Tuesday, September 30, 2008

 

Nepja.

Það er svalt. Ég var að þvo grænu þrumuna eftir ferð gærdagsins. Krókloppinn á lúkunum þrátt fyir volgt vatn í svampinum. Þetta er þó ágætisveður meðan engin er úrkoman. Tilfinning mín gagnvart snjónum er óbreytt. Einhver var að spá hörðum vetri og miklum snjó. Ég vona að sá kauði hafi rangt fyrir sér. Ég kom við í banka í morgun. Eiginlega til að tryggja að ákveðnir hlutir væru eins og þeir áttu að vera. Ég kom líka í þennan banka þann 1. september og ætlaði að taka þar út peninga sem ég á þar á sérstökum reikningi. Því miður var það ekki hægt. Það mátti einungis taka þessa aura út á síðasta degi mánaðar. Mér var sagt að þeir kæmu sjálfkrafa inná reikninginn. Ég var nú ekkert farinn að líta á einkabankann. Þegar ég kom í bankann var mér tjáð að einhver misskilningur væri á ferðinni. Ég hefði átt að skrifa undir einhvern bleðil sem enn vantaði. Ég skrifaði svo undir bleðilinn. Svo er hringt í mig frá bankanum og mér sagt að þetta væri of seint og ég fengi ekki aurana fyrr en 31. október. Ég varð allt að því hortugur sem gerist nú ekki oft. Mér var boðinn hærri yfirdráttarheimild. Og það kom til greina að bankinn " tæki þátt" í kostnaðinum. Þvílík vildarþjónusta. Ég gekk að þessum afarkostum og starfsmaðurinn sagðist smella heimildinni inn. Hún er ókomin. Ég verð örugglega að fara aftur í þennan blessaða banka áður en lokað verður í dag. Það er margt undarlegt í þessu þjóðfélagi um þessar mundir. Og efni í marga bloggpistla í hausnum á mér. En ég ætla að hvíla sjálfan mig og nokkra trygga lesendur mína á tuði um þessa hluti. Kannski dettur mér eitthvað skemmtilegt í hug. Eitthvað jákvætt og uppbyggjandi. Þessi bloggskrif hafa verið hluti af minni tilveru í bráðum 4 ár. Eins konar dagbók sem ég hef stundum flett uppí. Ég er alls ekki hættur. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Monday, September 29, 2008

 

Koníakspeli.

Eins og ég var að segja ykkur fyrir helgi fór ég í sneiðmyndatöku á Lsp. í morgun. Hitaði mér kaffi sem ég drakk í rólegheitum. Vindill með. Kastaði mínum ágætu teningum nokkrum sinnum. Þá var að drífa sig í sturtu svo maður stæði ekki illa lyktandi á nærbrókinni á röntgendeildinni í kjallaranum. Klæddi mig og bætti aðeins meira kaffi við. Og vatni að auki.Orðinn dragfínn. Græna þruman beið við bílskúrinn. Vissara að hafa góða rennireið í áríðandi erindagjörðum. Ég var búinn að gaufa of lengi sem er afar sjaldgjæft, því ég er manna stundvísastur. Var á leið út úr dyrunum þegar ég mundi alltíeinu eftir koníakspelanum sem ég ætlaði að taka með mér. Þreif fullan pelann, kvaddi litla rauða húsvörðinn og hélt af stað. Eins og allir vita er koníak mikill eðaldrykkur. Svona í hófi. En það vita það líka flestir að það má ekki bragða það við bifreiðastjórn. Svona plastpela má líka nota til geymslu annars en koníaks. Pelinn var sem sé fullur af vel köldu íslensku eðalvatni. Það er þáttur í undirbúningi svona rannsóknar, að þamba heil ósköp af vatni. Ég rétt náði að Lsp. kl. 9. Þá var pelinn líka tómur. Ég kom fimm mínútum of seint. Það þýddi að ég þurfti aðeins að bíða í 2. Þá var ég kallaður inn. Ég var komin heim hálfellefu svo þetta var bara skottúr. Myndirnar verða skoðaðar á fundi doktoranna í fyrramálið. Ég hef engar áhyggjur. Ef einhver minnsti grunur kemur upp um að ekki sé allt með felldu verð ég kallaður inn aftur. Og heimsæki svo hinn geðþekka Eirík, skurðlækninn, 22. október. Er bara slakur og reyni að einbeita mér að þeim verkefnum sem þó eru fyrir hendi. Það er mjög fallegt veður hér og svona nokkurnveginn hitastig árstímans. Svona kringum 8-9 gráður um miðjan daginn. Nálgast svo núllið á nóttinni. Við Kimi erum hér báðir á litla kontornum. Blóðið í báðum alveg óblandað koníaki. Bestur kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Friday, September 26, 2008

 

Salt jarðar.

