Tuesday, February 24, 2009

 

Meira af húfum.

Ég fór í Húsasmiðjuna á föstudaginn en þar var engin góð húfa til sölu. Ég hitti Viktor Óskarsson stórveiðimann sem vinnur þarna og sagði honum mínar farir ekki sléttar. Geimvera hefði stolið minni heittelskuðu húfu. Viktor gaf mér húfu með merki Húsasmiðjunnar. Svona frekar en ekki neitt. Síðan fór ég í Nótatún en gekk þaðan bónleiður. Þegar ég var sestur uppí Lancerinn hringdi síminn. Það var Gréta. Mín kæra húfa var fundin. Franski rennilásinn hafði krækst í ponsjóið hennar. Þetta var sem sagt létt grín hjá geimverunni. Ég varð alshugar feginn og það var virkilega notalegt að setja þetta blessaða höfuðskjól upp aftur. Ég er nýkominn inn úr gjólunni og það var gott að skýla eyrunum fyrir Kára. Ég vaknaði klukkan eitt í nótt. Mig hafði dreymt að ég hefði verið dæmdur til dauða. Ásamt mörgum öðrum. Alveg voðalegt mál. Það var búið að taka nokkra af og röðin var komin að mér. Ég vildi alls ekki sætta mig við þetta. Réðst á einn djöflamerginn og í því að ég var að ganga frá honum hrökk ég upp. Ég treysti mér ekki til að sofna aftur. Hitaði mér kaffi, kíkti á netið og lyfti teningunum nokkrum sinnum. Sofnaði svo aftur út frá herra Pip.
Yfirnagarinn var í kastljósinu í gærkvöldi. Oft hefur mér blöskrað þessi maður. Ræða hans var eitt samfellt lof um hann sjálfan. Hrakyrti spyrilinn og alla þá sem hafa vogað sér að gagnrýna hann. Þó ég sé lítt menntaður í sálfræði og geðsýki hugsaði ég mitt. Þessi maður er bæði með mikilmennskubrjálæði og ofsóknaræði á háu stigi. Dónaskapurinn er ekki nýr af nálinni. Dólgshátturinn alkunnur. Hvenær skyldi þessari martröð ljúka? Vonandi sem allra fyrst. Tapsár framsóknarmaður hefur reyndar lengt veru þessarar martraðar í seðlabankanum. Það er að koma í ljós það sem ég óttaðist. Ríkisstjórnin er í gíslingu framsóknarflokksins. Það er vont hlutskipti. Ég vona að við berum gæfu til að kjósa rétt í apríl. VG og SF fái hreinan meirihluta. Stærsta ágreiningsefni þessara flokka, aðild að ESB, er auðvelt að leysa. Láta þjóðina kjósa um hvort við sækjum um aðild eða ekki og una niðurstöðunni. Það mun verða nokkur endurnýjun í þingliði þessara flokka. Ég vona að skynsemin sigri. Íhaldið verði útí kuldanum og framsókn á ekkert gott skilið. Það á að draga glæpahyskið fyrir rétt. Freista þess með öllum ráðum að finna það þýfi sem enn kann að vera til. Réttlætiskennd okkar krefst þess. Við bíðum og sjáum hvað gerist í kosningunum.
Það styttist í mars. Hann verður fljótur að líða eins og janúar og febrúar. Veturinn bærilegur og vorið nálgast óðfluga. Hugurinn þegar farinn að leita til bakkanna. Við Dýri biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Monday, February 23, 2009

 

Djöfullinn sjálfur.

