Saturday, March 22, 2008

 

Stórflóð....

af pappír hér á borðinu.Ég er að reyna að koma skipulagi á þetta kaos af útprentunum, umslögum og öðru í formi pappírs. Gengur fremur hægt því aðstoðarmaðurinn er bókstaflega dýrvitlaus yfir þessu.Þetta er Dýri. Getur stundum ekki látið pappír í friði. Hvorki venjuleg gluggaumslög né dýrar bækur. Eins gott að hann komist ekki að í Árnasafni. Og það er stundum erfitt til ráða þegar vináttan er einlæg.Þó ég hafi kannski týnt ástinni, þessari dásamlegu tilfinningu mannsins, þá á ég enn ástina á kettinum mínum. Það er bara þónokkuð, ykkar Hösmagi.

Friday, March 21, 2008

 

Hinn langi föstudagur.

Sá sem ekkert á getur gefið mikið. Hinn sem á allt getur ekki gefið neitt.
Við lifum, ykkar Hösmagi.

Wednesday, March 19, 2008

 

Það er.....

miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.Andvari með vætu og 6 stiga hita. Þó talsverður snjór sé hér enn gengur þó á hann smátt og smátt.En varla geri ég ráð fyrir páskaveiði þetta árið. Það eru rólegheit hér í vinnunni í dag og ég er hér einn eins og er. Kærkomið 5 daga frí framundan en ekki mjög bjart yfir efnahagsmálunum. Það eiga eftir að dynja á okkur verðhækkanir á næstunni og eru reyndar þegar byrjaðar. Best að reyna að gleyma því yfir páskana og hugsa um skemmtilegri hluti. En auðvitað hefur þetta ástand mikil áhrif á þá starfsgrein sem ég vinn við og það er visst áhyggjuefni útaf fyrir sig. En það hefur stunduð reynst best að fresta áhyggjum og vona að úr rætist. Það þekki ég vel á eigin skinni um langa hríð.
Þar sem ég er nú svona á landhelgislínunni við bloggiðju dagsins og svo á leið í mat læt ég staðar numið. Við Kimi sendum kveðjur og óskir um góða páskahátið, ykkar Hösmagi.

Monday, March 17, 2008

 

Lítið batnar það.

Það má segja að þetta sé svartur mánudagur. Evran er komin í 118 krónur og dollarinn í tæpar 75. 5,92% gengisfall og erfitt að meta framhaldið. Það verður fróðlegt að heyra í þeim sem nú stjórna landinu. Yfirleitt eru það nú lofræður um hvað þeir eru flínkir í stjórn efnahags og peningamála. Það er svona á mörkunum að maður nenni að blogga um þetta. Þó talað sé um gott samkomulag stjórnarflokkanna sjá allir grundvallarágreininginn í peningamálum.Bankarnir hafa stigið bremsurnar í botn í skyndingu. Og líklega stutt í timburmenn neyslufyllerísins sem þeir hafa kynnt hvað mest undir síðustu misserin. Og bjargræðið er að koma íbúðalánsjóði fyrir kattarnef.Ríkisstjórnin hefur mikinn þingmeirihluta. En það er bara ekki nóg ef aldrei er gripið til neinna raunhæfra aðgerða.
Nú er páskavika og spá mín um vorið á föstudaginn gengur ekki upp. Ætli maður hreiði bara ekki um sig undir sæng í páskafríinu. Ég fer allavega ekki til veiða ef búast má við að frjósi í lykkjunum. Bestu kveður frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Friday, March 14, 2008

 

Skjalagerð.

Nafni minn Ólafsson sagði sig úr þjóðkirkjunni. Ég gerði það líka. Með skjalagerð. Ef hann vill segja sig úr Íslandi með skjali þá skrifar hann bara vinkonu sinni og átrúnaðapáfa, Ingibjörgu Sólrúnu. Hún reddar nú öðru eins. En það þarf að sjálfsögðu aðgæslu við alla hluti. Það er nefnilega heilmikið af fólki á Íslandi sem virðist alls ekki getað staðið við orð sín. Loforð eru léttvæg. Ég varaði sérstaklega og margsinnis við slagorði Ingibjargar og félaga fyrir síðustu kosningar. Fagra Ísland. Sum skip fara reyndar aldrei á sjó. Sökkva við bryggjuna um leið og þau eru sjósett. Innviðirnir ónýtir frá byrjun og tilgangurinn aðeins að blekkja fólk. Framkvæmdir við nýtt álver eru hafnar. Vítamínsprauta Geirs og Ingibjargar sem ekki vildi setja fótinn fyrir Kárahnúkavirkjun. Ég skammaðist nú oft útí síðustu ríkisstjórn. En þessi er sínu verri. Næsta álver kemur á Bakka. Þorlákshöfn er líka hérna rétt hjá mér. Það á að virkja Þjórsá. Það á líka að klára allan jarðhita á Reykjanesi og á Hengilsvæðinu. Það er kannski ekkert skrítið að sumir ungir menn vilji segja sig úr Íslandi. Þeir sömu og studdu hvað harðast þann flokk sem svikið hefur allt sem hægt er að svíkja. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, March 13, 2008

 

Doði.

