Wednesday, March 29, 2006

 

30. mars.

Góður dagur runninn upp. Og reyndar slæmur líka. 57 ár liðin frá því " lýðræðisflokkarnir" 3 sviku þjóðina inní Nató. Og nú þegar herinn er á förum er búið að setja á stofn áfallahjálparsveitir á Suðurnesjum. Nóg að gera hjá sálfræðingum að hugga starfsmenn varnarliðsins. Ekki græt ég brottför kananna héðan.
Í fjölskyldunni er tvöfalt afmæli. Helga Soffía 33ja. Og yfirkötturinn í Ástjörn 7 er eins árs í dag. Á þriðjudaginn var pantaði ég 12 manna afmælistertu. Marsipanstríðsterta frá Guðna bakara. Ætla að sækja tertuna kl. 3 og gefa samstarfsfólki mínu á Bakka að smakka. Ét svo bara afganginn sjálfur. Raikonen fær svo rækjur í kvöldmatinn. Kannski hefur hann líka lyst á tertunni. Hann situr nú hér í glugganum og horfir heimspekilega út um gluggann. Enda gluggaveður enn. Vindhraðinn fór í 19 metra hér í gær. En það mun lægja og léttast brún.
Að vonum deila menn enn hart um inngönguna í Nató. Íhaldið kallaði til vaska sveit lýðræðisvina til að verja alþingishúsið fyrir óðum kommúnistaskríl. Lögreglan greip til gasárása á glæpalýðinn. Sem fékk makleg málagjöld. Biksvart mannorð og var bannað að kjósa um langa hríð. Hvað hafa líka kommúnistar með atkvæðisrétt að gera. Auðvitað ekki neitt. Menn eins og Jón Múli sem var trúr skoðunum sínum allt fram í andlátið. Blessuð sé minning hans. Þjóðin væri verulega fátækari ef hann hefði aldrei veið til. Það er löngu viðurkennd staðreynd að verulegur meirihluti þjóðarinnar var á móti Nató aðildinni 1949. Það breyttist síðar þegar hernám hugarfarsins hafði náð tökum á þjóðinni. Liðinu sem nú þarf áfallahjálp og sálfræðiaðstoð. Við skulum bara gleðjast yfir að fá loks að búa í herlausu landi. Og við fögnum afmæli Helgu og Raikonens. Verst að Helga fær ekkert af tertunni fínu. Við kisi sendum henni okkar bestu afmæliskveðjur og biðjum að heilsa skáldinu. Hún fær bara koníak þegar hún kemur í heimsókn til okkar næst. Kominn albjartur dagur og litla afmælisbarnið steinsofnað í gluggakistunni. Og það er enn sama róin yfir okkur báðum. Sæki veiðileyfin í kvöld og þá magnast tilhlökkunin til komandi sumars. Bestu óskir til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Tuesday, March 28, 2006

 

Jafnrétti?

