Thursday, December 29, 2005

 

Uppgjör.

Á miðnætti annað kvöld rennur upp nýtt ár. Einu sinni enn. 2005 að kveðja og kemur ekki aftur. Runnið í aldanna skaut. Hefur um margt verið mér ákaflega gott ár. Minniháttar pestir hafa að vísu herjað á mig. Tekur því varla að minnast á það.Tíðarfarið hefði svo sem mátt vera betra. Minnist þó góðu daganna umfram hina. Í starfi hefur allt gengið að óskum. Óhemjuvinnutarnir og peningarnir gófluðust í kassann hjá vinnuveitendum mínum. Fékk líka ágæta kauphækkun og kvarta ekki að sinni. Keypti mér nýlegan fjallavagn sem hefur ekki verið sparaður. Og reyndar litla snattarann með skáldinu mínu. Og þegar minnst er á skáld kemur Gleðileikurinn upp í hugann. Sama hjá mér og elskulegum nafna mínum Ólafssyni að ég telst víst ekki hlutlaus ef dæma skal verkið. Gleðileikurinn gleðilegi skal hann vera. Og 1. júlí kom nýr íbúi í íbúð 205 að Ástjörn 7. Skáldið og Helga komu með kött. Raikonen hinn unga. Var fljótur að festa rætur hér. Koma sér upp venjum og siðum. Okkur semur ágætlega og finnst vænt hvorum um annann. Enda annar ljúfmenni og hinn ljúfketti. Og ekki má gleyma veiðistönginni. Herconinn reyndist mér afskaplega drjúgur í sumar. Nokkrir sjóbirtingar og 16 laxar úr Ölfusá.Tveir laxar úr Tunguá í Lundarreykjadal. Dalnum , þar sem áin litla rennur. Eins og stendur í litlu kvæði sem ég orti fyrir margt löngu.

Horfin ertu, harmi ég er sleginn
heitt ég elska þig minn kæri svanni
en nú er bara sútur og sorg í ranni
sumarið er horfið fram í dalinn
fagra, þar sem áin litla rennur,
þangað sem að ástin heitast brennur.
...........

Rifjar upp kvæði um útlenskt regn og fleira fallegt og ljúfsárt. Líklega er fátt jafn gott og hið ljúfsára. Hið ofurlítið þjáningarfulla og angurværa. Hið tregafulla getur stundum látið manni líða vel. Kannski er ég einn svona einkennilegur. Held þó ekki. Og varðandi veiðina má ekki gleyma indælum dögum í Veiðivötnum. Fyrst með strákunum mínum og svo einn viku síðar. Sérlega eftirminnilegt vegna stóru urriðanna. Hænganna, sem létu blekkjast. Grimmir og líklega svolítið ástfangnir. Hvorutveggja varð þeim að falli. Vonandi höfðu þeir lokið ætlunarverkinu áður.
Reikna nú ekki með að skrifa fleiri pistla á árinu. Nema mig dreymi eitthvað skemmtilegt næstu nótt. Aldrei að segja aldrei. Með áramótakveðjum og nýársóskum til ykkar allra frá okkur Raikonen. Ykkar einlægur Hösmagi.

Sunday, December 25, 2005

 

Hálfsjálfvirkur róbóti.

