Sunday, April 30, 2006

 

Maí.

Ósköp finnst mér nú stutt síðan ég var að tala um öreiga allra landa. Eitt ár liðið og aftur kominn 1. maí. Þetta er kallaður baráttudagur verkalýðsins. Þessi dagur felst þó einkum í því í seinni tíð að verkalýðurinn þrælar en hinir eru í fríi. Þetta hefur löngum verið þannig. Sama gildir um frídag verslunarmanna. Enginn vinnur meira á þeim degi en einmitt verslunarþrælarnir. Öfugsnúið eins og svo margt í þessu þjóðfélagi. Á Selfossi er enginn kröfuganga, fundir eða kaffi eins og stundum var hér áður. Þó hefur launabilið á milli verkamanna og flestra annara aldrei verið meira en nú. Samtök atvinnulífsins hamra stöðugt á að kaup megi alls ekki hækka. Þá fari þjóðfélagið endanlega á hliðina. Foringjarnir þar hafa margföld laun verkamannsinns. Enda margir þeirra fæddir snillingar og eiga að uppskera í samræmi við það. Eða hvað?
Ég brá mér bæjarleið í litlu rauðu vespunni í gær. Mér tókst að koma henni uppí 60. Sá að hún var að verða bensínlaus. Fór og fyllti fyrir 416 krónur. Finnst ég strax vera orðinn öruggari í akstrinum. Kemur allt með æfingunni eins og flest annað. Bregð mér örugglega á bak aftur í dag.
Hér er nú þokuloft og hitastig lágt. Hef þó trú á að veturinn sé endanlega úti. Og uppúr 4 er orðið bjart enda aðeins rúmar 7 vikur í Jónsmessu. Sama bið í laxinn og fiðringurinn er byrjaður. Þó hlakka ég ekki minna til að halda á vit vatnanna góðu á Landmannaafrétti. Þangað er alltaf hægt að sækja nýja endurnæringu burtséð frá aflabögðum. En alltaf er von í þeim stóru þar og það er hinn góði bónus á ferðina. Semsagt gott, ykkar Hösmagi, heljarhress að vanda.

 

Bæjarstjórnin.

Enn er bæjarstjórn Árborgar að vinna ný afrek. Nú hafa bæjarfulltrúar framsóknar og samfylkingar lagst á hnén og beðið sveitarstjórn Ölfushrepps að halda áfram eyðileggingunni og skemmdarverkunum á Ingólfsfjalli. Skipulagsstofnun leggur til að þessum hryðjuverkum gegn fjallinu verði hætt. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða íhaldsins í Þorlákshöfn verður. Og hver er stefna íhaldsins hér? Nauðsynlegt að fá að vita það fyrir komandi kosningar. Vinstri grænir eru að sjálfsögðu á móti frekari eyðileggingu. Fólkið í þeim flokki og fylgismenn hans aðrir eru, að því er virðist, þeir einu sem eru meðvitaðir um hversu nauðsynlegt er að móta hér ákveðna umhverfisstefnu. Hvað haldiði að sagt yrði ef borgarstjórnin í Reykjavík krefðist þess að ráðist yrði á Esjuna af því það væri nauðsynlegt fyrir áframhaldandi uppbyggingu í Reykjavík? Hún yrði auðvitað púuð niður. Þetta er enn ein sönnunin um að þessi bæjarstjórn er algjörlega óhæf. Ég ætla svo sannarlega að vona að henni verði refsað rækilega í kosningunum. Ég er hreinlega farin að halda að bæjarfulltrúarnir hafi varla gripsvit. Við skulum gefa þeim sem allra flestum langt frí. Þeim gæfist þá ef til vill tími til að hysja upp um sig brækurnar sem þeir eru nú með á hælunum.
Bláa vespan var tekin til athugunar í gær. Þeir komu á rauðri vespu og skiptu við mig. Það rigndi allmikið í gær svo ég hélt mig að mestu innivið. Nú skín sólin á ný og ég ætla í smárúnt á þeirri rauðu. Draumnum hennar Helgu minnar. Þetta eru frábærir farkostir a.m.k. kosti til skemmri ferða. Og í góðu veðri til lengri ferða einnig. Vildi að ég gæti tamið Raikonen til að sitja á hjólinu með mér. Man eftir Ástrala á mótorhjóli sem ævinlega hafði köttinn sinn með sér. Dúðaður og með gleraugu eins og eigandinn. Mynd af þeim í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. En því miður tel ég litlar líkur á að Kimi myndi samþykkja þetta. Hann er nú á snuddi sínu hér utandyra. Vinur hans Pési mathákur sefur við baðvaskinn. Rak hann upp úr vaskinum svo ég fengi laugað hendur mínar. Þegar ég kem bæjarstjórninni aftur úr huga mér verður þetta góður dagur. Bestu kveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 27, 2006

 

Biðstaða.

