Saturday, December 26, 2009

 

Fimm ár og fimm dagar.

Ég átti 5 ára bloggafmæli á mánudaginn var. Sólstöðudaginn sjálfan.Skáldið mitt kynnti mig fyrir þessari veröld útí Edinborg í hinni ágætu íbúð við Lögmannastræti.
Þessi pistill er númer 667. Nokkuð dregið úr skrifunum hér eftir að ég fór að skrifa á Moggabloggið og svo bættist facebook við í október s.l. Mér finnst þó enn vænt um þessa síðu. Ekki síst vegna upphafsins. Það var rétt áður en heimsvaldaflensan lagðist yfir mig. Þetta var árið 2004. Árið sem Þorláksmessa hvarf og ég reis upp frá dauðum um hádegi á aðfangadag og átti yndisleg jól með Helgu og Sölva. Skáldið tók til sinna ráða og lífgaði mig við með Day Nurse. Kraftaverkalyfi, sem er bannað á Íslandi. Ég mun örugglega bæta við pistlum hér annað slagið. Skrifa um það sem mér dettur í hug, heimsins gagn og nauðsynjar. Pólitíkin á ekki beinlínis uppá pallborðið hjá mér nú um stundir. Lífsskoðanir mínar hafa þó ekkert breyst.Vonbrigðin með núverandi ríkisstjórn eru reyndar nokkur en þó ekki eins mikil og tilefnið gefur til. Ég bjóst ekki við miklu vegna þess hvað flokkarnir eru ólíkir.Og ekki breyttu kosningaúrslitin neinu um álit mitt á íhaldi og framsókn. Afar raunalegt að fylgjast með þessum flokkum á þinginu um þessar mundir.Þó skipt hafi verið um forustu breytir það engu um gerðir þessara flokka. Sporin hræða og málflutningur Sigmundar, Höskuldar og Bjarna Ben er brjóstumkennanlegur. Jóhanna orðin þreytt og ætti alls ekki að standa í þessu lengur. Það versta er meinloka Steingríms í icesave málinu. Málflutningur hans mér óskiljanlegur. Hann virðist vera í herkví og reynir að halda samflokksmönnum sínum sem eru honum ósammála í skefjum með öllum tiltækum ráðum. Það er arfaslæmt og vitlaust. Lengi skal manninn reyna og álit mitt á Steingrími, mínum fyrrum uppáhaldsstjórnmálamanni er í lágmarki.Sérstaklega er athyglisvert hvernig hann hefur komið fram við fyrrum vopnabróður sinn, Ögmund Jónasson. Tók m.a. undir lygarnar um að Ögmundur hefði flúið vandamálin í heilbrigðisráðuneytinu. Allt heiðarlegt fólk veit þó betur. Jóhanna rak Ögmund úr þessari " norrænu velferðastjórn" af því hann undi ekki tvíræði hennar og Steingríms. Skoðanakúgun og andlegt ofbeldi eru ekki góð tæki í pólitíkinni. Þau Steingrímur og Jóhanna vilja kúga aðra til að samþykkja ríkisábyrgðina á icesaveþrælaböndunum. Fjötrum, sem mjög miklar líkur eru á að geri þessa þjóð gjaldþrota. Hræðsluáróðurinn notaður til að kúga þingmenn til að samþykkja að greiða einkaskuldir sjálfstæðisflokksins svo við " komust áfram". Áfram hvert? Inní ESB? Eða fram af bjargbrúninni? Eða hvoru tveggja? Það er vitað að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti þessari nýju ríkisábyrgð. Steingrímur og Jóhanna vita það líka. Valdafíknin, forræðishyggjan,draumórarnir og misráðin vissa um eigið ágæti knýja þetta par áfram. Vonandi tekst á síðustu stundu að fella þetta frumvarp. Er ekki nær að við herðum sultarólina nú en að börnin okkar og barnabörn, fædd og ófædd, geri það? Þetta er bara hundfúlt allt saman.

Kimi sefur á bakinu með kviðinn upp á gamla tágastólnum. Mikil kyrrð, hitinn rétt undir frostmarkinu úti en hlýtt og notalegt hér inni hjá okkur.Ég er íklæddur flotta náttserknum sem Hrafnhildur Kristín, Helga og Sölvi gáfu mér í jólagjöf. Buxur í stíl fylgdu. Ég gæti sem best farið á ball í þessu dressi. Virkilega töff og smart. Afar rólegur jóladagur hjá okkur kisa. Saltlæri með baunum og kartöflum. Rúgbrauð og jólasíld og svo humar fyrir Kimi. Loftið hér miklu betra eftir að reykurinn var gerður útlægur. Það verður væntanlega sama letilífið á okkur í dag. Við eigum svo von á Helgu, Sölva og litlunni, HKR, í dag eða á morgun. Þá verður etinn reyktur sauður úr Selvoginum. Við sendum öllum vinum okkar albestu kveður, ykkar Hösmagi.

