Friday, January 30, 2009

 

Föstudagur.

Janúar senn lokið. Fremur svalt og u.þ.b. 20 cm jafnfallinn snjór. Ekki beinlínis vítamínsprauta á geðheilsuna og nú er hann hættur við hlákuna sem átti að koma eftir helgina. Veður er þó kyrrt og birtan eykst með degi hverjum. Aðalfundur stangveiðifélagsins er í kvöld. Þangað fer ég með pöntun á 8 veiðidögum og geri ráð fyrir hinum rómaða 3ja stanga degi þann 16. júlí. Sá 17. er frátekinn fyrir afadrottninguna Ingunni Önnu. Svo er Veiðivatnaferðin ráðgerð 11.-13. ágúst. Þó ástandið í þjóðfélaginu sé bágborið þýðir ekki að leggjast í sút og leggja árar í bát. Ég sótti jeppann aftur í gær og hafði nærri tekist að selja hann hér. Það klikkaði þó á síðustu stundu en ég er vongóður um að það takist samt innan tíðar. Það myndi létta mikið á stöðunni. Kimi snuddar hér í kringum mig og lítill áhugi fyrir útiveru í kulda og snjó.Samvera okkar hin ljúfasta eins og áður.
Nú er búist við nýrri ríkisstjórn um helgina. Talið líklegt að Gylfi Magnússon verði viðskiptaráðherra og Björg Thorarensen dómsmálaráðherra. Þetta er gott fólk sem örugglega styrkir stjórnina. Það er þó mikilvægt að hún sitji í sem allra skemmstan tíma. Við þurfum nýjar línur eftir að þjóðin hefur kosið. Því miður erum við nú þekkt fyrir gullfiskaminni og undir niðri óttast ég að við verðum í pattstöðu. Skilyrði framsóknar fyrir stuðningi við stjórn VG og SF eru líka erfið. Vonandi tekst þó að gera góða hluti á þessum stutta tíma fram að kosningum. Það væri strax verulegur árangur ef tækist að moka út úr musterinu við Svörtuloft. Gera yfirnagarann áhrifalausan til eilífðar. Það hefur alltaf verið borin von að ætla sér að breyta skítlegu eðli. Það væri verðugt rannsóknarefni að kryfja áhrifs þessa manns í þjóðmálum síðasta aldarfjórðunginn.
Myrkrið grúfir enn yfir. Ég er á útleið á eftir. Til að berjast í bönkum eins Flosi Ólafsson orðaði það um árið. VG er með heilmikla ráðstefnu á Hótel Selfossi á morgun. M.a. messar Jón Hjartarson yfir lýðnum. Haldiði ekki að ég hlaupi þangað? Ekki aldeilis. Ég fer ekki rassgat og mun nýta tímann á betri veg. Við Kimi sendum bestu kveðju úr hinni myrku kyrrð, ykkar Hösmagi.

Monday, January 26, 2009

 

Flipp.