Bömmer. Nýi vélhesturinn fer ekki í gang. Eftir ítrekaðar tilraunir til gangsetningar í gærmorgun varð undirritaður að grípa til bifreiðar. Og búðarlokunum í Bílanausti mistókst þetta einnig. Hjólið verður sótt á eftir og mér er það að sjálfsögðu mikilvægt að þetta komist í lag í dag. Strax í dag eins og segir í þekktum texta. Útlit fyrir ljúft veður um helgina og svo er hinn lögbundni frídagur á mánudaginn. Heimsótti systur mína og mág í gærkvöldi. Saltkjöt og baunir með öllu tilheyrandi. Gulrófur, kartöflur og síðast en ekki síst, soðkökur. Afmælisdagur systursonar míns sem hefði orðið 36 ára í gær. Aðeins 6 dagar á milli þeirra frænda, Magnúsar og hans. Ég hef sagt það áður að mágur minn er aðdáunarverður maður. Berst nú við erfið veikindi af einstöku þolgæði. Vonandi hefur hann betur. Lék á alls oddi í gærkvöldi og þetta var bara sérlega indælt kvöld. Ingibjörgu systur minni leist mjög vel á nýju fjárfestinguna. En sú eldri, Nína, spurði hvort ég ætlaði að drepa mig á þessu. Það er einmitt það sem ég hef minnstan áhuga á. Ætla að fara varlega og gæta vel að lífi mínu. Og limum. Ég á þennan fína bakpoka sem gott er að hafa meðferðis þegar haldið verður í leiðangra á hjólinu. Það er líka ágætt geymsluhólf undir sætinu. Mér verða allir vegir færir á þessum ágæta farkosti. Raikonen að viðra rófu sína í vorblíðunni. Dumbungur en sæmilega hlýtt. Sem sagt, ekkert til að kvarta yfir. Nema náttúrlega íhaldið, framsókn og samfylking. Njótið dagsins, ykkar Hösmagi.

Wednesday, April 26, 2006

 

Þunnt er móðureyrað...

segir í gömlu máltæki. Þegar Hösmagi kom heim úr vinnu s.l. þriðjudag var hann óvenjudasaður.Sofnaði snemma. Um hálftólf rumskaði hann við hljóð sem hann hafði heyrt áður. Snéri sér á hina hliðina og hugðist sofna aftur. En hljóðið heyrðist á ný, ámátlegra en fyrr. Og það stemmdi allt. Kisi var ekki innandyra. Hafði laumað sér út um svefnherbergisgluggann og fetað sig eftir örmjörri syllunni út á svalirnar. Honum var hleypt inn og hann tók strikið að kassa sínum á baðherberginu og mé þar. Þetta er sem sé vel upp alinn köttur og auðvitað flökraði ekki að honum að míga á svalagólfið. Fékk sér svo að éta og kom sér þægilega fyrir við hlið fóstra síns.Móðirin vaknar við kvak barns síns af því móðureyrað er þunnt. Sama gildir um kattarfóstra.
Hjólið góða komst ekki í hús hjá nýjum eiganda á þriðjudaginn eins og til stóð. Það þurfti að hlaða rafgeyminn. Í gær var leiðindaveður fram eftir degi. Svo glaðnaði til. Hösmagi sótti nýja vélfákinn í búðina. Setti hjálminn á höfuð sér, settist á bak og brunaði af stað. Gekk bara annkoti vel. Að vinnu lokinni var svo haldið heim í Ástjörn. Aðeins búið að rútta til í bílskúrnum og búa til hæfilegat pláss fyrir hestinn í öðru horninu innanvið dyrnar. Þar unir hann sér nú við hlið stórabróður. Bandaríska eðalvagnsins Jeep Grand Cherokee. Eins og veðrið er núna er allt útlit fyrir að þetta nýja hross verði viðrað á ný er Hösmagi heldur til starfa rétt fyrir klukkan 9. Hitinn nær kannski tveggja stafa tölu um helgina og þá verður hugað að frekari reynsluakstri. En það er vissara að gæta að sér. Hér þarf að tileinka sér nýja takta. Hestur þessi er reyndar sjálfskiptur eins og jeppinn góði. En lappir knapans eru bara kyrrar. Þú gefur í með hægri hendinni og bremsar með báðum höndum. Eftir að hafa ekið bifreiðum í 45 ár þarf að temja sér nýja siði. Þetta venst örugglega fljótt. Ég lærði strax nokkuð af þessum 4 km sem ég ók þessu vélhrossi í gær. Mér þykir ákaflega vænt um kommentin sem ég hef fengið í tilefni af þessu framtaki. Og þegar upp verður staðið er ég viss um að spara upp andvirði þessa fararskjóta á ótrúlega skömmum tíma. Svo læt ég taka af mér mynd í dag. Þar sem ég sit á Ventunni. Með hjálminn góða og albúinn til stórræða. Sendi svo myndina til vina og vandamanna sem hafa netfang. Þá geta þeir séð þessa dýrðartvennu. Hjólið er reyndar ljósblátt á litinn. Fyrir mér er það einfaldlega litur himinsins. Minnir á fegurð hans. Nóg að sinni, ykkar einlægur og hæstánægður Hösmagi.