Í pistlinum á föstudagsmorguninn var ég að tala um fjárfestingu í nýjum Zippó. Þegar ég kom í búðina til Boga Karls voru bara til 3. Einhvernveginn leist mér ekki á neinn. Einn var upphleyptur einhverju krumsprangi, annar málaður gulur og gott ef ekki blár að auki og sá þriðji með viðbættri plötu öðrumegin. Þeir höfðuðu ekki til míns alþekkta fegurðarskyns. Alíensarnar hafa orðið uppvægir og tóku heldur betur til sinna ráða. Ég keypti mér andskoti góða húfu í vetur. Með loðfóðri. Hlýja og notalega. Það hefur alls ekki veitt af slíkum þarfahlut í umhleypingum vetrarins. Ég fór út með húfuna á laugardaginn. Ég var líka með hana síðdegis. Við Gréta skruppum niður á Eyrarbakka að kíkja á brimið. Ég drakk svo kaffi hjá henni þegar við komum til baka. Í gærmorgun greip ég í tómt á forstofusnaganum. Varð að láta gamla ullarhúfu nægja.Ágætt pottlok en ullin ertir ennið. Loðhúfan var ekki í Lancernum né í bílskúrnum. Ég hringdi í Grétu rétt áðan. Engin húfa. Húfan er semsagt HORFIN. Það þarf ekki frekari vitna við. Ódóin eru enn á sveimi í kringum mig. Þau ættu sannarlega ekki á góðu von næði ég til þeirra. Sennilega komist inní forstofuna og eldsnöggt gripið þetta góða höfuðskjól. Ég er alveg bálillur. Það er kreppa. Hver króna er dýrmæt í dag. Nú verð ég að kaupa mér aðra húfu. Reima hana svo vandlega á hausinn áður en ég geng til náða á kvöldin. Þetta fer að verða skrautlegt í svefnherberginu. Ég með húfu, bleika dulan undir koddanum og herconinn á milli okkar Dýra. Af hverju ráðast þessi kvikindi ekki á Árna Matt með allar millurnar? Árna æruprýdda nýúthreinsaðan frá Póllandi? Ekki hef ég neitt til saka unnið annað en að vera til. Ég er bæði reiður og undrandi. Þessi ódó virðast hafa einstakt yndi af að skaprauna mér. Ég ákalla nú hin góðu öfl mér til verndar og fulltingis. Vona að þau slái um mig skjaldborg og reki þessi kvikindi til síns heima. Það er ekki góð líðan að vera hugsandi um hvar þau höggvi næst. Nú fer ég á stúfana í húfuleit. Bestu kveðjur aftur, ykkar Hösmagi.

 

Drungi.

Snjókoma morgunsins er að verða að slyddu og slyddan verður brátt að rigningu. Hálf drungalegt veður á öðrum degi Góu. Ég renndi í Garðabæ í gær. Fjölmenni í afmæli Egils sterka og miklar kræsingar í boði að venju. Kom við hjá systur minni yngri á Kársnesbraut. Þar var bógsteik á borðum. Léttbrúnaðar smákartöflur og annað meðlæti. Ég stóð á blístri við heimkomuna. Verð líklega að gæta mín á að fá ekki velmegunarístru í kreppunni. Hef þó ekki miklar áhyggjur og treð bara í mig því sem mér gott þykir. Það vill mér til að vera á öfugu róli við svo marga aðra. Sífelld barátta við að halda holdum meðan þeirra barátta er við spikpúkann. Við Kimi erum báðir fremur grannir. Spengilegir og að sjálfsögðu fjallmyndarlegir. Hann vingsar nú skotti sínu yfir lyklaborðið og það er ekki til bóta við pistlaskrif.
Mig klæjar orðið í puttana eftir að byrja á framtölunum. Það verður allt komið á fullt í næstu viku.Netframtalið opnar á sunnudaginn og ég mun byrja á sjálfum mér. Létt verk og löðurmannlegt. Þarf ekki einu sinni að telja köttinn fram. Hann er mér þó heilmikils virði. Fagnaði mér ógurlega í gærkvöldi við heimkomuna úr sunnudagsreisunni. Það verður væntanlega nóg að gera í marsmánuði. Svo kemur apríl með páska og þá er víst að herconinn verður virkjaður. Við Maggi eigum dag inni við Tangavatn. Ég hringi í frúna og fæ vitneskju um hvenær sleppt verður í vatnið. Næstu mánuðir eru tilhlökkunarefni að venju. Birta, fiskur og útivera. Nóttlaus veröld og ég gleymi íhaldinu, framsókn og öðrum leiðindafyrirbærum. Verk þessara flokka ætla ég ekki að fyrirgefa. Bara allsekki. Við rauðliðarnir sendum bestu kveðjur til vina okkar. Allra sem okkur finnst vænt um. Og þeir eru þónokkrir. Ykkar Hösmagi.

