slóðir snillinganna. Ég held að öll lögin sem Helgi söng í gærkvöldi séu á frábærum diski Mannakorns sem heitir Spilaðu lagið. Einkadóttir Hösmaga gaf honum þennan disk fyrir nokkrum árum. Og Helgi hefði átt að velja eitthvað annað til að syngja inná hljómdisk. Hann kemst ekki með tærnar þar sem Pálmi Gunnarsson er með hælana. Samanburðurinn stórskemmir fyrir Helga. Eini maðurinn sem hugsanlega hefði gert þetta jafnvel og Pálmi er löngu farinn héðan. Vilhjálmur Vilhjálmsson hefði örugglega notið sín í þessum lögum. Þarna er t.d. lagið Ég elska þig enn sem ég hef örugglega spilað miklu oftar en hin lögin á diskinum. Helgi reyndi sitt besta en útkoman var afar döpur. Svona hér um bil eins og færi að syngja Hamraborgina á eftir Kristjáni Jóhannssyni. En músikin stóð að sjálfsögðu fyrir sínu. Svo kom Spaugstofan. Og Dóri litli hefur ekki skemmt sér yfir henni í gærkvöldi. Aumingja Dóri. Pálmi Gestsson bara við sama heygarðshornið. Svona leikur vonska heimsins besta fólk.

Hafði mig nú ekki í Reykjavíkurför í gær. Leti og ómennska heimafyrir. Kannski bregð ég mér bara í dag. Sá að ég hafði 3 öftustu tölurnar í Lottójókernum réttar. Fæ kannski 10 þúsund kall?Betra en ekkert. Átvaglið mikla, kötturinn í næstu íbúð, er nú mættur. Aldeilis ótrúlegt hvað hann getur góflað í trýnið á sér. Um daginn biðu þeir tveir við dyrnar. Ruddust inn um leið og ég opnaði. Annar í þurrmatinn og hinn að ýsunni. Hvæstu á hvorn annan og gjóuðu lymskulegum glyrnum. Og Raikonen sat bara á rassgatinu og horfði í forundran á þetta. Þessar aðfarir og hljóðin voru ofar skilningi þessa siðfágaða dýrs.

Leggst nú aftur undir sængina. Með gleraugun og Ofvitann. Kannski ég sé líka ofviti? Njótið dagsins, elskurnar mínar, ykkar Hösmagi.

Friday, November 04, 2005

 

Andlegur horlekandi.

Forsætisráðherrann okkar, hann Dóri litli, er voða pirraður á Pálma Gestssyni. Segir að hann hafi aldrei talað við sig og þekki sig ekkert. Hann sé því alls ekki í neinni stöðu til að herma eftir sér. Verði að kynna sér viðfangsefnið. Ósköp geta nú forsætisráðherrar verið blankir í höfðinu stundum. En það er auðvitað alls ekki von að Halldór botni neitt í þessu. Telur líkast til að allir eigi að dæma sig eins og hann gerir sjálfur. Pálmi segist ekki skapa ímyndir. Það geri menn sjálfir. Og Halldór á bara að sætta sig við það og vera ekki að væla eins og auli þó honum mislíki. Skárra að þegja en opinbera hörundsærið fyrir alþjóða. Þórbergur Þórðarson hefði flokkað þetta undir andlegan horlekanda. Vona annars að þeir Dóri og Pálmi hafi það fínt um helgina. Steik að éta og koss frá fúnni. Sjálfur fæ ég hvorugt. Orðinn því svo vanur að það gerir ekkert til. Svona líkt og ánamaðkarnir. Hættir að finna fyrir sársauka við að vera þræddir uppá öngul. Orðnir svo vanir þessu.

Nú er komið hér ekta Tangavatnsveður. Logn og hitinn 10 gráðum hærri en í gærmorgun. Og Skyrgámur að teyga í sig ferska loftið. Nýjasta viðurnefnið á Smjattpattanum Raikonen. Ég var að éta skyr um daginn. Hafði ekki nokkurn frið fyrir kettinum. Svo ég lét 2 skeiðar af þessum eðalmat á disk. Og þær hurfu á mettíma. Ekki öreind eftir. Held að ég hafi aldrei áður á æfi minni séð kött éta skyr. En það er auðvitað fleira matur en feitt kjöt.
Ég sá það á blogginu hans Sigga að hann ætlaði að hafa pela af brennsa með sér við móttökuathöfnina fyrir skáldið. Hafa vonandi ekki gleymt að skála fyrir undirrituðum. Vona samt að lífernið verði skikkanlegt á þeim fornvinum. Raikonen kominn inn úr blíðunni og undirritaður hyggst nú fá sér smá nirvana. Láta sig dreyma um forna frægð mill svefns og vöku.
Bestu kveðjur, ykkar síeinlægi Hösmagi.