Það þykir meiri jöfnuður en annar að hafa sem nákvæmasta kynjaskiptingu á framboðslistum í öllum kosningum. Kynferðið er ofar manngildinu. Ef kona er í fyrsta sæti á að vera karl í því næsta. Og omvent. Heilinn í fólki skiptir hér að sjálfsögðu engu máli. Það eru tippið eða pjallan sem ráða ferðinni. Ég hef nú aldrei skilið þetta. Varla hugsar fólk nú með þessum ágætu líffærum. Listi Vinstri grænna í komandi bæjarstjórnarkosningum hér í Árborg leit dagsins ljós í fyrradag. Og þar er nú lítið jafnrétti. Tvö tippi í efstu sætunum. Pjöllur fá bara 3ja og 4ða sætið.Hvernig dettur þessum holdgerfingjum jafnréttisins annað eins í hug? Ég bara júst froga.
Vonandi eiga þó margir eftir að kjósa þennan framboðslista. Held að það væri mjög gott fyrir sveitarfélagið að þessi flokkur fengi fulltrúa í bæjarstjórninni. T.d. til að halda uppi andófi gegn allri skemmdarstarfsemi í umhverfismálum. Sumir halda því fram að okkur, sem nú erum á síðari kafla lífshlaupsins, komi framtíðin ekkert við. Þessvegna séum við ekki marktækir þegar við mótmælum turnspírum við brúarsporðinn og hækkun á hótelbyggingunni. Þessari ljótustu byggingu norðan Alpafjalla. Auðvitað er þetta firra. Ég ætla að halda áfram að vera á móti vondum hlutum. Kjósa þá sem ég treysti best til góðra verka. Og algjörlega án tillits til hvort þá prýðir tippi eða pjalla. Fyrir mér er þetta nú ekki flóknara mál en þetta.
Hitinn hér er farinn að halda sig ofan frostmarks allan sólarhringinn. En þetta er orðinn langvinnasta norðannátt sem elstu menn muna. Fátt er leiðinlegra en eilífur stormbeljandi. Treysti á góðan apríl. Enda eins og áður segir 14 frídagar. Skrepp ef til vill norður í land um páskana. Á hestbak. Ansi mörg ár síðan ég hef setið á svoleiðis dýri. Það hefur haugað niður snjó fyrir norðan en við hér syðra höfum sloppið. Hann hverfur þó fljótt ef hlýnar. Vona það besta og hlakka mjög til vorsins sem jafnan fyrr.
Það er mikill merkisdagur á morgun. 30. mars. Lofa öðru bloggi um hann bráðum. Hösmagi horfir til fjallsins góða út um kontorgluggann. Orðið albjart og Raikonen lætur sig hafa það útí garranum. Brauðstrit dagsins framundan. Ágætt. Kveð allt gott fólk að sinni, ykkar Hösmagi, hugsandi um jafnrétti og sköpulag mannkindarinnar.

Friday, March 24, 2006

 

Getraun.

Nú er hann enn af norðan, næðir kuldaél. Ekkert lát á vindgnauðinu. Við Raikonen þó báðir búnir að viðra okkur. Ég er sennilega eini bloggarinn hér á suðurlandi sem bloggar á blogspot.com. Og því örugglega langbestur. Nú heitir þetta reyndar Suðurkjördæmi eftir að við fengum hluta af Romshvalanesi með okkur. Hjálmar Árnason og fleiri fína drætti. Hálfgert vandræðakjördæmi því hér er allt morandi í íhaldi, framsókn og samfylkingarliði. Stendur vonadi til bóta.
Og getraunin. Hvað haldiði að Fiskihrellir ætli að gera 25. júní? Og 27. júní? 1., 6., 7., 8., 11., 15., 18., 19., 20., 25., 27., 28., og 29. júlí? 5., 12., 19., og 26. ágúst? Og 2. september. Veit að þetta er erfið spurning. Gott fyrir heilasellurnar að fá að reyna svolítið á sig. Aldrei að vita nema réttur giskari fái verðlaun. Í gær lækkuðu íslensku bankarnir í verði um tugi milljarða króna. Búið að segja upp lánum þeirra vestanhafs. Verða að fjármagna sig aftur með nýjum lántökum og dýrari. Þetta borgum við, viðskiptavinirnir hér heima á ísaköldu landi. Og Dóri hefur engar áhyggjur af þessu. Hugsar líklega eins og Lúlli forðum: Það lafir meðan ég lifi. Segir eins og þingmaðurinn í gamla daga: Hvað varðar mig um þjóðarhag? Bankarnir munu örugglega fyrst og fremst huga að eigin skinni. Eins og jafnan áður. Það er ekki bætandi á okrið sem nú tíðkast. En það verður gert. Almenningur borgar. Á ekki annara kosta völ. Bankarnir leggja mikið kapp á að koma Íbúðalánasjóði fyrir ætternisstapa. Einu stofnuninni í landinu sem ekki fer í manngreinarálit þegar lán til íbúðakaupa eru annarsvegar. Hvað á ríkið líka að vera að " vasast í því" sem einkaframtakið getur leyst af hendi? Mikið óskaplega verður ljúft að losna við þessa ríkisstjórn þegar þar að kemur. Aldrei hefur orðið stærra bil á milli ríkra og fátækra manna í Íslandi en nú er orðið. Af hverju eiga þrælarnir að greiða 38% skatt þegar þeir ríku greiða að stórum hluta bara 10%? Þetta er hið sanna réttlæti íhalds og framsóknar. Andskotinn eigi hvorttveggja.
Enn að blása á skattarykið. Ætla samt að eiga rólega og notalega helgi hér heimavið. Sleppi Raikonen lausum að vild sinni. Þetta er skynsemdardýr og skilar sér ævinlega aftur heim. Líður báðum stórvel. A.m.k. meðan við hugsum ekki um íhaldið. Kaffið búið af könnunni. Líklega best að leggja sig aftur og vita hvort mig dreymir ekki eitthvað fallegt. Vakna svo fílefldur á ný. Og segi við sjálfan mig: Hér kem ég, fullur orku og fús til starfa. Með kveðju frá yfirbloggara Suðurkjördæmis. Ykkar Hösmagi.