Thursday, February 19, 2009

 

Kalt regn.

Dimmviðri og regnið er blautt og kalt. Smýgur innað beini. Gott að koma aftur inní hlýjuna og ekki spilltu móttökurnar. Kominn föstudagur og enn ein helgin að skella á.Gangrimlahjólið herðir stöðugt á sér. Góan að byrja og aðeins mánuður í vorjafndægur. Hinn þungi niður tímans er samur við sig. Eilífðin blívur. Allt er þó afstætt. Hinn rómaði 3ja stanga dagur er t.d. ótrúlega fljótur að líða. En stundum er eins og tíminn sé við það að stöðvast. Vikudvöl á gjörgæsludeildinni í desember 1985 var eins og heilt ár. Þar var ys og þys. Ekki út af engu heldur vegna þess að þar var mikið af veiku fólki. Það var stór klukka á einum veggnum. Ég horfði mikið á þessa klukku þegar ég var með rænu. Eitt kvöldið leit ég á þessa klukku tilveru minnar. Hún var nákvæmlega 9 að kvöldi. Ég ákvað að kúra mig niður og sofa sem lengst. Það tókst og ég sveif inní drauma mína og dvaldi þar lengi. Þegar ég komst til meðvitundar aftur voru liðnar 2 mínútur. Stuttur tími en heil eilífð fyrir mig. Það er stundum gott að líta aftur fyrir sig. Án þess að velta sér upp úr fortíðinni. Oftast hefur lífið verið mér ljúft og gjöfult. Hið neikvæða er að mestu gleymt. Hið ljúfa og góða stendur eftir. Í hinni endalausu bylgjuhreyfingu er útsýnið eftirminnilegra af öldutoppunum en úr dalnum á milli þeirra. Ég hlakka enn til komandi daga. Þó febrúarregnið sé kalt kemur sólin upp aftur. Vorið skilar sér að venju. Þessi dásamlegi tími þegar ilmurinn af landinu fyllir vitin. Fiskurinn fer að vaka og Himbriminn kætist. Þá víkja vond stjórnvöld og þjófahyski á braut.

Þottavélin hamast með úlpurnar mínar í maganum. Raikonen löngu hættur að kippa sér upp við svoleiðis smámuni. Jafnvel ryksugan er orðin hættulaus. Fyrir lítið dýr er nóg að fá mat, vatn og stroku annað slagið.
Í dag ætla ég að taka áhættu. Gerast áhættufjárfestir. Kaupa mér nýjan Zippó. Ég ætla að kreista hann í greip minni dag og nótt. Ég veit að það hlakkar í ódóunum. Ég hef það samt á tilfinningunni að hið góða muni standa með mér. Ég geti tekið gleði mína að fullu á ný. Kvikindin verði úti í kuldanum. Snúi sér að Finni, Ólafi, Davíð og draugskrattanum. Álgerði, Geir og véfréttinni frá Bifröst. Ég ætla samt að vera á varðbergi. Alíensarnir er lúmskir og liggja stundum á fleti fyrir þar sem maður síst á von á þeim. Þvottahúsrokkurinn er nú þagnaður og tími til að hengja upp. Kaffið uppurið og Kimi sofnaður aftur. Yndiskveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Monday, February 16, 2009

 

Þokuloft.