Sælir bloggarar. Jóladagur og 8 stiga hiti á ísaköldu landi. Sérlega ljúft jólaveður. Sit hér með indælt kaffi og doktor Raikonen, yfirköttur í Ástjörn 7, viðrar nef sitt og skott. Ég fékk nytsama jólagjöf í gærkvöldi. Sópur og skúringafata í sömu einingu. Maður tekur lokið af endanum og hellir hálfum lítra af vatni ofaní rörið. Bætir svo nokkrum dropum af sápulegi við. Skimar svo í kringum sig á parketinu og flísunum. Og finnur skítablett. Svo ýtir maður aðeins á hnappinn á enda sóflsins og þá ýrist vökvinn yfir blettinn. Þá stígur maður létt á bensíngjöfina og skíturinn bókstaflega hverfur eins og dögg fyrir sólu. Gufar bara upp. Parketið geislar og þú speglar þig í flísunum. Það eina sem vantar er fjarstýring á þenna vélsófl. Og þetta er svona óbein innspýting. Afar hugvitsamlegt og notagildið óumdeilt. Kannski get ég kennt Raikonen á þetta hálfsjálfvirka vélmenni. Þá hringi ég í fjölmiðlana.
Í dag er lítið annað að gera en liggja í leti og kýla vömbina. Eftir innkaupum Hösmaga mætti halda að hér byggi 7 manna fjöslkylda.Sauðakjöt, pækillæri, sem er mikið lostæti. Svo mikið að það er eiginlega lostalæri. Svo er það jólasíldin, hátíðasíldin, Dinkelbergerbrauðið, reykti Veiðivatnaurriðinn og Ölfusárlaxinn. Kleinur og flatkökur frá Immu vinkonu minni, ódýrara konfektið frá Jóhannesi og slatti af drykkjum. Gull-, rjóma og gráðostur. Camenbert. Vodka, koníak, rauðvín Whyskí og bjór. Maltið og appelsínið frá Agli sterka og svo auðvitað eðaldrykkurinn Sósa Sóla. Rækjur og harðfiskur fyrir dýrið. Væsir sem sagt ekki um okkur vinina hér. Verður þó eitthvað eftir fyrir Helgu á skáldið mitt á morgun.
Fiskihrellir hefur lokið við kaffið. Raikonen kominn inn aftur og sestur að rækjunum. Við sendum ykkur öllum jólakveðjur. Sæl að sinni, ykkar einlægur Hösmagi.

Wednesday, December 21, 2005

 

Afmæli.

Fyrir nákvæmlega einu ári sat ég í stofunni hjá skáldinu og Helgu. Í Lögmannasundi. Leyndardómar bloggiðjunnar opnuðust Fiskihrelli, Laxaspilli, Urriðaskelfi og Hösmaga. Ég hafði svo sem heyrt ávæning af að fólk stundaði þessa iðju. Einhvernveginn tókst skáldinu að fá mig til að skrá mig inn og ég skrifaði nokkrar línur. Fyrsti og eini pistillinn af erlendri grundu. Tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt. Og ég held að pistlarnir séu orðnir 116 að tölu. Sem betur fer er þetta nú engin kvöð. Og það er líkt með blogginu og ljóðunum að það þýðir ekki að setjast bara niður og ætla sér að blogga. Segja eitthvað mjög spaklegt. Og ég hafði löngu lært að það þýðir ekki við vísnagerð. Þetta verður eiginlega að koma af sjálfu sér. Enda hef ég ekki eytt miklum tíma í þetta. Spekin spýtist út á 5- lo mínútum. Ég laumaðist til þess í vinnunni í dag að kíkja aðeins yfir farinn veg. Eitt ár af mannsævi. Bara gaman. Einskonar slitrótt dagbók. Veiði, pólitík, hið daglega argaþras, bíladellan og kötturinn. Eins og ég hef sagt hér áður veit ég um nokkra sem lesa bloggið mitt reglulega. Og sumir kvarta jafnvel ef lát verður á flæði snilldarinnar. Allt er þetta harla gott. Líklega er Fiskihrellir bara rétt að byrja. Ágætt stundum að stinga niður penna. Kannski er betra illt að gera en ekki neitt eins og máltækið segir. Vona nú samt að ég hafi ekki meitt neinn voðalega mikið. En verðum við ekki að segja það sem okkur býr í brjósti. Enginn hefur hafið meiðyrðamál gegn mér enn. Og vonandi slepp ég fyrir horn. Bestu kveðjur á þessum fallega sólhvarfadegi. Nú lengist dagurinn á ný. Hænufet á dag. Svona 20 mínútur á viku u.þ.b.Ykkar einlægur Hösmagi.

