Wednesday, July 29, 2009

 

Lítið krútt og þolinmæði.

Lítil afastelpa bættist í hóp afabarna Hösmaga gamla á sunnudaginn var. Sölvi og Helga eru nú orðnir ábyrgir foreldrar. Það er mér að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni og ég sendi þeim og barninu mínar allra bestu árnaðaróskir. Gangur lífsins heldur áfram. Það er að vísu ekki gott ástand í þjóðmálum hér núna. Villuráfandi sauðir við stjórnvölinn og stjórnarandstaðan engu skárri.Og nú ætlar Björgúlfur Thor að "leita réttar síns" af því það eru allir að ljúga uppá hann. Hvernig væri nú fyrir stjórnvöld að taka á sig rögg og handtaka eitthvað af þessum samviskulausu bófum? Heimildirnar eru fyrir hendi en siðferðiskenndina virðist vanta alveg.
Ég átti veiðidag í gær. Það var þokkalegasta veður og þurrt framan af degi. Vatnið gott en má þó varla minna vera eftir nokkrar kaldar nætur í röð. Þetta varð viðburðaríkur og skemmtilegur dagur. Ég landaði fyrsta laxinum í Víkinni 1o mínútum fyrir 8. Milli klukkan 9 og 10 setti ég í 4 laxa en með einhverjum dularfullum hætti tókst þeim öllum að snúa sig af önglinum. Ég var þó arfaslakur yfir þessu. Miklu skemmtilegra að setja í laxinn þó hann sleppi heldur en að ekkert gerist. Ég náði svo þeim 6. uppúr 10 og fór heim með 2 laxa eftir fyrri vaktina, glaður í hjarta. Þessir laxar voru líka afar fallegir, þykkir og frekar stuttir. Klukkan 4 settist ég að í Klettsvíkinni. Viss um að hann biði eftir mér þar. Svo bara gerðist ekkert þrátt fyrir mína alkunnu snilld með prikið þarna. Ég yfirgaf þennan magnaða veiðistað og hélt uppá Miðsvæði. Þar var allt líflaust líka og Hrefnutangi vildi heldur ekkert gefa. Bak mitt er ekki nógu gott þessa dagana svo ég hélt aftur á dorg á mínum uppáhaldsveiðistað í Ölfusá. Ég var orðinn dasaðaur því mér tókst ekki að sofna í hléinu. Langaði mest heim en eitthvað hélt mér við ána. Ég lagði mig í klukkutíma í grænu þrumunni. Mókti smávegis. Þá var farið að rigna töluvert. Um áttaleitið settist ég aftur á árbakkann. Sömu rólegheitin. Ég nánast píndi mig til að sitja þarna áfram. Korter fyrir 10 var kippt tvisvar í línuna. Og aftur í næsta kasti. Mínúturnar liðu. Tveim mínútum fyrir kom eitt snöggt högg og ég sá sporð. Ég var nánast orðinn trylltur. Ég kastaði síðasta kastinu nokkrum sekúndum fyrir tíu. Færið stoppaði skyndilega en ég fann ekki fyrir neinu.Ofurvarlega reisti ég Herconinn og þá var togað á móti " Hann" var á. Það varð heilmikill darraðardans. Laxinn vildi niður ána en ég vildi hann uppá bakkann. Þetta var óvenjukraftmikill fiskur. Hann varð þó að láta í minni pokann því hann hafði rennt ánamaðkinum niður í maga. Tæplega 6pundari og jafnfallegur og morgunfiskarnir. Hösmagi hélt heimleiðis. Þolinmæðin hafði enn og aftur gefið honum fallegan fisk. Svona dagar gera lífið dásamlegt. Skyldi heilög Jóhanna nokkurntíma hafa kastað fyrir fisk? Það getur varla verið. Kimi fagnaði fóstra sínum að vanda. Ég kastaði teningunum nokkrum sinnum og lagðist í flet mitt rétt fyrir miðnættið. Nú er fremur þungbúið þó hann lafi þurr. Það mætti gjarnan rigna í dag. Fyrir bændur og maðkatínslumenn. Ég held mig að sjálfsögðu heima þessa komandi ferðahelgi. Uni mér næst á bökkum árinnar minnar á mánudaginn kemur. Bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 23, 2009

 

Kjellingar.