Það er þokuloft og sá sem setti snjóinn á svalirnar mínar hefur nú fjarlægt hann. Kimi er ánægður með það og viðrar þar skott sitt. Þetta er merkisdagur því Hæstiréttur er 90 ára í dag. Ég minnist dagsins því Orator, félag laganema, gerði þetta að sínum hátíðardegi. Okkur var gjarnan boðið eitthvað þennan dag. Margir fengu sér aðeins í ranann og svo var oftast ball að kvöldi. Þetta var ágæt tilbreyting frá hversdagsleikanum. Stundum var ég að vinna á orkustofnun og slapp við gleðskap og tilheyrandi timburmenn.
Nú hef ég lokið við æviminningar Þráins Bertelssonar. Æskusöguna sem lýkur við stúdentsprófið og svo hina sem spannar næstu 10 árin. Fyrri bókin er frábær lesning. Einlæg og heilmikil lýrik í henni. Kannski finn ég samkennd með Þráni í mörgu sem hann segir frá. Við erum fæddir sama árið og ég kannast við mikinn fjölda fólks í bókinni. Hann ólst upp hjá föður sínum sem honum fannst afar vænt um. Móðir hans var sjúklingur og vistuð á Kleppi. Hann saknaði hennar mjög. Seinni bókin er ágæt líka en höfðaði minna til mín. Kannski skrifar hann framhald síðar. Lipur penni og húmoristi ágætur.
Enn er ég að kveikja mér í Bagatello. Blái plastkveikjarinn dugar svo sem, en söknuðurinn er enn sár eftir óþokkabragð geimverunnar. Mig langar í annan Zippó en þori varla að kaupa hann. Örugglega fleiri ódó á höttunum eftir slíku verkfæri. Bleika dulan góða og Herconinn eru þó enn í mínum höndum. En þetta eru þrælslæg kvikindi og til alls vís. Skaprauna fátækum alþýðumanni með grikkjum sínum. Ég magna þau á seðlabankastjórann. Útrásarvíkingana og forsetann. Íhaldið eins og það leggur sig. Það myndi líka bara gleðja mig ef þau hrekktu Finn Ingólfsson og Ólaf í Samskipum.
Ég skrapp með Herði uppí Grímsnes á laugardaginn. Óðalið kúrði undir Búrfellinu. Eitthvað ljúfsárt við að koma þarna uppeftir. Ljúft að hugsa um draumana um kærleikskotið og hin andlegu sköpunarverk. Lyngið og bláberin. Sárt vegna glæpahyskisins sem nánast hefur komið í veg fyrir að draumarnir geti rætst. Það væri verðugt verkefni fyrir alíensana að koma votti af samvisku í hausinn á hyskinu. Þá væri smávon til að þeir fengju mína fyrirgefningu.
Nú er hugur minn í Edinborg. Ég veit reyndar ekki hvort skáldið er komið aftur úr svíaríki til heitkonu sinnar. Hugurinn hvarflar til jóla 2004. Þegar skáldið setti upp þessa bloggsíðu og fyrsti pistillinn fór í loftið. Síðan hef ég bætt 599 við að þessum meðtöldum. Það er eiginlega hálfgildings afmæli. Rúm 4 ár liðin svo pistill nr. 1313 gæti sem best orðið að veruleika í kringum sjötugsafmælið. Þrátt fyrir allt er enn gaman að þessu. Og fleiru. Ég er hlaðinn orku og æðruleysi. Hlakka til vorsins eins og fyrr. Við Kimi, rauðliðarnir galvösku, sendum vinum okkar bestu kveðjur. Spes kveðja til litla sólargeislans, ykkar Hösmagi.

Friday, February 13, 2009

 

Gas, gas, gas.