Monday, April 24, 2006

 

Eftirvænting.

Vespan kemur í dag. Aðeins stærri en sú rauða sem var uppseld. Hlakka til að sækja þennan verðandi þjón minn þegar vinnu lýkur í dag. Átti í smástríði við búðarlokurnar. Hjólið kostaði 220.000 á föstudaginn en þá átti það að koma úr höfuðstaðnum. Um helgina hækkaði hjólið á lagernum um 33.000 kr. Það fauk bara í mig og ég skammaðist. Sagði þá jafnvel enn verri en olíumafíuna. Kannski ekki sanngjarnt að skammast útí strákagreyin í búðinni. Líklega verðið ordrur ofanfrá. Korteri yfir 9 hringdi stráksi og sagði að ég fengi hjólið á upphaflegu verði. Skráningin innifalin. Gott þegar menn sjá að sér. Ég þóttist eiginlega hafa keypt hjólið á föstudaginn. Þegar rauðu vespurnar koma aftur í júní er líklegt að þær muni kosta 240-250 þúsund miðað við þróun á gengi dollarans. Og jeppinn minn væri líklega kominn í 6 milljónir ef ég væri að kaupa hann núna. Hér hefur snjóað heilmikið í nótt. Vona að snjórinn hverfi í dag. Ég vil auða braut þegar ég sest á bak nýja fáknum í fyrsta sinn. Það verður unaðslegt að líða eftir götunum á þessu sparneytna og lítt mengandi farartæki. Það á að hlýna næstu daga svo það verður stutt í góða reynsluferð. Líklega er hjólið svart. Það er nú töff litur líka. Ég vona að Helga mín verði ekki fyrir vonbrigðum. Rekstrarkostnaður verður í lágmarki. Nokkur fjárhæð í tryggingar. Varla mikill þungaskattur því hjólið er bara rúmlega 80 kg. Svo væri sniðugt að setja kerru aftan í jeppann og taka hjólið með inní Veiðivötn. Hugsa að það veiti varla af kerru því ég á von á góðum afla. Þetta skýrist allt síðar. Var í afmæli Magnúsar á föstudagskvöld. Og Borghildur dró ekki af sér við kræsingarnar fremur en fyrridaginn. Gestir voru foreldrar afmælisbarnis, Pétur og Gústi vinir þess, Svavar, Begga og Ingunn Anna. Ánægjulegt kvöld. Bjór, rauðvín og koníak með kræsingunum. Verður ekki mikið betra. Og svo kemur annar pistill innan tíðar. Þar verður fjallað enn betur um nýju Ventuna. Hlé að sinni, ykkar Hösmagi, hugfanginn af nýja leikfanginu sem kemur í hús síðdegis.

Sunday, April 23, 2006

 

Bókvitið.

Dagur bókarinnar í dag. Fæðingardagur Halldórs Laxness. Líklega er nú varla til meira öfugmæli en að bókvitið verði ekki í askana látið. En það hefur nú verið eitthvað hæft í því í dentíð. Margt þróast á réttan veg þó grimmd manneskjunnar hafi ekki minnkað. Þetta grimmasta kvikindi jarðarinnar mun verða það áfram.
Ég fór á opnunarhátíð kosningaskrifstofu Vinstri grænna í gær. Skrifstofan er í gömlu musteri íhaldsins við Tryggvagötu. Foringinn sjálfur, Steingrímur Sigfússon, var á staðnum. Hélt tölu yfir þessum 30 sauðum sem þarna voru. Mæltist að sjálfsögðu vel eins og jafnan áður. Hann hefur fengið góðan bata eftir bílveltuna í vetur. Greinilega ætlað lengra líf sem betur fer. Það er erfitt að spá um úrslit kosninganna hér. Allt getur svo sem gerst. Vona þó að Vinstri grænir fái gott gengi og verði í stöðu til að hafa áhrif á myndun góðrar bæjarstjórnar. Það versta er þó að erfitt verður að laga til eftir núverandi bæjarstjórn. Nýjasta snilldarverk þessara óhæfu manna er að afhenda Miðjunni byggingarrétt á öllu landi í miðbænum. Þar með er ljóst að turnarnir eru alls ekki úr sögunni eins og haldið hefur verið fram. Miðjan er hópur manna sem hafa þá hugsjón eina að græða peninga. Eina von okkar Árbyrginga er að vinstri grænir komi sterkir út úr kosningunum. Þá er von á andspyrnu við frekari óhæfu- og skemmdarverk í umhverfismálum hér á staðnum. Og þá er líka meiri von í jöfnuði í mannlífinu. Yfirboð íhaldsins eru augljós. Allt fyrir ekkert. Á lista íhaldsins eru samt nokkrir ágætir menn. Helsti ljóðurinn á listanum er foringinn, Eyþór Arnalds. Hann naut þess í prófkjörinu að gömlu gaurarnir sem öttu kappi við hann eru löngu útbrunnir. Útslitin húsgögn sem eiga heima á ruslahaugunum. Sumir komnir þangað nú þegar. Vonandi una þeir hag sínum þar. Best væri að Eyþór færi sömu leið og héldi þeim félagsskap. Með cellóið með sér. Við þurfum enga leiðsögn frá mönnum á borð við Eyþór Arnalds. Það sannar ferill hans undanfarin ár. Ferill sem hann ætti að segja okkur frá sjálfur. En það er líklega borin von að þessi sjálfumglaði postuli lýðræðis og einkaframtaks geri það.
Slyddurigning úti. Held að vorið komi alkomið um mánaðamótin. Þá verður lífið enn ljúfara en nú. Bjartar nætur, angan af gróðri og kvak fugla. Og sá silfraði byrjaður að skipuleggja brottför úr sjó. Sannarlega tími mikilla væntinga. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, April 19, 2006