Undirritaður hefur verið nokkuð saltsækinn gegnum tíðina. Hætt til að ofsalta matinn. Reyndar hefur dregið úr þessu hin seinni ár. Aldurinn á örugglega sinn þátt í því auk áróðursins gegn salti í þjóðfélagsumræðunni. Ég sauð eitt ýsuflak í gær. Setti að mér fannst mátulega mikið af grófu salti með flakinu. Þegar fiskurinn var soðinn var kisi löngu farinn að ókyrrast. Ilmurinn var indæll. Það var með naumindum að mér tækist að skera stykki af flakinu og kæla það undir kaldavatnskrananum. En kötturinn vildi nánast ekkert við þetta eiga. Ástæðan kom í ljós. Brimsalt flak sem ég neyddi sjálfan mig til að borða. Kartöflurnar og smjörið björguðu mér fyrir horn.Ég hellti vatninu strax af restinni og er enn að útvatna hana. Mögulega æt í kvöld. Ég á einhvern slatta af fiski í kistunni. Framvegis mun ég ekki salta neitt við fisksuðu. Borðsaltið verður að duga. Kimi étur nú hitt og annað. T.d. skyr, hákarl og lakkrís. Þurrfóðrið er þó uppistaðan. Ég hafði hálfgert samviskubit eftir mistökin í gærkvöldi. Bæti kisa mínum þetta upp bráðlega.
Hálfgert hrakviðri í dag. Leiðinlegast er rokið enda hef ég ekki farið út úr dyrum í dag. Það er nánast einsdæmi í mörg ár. A.m.k miðað við heilsufar. Kimi rak út nefið í nokkrar mínútur og fannst nóg um. Myrkrið er nú orðið lengra en birtan. Haustjafndægur nýfarið framhjá. Það styttist í merkisafmæli skáldsins. Sumum finnast merkisafmæli bara alveg voðaleg. En þá koma bara 10 góð ár í það næsta og svo framvegis. Annars hefur þessi dagur verið ágætur hér innan dyra. M.a. samdi ég skjal sem ég hef aldrei gert áður. Harla ánægður þegar því var lokið. Vandvirknin verður að vera í öndvegi enda marglas ég skjalið yfir áður en ég prentaði það út. Tel það lagalega alveg skothelt. Ég mun geta keypt heilmikið af salti fyrir launin fyrir þessa skemmtilegu skjalagerð. Læt duga í gúrkutíðinni. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, September 25, 2008

 

Haust.

Það haustar að. September er nú oft fallegur mánuður. Þegar ég vaknaði klukkan hálfátta í morgun var sólin komin upp og nokkurnveginn logn.Hitastigið þó aðeins 3,3 gráður.Mikið rignt unanfarna daga og Ölfusá nánast bakkafull. Ákaflega fallegur regnbogi yfir Ingólfsfjalli. Fjallinu sem færði Selfoss 17 cm til austurs í jarðskjálftanum þann 29. maí. Auk þess reis landið um 6 cm. Manni finnst þetta skrítið en föstu mælipunktarnir sýna þetta. Ég ætla að vona að allt verði kyrrt næstu árin. Í dag ætla ég að byrja á verkefni hér heima. Tek það eins og venjulega 9-5 vinnu. Þetta mun taka 2-3 vikur og ég er þá ekki aðgerðalítill á meðan. Allt þó enn óráðið um framtíðaratvinnu. Bjartsýnin er þó að ná völdum á ný eftir depurð undanfarinna vikna. Ég hef oft sagt það hér að þó stundum blási á móti leggst manni yfirleitt alltaf eitthvað til. Ég fer í sneiðmyndatökuna á mánudagsmorgun og er ekki kvíðafullur yfir því.
Ég sagði frá baráttunni við þvottavélina hérna um daginn. Reikningurinn barst mér í hendur í gær. Eindagi hans er 4. október. Innheimtugjald kr. 140 og vanskilagjald kr. 400. Ég er farinn að skoða alla reikninga gaumgæfilega. Hvernig má það vera að leggja vanskilagjald á ógjaldfallinn reikning. Líklega bara hluti af hinu nýja siðferði bankanna. Ég mun að sjálfsögðu ekki greiða þessar 400 kr. Ég hef reyndar rekið mig á þetta áður nú á hinum síðustu tímum. Sennilega eru margir sem greiða bara reikningana orðalaust. Það ætti þó enginn að gera ef reikningurinn er ekki réttur. Í gærmorgun hafði ég grun um að eldsneytið myndi hækka. Ég tók bensín hjá Atlandsolíu á Lancerinn. Lítraverðið 159,1 kr. Eftir hádegið frétti ég af hækkun hjá Skeljungi og N 1. Ég fór aftur á grænu þrumunni til að fylla hana. Atlandsolía er líklega enn verr haldin en hinn hluti olíumafíunnar. Verðið komið í 164,1 kr. Þeir höfðu sem sagt hækkað enn meira en eldri hluti mafíunnar.
Það er nánast sama hvar tekið er niður. Allt hækkar nema laun hins venjulega vinnandi manns. Og það má alls ekki hreyfa við grundvelli neysluvísitölunnar. Það er þó tæki sem hægt er að nota til að létta hinum vinnandi stéttum lífið. En ríkisstjórnin er við sama heygarðshornið. Spókar sig í útlöndum að venju og hefur litar áhyggjur af okkur lýðnum. Ég ætla þó sannarlega að óska Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata. Líklega nóg bloggað að sinni. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Saturday, September 20, 2008