Margir muna eftir gasmanninum við Rauðavatn í fyrra. Spreyjandi gasi á saklausa borgara. Mér datt þessi geðsjúklingur í hug þegar ég las frétt á mbl.is um að danir hugleiddu nú að leggja gasskatt á danska kúabændur. Með því að ropa og reka við gefa beljurnar frá sér einhver ósköp af metangasi. Og svínin líka. Mér finnst þetta nú hálf spaugilegt. Bóndi hér í nágrenninu hefur reyndar virkjað beljurnar sínar. Orðin gasbóndi og notar það á bíla og traktora. Frábært framtak. Kannski er þetta þjóðráð á krepputímum. Kannski gæti ég virkjað köttinn minn. Og sjálfan mig að auki. Framleitt gas til að spara rafmagn. Lifa á þrumara, appelsínum, þurrkuðum perum og baunum. Þetta er líklega léleg hugmynd. Of lítið til að vinnsla borgi sig. En allt í lagi að huga að sparnaðarleiðum. Svokölluð dagvara hefur hækkað um 32% á einu ári. Það er ekki lítill útlátaauki fyrir okkur. U.þ.b. 15.000 manns án atvinnu. Og litlu íhaldsstrákarnir á þingi, einkum Sigurður Kári og Birgir Ármannsson, segja að það þýði ekkert að "klína" þessu á sjálfstæðisflokkinn. Þeir djöflast bara á ríkisstjórn sem aðeins hefur setið í nokkra daga. Þyrla upp endalausu moldviðri til að reyna að fela afglöp síðustu 18 ára. Afglöp, sem komið hafa þorra almennings á vonarvöl. Nú þurfum við nánast leyfi frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum til að fá að reka við. Kannski kemur krafa frá sjóðnum að gasið verði virkjað. Ég hef stundum talað hér um hvað trúin hefur verið mannkyninu skaðleg. Í nærri 2 áratugi hafa stjórnvöld trúað á frjálshyggju og hin óheftu markaðslögmál. Allt eftirlit af hinu vonda. Markaðurinn sjálfur átti að sjá um það. Og árangurinn er þjóðargjaldþrot. Ég er nú ekki að óska eftir skömmtunaröldinni aftur. Brauðmiðum og leyfi frá fjárhagsráði til að kaupa einn poka af sementi. Hinsvegar æpa íhaldsmennir á þá sem leyfa sér að gagnrýna flokkinn þeirra. Þetta er alþekkt aðferð. Í nýliðnu morðæði ísraelsmanna á Gaza voru þeir sem leyfðu sér að gagnrýna þá kallaðir gyðingahatarar. Því miður munu alltof margir kjósa íhaldið í næstu kosningum. Vegna trúar sinnar á flokkinn. Flokkinn sem brást svo herfilega. Þrælslundin er sérkennilegt fyrirbæri. Kossarnir á vönd kvalaranna eru undirrituðum óskiljanlegir. Á 18 árum hefur íhaldið plantað sínu fólki allsstaðar í stjórnsýsluna. Birgir Ármannsson fimbulfambaði um tölvupóst frá gjaldeyrissjóðnum löngu áður en forsætisráðherra var kunnugt um hann. Ástæðan er öllum ljós. Hann fékk meldingu frá einum trójuhestinum í ráðuneytinu. Og var nógu vitlaus til að hlaupa með hana í ræðustól í þinginu. Við skulum bara hreinsa til.Látum andskotans íhaldið gaspra sem hæst og líkja eðlilegum mannabreytingum við hreinsanir Stalíns. Þeir vita miklu betur. Þeir vilja bara ekki sætta sig við að þeirra tími er liðinn. Og geta ekki sætt sig við að stefna þeirra hefur beðið algjört skipbrot. Þeir eiga ekki skilið eitt einasta atkvæði frá okkur lýðnum. Punktum og basta.
Nú er hitinn að nálgast 5 gráður. Væta og mikið krap. Helgi framundan og ég þarf að taka mig á í heimilisstörfunum. Ryk og skúm út um allt. Nú væri gott að hafa vélmenni til aðstoðar. En gamla lagið er ágætt líka. Bara að byrja og þá verður eftirleikurinn auðveldur. Kimi skrapp aðeins út að viðra sig. Lagstur aftur eins og Ólafur Kárason forðum. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 12, 2009

 

Drulla.