Thursday, November 03, 2005

 

Við Brúsapallinn....

bíður hans mær söng Haukur Morthens í den. Og kvenþjóðin mátti vart vatni halda. Kiknaði í hnjánum og fékk léttan skjálfta. Ég man nú vel eftir brúsapöllunum í gamla daga. Og það var áður en Brúsi Spring var orðinn frægur. Þetta uppáhald eldri sonarins. Ég var eitthvað að læðupokast inní Nóatúni fyrir nokkrun dögum. Keypti þar m.a. 2 diska. Elton John og Eagles. Hótel Calífornía og fleira gott. Hvor diskur á 499 kr. Svo sá ég þarna Bruce Springsteen. Líklega lítið spilaður á Rás 2. Mér nánast ókunnur. Keypti disk sem heitir Rising. Kostaði 1 krónu meira er hinir til samans. Hef verið að spila hann í Grána mínum svona á milli húsa. Og hann er bara svipaður okkur Sverri bílasala. Semsagt nokkuð góður. En ég er samt ekki við það að míga á mig samt. Eitthvað seiðandi við hann og það hefur örugglega verið stuð á þeim Magga og Gústavíusi þegar þeir lögðu land undir fót á sínum tíma á tónleika með gaurnum. Gæti best trúað að þeir hefðu fengið sér öl með. Mér finnst bara bráðsniðugt hjá fólki að bregða sér á tónleika út fyrir landsteinana. En ósköp var það nú fjarri mér að fara til Köben á Sálina um daginn. Nóg er nú kvölin af Stefáni hér heima. Svo fer fólk á fótboltaleiki aðallega til Englands. Aldrei að vita nema undirritaður bregði sér á svona einn kappakstur á næsta ári. Þegar hausta tekur og búið að landa nógu mörgum löxum og stórurriðum. Brauð og leikir verða jafnnauðsynlegir á næsta ári og jafnan áður. Nú er enn indælt helgarfrí framundan. Ætla jafnvel til höfðustaðarins á morgun. Kíkja á svona eitt og annað. Sleppi þó sagnfræðipróessornum og heilaskurðlækninum Gísla Marteini. Prófkjör íhaldsins um helgina ef ég man rétt. Hér er nú 7 stiga frost. Allt of mikið miðað við spána. Vona að hlýni eins hann lofaði. Þessi hann sem er alltaf að spá. Svo rignir hann, hann blæs, hann er að kólna. Mikil ábyrgð sem hvílir á honum. Hver sem hann nú er. Farnist ykkur vel, krúttin mín, ykkar Hösmagi, heljarhress í kuldanum.

Wednesday, November 02, 2005

 

Kvakstöð.

Kvakstöð. Hvað skyldi það nú vera? Þetta er lítið tæki sem þú setur í barnavagninn þegar barnið þitt smáa fær sér lúr úti í íslenska vetrinum. Baby monator. Þegar það vaknar af sínum væra blundi og kvakar þá heyrir þú í því þar sem þú situr inní stofu og hugleiðir tilveruna. Þröstur á Bakka á von á barni með konu sinni Þorbjörgu. Hann keypti svona tæki á netinu. Af einhverjum kana sem sendi tækið til Íslands. En nú kom babb í bátinn. Fjarskiptastofnun stöðvaði sendinguna á pósthúsinu. Tækið hafði nefnilega ekki CE merkingu. Þröstur vissi ekki hvað þetta þýddi. Og lögmaður hans ekki heldur. Eftir japl, jaml og fuður og nokkur símtöl við pósthúsið, tollstjórann og fjarskiptastofnun upplýstist málið. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið segir að svona tæki skuli merkt með stöfunum CE. Og ef þessa stafi vantar er tækið eyðilagt eða sent aftur til föðurhúsanna. Þetta er líka tekið fram í 65. gr. fjarskiptalaga. Í reglugerðar- og lagafrumskóginum sem til varð við þennan samning er margt skondið. Við höfum til dæmis þessi fínu lög um járnbrautir og skipaskurði. Líklega langt í að á þau reyni. Það er því vissara fyrir sauðsvartan almúgann að vera á varðbergi þegar verslað er á netinu. Þarna fuku 80 dollarar útí vindinn. Þröstur lifir þetta af. En aurunum hefði verið betur varið í annað.
Sem sagt góðir hálsar, gætið að ykkur.