 

Vespa.

Gleðilegt sumar gott fólk. Nýr vinnufélagi minn á fasteignasölunni sagði mér í gær frá farartæki sem fengist keypt hér á staðnum. Þetta er lítið bifhjól sem lengi hefur gengið undir nafninu vespa. Ósköp öfundaði ég oft mennina sem ég sá í gamla daga á svona hjólum. Þetta hjól er framleitt í bandaríkjunum en ég man ekki nafnið. Um leið og vinnu lauk fór ég beint í búðina að skoða þennan grip. Og ég varð strax heillaður af honum. Hjólið er eldrautt á litinn. Úr því það var ekki Vinstri grænt var þetta að sjálfsögðu næstbesti liturinn. Vélin er 50 rúmsentrimetrar og þú kemst a.m.k. 50 km á einum bensínlítra. Hjólið nær rúmlega 60 km hraða á klukkustund svo maður yrði nú ekki lengi að renna niður á Eyrarbakka. Hjálmur fylgir og yfirbreiðsla. Og hjólið kostar kr. 195.000 Bílprófið dugar til að mega aka því. Það er með rafstarti og þjófavörn. Afgreiðslumaðurinn í Bílanausti tjáði mér að hjólin væru uppseld í bili en von væri á þeim aftur. Þeir hefðu reiknað með að selja svona 15 hjól í sumar en væru nú þegar búnir að selja 20. Ég svaf á þessu í nótt. Í fyrramálið ætla ég í búðina og panta mér svona vélknúinn reiðhest. Nóg pláss fyrir hann í bílskúrnum. Þetta verður svar mitt við hækkun olíumafíunnar á bensíninu. Það hækkar nú um 3 kr. á nokkurra daga fresti. Það verður dásamlegt að koma akandi á þessum farkosti á bensínstöðina og segja bara: Fylla. Ég gæti ekið allan hringveginn fyrir 3.500 kr. Hvernig líst ykkur á? Ég færi á hjólinu í vinnuna alla góðviðrisdaga. Með þennan fína hjálm á hausnum. Og eins og þið vitið eru fáar brekkur á þjóðvegunum hér á suðurlandi. Nánast bara ein á allri leiðinni austur á Höfn í Hornafirði. Svo myndi ég bara kveikja mér í vindli þegar mér þóknaðist. Ekkert reykbann eins og í nýju bifreiðinni Hösmaga. Svo verður líka djöfull töff að fara á hjólinu út fyrir á að veiða. Æki svo stoltur heim með laxinn dinglandi utan á hjólinu. Auðvitað er andvirði hjólsins nokkrir peningar. En það sparast líka peningar á að nota það. Jeppinn er dásamlegur. Og ég er ákaflega ánægður með að hafa keypt hann. Vélin er 114 sinnum stærri í honum en hjólinu. Hann er u.þ.b. 5 sekúndur uppí hundraðið. Þessvegna finnst mér eiginlega samræmi í því að eignast hjólið. Verðið er gott. Svona eins og einn keppur í sláturtíð. Er þetta ekki bara snjallræði hjá mér? Bið að heilsa ykkur krúttin mín, ykkar Hösmagi, hugsandi um hjólhestinn rauða.