Mér finnst skrítið mannkyn, kvenkynið. Konur eru flestar grimmar. Mér finnst voða gott að búa einn með kettinum mínum. Engin að nöldra neitt í mér. Enginn að skipta sér af kaupstaðalykt, svitalykt eða skítalykt. Eða ilminum af vindlunum mínum. Friðurinn á heimili mínu er mér ákaflega mikils virði.Kvinnemennesker eru snillingar í að kveikja ófrið.Búa til vandamál úr engu. Ég er hér um bil viss um að ef hér hefði verið kvenmaður innandyra í morgun hefði hann kennt mér um norðanbálið utandyra. Hitinn lafir í 5 gráðum klukkan hálfsjö að morgni þess 24. júlí 2009. Ég er frjáls maður ennþá. Enginn skipar mér fyrir. Nema kannski Kimi sem vill mat sinn og eina og eina stroku eftir bakinu.Varla hægt að kalla það skipanir heldur einlægar bænir. Í gær lágum við í fleti okkar. Ég undir sænginni og Kimi ofan á mér. Hann lygndi aftur augunum á meðan ég lauk við Harðskafa Arnaldar. Hnoð, mal og vinátta. Ekkert nagg né jaggedíjagg. Þegar ég lokaði bókinni lét ég hugann reika. Leið alveg einstaklega vel. Mér komu ekki einu sinni aumingjarnir í landsstjórninni í hug. Steingrímur og sópriðillinn með silfurhærurnar.Vondar voru síðustu ríkisstjórnir. Núverandi stjórn er þó að mörgu leyti miklu verri.Meirihluti þingmanna VG hefur gengið í björg.Eða fram af þeim. Steingleymt öllu sem þeir sögðu fyrir kosningar.Ég þoli ekki óheiðarlegt fólk nú frekar en áður. Fólk skal þó ekki halda að skoðun mín á yfirnagaranum og draugnum hafi breyst. Verstu glæpamenn sem setið hafa að völdum á þessu kalda skeri. Í afmæli dótturdóttur minnar fyrir viku deildi ég við syni mína. Þeir eru báðir með ESB veiruna.Sem er náskyld verstu veiru sem hefur heltekið allt of marga hér á landi, Samfylkingarveirunni. Þetta var nú samt allt í góðu. Synir mínir komust að þeirri niðurstöðu að ég væri bara íslenskur sveitamaður. Það er líkast til rétt hjá þeim. Eða íslenkur heimilisköttur sem fer sínar eigin leiðir. Ég ætla að halda áfram að láta stjórnast af sannfæringu minni. Mér finnst vænt um börnin mín þó ég deili ekki skoðunum með þeim varðandi Evrópusambandið. Ég hef heldur aldrei valið mér vini eftir pólitískum skoðunum þeirra. Ég mun líka verða gagnrýndur harðlega eftir næstu bæjarstjórnarkosningar. Ég mun stuðla að falli núverandi meirihluta bæjarstjórnarinnar. Hann er óhæfur með öllu. Enda með Jón Hjartarson hægri gráan innanborðs. Ég hef aldrei gert meiri mistök á minni ævi en þegar ég kaus þann mann í bæjarstjórn. Ég er bláeygur. Mér hefur stundum orðið hált á að treysta fólki sem villir á sér heimildir. En til þess eru vítin að varast þau. Ég læta aðra um að kjósa VG í næstu bæjarstjórnarkosningum.

Enn svona í trúnaði ætla ég að segja ykkur soldið. Mér finnst nú vænt um sumar stelpurnar. Þær eru ekki allar svona eins og ég var að tala um. Ég er stoltur af dóttlu, Boggu og Helgu Soffíu. Bara montinn af að eiga svolítið í þeim. Mér er líka hlýtt til fyrrverandi ástkvenna minna. Það var ekki tómt jaggedíjagg. Líklega hef ég týnt hæfileikanum til að verða ástfanginn. Það er auðvitað leitt. En mér finnst enn ákaflega vænt um að fá að vera til. Fjórir dagar í laxveiði. Svo meiri laxveiði, urriðadans og enn meiri lax og aftur lax. Hún er flott rófan sem dinglar hér fram og aftur á borðinu. Eigandi hennar malar. Það sækir værð á okkur báða. Við sendum vinum okkar af báðum kynjum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, July 20, 2009

 

Leti.

