Sunday, May 28, 2006

 

Miðnæturkyrrð.

Eftir að hafa sofið frá klukkan hálf fimm í gær vaknaði undirritaður um miðnætti. Útsofinn að sjálfsögðu. Nóttin framundan. Gerir svo sem ekkert til því ég á enn verk að vinna hér heimafyrir. Kisi kátur utandyra. Ekkert varð af stangveiði um helgina. Hafði einhvernveginn ekki þrek eða nennu til þess. Nú eru bara 4 vikur í að reynt verði við þann silfraða í Ölfusá. Áin er nú óvenjufalleg, lítil og silfurtær. Og nú þarf brátt að ryðja frystikistuna fyrir nýjar birgðir. Ákveðinn í að láta flaka fiskinn jafnóðum í sumar. Þá er hann aðgengilegri og ést betur. Hef trú á að veiðin gangi vel í sumar. Og nú hef ég rýmra frí en nokkurn tímann áður á starfsævinni. Ef til vill verður hægt að kanna Arnarvatnsheiðina. Aldrei komið þar en heyrt af henni margar sögur. Sögur um veiði og náttúrufegurð. Örugglega gott að vera þar í góðu veðri. Svo skýtst ég ínní Veiðivötn í eftirlitsferð snemma sumars eins og í fyrra. Gott að sýna nýja vagninum Vötnin. Hann á örugglega eftir margar ferðir þangað inneftir. Síðan eru það líka fornar slóðir sem vert væri að kanna. Landmannalaugar og Kirkjufellsvatn. Ekkert heyrt af því árum saman. Fyrir 27 árum lenti ég þar í brjáluðum fiski. Fengum 261 bleikju á einum sólarhring. Þá var nú hunterinn í essinu sínu. Lunginn úr sunnudeginum fór í aðgerð í bílskúrnum hjá Ingvari í Sportbæ. Sá kemur við sögu í Radíó Selfoss. Eins og fleira ágætt fólk. Og það er orðið æði langt síðan ég hef öslað austur fjallabak. Kominn tími á það.
Lágnættið nálgast. Langar þó alls ekki að leggja mig aftur. Væri þó óhætt því Jón Marteinsson er víðs fjarri. Helvítis pjakkurinn sem notaði tækifærið þegar nafni hans Grindvikíngur lét sér renna í brjóst. Stal Skáldu. Sem sagt ekki gott. Meira kaffi og svo heldur lífið áfram. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online