Geir viðukennir í dag að hafa drullað á stofugólfið hjá mér. En hann telur enga ástæðu til að biðjast afsökunar. Aðrir hafi kannski drullað enn meira en hann sjálfur. Það verði að bíða niðurstöðu rannsóknar sérstaks saksóknara á hver hafi skitið mest. Hún er undarleg hegðun sjálfstæðismanna þessa dagana. Þeir trúa því varla að þeir hafi misst völdin. Gremjan og heiftin ráða för. Hvalveiðikvóti Einars Guðfinnssonar var gefinn út í þeim tilgangi einum að blása til vandræða. Björn heimtar rannsókn á blaðrinu í Ólafi Ragnari. Það er verið að tefja ríkisstjórnina sem mest má. Þrasa um einskisverða hluti. Íhaldsmennirnir 2 sem voru bankaráðsformenn Glitnis og Kaupþings sögðu af sér í fyrradag. Það átti að líta svo út að þetta væru pólitískar hreinsanir. Steingrímur bað þá báða að sitja fram á vor. Magnús og Valur misstu glæpinn og íhaldsmennir eru bálreiðir kjaftfora sveitamanninum sem nú vermir stól fjármálaráðherra. Stjórnin hefur nú 71 dag til starfa. Þar af eru 26 helgi- og hátíðisdagar. Þá eru 45 eftir.Ég óska ríkisstjórninni farsældar í störfum. Ekki mun af veita. Hún situr uppá náð og miskunn framsóknarflokksins. Illt er að eiga þræl að einkavin var einu sinni sagt. Ég treysti ekki þessum flokki nú frekar en áður. Hann er að reyna að smeygja sér inn bakdyramegin og látast vera ábyrgur. Og gullfiskaminni kjósenda er alþekkt hér. Flokkshollustan rík. Sjallarnir hér munu raða þeim Árnum báðum í efstu sæti listans.Annar dæmdur þjófur og hinn þekktur fyrir að gefa bróður sínum leifarnar af hergóssinu suður í Keflavík og þverbrjóta stjórnsýslulög við skipun héraðsdómara. Þeim er greinilega ekki klígjugjarnt sjöllunum hér í suðurkjördæmi. Andskotinn eigi þetta lið allt saman.
Það er enn lítilsháttar frost. Það er þó hlýrra loft á leiðinni. Ég varði gærdeginum í að rifja upp lögfræðina. Og að auki er skattframtal Hösmaga ehf. tilbúið til sendingar. Kimi var eitthvað lumpinn í gær og ældi á stofugólfið. Þótti það greinilega mjög miður. Það var þó bara smámál að strjúka þetta af parketinu. Hann hresstist svo þegar á daginn leið. Liggur nú og sefur í dyngju sinni.

Ég sendi lambakónginum mínum hjartanlegar hamingjuóskir með daginn.Kjósum rétt í vor, bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 11, 2009

 

Afmælisdagar.