 

Hvað skal til ráða

þegar allt er ómögulegt? Tómt septembersvartnætti og lítið lagast það á næstunni. Tiltektir, skúringar og lagfæringar innanhúss er skárra en ekkert. Gleðina yfir góðum verkum vantar samt. Lífsgleðina, sem ég hef svo oft talað um í pistlum mínum hér. Nautn þess að una lífinu bæði í gleði og sorg. Tilhlökkuna til komandi dags. Vonin er þó enn til staðar. Vonin um að aftur birti til. Vonin um að endurheimta aftur hluta þess besta sem ég hef upplifað um mína daga. Þar er af mörgu að taka þrátt fyrir ýmis áföll. Ég held að ég sé ekki gamall fyrir aldur fram. Og ég var ekki ósáttur við að sjá tunglið á hausnum eftir klippingu hjá Hildi í vikunni. Að sjálfsögðu ekki jafn flottur og synirnir eru nú. Sennilega góð blanda að þeir hafi erft hár móður sinnar en Begga mitt.Begga er alveg verulega flott frú. Og góð stelpa að auki. Ég veit að ég ætti ekki að þrykkja þessum pistli út.En ég ætla að gera það samt af því mér líður skár en þegar ég byrjaði. Og það er sama sagan með Kimi, 4 lappir beint uppíloft í gamla stólnum. Elsku krakkarnir mínir og aðrir sem mér finnst vænt um, ykkar Hösmagi.

Sunday, September 07, 2008

 

Stutt reisa.

Skrapp til Reykjavíkur í dag. Skáldið mitt og Helga á förum af skerinu í fyrramálið.Koma sem betur fer aftur fyrir jól og það er góð bót í máli. Ég ók hingað austur á Selfoss í algeru íslensku slagveðri.Hlustaði eftir bestu getu á fréttir, en GSM sambandið er ekki það besta á Hellisheiði. Ég hef nú ekki horft á formúluna í sumar. Tímdi ekki að kaupa séraðgang að henni eftir hvarf frá rúv. Hafði þó pata af einhverju undarlegu. Sigurvegarinn Hamilton stytti sér leið í þessum kappakstri. Búið af dæma hann niður í 3ja sætið. Ég hef nú ætíð haldið því fram að sá sem svindlar í íþróttum ætti að vera dæmdur úr leik. Kannski er ég hlutdrægur í þessum efnum. Annars væri líklega affærasælast að loka íþróttaáhugann úti. Þá þarf maður ekki að vera að ergja sig á endalausu rugli um rétta dóma eða ranga. Við Kimi göngum snart til náða og biðjum að heilsa öllu góðu fólki. Loki fær sérstakar kveðjur frá Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 03, 2008

 

Haminguóskir.

Afmælisdagur kærs afkomanda í dag. Kosningaréttur fylgir. Eyþór Már 18 ára í dag. Fullviss um að honum eigi eftir að ganga vel í lífinu. Í dag hefur staðið yfir barátta. Ekki við vindmillur eða þjóðþekktar sögupersónur. Nú er aðalbaráttan við þvottavélina. Eitt af nauðsynjum þjóðfélagsins. Mér sýnist að þessar vörur hafi verið miklu betri í gamla daga. Gamla vélin móður minnar sælu entist í 20 ár. Ég keypti nýja vél af flottustu gerð fyrir fjórum árum. Bilaði í sumar. Komin í viðgerð og úr viðgerð. Það er það sama með vélina og ríkisstjórnina. Bilaður heili í öllu heila gallerínu. En ég ætla sannarlega ekki að kvarta yfir þjónustulund Árvirkjans á Selfossi.Sóttu,komu með hana aftur í dag. Þá fór ég að þvo. Allt gekk vel í fyrstu, ég heyrði vatnið dælast inn og kátur að eiga hreinan þvott í vændum. En heilabiluð þvottavél getur ekki neitt. Fremur en ríkisstjórn sem öll virðist haldin sama kvilla. Ég hringdi í Sigurjón í Árvirkjanum. Hann kom strax og gerði sitt besta. Heilinn í honum virðist virka nokkuð vel ennþá. Við Raikonen erum hér slakir og nóttin kemur. Dásamlegt veður í dag og vonandi fáum við góða septemberdaga. Þrátt fyrir áfelli mun lífið halda áfram og vonandi gengur okkur öllum allt í haginn. Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online