Stjórnin féll í dag svo sem augljóst var orðið. Geir nýfarinn frá Bessastöðum. Og fréttamannafundi ÓRG var að ljúka. Yfirklappstýru útrásarvíkinganna.Ég hélt að forsetinn hefði lært eitthvað af þessu hruni.En hann virðist eiga erfitt með að átta sig á verksviði sínu. Hann byrjaði fundinn með því að leggja stjórnmálamönnum línurnar í 4 liðum. Karlálftin er á algjörum villigötum í hlutverki sínu. Enginn efast um að það er í hans hendi að gefa einhverjum stjórnarmyndunarumboð. En það á hann að gera án skilyrða. Ef fyrir liggur að núverandi þingmenn geti komið saman starfhæfri ríksisstjórn fram að kosningum þá er það nóg. Það er ekki forsetans að marka stefnuna í pólitíkinni. Oft hefur gustað um þennan mann. Ég hef nú oft verið honum sammála enda kaus ég hann á sínum tíma. En nú flippaði hann algjörlega. Ég vona að hann gangi samt heill til skógar en ég hef hreinlega efasemdir um það. Er það kannski aldurinn? Hann er ári eldri en ég. Ekki er ég svona. Andskotakornið. Maður verður að vísu drjúgari með sig eftir því sem aldurinn færist yfir. Laxarnir sem ég missti stækka með hverju árinu. Íþróttaafrekin ljóma meira, bæði andleg og líkamleg. En ég er alveg meðvitaður um vald mitt og hlutverk sem almúgamaður. En það virðist mikið skorta á það hjá Ólafi Ragnari sem forseta. Ég er viss um að nú munu bloggheimar loga. Það á allt eftir að verða vitlaust. Ég ætla bara rétt að vona að þetta frumhlaup valdi eins litlum skaða og frekast er unnt. Skaðinn er samt skeður og nú er nagaranum örugglega skemmt. Ósköp verð ég feginn þegar við verðum laus við báða þessa menn þó ólíkum sé saman að jafna. Margt ágætt sem ÓRG hefur gert sem forseti en ansi fátt gott frá hinum. Hvorugur mun segja af sér og nú er bara að bíða spenntur næstu klukkutímana. Ekki aldeilis neinar gúrkur á borðum í dag.

Ég svaf heillengi í morgun eftir útiveru. Dreymdi ýmislegt skemmtilegt, m.a. hitti ég Martin Beck í draumalandinu. Uppáhaldsskáldsagnapersónuna úr sögum Sjövall og Waahlö. Hann var að sjálfsögðu líka á Grand Jeep Cherokee eins og undirrritaður.Það fór vel á með okkur og mér leið ákaflega vel þegar ég vaknaði. Litla svefnpurkan á heimilinu nú mætt hér, lögst á borðið og sofnuð aftur. Bestu óskir frá okkur báðum á þessum merkilega degi, ykkar Hösmagi.

Saturday, January 24, 2009

 

Þorri....

hófst í gær. Lætin í veðrinu sneyddu alveg framhjá Selfossi. Hér er nú logn og 5 stiga hiti. Varla hægt að kvarta yfir slíku veðri um hávetur. Í dag eru nákvæmlega 3 ár síðan ég eignaðist grænu þrumuna. Ingibjörg systir mín verður löggilt gamalmenni á þessum degi. Sendi henni bestu kveðjur mínar með von um að grásleppan sem ég færði henni í vikunni hafi bragðast vel.Heilmikil tíðindi úr pólitíkinni í gær. Það er áfangasigur að allir flokkarnir sammælist um nýjar þingkosningar. Nú verður tækifæri á að gefa íhaldinu langt frí. Það mun þó taka mörg ár að snúa dæminu við. Margt af því sem þessi flokkur hefur gert okkur, með dyggri aðstoð framsóknarflokksins, verður aldrei bætt. Arfur draugsins og yfirnagarans hvílir eins og óhugnanleg mara yfir öllu hér. Fyrir svona venjulega meðaljóna eins og Hösmaga er lítið annað að gera en bíða og vona hið besta. Nota atkvæðisréttinn rétt svo hægt sé að líta til baka með góðri samvisku. Vona að hnípin þjóð í vanda geti horfst í augu við framtíðina með bjartari augum en áður. Landið er enn á sínum stað. Hér höfum við þraukað í þúsund ár og munum gera áfram. Mig þyrstir ekki í blóð heldur rættlæti. Þó það væri ekki nema snefill af því. Ég er algjörlega ósammála að ekki eigi að leita sökudólga. Ekki eigi að "persónugera" hlutina. Það er hér slatti af mönnum sem eiga heima undir lás og slá. Enn hef ég von um að svo verði. Þessir glæponar vita ekki hvað samviska er. Þeir eru enn að. Og munu verða meðan hægt er. Óstjórn og eftirlitsleysi stjórnvalda síðustu ára hefur orðið til þess að nokkur þúsund milljarðar hafa horfið. Sumt af þessu fé er þó til enn. Falið erlendis. Við skulum leita þess og gera það upptækt. Við þurfum ekki nýtt lýðveldi eða nýja stjórnarskrá. Það nægir að hreinsa ærlega til. Taka upp nýja stefnu og ný gildi. Sigurður Líndal, minn gamli lærifaðir í lagadeildinni sagði einu sinni í fyrirlestri að verstu einræðisríkin væru með flottustu stjórnarskrár veraldar. Þar voru mannréttindi varin í bak og fyrir. Bara marklaus plögg sem voru fólkinu miklu verri en engin.
Aðalfundur stangveiðifélagsins er á föstudaginn kemur. Leiðir hugann að komandi vori og sumri.Þó hart sé á dalnum nú um stundir verða einhver ráð til þess að strengja línur í sumar. Annars væri bara allt ómögulegt. Herconinn bíður átaka. Það er einkar ljúft að hugsa til þess. Við Dýri erum nokkuð slakir. Hann þó enn slakari. Steinsofandi hér á móti mér. Gamli hægindastóllin sem hefur svo lengi verið klóskerpa fór út í bílskúr í gær. Þar var annar samskonar eðalstóll. Dugar örugglega nokkur ár þó hann eigi harðar árásir í vændum. Ég ætla á mótmælafund klukkan eitt. Hann verður friðsamur og fyrst og fremst táknrænn. Bestu kveðjur frá okkur Kimi. ykkar Hösmagi.

