Sunday, May 14, 2006

 

Kvaðratrót.

Hálfgrámóskulegt í morgunsárið. Indælisveður samt sem áður og hitastigið um 5 gráður. Blankalogn og gott að viðra sig. Nú tekur vinnan við á ný eftir algjöra letihelgi. Það var eins og ég hefði verið stunginn svefnþorni í gær. Eftir fótabaðið. Lagði siggið og líkþornið í bleyti. Líklega gætum við almennt ekki öll nógu vel að fótum okkar. Eins og þeir eru nú óhemjulega mikilvægir.Sem betur fer eru mínar lappir þó mjög vel nothæfar ennþá.
Þessi pistill er sá 169 í röðinni frá því ég byrjaði á þessari iðju útí Edinborg. Þetta er að sjálfsögðu mjög merkileg tala. 13x13. Mætti halda að ég væri með óstöðvandi þörf fyrir að láta ljós mitt skína. Fæ reyndar ekki mörg komment. Það er þó alltaf mjög skemmtilegt. Sennilega held ég áfram þó ég fái engin komment. Kannski er þetta bara hluti af lífsnautninni. Bara þakklátur skáldinu fyrir að hafa komið mér á bragðið.
Ég sagði hér um daginn að illt væri að fá mann fyrir bæjarstjóra sem ekki gæti einu sinni stjórnað sjálfum sér. Ekki datt mér í hug að þessi ummæli sönnuðust svo áþreifanlega eins og nú hefur gerst. Og það er ekki mikil vörn í því að segja að þetta hafi aldrei komið fyrir áður. Máltæki kerlingar hefur enn sannað sig: Það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Þetta hefur svo sem hent margan góðan manninn. En það er jafnslæmt fyrir það. Við skulum bara vona að batnandi manni sé best að lifa og ég óska Eyþóri Arnalds velfarnaðar í öllu sem hann á eftir að taka sér fyrir hendur.
Ró yfir tilverunni. Og hugarróin er einnig í góðu lagi. Það sem undirrituðum er líklega enn mikilvægara en allt annað. Einkum og sérílagi eftir reynsluna af annari líðan. Nú er líka í garð genginn yndislegasti árstíminn. Margt skemmtilegt og ljúft í vændum. Kannski ætlar frú Hatseput að gæta Raikonens þegar við feðgar höldum í Veiðivötnin í júlí. Viss um að það mun fara vel á með þeim. Hún er hvort eð er einskonar amma hans. Gott mál. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Að sjálfsögðu ætlar frambjóðandinn hins vegar ekki að segja af sér heldur einungis draga sig tímabundið í hlé. Fáir búa yfir jafntakmarkaðri sómatilfinningu og íslenskir stjórnmálamenn. Valdagræðgin ræður öllu.
 
Þetta er auðvitað laukrétt. Auðvitað á Eyþór að víkja.Og það hlægilegasta er að skeifuGeir finnst Eyþór hafa axlað ábyrgð. En hann veit heldur ekki hvað ábyrgð í stjórnmálum þýðir frekar en svo margir aðrir stjórnmálamenn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online