Thursday, November 30, 2006

 

Mörsugur.

Gamli fullveldisdagurinn í dag. Allur sjarmi löngu farinn af honum og megnið af æskunni veit ekkert sérstakt um 1. desember. Geir og Valgerður að plotta um varnir. Við nánast nakin eftur brotthlaup kananna. Alveg er þetta nú hreint voðalegt ástand.Véfréttin söm við sig. Það sem hún sagði um Íraksmálið um daginn sagði hún auðvitað ekki. Snúið út úr öllu fyrir henni. Kannski að Móri hafi tekið upp símann? Auðvitað reyndist spá mín rétt. Bara mannalæti og við verðum áfram með í morðæðinu sem á máli íhalds og framsóknar heitir lýðræðisþróun. Það er greinilega enn líf í nagaranum og draugsa. Og strengjabrúðurnar láta ákaflega vel að stjórn. Við skulum klippa á strengina í vor. Enn eitt tilhlökkunarefnið fyrir undirritaðan. Skógrækt, veiði og pólitísk aftaka stjórnarherranna.

Kári dregur lítið úr. Hitinn svona 6-7 gráður og Raikonen eltist við fjúkandi laufið fyrir framan blokkina. Heldur sig svo inni í húsvarðarstarfinu á meðan Fiskirhellir sinnir starfi sínu. Hyggst halda til höfuðborgarinnar á morgun og kíkja á unga afkomandann í Garðabæ. Lífið gengur sem sagt sinn vanagang. Þessi síðasti mánuður ársins mun líða hratt eins og hinir. Aldamótin rétt nýliðin en samt nálgast 2007 óðfluga. Urriðaskelfir við hestaheilsu og fjallhress að venju. Við kisi sendum kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, November 28, 2006

 

Raunir íhaldsins.

Loft er lævi blandið hjá íhaldinu hér í kjördæminu. Afleit staða og allar lausnir erfiðar. Það kom í ljós í gær samkvæmt fréttum að Drífa þingmaður var sú eina af frambjóðendum í prófkjörinu sem fékk bindandi kosningu. Kjördæmisráðið á rökstólum. Hugsanlega kemur fram tillaga um aðra uppröðun en prófkjörið ákvarðaði. Og það er strax æpt um árás á lýðræðið. Árás á sjálfan vitringinn mikla. Það er auðvitað ekki í mínum verkahring að ráðleggja íhaldinu eitt eða neitt. En ef ég fæ graftarkýli læt ég einfaldlega skera það burt. Sama mundi gerast ef ég yrði skyndilega lúsugur. Fengi mér eitthvað öflugt til að fjarlægja óværuna. Svolítið sársaukafullt í bili að láta skera. En kýlið hverfur og allt færist í sama horf aftur. Þó ég sé alltaf að skammast út í íhaldið er ég sannfærður um að megnið af kjósendum þess er ósköp venjulegt og sómakært fólk. Það skammast sín nú fyrir graftarmeinið sem hrjáir flokk þess hér í kjördæminu. Og stórspillir fyrir honum í öðrum kjördæmum einnig. Forusta flokksins getur í hvoruga löppina stigið. Því er ekki um annað að ræða en kjördæmisráðið taki af skarið. Láti listann vera eða skeri meinið burt í eitt skipti fyrir öll. Ekki ætla ég að gerast spámaður um niðurstöðuna. En hún verður samt fróðleg. Prófsteinn á siðferðisþroska sunnlenska íhaldsins.

Kári er glettinn sem stendur. Þetta er þó dásemdarvetrarveður.Snjórinn víðsfjarri og það er bara mjög gott að vera til. Glaðnað til í vinnunni og tilhlökkunarefni að halda til starfa klukkan 9. Sendi ykkur öllum bestu kveðjur( íhaldinu hér líka), ykkar Hösmagi.

Sunday, November 26, 2006

 

Eftirlíkingar.