Tuesday, January 20, 2009

 

Sólargeisli.

Það er að verða sauðljóst á þessum miðvikudegi.Hiti 2 gráður og fremur kyrrt. Það var gott að vakna í morgun. Stundum er gott að vakna eftir slæmar draumfarir. En í morgun var það af öðrum ástæðum. Það hefur að vísu lítið lagast í þjóðmálunum. Það voru þó kröftug mótmæli gegn stjórnvöldum í gær og mín trú er að þessi volaða ríkisstjórn sé á síðustu metrunum. Feigðarmerkin augljós og stutt í endalokin. Það verður byrjunin á batnandi geðheilsu þjóðarinnar. En það sem gerði það svo gott að vakna í morgun var sólargeisli í sál Hösmaga sem kviknaði við símtal í gærkvöldi.Sólargeisli, sem mun verma hugann og gleður gamlan veiðimann mjög. Sem betur fer gerast stundum góðir hlutir í svartnættinu. Hvað er ljúfara en að vonir rætist? Hösmagi er glaður í sinni í dag, stoltur og alveg bráðhress.
Ég er hugsa um að heimsækja höguðborgina í dag. Koma grænu þrumunni á nýja bílasölu. Það verður hver að sníða sér stakk eftir vexti. Þegar mikið tekjufall verður þarf að grípa til ráðstafana. Lífið heldur alltaf áfram þó á móti blási. Ég hef ósjaldan lofað þessa glæsibifreið í þessum pistlum. Besti og skemmtilegasti vagn sem ég hef eignast á minni ævi. Samt er þetta nú bara bíll. Smá eftirsjá fyrst í stað en ég fer ekki á límingunum við það. Svo er nú gamla ljóðlínan um að alltaf megi fá annað skip og annað föruneyti.
Dýri er nú risinn upp af beði sínum. Liggur í glugganum og gáir til veðurs. Hann var nokkuð drjúgur með sig í gær. Ófétið sem situr um að komast inn um gluggann, ræna mat og angra mitt ljúfa dýr sat hvæsandi á svalaganginum. Bálillur yfir lokuðum glugga. Og Dýri hvæsti hressilega á móti. Ófétið er bara áþján sem við verðum að búa við. Kannski hverfur það eins og ríkisstjórnaráþjánin mun gera fyrr en varir.
Það var aftur fiskiveisla í gærkvöldi. Rauðmagi á borðum. Þetta er feitur fiskur og bráðnar á tungu. Ákaflega bragðgóður og svo eykur hann tilfinninguna um að vorið kemur þrátt fyrir fáráðlingana í ríkisstjórninni. Það kemur að venju og ég hlakka enn meira til þess með sólargeislann í sinni. Við Kimi sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 18, 2009

 

Hækkandi sól.