Sunday, December 18, 2005

 

Góður, betri....

bestur. Jólavertíðin í hámarki. Undirritaður skælist með öllum hinum. Mér kemur gamli biskupinn í hug. Fyrir nokkrum árum var hann að hugleiða hvort ekki væri kominn tími til að leggja jólin niður sem slík. Blöskraði líklega kaupæðið og Mammonsdýrkunin. En við höldum áfram. Fögnum vetrarsólhvörfum og hækkandi sól. Gerum okkur dagamun í svörtu skammdeginu. Hugsum ekkert voðalega mikið um Jesús. Et og drekk sála mín og ver svo glöð.
Ég keypti mér Nóa konfekt í gær. Svona til að maula um jólin. Stór stæða af þessu nammi í Nóatúni. Og spjald yfir stæðunni: Betra verð í Nóatúni. 1.980 kr. kílóið. Átti erindi í Bónus og þar var líka konfektstæða. Kílóverð 1.789 kr. Mismunur 11,06% En Bónus er náttúrlega bara plebbabúð. Varla aðrir en útnárar, vargar úr sveitinni og aflóga kommar sem láta sjá sig inní slíkum búðum. En í mínum huga eru 1.789 kr. betra verð en 1.980 kr. Í sumar birtust líka stór og vönduð plaköt í Nóatúni: Nóatún lækkar vöruverð. Varð glaður að sjá þetta. Sveif léttstígur að borðinu með heita matnum. Þegar ég greiddi fyrir matinn fannst mér einhvernveginn að hann hefði lítið lækkað. Skoðaði verðmiðann og sá að maturinn hafði hækkað úr 980 kr. pr. kg. í 1.180 Hið lækkaða vöruverð var orðið 20,4 % hærra. Dettur neikvæði afslátturinn í Lyfju í hug. Óravíddir stærðfræðinnar eru óutreiknanlegar. Betra verður verra og hið lága hærra. Eins og KN sagði
Góður, betri bestur
burtuvoru reknir.
Illur verri verstur
voru aftur teknir.

Nokkrum dögum seinna sagði ég við eina kassadömuna sem ég kannaðist við að Nóatún væri bara djöfuls okurbúlla. Auglýsti lækkað verð og svo hækkaði maturinn um 20%. Elsku vinur veistu ekki að kjötið var að hækka svo mikið. Og allt annað í búðinni hefur snarlækkað. Auðvitað var þetta haugalygi. Þetta eru bara mjög slæmir verslunarhættir. Ekki einu sinni olíumafían reynir svona kúnstir. Hvað sem sagt er um þá Bónusfeðga þá er það bara staðreynd að flest er þar ódýrara en annarsstaðar. Í minni vitund eru 2x2 ennþá 4.

Hér bærist nú ekki hár á höfði. Vetrarkyrrð í myrkri. Rakonen með röndótt skott sitt kannar mýsluslóðir. Kemur svo inn og gætir heimilisins meðan Hösmagi þrælar fyrir mat okkar. Sambúðin gengur vel. Rífumst ekkert. Erum vinir og góðir hvor við annan. Indælt.

Fékk mér snarl með skáldinu og Helgu á laugardaginn. Ræddum gagn heimsins og nauðsynjar. Svona pínu. M.a. barst í tal heilinn í Bubba Morthens. Undirritaður komst að þeirri niðurstöðu að hann væri á stærð við hænuegg. Læt ósagt hvað þeim fannst. Kannski er hann líka á stærð við uppþornaða mandarínu. Aldrei heyrt slíkan ávöxt tala af innblásinni speki. Nóg af níði í bili. Ykkar Hösmagi, enn pælandi í matematikkinni.

Friday, December 16, 2005

 

Gnegg og kumr.