Enn hefur véfréttin hafið upp raust sína. Hér er ég. Bestur af öllum. Varist ódýrar eftirlíkingar. Kjölfestan, bjargið trausta. Sækjum inná miðjuna. Hér er guð almáttugur.
Þetta er nú alveg einstaklega gáfulegt. Og svo voru mistök að ráðast inní Írak. Kaninn var bara að ljúga aldrei þessu vant. Hvernig væri þá að viðurkenna þetta í verki? Taka okkur strax af listanum yfir þá vígfúsu. Þessum mannsparti hlýtur að vera það í lofa lagið. En auðvitað verður það ekki gert. Þetta eru bara mannalæti og fíflagangur. Framsóknarflokkurinn hefur ekkert breyst. Og þetta dæmalausa þvaður formannsins breytir engu. Það á að reyna að draga upp nýja mynd af þessu lifandi líki fyrir kosningarnar. Falska og vitlausa. Valdasýkin stjórnar ferðinni. Og eins og ég hef sagt áður í þessum pistlum verður ekkert til sparað á næstu mánuðum til að fegra myndina. Villa á sér heimildir og þykjast hafa vitkast. En verkin tala. Ef þessi nýi formaður heldur að hann geti blekkt fólk með þessum hætti þá vona ég að hann fari villur vegar. Það er blátt áfram ömurlegt að fylgjast með þessu sjónarspili. Almenningur, hinn venjulegi vinnandi maður, hefur fengið nóg nú þegar.
Ekkert væri farsælla íslenskri þjóð en jarðarför framsóknarflokksins eftir næstu kosningar. Og þá verður engin sorg heldur einungis fögnuður.

Og stóri bróðir er líka í vanda staddur. Annarskonar að vísu. Sómakært sjálfstæðisfólk er í vandræðum. Ekki síst hér í Suðurkjördæmi.Fjármálaráðherrann eins og annarlegt sprek. Vopnabróðirnn í 2. sætinu á þónokkra vini hér. En þó handhafar forsetavalds hafi strokið æruna eru nú ekki allir vissir um árangurinn. Það er nú ósköp einföld staðreynd að við getum ekki tekið aftur það sem við höfum gert. En sumir skilja það ekki. Mútuþægni, rangar skýrslugjafir og fjárdráttur í opinberu starfi hafa einfaldlega verið " leiðrétt". Og svo brosir Breiðbakur og botnar ekkert í ályktunum stórra hópa í Sjálfstæðisflokknum. Hér kem ég, fús til starfa, eins og sagt var einu sinni. Forystan veit ekkert hvað gera skal. Vandræðagangurinn flestum augljós. Það verður nefnilega ekki sleppt og haldið. Kakan ekki geymd og étin. Undirritaður hefur þó enga samúð með þessu liði. Kannski bara pínkulítil vorkunnsemi yfir ástandinu. Ég mun gráta þurrum tárum yfir komandi óförum sjálfstæðisflokksins.

Rauðgrani mættur. Kaffið uppurið. Indælisveður þó myrkrið grúfi enn yfir. Áframhaldandi hugleiðingar um tilveruna í dag. Kærar kveðjur, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Saturday, November 25, 2006

 

Friður og ró.

Hér ríkir friðsældin ein. Nánast logn og hitinn rétt undir núllinu. Rólegheit yfir okkur Raikonen. Hösmagi hefur hugleitt lífið og tilveruna í dag. Svona í einskonar nirvana. Það er ákaflega ljúft á laugardögum. Kannski er ástæðan sú að Hösmagi eignaðist sonarson s.l. nótt. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni. Og hann mun örugglega halda til veiða með afa gamla þegar þar að kemur. Stráksi flýtti för sinni í heiminn dulítið. Mjög snjallt því afmæli um jólin eiga það til að týnast. Ég óska foreldrunum og bræðrum sérstaklega til hamingju. Og svo náttúrlega mér sjálfum og öðrum ættmennum hins unga sveins. Verður fjallmyndarlegur eins og hann á kyn til.
Ósjálfrátt fer maður að hugleiða hvernig heimurinn er þegar nýr afkomandi fæðist. Ungi maðurinn er þó örugglega heppinn með að hafa fæðst hér en ekki í Bagdad. Þrátt fyrir harða gagnrýni á stjórnarherrana hér þá tel ég nú að það sé gott til framtíðar að vera íslendingur. Enda munum við losa okkur við núverandi stjórnarherra eftir nokkra mánuði. Og þá verður framtíð unga mannsins enn bjartari. Hlakka til að sjá þig litli vinur. Mér kemur í hug vísa föður míns sæla þegar Siggi Þráinn fæddist. Fyrsta barnabarnið mitt og jafnframt fyrsta langafabarn Langa Sveins.

Fylgja skal þér farsældin
framtíðar á vegi.
Vertu í heiminn velkominn
vinur elskulegi.