Fjórar vikur liðnar frá vetrarsólstöðum. Glampandi sólskin og hitinn rétt neðan við núllið. Það er værð yfir okkur Dýra. Hann sefur nú inní fataskáp í svefnherberginu en ég rolast hér við tölvuna. Horfði á Silfur Egils sem er líklega það eina sem hægt er að horfa á á þeim bæ í dag. Dagskránni fer aftur með hverri vikunni sem líður. Það var þó nokkuð fyndið að sjá framsókn veittar nábjargirnar í spaugstofunni í gær. Ég varði nú reyndar ríkisútvarpið lengst af. En mér ofbýður orðið sjálfbirgingshátturinn og metnaðarleysið. Kannski er bara öll fjölmiðlun á niðurleið.Ég keypti mér reyndar helgaráskrift að mogganum í gær. Þá fær maður lesbókina og yfirleitt eru nokkuð margar greinar í sunnudagsblaðinu. Svo er auðvelt að hætta við ef þannig snýst. Það er allt við sama á stjórnarheimilinu. Það er skondið að heyra Geira lýsa því yfir að gremjulegast sé að ríkiskerfið skyldi ekki slá á putta stórþjófanna. Í hvaða veröld er þessi hagfræðingur. Hann og fleiri ráðherrar, t.d. Þorgerður, áttu vart orð til að lýsa hneykslun sinni og vanþóknum á þeim sem vöruðu við því sem var yfirvofandi. Þetta þjóðfélag er að verða svo ömurlegt að það er að verða manni áþján að vakna á morgnana. Það er þó jákvæð þróun að mótmæli almennings virðast hafa orðið til þess að æ fleira fólk innan stjórnarflokkanna sjálfra er farið að tala um nauðsyn nýrra kosninga. Hösmagi mótmælti allur við ráðhús Árborgar í gær. Það lá reyndar við að ég léti mig hverfa þegar ég sá Jón forseta á mættan. Þessa sól VG hér á staðnum. Foringjann mikla, sem talar við hirðina eins og 5 ára skólabörn. Hann verður þó nauðugur að víkja úr musterinu á næsta ári. Það væri indælt ef öflugt utanflokkaframboð kæmi fram hér á næsta ári. Fólk með nýja sýn á það sem gera þarf.Þá gæti maður hugsanlega kosið.
Dýri er nú vaknaður og hefur komið sér fyrir hér á borðinu. Malar og vil þrífa skegg fóstra síns. Ég er nú ekki sérlega hrifinn. Það er þó enginn vafi á að þetta er vel meint.
Það voru mikil veisluhöld hér í vikunni. Hrogn, lifur og þorskur. Góð tilbreyting eftir allt kjötátið og svo er þetta hollt og hækkar gáfnavísitöluna. Þorramaturinn er orðinn á stjarnfræðilegu verði. Hann er þó alíslenskur og ótengdur gengi krónunnar. Þó mér þyki sumt af þessu góður matur eru þó takmörk fyrir hvað ég læt bjóða mér. Við Dýri deildum með okkur Eyrarfiski í gær. Kílóverðið yfir 5 þúsundkall. Og nú er að verða lítill sparnaður af að versla í bónus. Þar hefur allt hækkað meira en annarsstaðar. Það vantar kannski fleiri aura í þotur og snekkjur.
Klukkan er 4 og albjart enn. Þrátt fyrir allt hlakka ég til vorsins. Unaðsstunda á bökkum Ölfusár og bjartra nátta. Við rauðliðar sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, January 16, 2009

 

Hreinviðri.