 

Garri.

Norðanbálið heldur sínu striki. Andlitið orðið eins og vindbarinn harðfiskur og hárið líkt og úfið hænurassgat. Hundfúl tíð og einhver tími í betra veður. Mátti til að skjóta fram nokkrum setningum svo aðdáendurnir haldi ekki að ég sé dauður. Mér finnst nú nafni minn fulldjarfur í hólinu. Kannski er ég bara svona eitursnjall með pennann án þess að gera mér grein fyrir því. Ég skal alveg viðurkenna að lofið er ágætt. Einkum og sérílagi frá fólki eins og Sigurði Ólafssyni og skáldinu mínu. Reyni nú að ofmetnast ekki. Verð kannski bara enn dugmeiri enn nokkru sinni eftir að ég hef skolað öllu skattarykinu á braut. Eins og þið sjáið er ég eiginlega að fiska innan landhelginnar á þessum tíma dagsins. Það verður því í styttra lagi bloggið þennan vindglaða föstudag. En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Kærar kveðjur frá ritsnillingnum Hösmaga.

Wednesday, March 15, 2006

 

Söknuður.

Ósköp er nú ljúft að sjá að einhver skuli muna eftir manni. Það er nú óvenjulega langt síðan ég hef bloggað. Bjóst nú varla við að nokkur tæki eftir því. Annir á vinnustað og heimafyrir. Skattavertíð og fleira. Gengur svo sem allt nokkuð vel og hagræðið af netframtalinu er mjög mikið. Engin vélritun lengur og engin hætta á að pósturinn týni gögnunum. Í gúrkutíðinni gerðist það svo allt í einu í gær að allt Baugsgengið var hvítþvegið af meintum glæpaverkum og kanarnir á heimleið. Geir Haarde hálfgrátandi en Dóri bar sig bara nokkuð vel. Kannski ekki alls varnað þrátt fyrir allt. Hið augljósa hefur komið fram. Kanarnir hafa aldrei verið hér okkar vegna. Nú þjónar það ekki tilgangi þeirra sjálfra að vera hér lengur. Það er fagnaðarefni að ný kynslóð íslendinga skuli fá að alast upp í herlausu landi. En mengun hugarfarsins mun verða til staðar áfram. Skriðdýrseðli sumra breytist ekkert. Fólksins sem fylgist einungis með CNN. Þar er allt heilagur sannleikur en flest lygi sem frá öðrum kemur.
Enn eitt vorið komið. Sjö gráður á Celsíus og þungbúið. Það er þó bara miður mars ennþá. En fiðringurinn gerir alltaf vart við sig í svona veðri. Aðalfundur stangveiðfélagsins er annað kvöld. Ef skáldið sér þennan pistil þá tilkynnist hér með að hinn margrómaði 3jastangadagur í Ölfusá verður hinn 15. júlí. Tilhlökkunarefni eins og allir hinir dásamlegu komandi veiðidagar. Og hinir dagarnir einnig. Hinn lífsglaði Hösmagi horfir björtum augum til sumarsins. Hefur rýmra frí en áður. Þó brauðstritið sé nauðsynlegt verður afslöppun líka að vera með. Veiðin, útiveran og ekki síst gott samneyti við aðra. Þó árin færist yfir Hösmaga jafnt sem aðra þá nýtur hann lífsins sem aldrei fyrr. Góð heilsa og hið einstaklega góða jafnvægi hugans spila þar stærstu rulluna. Þarf sannarlega ekki að kvarta yfir tilverunni. Við Raikonen snemma á rólinu sem fyrr. Pési vinur hans sníkjandi eitthvað í sig. Það er með ólikindum hvað sá köttur getur í sig látið. Og Raikonen situr á sínu rassgati og glápir í forundran á matinn hverfa af diskinum. Hann er líka vel upp alinn og dannaður. Þetta er bara líflegt samfélag hér í Ástjörn. Og ekkert skyggir á vináttu okkar Raikonens. Miklir vinir og líklega sálufélagar að auki. Vildi helst geta tekið hann með í veiðiferðir. En líklega verður hann nú heimavið. Verð að ná samningum við bróður minn góðan um eftirlit hér í fjarveru minni. Honum er nú sem betur fer ekki illa við ketti. Og svona í lokin skal það segjast að Green Highlander verður betri og betri með hverjum deginum. Eins og gömlu vínin. Nú í vikunni náði hann merkisáfanga. Hafði þá lagt að baki eittþúsundþrjúhurndruðogþrettán kílómetra. 1313. Tvöföld heppni. Lifið sæl og hamingjusöm krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Sunday, March 05, 2006