Saturday, December 19, 2009

 

Kastljós.

Það var gaman að fylgjast með hluta af kastljósi gærkvöldsins. Flott viðtalið við Sölva og Yrsu. En það var heldur verra að fylgjast með sumu öðru.Það er eins og engin takmörk séu stundum í lágkúruskapnum. Féttin um ölvun Ögmundar Jónassonar var hreinlega fyrir neðan allar hellur. Það bendir ekkert, nákvæmlega ekkert, til þess að minn ágæti þingmaður og skoðanabróðir, Ögmundur, hafi verið fullur á Alþingi í gær. Fullur eða ölvaður. Hann vildi einfaldlega ekki veita sjónvarpinu viðtal eftir að hafa drukkið hvítvín með matnum. Og hvað með það? Það var mikið gert úr því að hann hefði greitt atkvæði í þinginu eftir að hafa fengið sér í glas með matnum. Ekkert má nú. Mér finnst nú ekki tiltökumál þó fólk bragði aðeins á veigum í öllum leiðindunum og flatneskjunni á þinginu um þessar mundir. Ögmundur kom líka heiðarlega fram og sagði Sigmari eins og var. Og Sigmar var svo heiðarlegur að hlaupa með þetta hreinskilna svar í kastljósið til að gera lítið úr Ögmundi.Ég hugsa að þetta hafi verið gert í fljótræði og algjörlega vanhugsað. Ég gef Sigmari annan séns enda oftast ágætur sjónvarpsmaður. Sölvi var auðvitað langflottastur þarna í gærkvöldi. Svo er hann líka verðandi múltimilli svo það er nú aldeilis ekki alveg ónýtt að þekkja hann. Bróðir hans strax farinn að hefja hann upp til skýjanna. Ég er viss um að danirnir verða hrifnir og þá er brautin rudd til fleiri landa.
Nú hefur hann fryst en lognið er enn til staðar. Gaman að viðra sig í lognkælunni í morgun og nú er ég sjálfur hættur að menga með tóbaksreyknum. Ef ég hefði keypt mér meira tóbak eftir að ég kom heim af spítalanum þann 5. des væri upphæðin komin í um 20.000 kr. Ég er bara andskoti ánægður með að hafa kvatt reykinn. Bravó fyrir sjálfum mér.

Lærið er nú komið í pækilinn. Fæ svo sauðinn í dag eða á morgun svo ég fer að verða brynjaður matvælum til jólanna. Fer minn venjulega rúnt á aðfangadag og svo heim aftur á jólanótt og leggst í bækur og leti. Við Kimi ætlum að hafa það svakalega rólegt um jólin. Fáum okkur samt smágöngutúr, étum, sofum og étum svo meira. Biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Monday, December 14, 2009

 

Yndisauki.

Það var sannkallaður unaður að bregða sér út í morgun. Hitinn 9 gráður og ekki bærðist hár á höfði.Svaladyrnar standa opnar og stór fiskifluga er á sveimi í stofunni. Eins gott fyrir hana að Kimi er utandyra að hnusa af góðviðrinu. Nú nýtur maður blíðunnar enn betur en áður. Enginn reykur og nú eru 10 sólarhringar liðnir í betra lofti. Sem betur fer reynist mér þetta fremur auðvelt. Ég gríp þó í tyggjóið annað slagið en það ætla ég ekki að gera til langframa. Þetta er búin að vera afar róleg helgi hjá okkur Kimi. Ég tók svefnherbergið og baðherbergið í gegn í gær og er andskoti ánægður með mig. Ég er jafnvel að hugsa um að bregða mér í Tangavatn einhvern næstu daga. Herconinn verður örugglega til í það. Tæp 12 ár frá stórveiði minni þar þann 20. desember 1997. Fiskurinn í vatninu er af stofni Veiðivatnaurriðans og er alveg prýðisgóður. Ég er búinn að kaupa nokkrar jólagjafir, byrjaður á jólakortunum og svo þarf fljótlega að huga að saltlærinu. Hinu eina og sanna jólalæri. Búið að reykja sauðinn úr Selvoginum svo það verður eitthvað hér á borðum um jólin. Kimi er reyndar ekkert fyrir hangikjöt en hann fær humar í jólamat.Hann er aldeilis búinn að njóta undanfarinna daga. Talsvert útivið og liggur svo gjarnan í glugganum með trýnið út í blíðuna. Ég held mínum áralanga vana sömuleiðis með útiveru á morgnana.
Síðustu dagar móður minnar eru nú loks fáanlegir á Selfossi. Það hefur sannarlega glatt mig einlæglega hvað þessi bók fær frábæra dóma. Gott að svo margt fólk skuli nota jafn mörg sterk orð til að lýsa ágæti þessarar sögu. Með allri virðingu fyrir öðrum nýútkomnum bókum. Skáldið mitt getur sannarlega verið stolt af þessu verki og vonandi verður umfjöllunin til þess að sem allra flestir lesi það. Sjálfur ætla ég að lesa það aftur bráðlega.