Frumburðurinn, Berglind Anna, á afmæli í dag og sonur hennar, lambakóngurinn sjálfur verður 23ja á morgun. Samt finnst mér alls ekki að ég sé að verða forngripur. Rúmar 3vikur í 65 ára afmælið.Þá byrja ég að telja niður úr 730. Löggilt gamalmenni 67. Ómagi á ríkiskassanum til æviloka. Og það ætla ég að verða lengi. En ég vona að ég verði ljúfur. Ekki geðvondur og sínöldrandi yfir öllu. En þó mun ég áfram andskotast út í framsókn. Og íhaldið líka. Nagarann og afturgönguna. Nú bíðum við eftir kosningum. Þær verða nokkur prófsteinn á skynsemi þjóðarinnar. Það er sannarlega engin öfundsverður að taka við framtíðarstjórn landsins. Tólf ára valdaferill íhalds og framsóknar verður okkur dýr. SF ber nokkra sök en þó er hún smámunir einir í samanburði við hina. Mestu máli skiptir að rasskella sjálfstæðisflokkinn þannig að hann verði helst sem áhrifaminnstur í áratugi. Ofurtrú markaðhyggjunnar verður að setja til hliðar. Núverandi ástand er m.a. afleiðing hennar. Græðgisvæðingin, krógi þeirra Davíðs og draugsins, hefur leitt til þess að tugþúsundir íslendinga eru í slæmum málum þó þjófarnir séu flestir með allt sitt á þurru. Þó ég sé nú flokkslaus maður verð ég ekki í vandræðum við kjörborðið í vor.
Það er búið að vera kalt hér alllengi. Svona 6-9 stiga frost en nú er von á breytingu. Hláka framundan langt fram í næstu viku. Góð tilbreyting og styttir veturinn. Þrátt fyrir ástandið hlakka ég til vorsins. Veiðiskapar og útiveru við ár og vötn í sumar. Ég mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að ég fái notið þessara dásemda.
Það er mikil ró yfir okkur kisa mínum. Hann er latur við útiveru í snjó og frosti. Ég held mínu striki á morgnana. Mjög hressandi að teygja að sér hreina loftið þó það sé svolítið kalt. Andleg og líkamleg vellíðan er mikilverð og ég er bara í góðu formi á báðum sviðum. Og sólargeislinn minn skín og yljar. Við Kimi sendum öllum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 04, 2009

 

Geimvera...?

Fyrir allmörgum árum vorum við Siggi Þráinn á leið austur Flóaveg. Þá mælir hann allt í einu: Afi, túir þú á guð. Mér varð lítið úr svörum og þá varð lambakónginum að orði: Ég trúi ekki á guð en ég trúi á geimverur. Sennilega er hálfur annar áratugur síðan þessi orð voru sögð. Kannski muna einhverjir eftir pistlinum um kveikjarann sem hvarf. Þar komu geimverur mjög við sögu. Þegar Zippóinn kom í leitirnar í fóðrinu á úlpunni þá fór ég aftur að efast um tilveru geimveranna. En nú er ég ekki í nokkrum vafa og koma blessuð eldfærin aftur við sögu. Dag einn í síðustu viku þegar ég var á leið útúr húsi snemma morguns, stakk ég vindlapakkanum og Zippóinum í hægri hliðarvasann á úlpunni. Samkvæmt venju.Hélt mína leið og fylgdist með morgunsauðunum. Þar kom að ég fann til löngunar í þessa vindlategund sem ég hef svælt í 38 ár. Kannski er nú iðja sú engum til fyrirmyndar. Vindlarnir voru í vasanum en eldfærið í stálhylkinu var horfið. Þegar heim kom hófust miklar þreifingar. Járnið hlyti að vera í fóðrinu. En ég varð fyrir vonbrigðum. Þessi yndisgripur var gjörsamlega uppgufaður. Nú er ég sannfærður um að ósýnileg geimvera sat fyrir mér við útidyrnar og laumaðist í vasa minn án þess ég yrði þess var. Smeygði sér svo hlakkandi frá, stolt yfir þessu óþverrabragði. Það getur engin önnur skýring verði á hvarfi kveikjarans. Bara alls engin.Nú sit ég eftir með sárt ennið og velti fyrir mér dulargátum tilverunnar. Þessi missir kemur sér afar illa í kreppunni. Einkum og sérílagi fyrir skaðasára menn eins og mig. Ég skora hér með á þennan alíens að skila þessum dýrgrip ekki seinna en strax. Sálarlíf mitt hefur beðið hnekki og ég get vart á heilum mér tekið. Finnst þetta verulega andstyggilegur verknaður. Nú verð ég að notast við sálarlausan plastkveikjara. Get ekki vegið volgt stálið í hendi mér né dedúað við við að hella bensíni í púðann. Kannski hefur þessi geimveruskratti verið í útrás. Eins og glæpahyskið sem stal margfaldri þjóðarframleiðslunni. Ég er vonlítill um að sjá Zippóinn minn aftur. Shitbara.