 

Dæmið ekki

svo þér verðið ekki dæmdir. Segir í fornu riti. Blair hinn breski nánast heldur því fram að það megi ekki gagnrýna sig af því guð muni dæma. Ég dæmi hann sekan. Sekan um alvarlega glæpi. Nú eru á annan tug þúsunda íraka í fangelsum breta og bandaríkjamanna í írak. Án dóms og laga. Sumir hafa setið þarna í meira en 2 ár án þess að hafa verið gefið nokkuð að sök. Hafa enga hugmynd um hvað þeir eiga að hafa af sér brotið. Þeim B og B stendur nákvæmlega á sama. Guð stendur með þeim og dæmir verk þeirra. Þeir hafa líka drepið marga. Og m.a. með aðstoð dana. Skyldi danska þjóðin vera stolt af verkum forsætisráðherra síns? Vonandi ekki. Ekki er ég stoltur af Halldóri Ásgrímssyni sem hefur stutt hvaðeina sem vinir hans hafa aðhafst í írak. Þetta er bara ógeðslegt. Sem íslendingur skammast ég mín sárlega yfir Halldóri og skoðanabræðrum hans. Við ráðherraskiptin í gær sagði hann að gott væri fyrir ráðherra að taka sér hvíld. Horfa til stjórnarinnar frá nýrri hlið. Eins og Sif sem sett var út í kuldann og búið er að hleypa inní hlýjuna aftur. Ég skora á Halldór að reyna þetta á sjálfum sér. Skammastu þín bara til að segja af þér strax. Sannarlega hefur farið fé betra.

Jæja, við erum snemma á fótum, litla ljónið og undirritaður. Eins og stundum fyrr. Heldur að hlýna eftir frost og garra að undanförnu. Grár mánudagur. Streðið að byrja eftir náðuga helgi. Svo sem allt í lagi. Nú er orðið albjart þegar haldið er til vinnu og þegar heim er komið. Búinn með eigið skattframtal enda ekki flókið eftir að ég gerðist venjulegur daglaunamaður hjá Hösmaga ehf. Ég er þar í vinnu samkvæmt náð og miskunnsemi. Samstarfið gengur þó allvel. Ekki teljanlegur ágreiningur. Stundum eins og við getum lesið hugsanir hvors annars. Komst á 63. aldursár i gær. Fékk upphringingu frá skáldinu, SMS og einn gest í heimsókn. Gamall vinur birtist hér fyrir hádegi. Og það skemmtilega við það var að hann mundi ekki eftir að ég ætti afmæli. Ekki síðri heimsókn fyrir það. Það var nú til siðs hjá mér á afmælum að taka tappa úr flösku. En öllu fer nú aftur. Í fyrra keypti ég mér vodka fyrir afmælið mitt. Svona til að dreypa á hugsanlegan gest. Nú keypti ég ekkert vodka. Birgðir fyrra árs eru enn óhreyfðar í ísskápnum.Svona er ég nú orðinn voðalegur bindindismaður. Kannski að einhver komi í heimsókn áður vodkað myglar í pelanum?

Þvottavélin er að ljúka sér af. Raikonen hættur að kippa sér upp við þeytinginn. Og gamli Gráni er horfinn af bílasölunni. Óska nýjum eiganda til hamingu með að vera kominn í Cherokee liðið. Smekkvís maður þar á ferð. Fram til orustu, fram bræður það dagar nú senn. Ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online