Ágætisveður þó enn sé smásnjór á jörðu og fjallið góða hvítt niður í rætur. Hér gengur lífið sinn gang og við Kimi umberum hvorn annan og rúmlega það. Ég lauk við Berlínaraspirnar í gær. Þetta mun vera vinsælt lesefni og ég var svona nokkurnveginn sáttur við lesturinn. Kannski ekki meiriháttar bókmenntaverk en einhvernveginn heldur höfundurinn manni við efnið. Nú er ég byrjaður á Auschwitz eftir Laurence Rees og síðan kemur Valkyrjuáætlunin um tilræðið við der fuhrer. Nú er hálfur annar mánuður í skattavertíðina og það er bara tilhlökkunarefni. Í gær fékk ég loksins launin frá atvinnuleysistryggingasjóði svo allt virðist hafa skilað sér að lokum.
Ég lét skoða grænu þrumuna í fyrradag. Í fyrsta sinn því nú eru tæp 3 ár frá kaupunum. Hún rann að sjálfsögðu í gegn. Það sem mér þótti þó miður var að nú skreytir blái liturinn númerið. Miðinn fyrir 2011 er sem sagt með hinum heiðbláa íhaldslit. Ég verð að una við það en þetta óprýðir að sjálfsögðu þennan eðalvagn.
Í dag byrjar flokksþing hjá framsókn. Þeir eru voða brattir og segja að lýðurinn flykkist nú undir merkin. Sannleikurinn er þó sá að smölum kandidatanna til formanns hefur tekist að lokka til sín 150 sálir. Flokkurinn er löngu búinn að vera. Ný andlit hreinsa ekki spillinguna af þessu hræi. Hlutverki flokksins sem bændaflokks er löngu lokið og hann mun aldrei ná sér á strik aftur. Sporin hræða og hið andlega krabbamein flokksins verður ekki læknað. Svo kemur íhaldið í mánaðarlokin. Þar logar allt í illdeilum og flokkurinn í reynd þverklofinn. Eftir 18 ár á valdastóli hefur hann skilið við landið í rústum með dyggri aðstoð framsóknar. SF virðist enga burði hafa til að tjónka við hann. Enda vantar bæði hugsjónirnar og viljann. Æ fleiri SF liðar eru að verða þreyttir á ástandinu og það hlýtur að verða þar uppgjör. Ekkert er nauðsynlegra enn alsherjar endurnýjun í íslenskum stjórnmálum. Hikið, fálmið og kuklið eru orðin afar dýrkeypt. Það mun sýna sig að við munum ekki sætta okkur við þetta vonlausa lið áfram. Verst er að það er bæði blint og heyrnarlaust. Sjálfumgleðin verður til þess að það þekkir ekki sinn vitjunartíma. Þetta er þyngra en tárum taki og óhamingjunni verður allt að liði. Úff, hvílík andstyggð.Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Monday, January 12, 2009

 

Kerfið.