Og vísan á jafnvel við nú eins og þá. Siggi minn hefur alltaf verið sérstaklega indæll. Og það verður þessi nýi þegn líka. Með kveðjum úr friðsældinni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, November 22, 2006

 

Upprisa.

Nú tíðkast að menn rísi upp. Eða séu reistir upp. Móri orðinn að vörumerki okkar í öðrum löndum og sauðnautið hvítþvegið af syndum sínum. Segiði svo að allt sé ómögulegt á þessu guðsvolaða skeri. Móri barst í tal í þinginu í gær. Jónína frambærilega og Dagný hin smáa voru sárar. Sumir voru með efasemdir um ágæti hins upprisna draugs. Ákaflega ósmekklegt sögðu meyjarnar. Og Björgvin hinn hugumstóri þingmaður okkar sunnlendinga, ráðherraefnið sjálft, talaði um glæstan feril Dóra Móra. Það eru semsagt fleiri en framsóknarmenn sem horfa til þessarar skæru sólar. Afrekin tala sínu máli. Báðir ríkisbankarnir farnir fyrir spottprís. Síminn sömuleiðis. Kvótakerfið heldur áfram að mala gull fyrir hina útvöldu. Skömm okkar eilíf fyrir staðfestuna í Írak. Vígreif þjóð þó vopnlaus sé. Og flokkur hins glæsta foringja gjörsamlega í rústum. Hreint alveg á rassgatinu. Þetta eru nú afrekin. Það er ekki að undra þó að sumir séu stoltir. Véfréttin frá Bifröst hlýtur að hafa verið fjarverandi af þingi í gær. Engin mærðarræða frá henni um foringjann mikla. Sem þóknaðist að gera hana að arftaka sínum. Mér kæmi ekki á óvart þó hún hafi verið að leita að hugsanlegu þingsæti. Voða leiðinlegt að þingsæti fylgdi ekki upphefðinni.Ráðherrastóllinn getur verið hættulega valtur. Og stór hætta á að einhver annar troði sér í hann eftir að búið er að kjósa. En svona fer stundum þegar fólk þekkir ekki sinn vitjunartíma. Meðan gildi draugsins ráða í þessum flokki eru honum allar bjargir bannaðar. Margra ára tæknileg mistök eru nú að draga hann til dauða.En það er mikil bót í máli að hann verður ákaflega fáum harmdauði. Á legsteininum gæti staðið eftirfarandi: Hér hvílir framsóknarflokkurinn sem gleymdi uppruna sínum og týndi markmiðum sínum. Tortímingaráráttan varð honum að aldurtila. Hann fær örugglega að hvíla í friði.

Hér verða kveikt jólaljós í dag. Undirrituðum finnst það nú nokkuð snemmt. En þau lýsa upp myrkrið svo hann er sáttur við þau. Einungis tæpur mánuður þar til daginn fer að lengja aftur. Stutt í nýja árið sem vonandi færir okkur öllum gleði og gæfu.Ég og litli ferfættlingurinn sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Litbrigði....

mannlífsins eru mörg. Svona tilbrigði við stef á ýmsa vegu. Hösmagi hefur löngu lært að best er að taka allt hæfilega hátíðlega. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu.Kippa sér ekki upp við smámuni. Halda ró sinni þó óvæntir atburðir gerist.Svo er ágætt að lofa sjálfan sig svolítið ef rétt er farið að því. Enda hefur hann gert það hér stundum. Nefnt sig geðprýðisstöngul og ritsnilling t.d. Og nýtur þess að ausa úr viskubrunni sínum. Reynir að vera samkvæmur sjálfum sér og liggur ekki á skoðunum sínum. Við erum nú mörg svona. Sem betur fer vil ég segja. Svo eru aðrir sem telja sig vera svona en eru það ekki. Halda því fram að þeir séu hljóðlátir og vinni á akrinum. Rækti það góða og séu trúir þjónar samfélagsins. En stundum kemst upp um þá. Þegar þeir telja að enginn sjái til þeirra snýta þeir sér í gardínur. Og spýta svo bak við mubblur. Ég hef oft brotið heilann um hvernig á þessu stendur. Líklega bara litbrigðin í mannflórunni. Það virðist líka vera afskaplega algengt að predika mikilvægi vináttu og kærleika í orði en haga sér svo með gagnstæðum hætti í lífinu sjálfu. Svona hefur þetta verið og það mun alltaf verða svona. Það skilja ekki allir hvað felst í því að orð skuli standa. Því miður.