Vika til jóla. Smá snjókorn fluxast hér utan við gluggann. Hlýnar aftur seinna í dag. Vonandi verða rauð jól. Í gær voru uppi alvarlegar hugleiðingar um bílaskipti. Vissi vel að hagkvæm fjárfesting væri ekki í aðsigi með þessu. Þeir Fiskihrellir og Hösmagi réðu því ráðum sínum árla dags. Ákváðu að Gráni yrði ekki látinn burt nema sanngjarnt gjald kæmi fyrir. Og bílasalinn taldi víst að þeir félagar væru fastir á króknum. En þeir voru allsendis ekki sáttir með mat hans á Grána. Það varð því ekkert úr viðskiptunum. Og Gráni varð harla glaður. Þegar hann var kominn á stall sinn í bílskúrnum eftir vinnu í gær kumraði hann og gneggjaði af einskærri gleði og vellíðan. Þó hann sé að mestu stál og ál þá er hann með sál. Eins og sumir bílar hafa. Og ekki var Fiskihrellir síður ánægður með málalokin. Er staðráðinn að þiggja þjónustu Grána miklu lengur. Nokkur ár enda gæðingurinn bráðungur enn. Og hugurinn orðinn lygn aftur. Engar frekari pælingar um spól - og skriðvarnir að sinni. Og vonandi er félagi minn frá Laugarvatni hættur að pæla í eilífðarvélinni.

Hyggst halda til höfuðborgarinnar í dag. Það skemmtilegasta við að fara til Reykjavíkur er að maður hlakkar alltaf jafnmikið til að fara þaðan aftur. Finnst þó svolítið vænt um staðinn en vildi samt alls ekki búa þar. Líklega svona voðalegur plebbi. Sveitavargur og útnáralufsa af verstu sort. Hef engar áhyggjur af þessu. Ég verð að segja það. Munur eða Steingrímur sem hafði sífelldar áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum. Margt er mannanna bölið og misjafnt er drukkið ölið. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi, hugsandi um gæðinginn góða sem kumrar á stallinum.

Tuesday, December 13, 2005

 

Eilífðarvélin.

Undirritaður er enn að pæla í bílaskiptum. Annan daginn, ekki hinn daginn. Ég var að ræða þetta við kunningja minn um daginn. Hann spurði mig hvort það væri eitthvað að jeppanum mínum. Nei, hann er í fínu lagi. Af hverju ertu þá að vesenast í þessu? Þetta er auðvitað rétt og satt. Og ég afskrifaði delluna - þann daginn. Þetta minnir mig á skólafélaga minn á Laugarvatni. Hann pældi mikið í eilífðarvélinni. Ég sagði við hann si svona. Hættu þessum pælingum, þú veist vel að þetta er ekki hægt. Og hann svaraði að bragði: Auðvitað veit ég að það er ekki hægt að búa til eilífðarvél. Bætti svo við: En ef ég skyldi nú detta oná það. Jeppinn minn hefur allt sem góður bíll þarf að hafa. En samt halda pælingarnar áfram. Spólvörnin, skriðvörnin, þráðlaust GSM samband, 8 strokka V Hemivélin, sem gengur bara á 4 strokkum meðan ekki er þörf fyrir hina 4. Og ótalmargt annað. Ég hef sagt það áður að bíladellan er í genunum. Og notagildi þessarar uppfinningar er mikil. Aldrei myndi þó flökra að mér að ganga til liðs við vini einkabílsins. Yfirgengilega fágengilegur félagsskapur. Læt þetta örugglega bíða. Sé til þegar afgangsaurarnir nægja fyrir nýjum glæsivagni.

Annars er bara allt gott. Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang, mælti Steinn Steinarr. Og jólin nálgast óðfluga. Gamli jólakvíðinn er ekki lengur til staðar. Vildi að það ætti við um alla. En því miður er það nú ekki svo. Margir í þessu allsnægtaþjóðfélagi sem hlakka lítið til þessarar hátíðar. Enda felast allsnægtirnar í því að margir eru við fátæktarmörkin. Sumir reyndar langt undir þeim. Meðan einkavæðingardrengirnir vita ekki aura sinna tal. Heimta samt alltaf meira og meira. Finnst það ofureðlileg umbun fyrir snilld sína. Og forstjórarnir kaupa orgel í kirkjur. Og svo " styðja þeir menninguna". Ekki vafamál á hvorn staðinn þeir fara þegar þeir yfirgefa táradalinn. Ekki eins víst með mig. Hef ekkert lagt í orgelsjóð og því spurning um inneign mína þegar þar að kemur. Den tíð, den sorg. Bestu, kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 11, 2005

 

Góðviðri.