Það er ýmislegt skrítið í kýrhöfðinu. Í fyrsta sinn um mína daga á ég rétt á atvinnuleysisbótum. Ef fram fer sem horfir verður helmingur þjóðarinnar í þessum hópi. Ég fékk einhverja smáaura í byrjun desembermánaðar. Líklega fyrir eins og eina viku í nóvember. Mér var tjáð að ég fengi svo fullar bætur fyrir desember þann 2. janúar. En það gerðist ekkert. Þann 5. var mér sagt að það vantaði skilagrein yfir staðgreiðsluskyld laun í desember. Fékk staðfesta útskrift frá sýsla og nú áttu aurarnir að koma 9. janúar. Öngvir aurar þann daginn. Ég fór aftur á stúfana í morgun. Eftir japl, jaml og fuður kom í ljós að kerfið hafði týnt bleðlinum frá sýslumanni. Ég sótti nýjan. Fékk ádrátt um aura næsta föstudag. Það er farið að jaðra við að ég vilji verða 67 ára á næsta fæðingardegi mínum. Löggilt gamalmenni. En, sem betur fer, verð ég bara hálfsjötugur þá. Það er bagalegt að fá ekki launin sín á réttum tíma. Maður verður að ómerkingi og þarf að greiða vanskilagjöld, dráttarvexti og svoleiðis fínerí. Bara helvítis fokking fokk. Ég ætla að halda ró minni þó þetta sé fúlt.
Nú er veðurspáin gjörbreytt. Frostinu ýtt til hliðar og hitastigið um og ofanvið núllið fram á helgi. Kimi viðraði sig heillengi í morgun en er nú enn lagstur fyrir í gamla körfustólnum. Sem betur fer er hann ómeðvitaður um ríkisstjórnina og aðra óáran hér á skerinu. Þessu blessða skeri, sem mér finnst enn vænt um þrátt fyrir illþýðið sem enn ræður og vini þess, stórþjófana. Einn hinna stórtæku, Bjarni Ármannsson sagðist hafa "skilað" 370 millum. Sannleikurinn er þó sá að Glitnir hafði lýst því yfir að þessar eftirstöðvar milljarðsins sem honum var skammtaður við flóttann úr hinu sökkvandi skipi, yrðu ekki greiddar. Þetta var því aðeins sýndarmennskan ein. Rannsókn á verkum útásarglæponanna mun taka langan tíma. Þegar staðreyndirnar liggja fyrir verður hver einasti eyrir þýfisins horfinn. Það er líka vitað að tætararnir í bönkunum hafa verið á fullu síðan þeir féllu, enda sama liðið við iðju sína áfram. Á þessu bera þau Geiri og Solla fulla ábyrgð.
Ég mun aldrei framar tala fyrir samstarfi vinstra fólks við íhaldið. Það er enn slatti af góðu fólki í SF.Jafnvel örfáir heiðarlegir framsóknarmenn. Umbótasinnað fólk verður að taka höndum saman um hin nýju gildi. Fyrsta verk verður að reka gjörspillta embættismenn. Frysta það af þýfinu sem enn er tiltækt. Þá verður miklu skárra að vera til. Þá kemur sólin upp aftur og vindurinn leikur í laufi. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 11, 2009

 

Ónenna.

Ég er svo latur í dag að ég nenni varla að draga andann. Kötturinn jafnvel enn verri og liggur alveg flatur í dyngju sinni. Ég horfði þó á silfur Egils og fékk mér flís af reyktu folaldakjöti sem ég sauð í gær. Rúmið er að verða aðaldvalarstaður undirritaðs nú í seinni tíð. Ég les og móki á milli. Bíð eftir að öll vandamál leysist af sjálfu sér. Það er nú varla vænlegt til árangurs. Kannski reyni ég bara að hefja nýtt líf í fyrramálið. Láta verkin tala eins og sumir stjórnmálamenn orða það. Það er þó ekki auðvelt í þessu landi eins og ástandið er. Afar vond stjórnvöld og stjórnsýslan öll morkin í gegn. Hagar sem eru í eigu Baugs hafa nýverið keypt allar BT verslanirnar. Þær voru staðgreiddar með láni frá Elínu Sigúsdóttur sem er núverandi bankastjóri nýja Landsbankans. Fituhlussunni sem var hægri hönd Sigurjóns í gamla bankanum. Fékk góða aðstoð frá Trygga Jónssyni fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs. Hann er dæmdur glæpamaður. Þetta er sama siðferðið og áður. Það er alveg vonlaust að breytingar verði í þessum efnum meðan núverandi stjórnvöld sitja. ISG lýsti yfir fullu trausti á Árna Matt í kastljósi nú í vikunni. Mann, sem þverbrotið hefur stjórnsýlulögin. Hann var nýlega sæmdur titlinum skítseyði ársins. Enginn ráðherranna er tilbúin til að axla minnstu ábyrgð á því hvernig komið er. Það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast kosninga. Það eru þó litlar líkur á að svo verði í bráð. SF er ekki skárri en íhaldið í sjálfbirgingshættinum og valdasýkinni. Ekki að furða þó margir landsmenn séu daprir og vonlitlir. Þessa dagana er verið að leggja heilbrigðiskerfið í rústir. Það er stefnt á að einkavæða það allt á mettíma. Því stjórnar einn af Vökustaurum íhaldsins. En það heyrist heldur ekki stuna né hósti frá SF. Þessum íhaldsmanni er líka treyst til allra góðra verka. Ef SF stígur ekki á bremsurnar mun fylgi flokksins hrynja. Það er reyndar farið að dala nú þegar. Þetta er bara allt veruleg andstyggð. Framkvæmdavaldið hefur sölsað undir sig öll völd í landinu. Þingmeirihluti íhaldsins og SF fær heilu lagabálkana tilbúna til samþykkta. Það þarf ekki að ræða þá því ráðherrarnir hugsa fyrir öllu. Mín von er þó sú að þetti gervilýðræði muni ekki vara til lengdar. Þjóðin rísi upp og komi þessari óstjórn útí hafsauga. Eða á uppeldisstofnun til endurhæfingar.