Tuesday, April 18, 2006

 

Úti er vetur...

samkvæmt almanakinu. Orðið albjart en lítið bólar á vori. Hitastig 0,2 gráður. Vindhraði 1,3 m/sek., varmi sólar 21 W/m2, loftþrýsingur 1002,8 hPa, uppgufun 0,05 mm og loftraki 84%. Þetta er allt samkvæmt litlu veðurstöðinni að Reynivöllum 4, sem er nú hérna rétt hjá mér. Eigandi þessarar stöðvar er Páll Bjarnason verkfræðingur. Ég lýsi ánægju minni yfir þessu framtaki hans. Mjög skemmtilegt fyrir þá sem hafa áhuga á þessum hlutum.
Ég var að hlusta á Árna Mathiesen fjármálaráðherra í útvarpinu. Ekki veit ég hvað hann er að vilja í þessu ráðuneyti. Hann mun vera dýralæknir, menntaður í Edinborg. Ég held að blessuð dýrin hefðu frekar átt að njóta starfskrafta hans en við mennirnir. Hann lemur hausnum við steininn eins og reyndar allir hinir ráðherrarnir. Þeir tala um verðbólguskot. En þeir vilja alls ekki hlusta á ráð skynsamra manna um neinar aðgerðir. Dóri sagði í gær að fólk ætti bara að halda sig á mottunni og vinna til að geta greitt skuldir sínar. Skuldirnar sem hann er að hækka sjálfur með alkunnum aulahætti. Ég greiddi 68.000 af skuldum mínum vegna íbúðarinnar núna í apríl. Við þessa greiðslu hækkaði skuldin um 130.000 krónur. Minnir mig á söguna af þursinum. Þegar hausinn var höggvinn af spruttu óðara fram 2 í staðinn. Við hreinlega verðum að losa okkur við þessa menn sem fyrst. Senda þá burt af alþingi. Þeir eiga að leita sér að annari vinnu. Og ef þeir fá ekki vinnu geta þeir lifað af þessum 80.000 krónum á mánuði sem þeir skammta hinum atvinnulausu. Sumir þeirra hafa líka sagt að það sé enginn vandi að lifa á þeim launum. Það væri sannarlega áhugavert að lofa þeim að standa við orð sín. Það væri smávottur um þroska þjóðarinnar.

Nú er orðið nokkuð ljóst að ekki kemur fram óháður listi við bæjarstjórnarkosningarnar hér. Kannski rætist spá mín um fall bæjarstjórnarinnar. En þó hún sé afar slæm væri það en verra að fá hreinan meirihluta íhaldsins yfir sig. Og Eyþór Arnalds sem bæjarstjóra. Hann hefur sjálfur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að taka starfið að sér. Það væri mjög fróðlegt ef þessi maður upplýsti nú kjósendur rækilega um stjórnunarafrek sín á undanförnum árum. Honum ætti að vera það í lófa lagið. Hann fer nú mikinn í greinaskrifum í blöðum hér. Talar fjálglega um umbætur og framfarir. Étur aðallega upp hugleiðingar um ýmis baráttumál okkar Selfyssinga sem við höfum talað um lengi. Og vorum byrjuð á löngu áður en þessi stórstjarna vissi hvar Selfoss var á hnettinum. Úr því sem komið er er eina von okkar framfarasinna hér í sveitarfélaginu að kjósa lista Vinstri grænna. Flokkinn sem enga ábyrgð ber á núverandi bæjarstjórn. Verði flokkurinn í oddaaðstöðu að kosningum loknum er von til þess að hægt verði að gera góða hluti. Og þá er hægt að koma í veg fyrir að bæjarstjórinn verði sjálfgefinn.

Mínar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Úti er vetur...


Sunday, April 16, 2006

 

Brandarakarl.

Biskupinn yfir Íslandi messaði yfir lýðnum í gær. Mér hefur reyndar aldrei litist sérlega vel á þetta atvinnugóðmenni. Það er ekki einu sinni hægt að hlægja að honum. Nýjasta kenning hans er sú að páskahátíðin sé bara brandari guðs. Og dæmisögur Jesú eru skrýtlur. Miskunnsami samverjinn hefur líklega einungis verið að gera að gamni sínu þegar hann framdi líknarverkið á náunga sínum. Held helst að þessi herra ætti að finna sér eitthvað annað að gera. Kannski hefur einhverjum þótt þetta fyndið. Það er líka til fólk sem hlær alltaf á vitlausum stöðum eins og skáldið sagði.
Við Raikonen erum báðir í sérlega góðum gír í morgunsárið. Nema hérahjartað í litla dýrinu tók stóran kipp þegar ég kveikti á nýju ryksugunni. Fjárfesti í þessu fína apparati á laugardaginn var. Og verðið. Litlar 3.900 kr. Ef ég man rétt fæ ég ekki einu sinni vodkaflösku fyrir þessa aura. Lítil og nett ryksuga og hún dregur snúruna inn sjálf. Algjör kjarakaup. Ef einhvern vantar svona áhald væri ég fús til að kaupa það fyrir hann.
Sólin er nú löngu komin upp og skín glatt. Hiti ein 2-3 stig og storminn hefur lægt. Ekki aldeilis afleitt að vakna snemma á slíkum morgni. Eftir stórátak í pappírsvinnu undanfarna daga hyggst ég leggjast í þrif hér. Brynjaður nýju ryksugunni, moppunni, hálfsjálvirka róbótanum frá síðustu jólum, ajax mintsápulegi og ýmsu öðru. Ég hreinlega hlakka til að hefjast handa. Orkan verður að fá útrás. Drullan og skíturinn eiga sannarlega ekki von á góðu núna. Og komandi vinnuvika er stutt. Fæ mér líklega frí á föstudaginn svo þá verða þetta bara 2 vinnudagar.Virkilega ljúft. Jæja góðir hálsar, rykið farið að bíða svo ég kveð að sinni, ykkar Hösmagi, heitur að morgni dags.