Hér er enn sama blíðviðrið. Enginn snjór og hægur andvari. Hitastigið um ein gráða.Raikonen enn sofnaður í gluggakistunni. Hösmagi á leið til starfa eftir kjötbollur í brúnni sósu. Nóg að gera í dag. Skjalagerð og fundir. Það er mjög gott og undirritaður er glaður og sæll. Bið að heilsa nú, ykkar Hösmagi.

Saturday, November 18, 2006

 

Kátir félagar.

Við Kimi erum kátir. Fjallhressir eftir kaffi, ýsu og útiveru.Vináttan vex með degi hverjum. Kannski er það nú að bera í bakkafullan lækinn að minnast enn á sauðnautið frá Vestmanneyjum. En í pistlinum í gær var ég að tala um að Geir mætti nú tjá sig um viðtalið um tæknileg mistök þessa fyrirbæris. Þá hafði undirritaður ekki lesið Moggann. Geir vitnaði í samþykkt ungliða flokksins. Skynsamlega að hans mati. Mínu líka. Hann sagði ummæli nautsins óheppileg. En um leið og hann hafði sleppt orðinu sagði hann listann í suðurkjördæmi sterkan og sigurstranglegan. Formaður sjálfstæðisflokksins telur það sem sé sigurstranglegt að gjörsamlega iðrunarlaus og siðblindur sakamaður sé í framboði fyrir þennan flokk. Kannski er það bara rétt mat hjá honum. En ég er ekki viss um að allir sjálfstæðismenn hér í suðurkjördæmi séu honum sammála. Og ég er líka viss um að margir þeirra hafa alls ekki geð í sér til að kjósa listann eins og hann er skipaður. Kannski taka þeir bara sauðadúettinn aftur félagarnir? Annar flekklaus og hinn með æruna uppreista. Allur þessi farsi er þó góður vitnisburður um pólitíkst siðferði sjálfstæðisflokksins. Við skulum ekki gleyma því að hinn dæmdi framdi afbrot sín í skjóli trúnaðar í opinberu starfi. Hvar annarsstaðar í heiminum gæti maður með dóm fyrir mútur og fjárdrátt boðið sig fram til setu á löggjafarsamkomunni? Hvergi. En samkvæmt mati Geirs er listi með slíkum úrþvættum sigurstranglegur. Gott að vita það.

Veðrið er nú indælt. Hitinn að nálgast núllið og aðeins andvari sem er bara ljúfur á vanga. Og landið mitt var fallegt í gær eins og áður. Þar bærðist ekki strá í frostinu. Það fór vellíðunarkennd um sál Hösmaga þarna í gær. Landið og græna þruman geisluðu í sólinni. Sem sagt gott. Aldeilis albestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

 

Gáfur...

eru afstæðar. Heldur ekki sama hvernig þær eru notaðar. Siðblindur afbrotamaður nýtur fulls trausts forystu sjálfstæðisflokksins. Tveir efstu menn listans hér í suðurkjördæmi hafa lýst yfir að hann sé mjög sterkur. Með þá í frontinum. Eru sjálfstæðismenn hér svona miklu siðblindari en aðrir? Hann virðist ekki ríða við einteyming dómgreindarskorturinn. Einföld tæknileg mistök að brjóta svo af sér í starfi að afleiðing verður 2ja ára tugthúsvist. Og svo voru það fleiri sem gerðu mistök. En tæknileg atriði urðu til þess að það var vitringurinn með breiða bakið sem ómaklega varð að taka afleiðingunum. Hvernig væri nú að Geir, Þorgerður Katrín, dýralæknirinn, dómsmálaráðherrann og fleiri myndu tjá sig um viðtalið við vitringinn mikla í sjónvarpinu á dögunum. Eru þau ánægð með að svona veruleikafirt mannherfa verði fulltrúi sjálfstæðisflokksins á þingi? Ég efast nú reyndar um það. En forustan mun reyna að koma sér undan ábyrgð á þessu þingmannsefni. Það segir auðvitað ákveðna sögu. Og ég er líka alveg viss um að þetta gæti ekki gerst í öðrum stjórnmálaflokkum hérlendis. Ekki einu sinni flokksins sem nú hefur klæðst líkklæðunum. Jarðarförin ein eftir. Siðasti naglinn rekinn í kistuna í gær þegar Kristinn var sendur út í kuldann. Eða dettur einhverjum í hug að Kristinn og stuðningsmenn hans muni kjósa framsóknarflokkinn í vor? Varla nokkrum nema kannski fólki með svipaða dómgreind og vitringurinn mikli. Gefum framsóknaríhaldinu frí. Það hefur sannarlega unnið fyrir hvíld.