Það hefur kólnað og Ingólfsfjall að mestu hvítt. Spáð verulegu frosti næstu daga. Það gæti kostað enn meiri sængurlegu. Ég lauk við síðustu bókina af bókasafninu í dag. Kem þar aftur við á morgun. Ætla m.a. að ná mér í Berlínaraspirnar. Ég hugsa ekki um vond stjórnvöld þegar ég hef sökkt mér niður í lesturinn. Þennan samviskusnauða kvikfénað ógæfunnar sem ekki þekkir sinn vitjunartíma og trónir á skítahaug sinna eigin illverka. Og vinir þessa fénaðar eru kátir. Hvað annað? Með kveðju frá okkur letihaugunum, ykkar Hösmagi.

Monday, January 05, 2009

 

13ándi.

Siðasti dagur jóla runninn upp.Þau hafa verið ágæt og liðið hratt. Við Magnús gerðum för okkar í Tangavatn í fyrradag. Veður var prýðisgott en við komum öngulsárir til baka. Höfðum ágæta útiveru en fiskurinn var ekki tilkippilegur.Fáum að reyna okkur aftur síðar án endurgjalds. Við Kimi erum löngu komnir á stjá eftir góðan nætursvefn. Annars er ég farinn að halda að kötturinn sé með svefnsýki því hann dormar meira og minna allan sólarhringinn. Tekur þó vökustundir inná milli. Hann er nú langt kominn með gamla leðurstólinn í stofunni. Tók við þar sem hinn eini og sanni Hösmagi hætti hérna um árið. Beittar klær vinna hægt og hægt eins og dropinn sem holar steininn. Hér verður þrettándagleði í kvöld með stórskotahríð. Það heitir að rota jólin. Sumir fá sér jafnvel í glas. Það verður minna um það á bindindisheimilinu í Ástjörn 7.
Það er enn sama veðurfarið. Sæmilega hlýtt en þungbúið og myrkrið ræður enn ríkjum. Rúmur hálfur mánuður frá vetrarsólstöðum og þetta fer að tosast. Fyrr en varir kemur aftur vor. Vonandi færir það okkur nýja ríkisstjórn. Feigðarmerkin eru augljós á þeirri sem enn situr. Báðir stjórnarflokkarnir eru að klofna í viðamiklum málum. ESB og stóriðjubrjálæðinu. Össur boðar 360.000 tonna álver í Helguvík. Sama þrælslundin að baki og jafnan áður. Rafmagn á broti af því verði sem við greiðum fyrir það. Fimmmilljarða ríkisstyrkur sem startgjald. Þetta er fagra Ísland sem SF boðaði fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer eru þó ekki allir í SF ánægðir með þennan yfirblaðrara. Gasprarann, sem fyrir margt löngu grenjaði eftir stuðningi í sjónvarpinu svo hann gæti slegist við íhaldið. Slagsmálin hafa falist í því að þjóna þessu sama íhaldi til borðs og sængur. Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri segir máltækið. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru allir í eigin heimi. Allt öðrum heimi en flest okkar hinna. Það virðist engin vitglóra til í þessu fólki. Við þurfum að gefa þeim öllum frí. Það er til nóg af hæfu fólki til að leysa þá af hólmi. Kveða alla messíasarkomplexa niður eins og draugana í gamla daga. Reyndar finnst mér nauðsynlegt að svona u.þ.b. 90% af núverandi þingmönnum ættu að hætta og leggja eitthvað annað fyrir sig. Það eru þó litlar líkur á að mér verði að ósk minni.Það væri fróðlegt að vita meðalgreind þessa liðs. Hún er örugglega lægri en hinna venjulegu Jóns og Gunnu. Ég ætla að hætta hér. Er að verða pirraður á að tala um þennan ruslaralýð, blindan og heyrnarlausan. Fari hann allur í fúlan rass.