 

Páskar.

Það er voðalegt að segja frá því að mér hefur varla komið Kristur í hug þessa heilögu daga. Verið ötull í aukastörfum hér heimafyrir. Menn verða að gera hreint fyrir sínum dyrum og svo verða þeir líka að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Og það er margt skrítið í kýrhöfðinu. Nú hækkar bensínið í dælunum hjá olíumafíunni. Gamlar birgðir á nýju verði. FÍB hefur lagt til að ríkið slaki tímabundið á skattheimtunni sem er mikil af þessum dýra vökva. Svar ríkisstjórnarinnar er skýrt. Við greiðum ekki niður olíukreppuna. Þetta myndi þó hægja á verðbólgunni sem nú virðist kominn í fluggírinn. En auðvitað er ríkisstjórninni nákvæmlega sama. Hún er nú á sínu banabeði hvort eð er. Ég hef nefnt það hér áður að þegar bensínið hækkar hækka öll lán landsmanna hvort sem þeir nota bensín eða ekki. Sama lögmál gildir líka um brennivínið. Ég sá Dóra litla í gær. Hélt ég hefði heyrt í Pálma Gestssyni fyrir utan Nóatún, leit við og sá þá að þetta var bara Dóri. Líklega að tala við eitthvert barnabarn sitt. Vonandi hefur hann það fínt um páskana. Sumir eru að halda því fram nú um stundir að hann vilji kosningar strax í haust. Þá yrði sumarið notað til að fá galdramenn til að búa til nýja mynd af flokknum. Ef það yrði dregið fram á næsta ár yrði nefnilega ekkert eftir af þessum flokki. Það er meira að segja talið vonlaust að þeir fái mann kjörinn í borgarstjórnina. Og þó er Alfreð hættur. Ég syrgi nú ekkert sérstaklega þó flokkurinn fái sömu örlög og geirfuglinn.
Ég hélt til stangveiða í gær. Heldur kalsamt og snjór við Tangavatn. Tókst einungis að veiða einn urriða. Líklega um 1 kg á þyngd. En þetta var svo sem ágætt. Prófaði hraðastillinn á jeppanum í fyrsta sinn. Nokkuð þægilegt. Ef maður hefði lika sjálfstýringu gæti maður lagt sig þennan spotta.
Og kisi minn góður var alsæll með afganginn af rækjunum. Svo verður urriðaveisla í kvöld. Gott að eiga frídag á morgun líka. Sumardagurinn fyrsti á fimmtudag. Bíð sannarlega eftir vorinu sem enn fer með hraða snigilsins. Enn kominn norðanátt og líklega best að fleygja sér aðeins undir sængina. Gleðilega páska, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 09, 2006

 

Slagveður.

Langþráð og unaðslegt slagveður er skollið á. Það var virkilega notalegt að viðra sig í morgun.Hitinn 8 gráður og gott að láta regnið bylja á andlitinu. Svo styttir upp og páskaveðrið verður gott. Það er semsagt grár mánudagur, svolítið blautur en ágætur samt. Meira að segja yfirkisi dansaði af ánægju í rigninunni. Er þó sagt að þessari dýrategund sé nú ekki beinlínis vel við vatn. En feldurinn er fallegri á eftir og sálarlífið miklu betra. Það verður bara ánægjulegt að halda til vinnu á eftir. Aðeins 3 vinnudagar í vikunni og þá taka brauð og leikir við. Ætla ekkert að ergja mig á bæjarpólitíkinni þessa góðu daga sem framundan eru. Ekki orð um samfylkinguna. Allavega ekki nema sérstakt tilefni gefist. Og ekki bölvað íhaldið heldur. Helgin búin að vera ágæt. Lauk við framtal skáldsins og heitkonunnar. Verðandi tengdadóttur ætla ég rétt að vona. Ég er sennilega ákaflega heppinn maður varðandi tengdadætur. Þær eru nú ekki margar sem fara í fötin hennar Boggu minnar. Og mér líkar sérlega vel við Helgu. Passar skáldið fyrir mig. Og mér er nú ekkert voðalega illa við hann Svavar. Yfirtengdasonurinn er bara ágætisnáungi. Ég skrapp aðeins niður á strönd á laugardaginn. Gott að hnusa aðeins af sjónum. Nánast ládeyða og skyggnið sérlega gott. Það er orðið erfitt að spá í veðurfarið hér í seinni tíð. Hef þó á tilfinningunni að þetta verði gott sumar. Og margar hreistraðar verur verið fiskaðar upp úr djúpunum. Í byggð og óbyggðum. Öll veiðileyfi komin á þurrt og nú er bara að bíða eftir ræsingunni. Sannarlega tilhlökkunarefni eins og jafnan áður. Ykkar Hösmagi, með höfugan ilm vorsins í nösunum.