Enn sama indæla blíðan. Nú eru einungis 9 dagar í vetrarsólhvörf. Þá byrjar sá ágæti mánuður sem nefndur er Mörsugur. Upphafið að sigri birtunnar yfir myrkrinu. Nýtt ár framundan. Hvað skyldi það bera í skauti sér? Vonandi frið og kærleika. Kannski að við, þessi grimmustu kvikindi jarðarinnar, tökum okkur svolítið á. Verðum pínulítið góð hvert við annað. Elskumst og hættum að berjast. Líklega er það þó borin von. Það er líklega of seint að kenna gömlum hundi að skíta eins og Hvergerðingurinn sagði.

Nú er kvefið á undanhaldi. Fékk mér norska brjóstdropa. Svínvirka. Mjög krassandi stöff blandað 25% spíritus. Liggur við að mann klægi í rassboruna eftir að hafa sopið á þessu. Heilsan er sem sagt góð og bara bjart framundan í skammdegismyrkrinu. Og lítið að gerast. Ríkisstjórnin söm við sig. Menn halda áfram að keyra út af og á næsta bíl. Allt hálkunni að kenna eins og vant er. Það væri réttast að þetta blessaða fólk hefði einungis árstíðabundið ökuleyfi. T.d. júní, júlí og ágúst. Þá þyrfti það ekki að keyra á og útaf yfir veturinn.

Streðið byrjar á ný klukkan 9. Lítið um aukafrídaga í þessum mánuði. Bara annar í jólum. Áramótin laugardagur og sunnudagur. Stendur til bóta síðar. Kapitalistarnir að sjálfsögðu glaðir með þetta. Þræla lýðnum út eins og þeim er von og vísa.

Raikonen mættur inn aftur og þrífur feld sinn. Ekki amalegt að fara í skoðunarferð á músaslóðir í svona veðri. Alltaf notalegt og róandi að horfa á kött þrífa sig. Háfgerður kattarþvottur en dugar vel. Nú, nú, gúrkutíðin í algleymingi svo ekki verður meira bloggað í dag. Til hamingju með að vera til, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 06, 2005

 

Að stela glæp.

Það er hroðalegt þegar glæpnum er stolið frá manni. Ætlaði að skrifa hér nokkur orð um "fullnægjandi svör". Utanríkisráðherrann og hirð hans. En nafni minn Ólafsson tók af mér ómakið. Lýsi mig hjartanlega sammála honum. Kanarnir hafa reyndar engar áhyggjur af okkur. Tryggari undirlægjur finnast ekki í víðri veröld. Sem betur fer eru ekki allar þjóðir jafnmiklar andskotans dragmellur og við gagnvart Bandarískum stjórnvöldum. Það er spá mín að framferði þeirra verði rannsakað og hið sanna komi í ljós. Hið sanna eðli gömlu afturgangnanna sem nú ráða öllu í bandarískum stjórnmálum. Glæpi þessa hyskis og mannréttindabrot. Það verður fróðlegt að fylgjast með amerísku íslendingunum þá. Það er afleitt að þurfa sífellt að fyrirverða sig fyrir aumingjaskapinn í ríkisstjórn íhalds og framsóknar. Ég ber að vísu enga ábyrgð á henni. Kaus ekki þessa menn. Og ég vona svo sannarlega að margir sem það gerðu opni nú augun og mótmæli þessum ræfilsviðbrögðum þeirra Hordes og allra hinna.