Nú passar að leggja sig aðeins. Ljúka við alkasamfélagið hans Orra Harðarssonar sem ég náði í á bókasafnið í gær. Mjög vel skrifuð bók og margt er þar talað eins og úr mínu eigin hjarta. Síðan held ég áfram með Sjöwall og Wahlöö. Luktar dyr, Maður uppi á þaki og Maðurinn á svölunum. Semsagt gott krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 04, 2009

 

2009.

Þó klukkan sé að ganga ellefu grúfir myrkrið enn yfir. Rigning, en ágætlega hlýtt og Kári hefur sig lítið í frammi. Þetta hefði nú stundum þótt veiðiveður. Ég velti fyrir mér Tangavatnsför. Nægilegt að fara af stað um hádegi og dunda sér við dorg í svona 3 tíma. Við Kimi tókum daginn snemma en erum búnir að leggja okkur aftur. Gott að dorma aðeins eftir að hafa farið í daglega eftirlitsferð. Þrátt fyrir allt leggst þetta ár nokkuð vel í mig. Ég trúi ekki öðru en það verði skárra en síðasta ár. Það þarf að vísu að taka ærlega til. Skipta um vonlausa ríkisstjórn og pilla alla fasistana út úr stjórnkerfinu. Það er afar mikilvægt að hreinsa óværurnar út úr stjórnarráðinu, seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu og fjöldamörgum ríkisstofnunum. Þar sitja þær sem fastast og munu gera ef ekki verður gerð alsherjarhreingerning.Við þurfum að breyta lenskunni að embættismenn noti starf sitt fyrst og fremst í eigin þágu. Skari eld að sinni köku í stað þess að þjóna almenningi í þessu landi. Þeir eru flestallir ráðnir eftir pólitískum skoðunum sínum án tillits til hæfileika sinna.Ég vona að hugarfarsbreyting verði meðal nægilega margra til að þetta megi gerast. Það er þó augljóst að langt er í land. T.d. sagði Geir í áramótaávarpinu þegar hann hugleiddi stöðuna að hafi honum orðið á mistök þá þætti honum það leitt. Raunveruleikafirringin er algjör. Það sama gildir um alla aðra ráðherra. Þeir munu stritast við að sitja á meðan sætt er. Íhaldið hefur ráðið í meira en 17 ár. Stuðst við auðmjúkt hækjulið framsóknar lengst af og nú við SF sem sífellt er til í að láta hugsjónir lönd og leið fyrir völd og þægilega stóla. Reyndar er varla hægt að tala um hugsjónir. Fagurgalinn fyrir kosningar hefur reynst hjómið eitt. Innan flokksins er þó enn talsvert af ágætu fólki sem mundi sóma sér vel í nýrri umbótasinnaðri vinstri stjórn. Það er sannarlega tími til kominn að þjóðin vakni.

Nú er ég búinn að tala við frúna á Galtalæk. Þar er hið ljúfasta veður eins og hér, snjólaust og fiskur í vatninu. Það þarf varla meiri brýningu. Græna þruman í bílskúrnum ásamt Herconinum og annars sem til þarf. Ég held að þetta sé bara alveg rakið. Raikonen verður í húsvarðarhlutverkinu á meðan. Við sendum bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online