Kominn úr daglegri eftirlitsferð um bæinn. Hiti 2° og bara smágola. Spáð rigningu og enn hlýnandi veðri og þá hverfur snjórinn vonandi. Nokkurnveginn að verða bjart þegar haldið er til starfa kl. 9 og farið að rökkva verulega þegar komið er heim kl. 17. Allt eftir bókinni. Sé að skáldið er á leið til fóstbróður síns í Svíaríki. Vona að þeir skáli fyrir ritsnillingnum sem nú er að ná góðri heilsu á ný. Sendi ykkur ljúfar kveðjur, Laxaspillir, Urriðaskelfir, Fiskihrellir, Hösmagi, ritsnillingurinn mikli, veiðimaðurinn vitri, kvennamaðurinn ógurlegi og kattavinurinn besti, Sigurður Sveinsson. Athugið að utanáskrift mín á að vera samhljóða undirskrift minni, eins og Sólon Íslandus sagði.

Tuesday, November 01, 2005

 

Nokkuð góður.

Heilsan að skána. Ég get sagt eins og Sverrir bílasali þegar hann var spurður álits á bílunum sem hann var að selja. Þó það væru oft á tíðum örlagadruslur svaraði hann ávallt: Ég held að hann sé bara nokkuð góður. Mér finnst ég bara vera nokkuð góður. Eg er jafnframt viss um að ég er ekki örlagadrusla.Og andlega heilsan beið engan hnekki. Fyrirlít þá Bush og Rumsfeld jafnvel enn meira en áður. Og undirlægjur þeirra hér á landi. Nefni samt engin nöfn en þær eru allt of margar. Nýjustu fréttir frá þeim félögum, Bush og afturgöngunni, eru þær að " hryðjuverkamenn" hafi drepið 26.000 Íraka. Og það fylgdi ekki sögunni hvað þeir hefðu drepið marga sjálfir. Nú hafa yfir 2.000 bandaríkjamenn dáið hetjudauða fyrir þessa forustumenn sína. Við að verja frelsið. Hin bandarísku gildi sem eru öllum öðrum gildum ofar. Ég efast um að foreldrar þeirra, eiginkonur, börn, aðrir vandamenn og vinir séu ánægð. En það er auðvitað sama sjónarmiðið hjá afturgöngunni og Hitler sáluga. Ekkert var eftirsóknarverðara fyrir þýskan hermann en að deyja hetjudauða fyrir foringjann. Hvernig í ósköpunum má það vera að svo margir skuli vera sammála þessum glæpalýð sem stjórnar stríðsrekstrinum í Írak? Sem betur fer eru þó margir bandaríkjamenn á móti þessum óhæfuverkum. Vona að þeim verði eitthvað ágengt þó vonlaust sé að koma vitinu fyrir núverandi forustumenn þeirra.

Sama hreinviðrið áfram. Raikonen kominn inn aftur eftir hinn daglega rannsóknarleiðangur. Vart friður við tölvuna fyrir vinahótum. Þarf að vara mig á honum því í miðju bloggi um daginn stökk hann á lyklaborðið og bloggið skaust út í eterinn. Og það er auðvitað alltaf andríkasta og merkilegasta spekin sem fer þá leiðina. Verð líklega að taka mér tak við uppeldið.

Ég uppgötvaði allt í einu í morgun að í gær voru 4 ár liðin frá því ég hóf störf á fasteignasölunni Bakka. Og það er greinilegt að árin líða nokkuð hratt. Finnst þetta ekki langur tími. Þó hafa orðið miklar breytingar á lífi mínu þessi ár. Allt í fastari skorðum en áður og fjárhagsáhyggjur minni. Það er slæmt fyrir sálina að hafa stöðugar áhyggjur af morgundeginum. Ég þarf ekki að kvarta en því miður eru of margir í þessari vondu stöðu. Þó maður velti stundum fyrir sér ranglætinu í heiminum er mikilvægt að halda jafnvægi hugans. Tilveran heldur áfram þó við verðum að þola menn á borð við Bush og Rumsfeld. Nóg kveðið að sinni, með kveðju frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online