Þó myrkrið sé svart þessa dagana er tilveran ágæt í svo dásamlegu veðri. Engin merki enn um byl né hríð. Aðeins 18 dagar eftir af árinu og vonandi ber nýja árið hið góða í skauti sér. Við félagar og stórvinir sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 08, 2009

 

Eitur.

Ég er búinn að reykja í 45 ár. Síðustu 38 árin hef ég reykt Bagatello. Danska vindla sem eru nú andskoti góðir. Þegar vinir mínir hafa talað um að ég ætti að hætta að reykja hef ég stundum sagt að lífsnautnamaður sem er hættur að nota áfengi og nennir varla að eltast við pils lengur verði nú að hafa eitthvað eftir til að hugga sig við.Nú er ég þó einfaldlega hættur að reykja. Það er bara ný staðreynd og ég er glaður með að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég geri hlutina stundum svona. Dríf í þeim og punktum og basta. Ég sakna að vísu vindlanna minna ennþá. Það er eðlilegur hlutur og ég er að tyggja nikótín mér til hugarhægðar þessa dagana. Ég er samt strax farinn að græða á þessari ákvörðun. Hver vindill kostar 67 krónur og fimmtíuaura og oft reykti ég 20 stykki á sólarhring. 1.350 krónur x 365 gera 498.225 krónur. Þó krónan sé ekki burðug má þó gera ýmislegt fyrir hálfamilljón. Ávinningurinn er þó miklu meiri en þessi hálfa milljón. Loftið verður betra, svefninn, matarlystin og líkaminn verður örugglega feginn líka. Þetta er sem sagt hið besta mál. Ég ætla þó ekki að gerast predikari gegn tóbakinu. Ég tek ákvörðun fyrir mig og ætla að láta aðra ráða fyrir sig. Steingrímur garmurinn missir einn tóbaksþrælinn frá sér og nú ulla ég bara á nýjar álögur á vindlana mína. Ég ætla að vera andskoti ánægður með sjálfan mig yfir þessum nýja lífsstíl. Kannski ég gerist bara skjortejæger á ný? Aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Við Kimi erum slakir og rólegir heimavið. Nokkrar mislitar perur farnar að loga hér innanhúss. Rólyndisveður þó myrkrið grúfi yfir. Það er mjög góð veðurspá svo langt sem hún nær. Það léttir lund og gleður sál. Nú bíð ég eftir að heyra frá spítalanum. Ég er í startholunum en slakur og rólegur áfram. Allt hefur sinn gang. Rólyndið og jafnlyndið sem mér hefur svo oft verið tamt að tala um hér ríkir og þá ganga hlutirnir vel. Við rauðliðarnir sendum ykkur öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 06, 2009

 

Stund milli stríða.

Við Kimi erum hér heima í rólegheitunum.Tæplega bloggfært vegna náinnar nærveru þess rauðbröndótta. Ég kom heim af LS seinnipartinn í gær. Allt gekk nokkuð vel og ég verð allavega heima þessa viku. Kisi varð harla hress þegar undirritaður birtist í gær og við höfðum það gott hér fram eftir kvöldi. Veðrið er dásamlegt og mikið af snjónum hefur tekið upp. Rétt rúmur hálfur mánuður í vetrarsólstöðurnar og þá fer aftur að birta. Það var svolítið skrítin tilfinning að yfirgefa spítalann í gær. Vindlarnir voru í vasa mínum og að sjálfsögðu langaði mig í vindil. Ég ákvað að bíða uns heim kæmi. Einhvernveginn tókst mér að þrauka gærkvöldið af vindlalaus. Ég var búinn að ákveða að hætta að reykja þann 31. janúar á næsta ári. Ef ég tel í klukkutímum þá eru nú 54 tímar síðan ég drap í á lóð spítalans. Það er að koma upp í mér þrákelkni. Ég get hætt. Ég finn það og veit það.Ég ætla að reyna þó ég viti að ég geti fallið. Það vinnst margt við að leggja vindlana til hliðar. Betra loft hér,betri heilsa til frambúðar og svo kosta vindlarnir sitt. Allavega er tilraun hafin og ég vona að þetta takist. Pistlar mínir hér hafa strjálast að undanförnu. Kannski er nú líka fullmikið að vera á fésinu og með 2 bloggsíður. Nú eru að verða 5 ár síðan ég byrjaði úti í Edinborg og oft haft gaman af þessu. Ég hef oft bloggað um pólitíkina. Nú um stundir er ég svo yfirmáta leiður á íslenskum stjórnmálum að það hálfa væri nóg. Örugglega langbest að setja þau á frost í bili og sjá bara til hverju fram vindur. Ég hef líka ævinlega rekist illa í flokkspólitík og farið mínar eigin leiðir. Sólin skín og góða loftið írist inn um gluggann. Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online