Nú er 8 stiga gaddur. Glampandi sól og nokkur vindur og nauðsyn að klæða sig vel utanhúss. Græna þruman í tjöruþvotti eftir of margar ferðir til höfuðstaðarins. Ég bara varð að fórna aurum í þessi þrif. Saltið og tjaran eiga alls ekki heima á svona gullvagni. Kimi er nýrisinn úr dyngju sinni. Bætti á sig mat í eldhúsinu og er nú sofnaður að nýju í gamla tágastólnum. Samvera okkar góð sem fyrr og báðum kær. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 01, 2009

 

Pólís,Pólis, Bauka Jón og jarðarför.

Febrúar byrjar með frosti og snjópeðringi. Síðasti dagur janúar var ægifagur. Hitinn yfir frostmarki, glampandi sól og logn að auki. Ég lauk við söguna af Bauka Jóni. Sögu frá sautjándu öld eftir sagnfræðinginn Jón Þ. Þór. Fróðleg og skemmtileg saga af Jóni Vigfússyni, sem bæði var sýslumaður og biskup. Þegar hann var dæmdur frá embætti sem sýslumaður borgfirðinga hélt hann til Kaupmannahafnar og þar bætti einvaldskóngurinn upp embættismissinn og gerði hann að varabiskup. Hann hélt heimleiðis og beið svo bara eftir að Hólabiskip þóknaðist að gefa upp öndina.Það hitnaði líka verulega undir honum í því embætti. Hann dó úr landfararsótt áður en mótdrægismenn hans gætu komið honum frá embætti. Þeir sektuðu hinsvegar líkið frekar en ekki neitt. Eftir að hafa lokið við Bauka Jón tóku Sjöwall og Wahlöö við á ný. Pólís, pólís, pungurinn frýs með pylsu og ís. Þá á ég bara 2 síðustu bækurnar eftir.
Ég fylgdi svo gamalli konu til grafar eftir hádegið. Hún hét Þóra Magnúsdóttir og varð 88 ára að aldri. Það hlýtur að vera gott að láta jarða sig í svona fallegu veðri. Þóra var einn af skjólstæðingum mínum í lagalegum efnum. Hún var löngu búinn að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins og hefur örugglega dáið sátt.
Við Kimi höfðum það síðan gott hér heima það sem eftir lifði dagsins. Spaugstofan nokkuð góð í gærkvöldi. Evróvision áþjánin að henni lokinni. Ég fylgdist með svona einu sinni. Meðan kosið er hefur hrúturinn Hreinn völdin. Magnþrunginn karakter sem ég hef ákaflega gaman af og læt ekki framhjá mér fara. Það var allt vaðandi í geimverum í þessum þætti. Ég segi ykkur bráðum meira af alíensunum. Þær eru ekki alveg af baki dottnar gagnvart undirrituðum. Gerðu mér óþverragrikk fyrir nokkrum dögum.
Nú fer silfur Egils að byrja. Yfirleitt ágætur þáttur sem ég reyni að missa ekki af. Svo fáum við líklega nýja ríkisstjórn þegar á daginn líður. Kosningar verða svo 25. apríl og vonandi verða þá algjör þáttaskil. Hagsmunir almennings teknir fram yfir gróðahyggju nokkura vesalinga. Vesalinganna, sem eiga mesta sök á hvernig fyrir okkur er nú komið. Glæpahyskis sem bæst væri að úthýsa úr mannlegu samfélagi.
Eftir speltbrauð með reyktum Ölfusárlaxi er gott að fá sér einn vindil með silfrinu. Við Dýri sendum okkar bestu kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online