Það er glampandi sól. Frostið var 12 stig hér um hádegið. Nú ætla ég að nota þetta fallega veður og halda að fyrirheitna landinu. Sem bíður eftir vorinu. Og mér.

Hlýjar kveðjur úr kuldanum, ykkar Hösmagi.

Tuesday, November 14, 2006

 

Tæknileg mistök.

Nú hafa fleiri tekið til máls. Viðundrið var í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sama sagan og hjá Ísraelsmönnum. Tæknileg mistök. Þegar lögreglan stendur innbrotsþjóf að verki eru það líklega tæknileg mistök þjófsins. Sumir þjófar eru nefnilega ekki staðnir að verki. Og svo sagði þessi nýjasta véfrétt að margir hefðu gert mistök. Og enginn hefði tapað á mistökunum. Og það er breitt bakið á nýju véfréttinni. Eins gott fyrir hina sem sluppu. Hvernig væri nú að þeir væru nafngreindir? Það er náttúrlega ósanngjarnt í meira lagi að Breiðbakur þessi gjaldi saka annara manna. Ég held að Geir og hinir forustusauðir sjálfstæðisflokksins ættu að skoða þetta mál. Þeir sem sáu viðtalið í gærkvöldi kunna nú sumir að efast um iðrunina. Það er líka svo þrælsnúið að iðrast fyrir hönd annara. Þessara sem gerðu mistök án þess að vera staðnir að verki. Þurftu ekki að skila neinu til baka. Og fengu að gaula frjálsir þegar þeim þóknaðist.
Allt er þetta með ólíkindum. Mér segir nú svo hugur um að það muni standa í mörgum ærlegum sjálfstæðismönnum hér í kjördæminu að kjósa flokkinn sinn í vor. Þeir muni skila auðu, sitja heima eða einfaldlega kjósa aðra flokka. Hafi einhverntíma verið sýnikennsla í siðblindu þá var það viðtalið við þetta viðundur í gærkvöldi. Og ekkert lát á trausti Geirs og félaga. Dýralæknisins einnig. Eða hvað?

Kyrrð og kuldi. Sex gráðu frost. Fleiri ber verða ekki lesin á fyrirheitna landinu þetta árið. Landinu sem bíður eftir íslenska birkinu og öðrum trjátegundum. Púðanum og síðan Paradísarhöllinni. Ætlaði nú uppeftir eftir vinnu í gær. En það er orðið skuggsýnt klukkan 5 á þessum árstíma. Landið kvíðir ekki myrkri og kulda vetrarins. Lifir hann af. Það mun aftur anga af lyngi og hinni nýju skógrækt á næsta ári. Og líklegt að Hösmagi verði þar mikið á milli þess sem hann stritar fyrir kapitalistana og mundar Herconinn. Það er ljúf tilhugsun. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, November 13, 2006

 

Annað tækifæri.

Enn hefur Geir Haarde talað. Dæmdir menn skulu fá annað tækifæri. Það er bara þannig.Segir þó að þegnarnir eigi að fylgjast með þeim. Að þeir fari ekki aftur út af sporinu. Þá vitum við það. Þetta á sérstaklega við um þá sem fremja afbrot í skjóli trúnaðar sem þeim hefur verið falinn. Eru duglegir. Svona menn eins og Baggalútur var að lýsa. Siðblind syndafjöll. Og iðrast einskis. Enda þekkja þeir ekki þá tilfinningu. Það gleymdist hreinlega að setja hana í þá. Og verða alveg voðalega sárir yfir að fá ekki að gaula þegar þeim hentar. Í stofuprísund á flottu hóteli á landsbyggðinni þegar glaumurinn og gleðin standa sem hæst. Það er nú ekki aldeilis ónýtt að fá slíka karaktera á þing. Þeir hafa fullt traust Geirs. Og forustu sjálfstæðisflokksins. Framboðslisti íhaldsins hér í kjördæminu hlýtur að vera sérlega sigurstranglegur. Ég óska öllum kunningjum mínum í sjálfstæðisflokknum til hamingju. Listinn er væntanlega óskaniðurstaða. Ég hef enga trú á siðblindu. Bara kjaftæði. Hrekklaus jarðýta hefur verið gangsett á ný. Og glennt tönnin mun valta yfir pólitíska andstæðinga. Á degi sem nóttu. Og á nóttunni með fulltendruð gáfnaljósin. Ja hérna hér eins og þeir segja í útvarpinu.
Kári er enn í ham. Svona hæfilegum. Leikur bara svolítið á vindhörpuna. Og enga Stórhöfðamúsik. Bærinn að vakna og fólk fer að halda til starfa sinna. Hösmagi sáttur og að sjálfsögðu alltaf jafn ljúfur og góður. Krúttin mín kær. Bestu óskir um friðsælan dag, ykkar Hösmagi.