Ég sé að það er hálfur mánuður síðan ég hef bloggað.Það hefur heldur varla verið veður til þess. Hitinn í gær var yfir 20 gráður í marga klukkutíma. Ég lauk við að mála vindskeiðarnar á bílskúrunum og það nægði til þess að ég fengi sting í mjóhrygginn aftur. Ég varð að laumast út í bæ og stela mér stiga til að geta lokið verkinu.Þetta var nytjastuldur sem er mun vægari glæpur en annar þjónaður.Ég slepp fyrir horn eins og svo oft áður. Veiðin í Ölfusá gengur bærilega. Nokkur dagaskipti eru þó þar eins og gengur. Í fyrradag komu 22 laxar á land en aðeins 8 í gær og heildartalan orðin 199 laxar. Að auki eru komnir hátt í 40 góðir sjóbirtingar, flestir á bilinu 2-7 pund. Undirritaður hefur veitt 3 slíka og búinn að éta yfir sig af þessum frábæra mat. Við feðgar áttum góða samveru við ána á fimmtudaginn var. Veiddum 5 laxa og 2 sjóbirtinga. Gátum vel við unað þó þetta væri minni afli en í fyrra.Ég á ekki veiði fyrr en eftir viku en er strax farinn að hlakka til dagsins.Við Sölvi skruppum í Veiðivötnin um næstsíðustu helgi. Veiddum lítið en nutum staðarins að venju. Þegar við yfirgáfum þessa paradís sunnudaginn 12. júlí var hitastigið um 24 gráður. Hin hefðbundna Veiðivatnareisa verður 11.- 13. ágúst og Sölvi verður fjarri góðu gamni. Hann þarf að sinna öðru mikilvægara á þessum tíma. Ég hef lambakónginn minn, Sigga Þráinn, mér til halds og trausts. Það er gott hlutskipti því það er vandfundinn skapbetri og ljúfari piltur. Hugur minn er sem sagt aðallega við Herconinn góða þessa unaðslegu sumardaga. Ég er orðinn góður af lurðunni frá því um daginn. Kimi hnusar nú af morgungolunni og ég sötra síðustu dropana af kaffinu. Ég er búinn með Bettý og les nú Harðskafa og þá er Arnaldi lokið að sinni. Ég sendi honum góðar kveðjur með þökk fyrir skemmtunina. Ég og Dýri sendum okkar bestu kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Tuesday, July 07, 2009

 

Sópriðlar.

Margir kannast við það sem danskir kalla hekseskud. Ég kalla það nornaskot.Ein þessara kústríðandi kvenmanna fretaði á mig á laugardaginn. Ég dróst við illan leik til veiða á sunnudaginn. Ég var á að líta eins og níræður öldungur, boginn eftir strit ævi minnar. Eftir hádegið fór ég upp í Haukadal á fjölskyldufund í Gunnarslundi. Það var indælt að venju nema hvað mjóbakið var að kvelja mig. Það sótti líka á mig syfja og slappleiki.Ég fór í fletið klukkan átta og sveif inní draumalandið. Svaf í 8 tíma sem er óvenjulegt, einkum á þessum árstíma. Illu heilli dreif ég mig á fætur og fór út í mína daglegu morgunreisu. Þegar heim kom tók rúmið við mér á ný. Ég var að mestu rænulaus í gær. Mókti og var með daufri rænu annað slagið.Eiginlega tilverulaus eins og þegar skáldið mitt annaðist mig í Lögmannsundi á Þorláksmessu 2004. Matarlystin er horfin. Sem ég má síst við. Lítil löngun í reykinn frá Bagatelló sem gerir ekkert til. Mér finnst það eiginlega svindl að verða veikur á þessum árstíma. Bara hreint ómark. En allt lagast. Ég ætla að halda mig nálægt rúmi mínu í dag. Kíkja öðru hvoru í Konungsbók Arnaldar sem er tíunda bókin sem ég hef lesið eftir hann á stuttum tíma. Þá á ég bara Betty og Harðskafa eftir. Mikilvægast er að ég nái minni góðu heilsu á ný. Hinn rómaði 3jastangadagur er ekki fyrr en þann sextánda og þá vil ég vera eiturhress. Það gæti sem best orðið löndunarbið þann dag eins og í fyrra. Hugsanlega fer ég í Veiðivötn með skáldinu mínu í millitíðinni en það er þó óráðið enn.Þetta er minn tími. Tími brauðs og leikja og afarvont að trufla hann með nornapest. Þó ég sé enn slappur er ég þó að lagast og tel mér trú um að ef ég held mig nælægt fleti mínu verði ég orðinn sæmilegur á morgun. Kimi hefur verið á göltri út og inn í nótt og hvílir nú lúna fætur í gamla tágastólnum. Það hefur skeð áður. Ég skora á sópriðlana að sjá til þess að ég endurheimti heilbrigði mitt í dag. Nær að stinga landsfeður okkar en blásaklausan heiðurmann eins og Hösmaga gamla. Ég vil kraft minn aftur og volæðið burt. Við rauðskinnarnir sendum okkar bestu kveðjur til allra vina. Ykkar Hösmagi.