Saturday, April 08, 2006

 

Hugmyndafátækt.

Ingibjörg Sólrún hefur talað. Og hallelújakórinn hefur klappað. Solla litla talaði um hugmyndafræðilegt gjaldþrot annara flokka. Held ég hafi sjáldan heyrt annað eins öfugmæli. Ef við tölum um hugmyndir og hugsjónir er bara einn flokkur algjörlega gjaldþrota og það er samfylkingin sjálf. Sjálfsæðisflokkurinn er alltaf trúr sínum hugsjónum. Að hanga í afturendanum á Bandaríkjamönnum og lofa þeim sterku að troða á þeim smáu. Og Framsókn er enn trú hentistefnunnu. Að vera opinn í báða enda eins og Eysteinn sagði. Haga seglum eftir vindi og hafa áhrif og völd langt umfram það sem fylgið er. Ingibjörg stærir sig af afrekum samfylkingarinnar í sveitarstjórnum. Nefnir til mörg sveitarfélög þar sem allt blómstri undir stjórn hennar. M.a. sveitarfélagið Árborg. Alveg sama öfugmælavísan. Ekkert er mínu ágæta sveitarfélagi nauðsynlegra en losna við þetta hugsjónasnauða lið úr valdastólunum. Og á meðan ekki kemur fram óháður framboðslisti treysti ég á Vinstri græna. Verði þeir í oddaaðstöðu eftir kosningar er kannski einhver von til þess að hemill verði hafður á skemmdarverkamönnum. Ég hef áður rakið skemmdarverkin sem hér hafa verið unnin í umhverfismálum. Að sjálfsögðu eru þau ekki öll samfylkingunni að kenna. En vonandi man fólk eftir afstöðu Ingibjargar Sólrúnar, þessa kulnaða eldfjalls, til ábyrgðarskuldbindinga vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hún vildi ekki "setja fótinn fyrir þetta mál" Sá sem ekki stendur með mér er á móti mér sagði frelsarinn forðum. Eini flokkurinn sem hefur staðið heill og óskiptur á móti þessum mestu náttúrusjöllum Íslandssögunnar eru Vinstri grænir. Þessari framkvæmd sem á eftir að reynast okkur dýrari en nokkuð annað sem við höfum tekið okkur fyrir hendur. Framkvæmd sem komandi kynslóðir munu þurfa að þræla fyrir. Og litla Moskva, rauði bærinn á austurlandi, er nú orðinn fölbleikur. Þeir eru aumkunarverðir gömlu kommarnir fyrir austan enda flestir í samfylkingunni. Nema Hjörleifur að sjálfsögðu. Sem betur fer eru enn til menn á Íslandi sem ekki láta villa sér sýn. En allt of margir tilbúnir að láta sálu sína fyrir baunadisk.
Býst nú ekki við að Sigga sænska lítist vel á þennan lestur. Ég meina þó allt sem ég segi hér. Aldrei þessu vant kannski. Hálfkveðnu vísurnar eru nú alltaf skemmtilegar.
Rauðbröndótta skottið mitt að koma inn úr logninu. Aldeilis breyting eftir allan beljandann. Yndislegt. Megi pálmasunnudagur færa ykkur gleði. Og allir hinir dagarnir einnig, ykkar Hösmagi, hamingjusamur þrátt fyrir íhaldsframsóknarsamfylkingu.

 

Turnspírur.