Þessi pistill nafna míns gladdi mitt gamla hjarta. Ég hef sagt það áður að mér finnst voða vænt um þennan gamla fóstbróður skáldsins míns. Ætla ekki að reyna að fá hann yfir til vinstri grænna. Né heldur að halda með öðrum en KR í fótboltanum. Vonandi finnst honum enn gaman að Staupasteini. Og finnst Bob Marley leiðinlegur. Og Hjálmar. Og svona mætti lengi telja upp ólíkan smekk okkar á hinu og þessu. Kannski finnst honum Freddy Mercury bara "nokkuð góður". Vonandi.

Veðrið hér er enn afburðagott miðað við árstímann. Það merkilegasta við þessa daga er hið stöðuga logn hér á Selfossi. Þessum gamla rokrassi. Það er að vísu svo að gróðurinn hér hefur bætt veðrið inní bænum. Stundum gjóluskratti norðan ár þó logn sé hér að sunnanverðu. Reyndar var nákvæmlega sama veðrið hér á sama tíma fyrir 4 árum. Minnist ljóðsins sem varð til þá á fasteignasölunni er undirritaður leit út um gluggann.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum
og öldungis frábært að hugsa og láta sig dreyma,
um þig, kæra vina, og veraldarerlinum gleyma
og vorið mun tendra aftur í fornum glæðum.
Þá mun ég að nýju svífa í hæstu hæðum
er höfugur ilmur þinn kemur með sunnanblænum.

Líklega var Hösmagi fiskihrellir og laxaspillir pínulítið ástfanginn á þessum tíma. Svolítið dreyminn, tregafullur og angurvær. Kannski verður hann svona aftur bráðum? Með bestu kveðjum, sá hinn sami.

Sunday, December 04, 2005

 

Koppalogn.

Drottins dýrðar koppalogn. Lofthiti ein gráða á Celsíus. Dásemdartíð 5. desember. Við Raikonen löngu vaknaðir og báðir búnir að fara í rannsóknarleiðangur. Kyrrð og friður yfir öllu og æ fleiri jólaljós kvikna. Keypti mér ljósleiðarakrans í gær. Hurðakrans. Það á víst að hengja hann á útidyrahurðina. Ég er nú samt búinn að hengja hann á stofuvegginn fyrir ofan sjónvarpið. Það er yfirleitt svo leiðinlegt að miklu betra er að horfa bara á kransinn. Gulur, rauður, grænn og blár. Og fjólublár og hvítur.

Stórbloggarinn MS kommenteraði í gær. Undrandi á leti föður síns við bloggið. Ég segi nú eins og blessað fólkið í útvarpinu: Ja hérna hér. Gott samt að einhver saknar snilldarinnar. Sá til dæmis að ég fæ ekki að vera með á netrúnti Helgu Soffíu. Veit samt um nokkra trygga lesendur. Skáldið mitt á leiðinni á Selfoss í dag. Er að leggja í víking í aðrar sýslur. Set bifreið undir höfðingjann. Áfangastaðurinn er syðsti hluti Íslands. Bara þrælarí framundan hjá undirrituðum. Vel úthvíldur eftir helgina og útbelgdur af reyktum Veiðivatnaurriða. Hreint sælgæti. Alveg skuggalega ljúffengur á bragðið. Kannski fá einhverjir bloggarar að bragða á ljúfmetinu. Laxinn er svo sem ekkert slorfæði heldur. Svo þarf að hugsa fyrir jólalæri, sauðahangikjöti, laufabrauði, síld og öllu hinu. Undirritaður ætlar að kýla vömbina hressilega um jólin. Gæti hugsanlega bætt á mig einu kílói. Svo fer að birta aftur. Nýtt ár með nýjum væntingum. Útivera, veiði og annað gott. Sannarlega tilhlökkunarefni. Vangaveltur komnar af stað um nýjan jeppa. Hemi, 330 hestöfl beint úr kassanum. Kannski eru þetta bara mannalæti. En, veittu þér það sem þig langar til ef þú getur það. Allt í deiglunni og athugun. Vanur að láta mig dreyma. Dásamlegt bara. Kominn tími á eina krossgátu enn. Með ljúfum kveðjum, ykkar enn og aftur einægur Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online