Thursday, November 09, 2006

 

Þýtur í laufi.

Vindurinn gnauðar. Náð sér vel á strik í nótt. Haust eða vetrarlægðir á ferðinni hver af annari. Hitinn 6 gráður og hvert einasta snjókorn horfið. Ágætt. Við Kimi báðir í fínu formi að venju. Útgáfuteiti hjá skáldinu mínu í gærkvöldi. Hamingjuóskir frá mér með Fljótandi heim. Hlakka til lestursins.
Enn brillerar Álgerður. Segir íslendinga hafa efasemdir um dauðarefsingu. Dauðarefsing á aldrei rétt á sér. Sama hver á í hlut og hvað hann hefur gert. Ekki dettur mér í hug að halda uppi vörnum fyrir Saddam. En það er nú íhugunarefni fyrir þetta fyrirbæri sem nú situr í stól utanríkisráðherra Íslands, hverjir það voru sem fengu honum eiturgasið til ódæðisverkanna. Þá var þessi dauðadæmdi maður þóknanlegur bandarískum stjórnvöldum. Það hafa kannski verið "tæknileg mistök" eins og Ísraelsmenn kalla nú barnamorðin í Palestínu. Sem framin eru í skjóli bandaríkjamanna eins og allt annað sem stjórn Ísraels leyfir sér.Nú er Rumsfeld á lausu. Kannski ráða júðarnir hann sem ráðgjafa? Ákaflega staðfastur maður eins og seðlabankastjórinn og hinn nýi framkvæmstjóri ráðherranefndar norðurlandaþjóða. Góður í að útskýra hlutina fyrir þeim sem ekki eru ánægðir og geta ekki skilið alla þessa góðgerðastarfsemi.Og heilmikil staðfesta í Álgerði líka. Af hverju er það að verða aðaleinkenni á ráðherrum framsóknar að vera eins og álfar út úr hól í öllum málum? Véfréttin engu betri en frúin með álheilann. Helsta verkefni dagsins áfram að snúa við staðreyndum og mæra draug. En það er bót í máli að véfréttin mun verða fyrsti og síðasti maðurinn sem verður formaður í stjórnmálaflokki án þess að verða nokkurntímann þingmaður. Hann fær engin íhaldsatkvæði að láni eins og draugurinn forðum.
Ég hef nú minnst á það hér áður að við sunnlendingar höfum lengst af þurft að ganga með veggjum vegna þingmanna okkar. Undirritaður verður þó a.m.k. sáttur með einn. Réttsýnn og gegn maður, Atli Gíslason. Ég ætla að láta aðra verða sátta og stolta af Árna Johnsen, Gunnari Örlygssyni og öllum hinum í þessari úrvalssveit íhaldsins hér í kjördæminu. Sem betur fer styttist í það að maður losni við smettin á þessu liði af nánast öllum vefmiðlum landsins.Sumir í betrun og allir óskaplega reyndir og taustir. Oj bara.

Og gnarr vindsins heldur áfram. Bara 51 dagur lifir af árinu 2006. Það hverfur í skaut aldanna eins og öll hin. Þá kemur 2007 og tækifæri fyrir okkur að breyta landstjórninni til betri vegar. Vonandi berum við gæfu til þess. Ykkar Hösmagi, hlustandi á slög vindhörpunnar.

Sunday, November 05, 2006

 

Landið góða.