Nú er bæjarstjórnin komin á flótta. Hefur lýst því yfir að turnarnir 16 hæða verði ekki byggðir við brúarsporðinn. Vonast sennilega eftir nokkrum atkvæðum í staðinn. Hún hefur, eins og það er orðað, leyst til sín eignir Miðjunnar í miðbænum. Eða þorpinu öllu heldur. En hér er auðvitað ekki allt sem sýnist. Mættum við bæjarbúar eða þorparar fá að vita hvað þetta kostar? Dettur einhverjum í hug að eðalkratinn og félagar hans hafi ekki fengið nokkuð ríflega fyrir snúð sinn? Og gæti verið að samfylkingin fengi smáaur í kosningasjóðinn? Þessari bæjarstjórn er til alls trúandi og við verðum að losna við hana í kosningunum sem framundan eru. Framboðin eru orðin 4 en framboðsfrestur er ekki útrunninn. Ég er viss um að óháður listi með gott fólk innanborðs fengi mörg atkvæði í kosningunum. Kannski er hann í burðarliðnum.Við skulum sjá hvað setur.
Sólin skín nú glatt hér. Og Raikonen sefur í rúmi sínu, þ.e. baðvaskinum. Hvílir lúin bein eftir erfiði morgunsins. Fyrsta framtal Hösmaga ehf. flaug á öldum ljósvakans áleiðis til skattyfirvalda. Og alla leið reyndar því þau hafa staðfest móttökuna. Undirritaður lét setja sumardekkinn undir einkabifreið sína og skáldsins í morgun. Hún hefur líka fengið skoðunarmiðann 07. Ágætt. Veðurhorfur eru ekki mjög góðar fyrir norðurland í næstu viku. Því óvíst um landkönnum Hösmaga þangað. Spáð hita vel yfir frostmarki hér sunnanlands svo ekki er ólíklegt að föstudagurinn langi verði nýttur á sama hátt og stundum áður. Svo er nú líka óhemjuljúft að liggja svolítið í leti þessa frídaga. Sumir kvíða fyrir öllum hátíðum vegna áþjánarinnar sem felst í öllum skylduheimsóknum, átveislum og endalausum þvælingi. Vonum samt að sem flestir njóti páskanna. Undirritaður hyggur gott til glóðarinnar. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 04, 2006

 

Haminguhross.

Nú er ég andleysið uppmálað. Það þýðir ekkert að blogga bara fyrir bloggið. Kannist kannski við þetta? Apríl hefur haldið innreið sína með blöndu af árstíðunum fjórum. Hiti um frostmark og örlítill vindblær strauk vanga Hösmaga á morgungöngunni. Og feld Raikonens við rannsóknir á veiðilendunum hér sunnan við blokkina. Liggur nú í gluggakistunni. Á öðru ári æfi sinnar. Helga kallar hann enn kettling. Líklega sannmæli. Mikið fyrir leiki. Og þegar mikið hefur gengið á er gott að leggja sig. Lífið gengur sinn vanagang hér. Þessi endalausa bylgjuhreyfing tilverunnar. Sama hvert sviðið er. Hæðir og lægðir, öldudalir og toppar. Og það verður þannig áfram. Rólegt yfir bæjarpólitíkinni enn þó stutt sé í kosningarnar. Verður kannski bara stutt og snörp lota. Það gilda önnur lögmál í bæjarpólitík en í landsmálapólitíkinni. Oddviti vinstri grænna hefur sagt að íhaldið sé höfuðandstæðingur sinn í pólitíkinni. Mér líst þó betur á a.m.k. 3 af 4 eftstu mönnum íhaldsins hér en þessa langþreyttu fulltrúa samfylkingar og framsóknar. Þeim veitti sannarlega ekki af hvíld næsta kjörtímabilið. Ef vinstri grænir ætla fyrirfram að útiloka samstarf við sjálfstæðismenn að kosningum loknum fá þeir ekki mitt atkvæði. Það gilda einfaldlega allt önnur lögmál þar en á landsvísu. Og ekki er nú neinum allsvarnað. En þau eru ekki sérlega stór í sniðum afrekin núverandi meirihluta. Ef vinstri grænir fá mann kjörinn, sem ætti að vera auðvelt ef rétt er haldið á spilunum, og íhaldið fær 4 menn þá ættu þeir grænu að setjast niður með höfuðandstæðingnum og kanna stöðuna vel. Með því að útiloka slíkt fyrirfram eru þeir að mála sig út í horn. Það eina sem má heita tryggt í þessum kosningum er að nýja bæjarstjórnin getur ekki orðið verri en sú er nú ræður ríkjum. Ef farið yrði í samstarf með sjálfstæðismönnum er mikilvægt að gera góðan og skotheldan málefnasamning. Og ef íhaldið fer út af sporinu þá er bara að þrýsta á hnallinn. Og að sjálfsögðu má alls ekki gera oddvita íhaldsins að bæjarstjóra. Það er lágmarkskrafa að menn geti stjórnað sjálfum sér áður en þeim er falið að stýra heilu bæjarfélagi. Nóg um kosningar að sinni.
Páskar nálgast óðfluga. Ljúft frí frá amstri annara daga. Reyni að magna seið fyrir góðu veðri. Þá ganga allar dásemdirnar upp. Herconinn klár og hugurinn stefnir til að láta hann sveigjast. Og líklega fer Hösmagi norður í land. Löngu kominn tími á að rifja upp gömul og góð kynni af norðurslóðum. Akureyri og Svarfaðardalur. Kona og hestar. Hamingjuhross. Upp úr næstu helgi ætti páskaspáin að liggja fyrir. Þá tekur Hösmagi ákvörðun um framhaldið. Fiðringurinn er bara þægilegur. Ekki þessi grái. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi, hamingjuhrossið mikla.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online