Friday, July 03, 2009

 

Endurtekið efni.

Á þriðjudaginn var sat ég í sófanum í bílskúrnum, hnýtti tauma og skipti um línu á veiðihjólinu. Kimi kom í gáttina og fylgdist með. Ég held að hann hafi vitað hvað til stóð hjá mér daginn eftir. Fóstri hyggði á veiðar. Um kvöldið kom hann með bráð sína inní íbúðina við lítinn fögnuð minn. Ég á erfitt með að skamma dýrið mitt en ítrekaði að ég vildi ekki að hann dræpi fugla. Lét þar við sitja. Kannski á ég engan rétt á að skamma hann fyrir það sama og ég geri. Veiðieðlið í okkur báðum. Ég hélt svo að bakka Ölfusár þann 1. júlí. Áin hafði litast verulega vegna hitastigsins. Það virtist lítið um fisk og ég varð ekki var fyrir hádegið. Eftir miðdegisblundinn hélt ég svo á efra svæðið og laxinn tók á slaginu 4. Ekta 5pundari sem er sannarlega ekkert slor. Ég náði svo öðrum um sjöleytið og var orðinn alsæll með feng dagsins. Þegar heim kom hnusaði kötturinn af pokunum. Fóstri með 2 og hann bara einn. Um ellefuleitið um kvöldið hvarf Kimi út í sumarnóttina. Um morguninn var komið annað lík inní húsið. Hann hafði jafnað metin. Hann hlustaði á föðurlegar átölur en ég efast um að hann láti sér segjast. Ég verð líklega að leyna áformum mínum varðandi næsta sunnudag. Fara með áætluð laxadráp eins og mannsmorð. Það var svo laxaveisla hjá mér í gærkvöldi. Ég er enn pakksaddur eftir kvöldmatinn í gær. Held svo áfram að borða lax þegar líður á daginn. Það var rólegt yfir veiðinni í gær en menn settu þó í nokkra laxa en þeim tókst öllum að sleppa. Hitinn er nú alveg við 20 gráður og mér sýndist veiðimenn vera fremur rólegir við fljótið í morgun.Þessi fallegi dagur er kærkominn eins og allir hinir. Nóttlaus veröld enn og ég nýt hennar sannarlega. Hyggst ljúka við að bera á vindskeiðarnar á bílskúrnum ef mér tekst að stela mér stiga eins og gerði forðum þegar ég læsti mig úti og komst að lokum inn um svaladyrnar. Ég talaði við báða syni mína í gær og þar kom veiði við sögu. Við feðgar ætlum allir að ná okkur í fisk um helgina. Mér líður vel yfir að hafa átt þátt í að þeir stunda báðir þessa indælu sumariðju eins og faðirinn. Ég er í pólitísku bloggfríi og reyni að ýta þessari sóðatík til hliðar úr hugskoti mínu. Ég hlutaði þó á frábæra ræðu Ögmundar í þinginu í gær. Hún var svo góð að Steingrímur þoldi ekki við og yfirgaf hinn bólstraða ráðherrastól sinn.

Hér er skrúfað fyrir alla ofna og svalara innandyra en utan. Kimi lúrir í gamla tágastólnum. Sennilega dreymandi um bráð hér í grenndinni. Kannski legg ég mig líka á eftir og læt mig dreyma um laxfiska og annað ljúft og skemmtilegt. Kveðjur frá okkur veiðiverum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online