Var að koma úr sunnudagsbíltúr. Upp Grafning og niður Grímsnes. Þurfti aðeins að kíkja á landið góða. Fyrirheitna landið þar sem Paradísarhöllin rís síðar. Þegar ég ók upp Grafningsveginn var glampandi sólskin. Síðan kom þoka og rigning. Og slydda og haglél. Svona týpískt haustveður á Ísaköldu landi. Og Raikonen kúrir í baðvaskinum. Rótar sér ekki í svona veðrabrigðum. Hösmagi hefur líka verið latur þessa helgina. Kúrt undir sæng sinni og haft það notalegt. Yljað sér örlítið við að litla flokknum er ekki spáð neinum þingmanni í Reykjavík eða Kraganum. En það er langt í kosningar. Ekkert mun verða til sparað til að villa fólki sýn. Og það eru nógir aurar til að dæla í auglýsingastofurnar. Veiðin úr kjötkötlunum á undanförnum árum. Þeir náðu að blekkja marga síðast. Vonandi tekst það ekki í maí n.k. Og ég held að Álgerður ætti að fara til Noregs strax. Annars er ekki víst að hún komist þangað. Sendiherradjobb fyrir vel unnin störf. Nýjasta skrautfjöður hennar er sú að auðvelt verði nú að semja við kanana um nýjan viðskiptasamning. Þeir eru nefnilega með móral yfir að hafa stungið af héðan í skyndingu. Eru engin takmörk fyrir dellunni sem getur oltið uppúr þessari konu? Könunum hefur alltaf staðið nákvæmlega á sama um íslendinga. Enda verðum við að hreinsa upp óþverrann eftir þá. Helmingur allra bygginga ónýtur og þær verða margar krónurnar sem það kostar að hreinsa til þarna. Það er eiginlega alveg sama um hvað af verkum þessarar stjórnar maður hugsar. Flökurleikinn gerir vart við sig. Því miður verður nú ekki hægt að laga allt eftir þessa snillinga. En við skulum ekki kjósa þá yfir okkur einu sinni enn. Sofnum ekki á verðinum. Látum ekki villa okkur sýn. Tíma framsóknaríhaldsins verður að linna.

Það verður laxaveisla í kvöld. Flak af Ölfusárlaxi, rauðar íslenskar, tómatar og smjör. Einhverntímann þótt ætur matur. Tvö eyru kíkjandi upp úr baðvaskinum. Skemmtilegt sjónarhorn. Ég og eyrun sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, November 01, 2006

 

Aumingja Finnar.

Móri hefur fengið nýtt djobb. Framkvæmdastjóri ráðherranefndar norðurlanda.Ég veit nú ekki sjálfur hverskonar montembætti þetta er. En líklega vel launað. Ekki veitir Móra af. Varla svo há eftirlaunin eftir að hafa verið lengur í stjórnmálum en elstu menn muna. Og tæplega gefur kvótinn mikið af sér. Einhver bölvuð hungurlús.Hinn nýi formaður litla flokksins, véfréttin sjálf, var í útvarpsviðtali í fyrradag. Og ekki að skafa af mærðinni um þennan páfa sinn. Finnar eiga alls ekki að vera neitt fúlir.Vegna þess að enn er líf í Móra. Að mati véfréttarinnar fyrirfinnst ekki meiri vitsmunavera á jarðarkringlunni en einmitt Móri. Kannski er það kvótakerfið, Íraksstríðið, " salan" á Búnaðarbankanum og fleira fínt sem veldur þessu. Þessvegna áttu aðrir engan sjéns. Þetta er nú ekki flóknara en það. Þegar ofurheilar eru annarsvegar eiga aðrir enga möguleika. Enda sannast það á hinum lýðræðislega kjörna forseta fyrir vestan. Það er því engin ástæða fyrir finnana að vera stúrnir. Þeir geta bara haldið áfram að þjóra Koskinkorva og unað glaðir við sitt. Og svo voru þau Móri og Véfréttin saman í skóla. Þekkt hvort annað lengi að hennar sögn. Hvaða læti eru þetta?

Ef það væri aðeins bjartara yfir gæti maður haldið að það væri vor í lofti. Hitinn kominn í nær tveggja stafa tölu. Hver dagurinn af vetrinum sem svona verður styttir hann. Gott að fá hið tæra og raka loft líðandi inn um kontorgluggann. Raikonen kátur þó svolítil væta fylgi þessu vorhausti. Það er sem sagt allt gott af okkur að venju. Svo sest ég í galeiðuna klukkan 9. Leggst þungt á árar svo kapitalistarnir verði enn gildari. Bestu kveðjur til ykkar, krúttin mín, ykkar einlægur Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online