Hálfgerður doði hér í dag. Síminn hringir varla og þá verður tíminn lengi að líða. Eina bótin er sú að nú er skattavertíðin byrjuð svo ég er nú ekki verklaus heimafyrir. Veður hefur verið þokkalegt í dag og hitinn svona 3-5 gráður. Hleypti Raikonen út í hádeginu svo það má búast við tómum dalli þegar heim kemur.Sá óboðni virðist hafa óbilandi áráttu að laumast inn þegar færi gefst og er alveg hroðalegur gámur.
Ég hef nú ekki enn lagt í almennileg þrif á grænu þrumunni.Tjaran og saltið hefur öll völd þessa daga. Vonandi fer að hlýna almennilega á næstunni svo þorni til og einhver árangur verði af þrifum. Annars væri líka athugandi að nota fæturnar meira því bensínið hækkaði enn í verði í dag. Ég á líka prýðisgóðan hjólhest sem lengi hefur staðið ónotaður í bílskúrnum. Þetta er nú svona hálfgildings gúrkublogg enda engar stórfréttir af undirrituðum. Skrifa meira síðar þegar andinn blæs mér í brjóst.Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, March 03, 2008

 

Blikur á lofti.

Það er eldfimt ástandið í S Ameríku þessa dagana. Eftir árás eiturlyfjalýðveldisins inní Ekvador eru forsetar þess og Venesúela ekki kátir. Vonandi verða einhverjir til að stilla til friðar.Nóg er nú samt. Morðæði Bandaríkjamanna í Írak heldur áfram. Ísraelsmenn strádrepa óbreytta borgara á Gasa.Bestu vinaþjóðir Geirs forsætisráðherra. Enginn veit hvað á eftir að gerast á Balkanskaga eftir að Kosóvo lýsti yfir sjálfstæði. Serbar munu aldrei sætta sig við það og það er með ólíkindum að margar vestrænar þjóðir skuli viðurkenna þessa sjálfstæðisyfirlýsingu. Það verða dýrkeypt mistök. Bennisteinsfnykurinn sem Hugo Chaves talaði um í fyrra svífur enn yfir vötnunum, enda djöfullinn ekki langt undan, brosandi út að eyrum.
Við Dýri erum snemma á fótum á þessum þriðjudagsmorgni. Hann tolldi ekki lengi úti í fjúki og 5 stiga frosti. Líklega væri notalegra að dvelja í 18 gráðu hita í Barselóna. En ég ætla að teysta á eigin spá um að vorið komi í alvöru á föstudaginn langa. Þangað til eru 17 dagar sem verða fljótir að líða því nóg er að gera. Og Herconinn er klár. Þrátt fyrir endalaus snjófjöll hér sé ég spegilsléttan vatnsflöt. Ekki snjókorn á jörðu, hitastigið komið í 2ja stafa tölu og ég finn andvarann leika um vanga. Skyndilega er rifið hressilega í línuna og dásemdirnar halda áfram. Þetta er það sem heldur manni á þessu skeri hér norður í Ballarhafi. Það er enn eitt afmæli Hösmaga framundan. Það munar lítið um einn kepp í sláturtíð. Ég fer í sneiðmyndatöku á morgun og hitti Eirík Jónsson. Lækninn, sem skar mig upp í september. Hann er örugglega búinn að lesa sonnettur Keats.Ég kvíði engu. Nema því að fá ekki morgunkaffi í fyrramáið. Stoppa bara í Litlu Kaffistofunni í heimleiðinni. Fæ mér svo nýjasta nýtt hér í Ástjörn. Rautt ginseng frá Kóreu. Örugglega góður metall. Allavega ætla ég ekki til Jónínu í stólpípu. Það síðasta sem ég frétti af þeim lausnara var að hún var á leið vestur á firði til að afeitra Vestfirðinga. Það er allra meina bót að láta dæla vatni inní afturendann. Eða hvað?Það er merkilegt hvað endalaust er hægt að gera sér fávita að féþúfu.

Nú er Kimi lagstur hér á borðið og mál að linni. Kaupsamningur klukkan 10 og það er alltaf ánægjuefni. Við rauðliðar sendum ykkur bestu kveðjur. Þó bylurinn leiki sér úti er að verða sauðljóst. Ykkar Hösmagi.

Saturday, March 01, 2008

 

Svefn.

Það er gott að sofa. Einkum um helgar þegar hægt er skjóta þrældómnum til hliðar.Það var letilíf á okkur Kimi í gær. Sváfum og lékum okkur á víxl. Ég fór að hugsa hvað yrði um allar bréfkúlurnar sem ég hef hnoðað handa dýrinu til að eltast við. Tók fram tommustokk og krakaði undir ísskápinn. Það varð uppistand.Tugir kúlna í mörgum litum og hamflettar flískúlur að auki.Það urðu bara veisluhöld hjá Kimi. Flískápa af kúlu er mikið dýrmæti. Þar að auki var nammidagur.Rækjurnar eru alltaf jafn góðar. Svo sváfum við milli 5 og 9 og frá miðnætti til morguns og erum því yfirhressir nú.Veðrið á sömu nótum en þó engin ofankoma.Nú fer þetta að koma og vorið mun þrykkja sér inní tilveruna eftir tæpar 3 vikur. Það var opnað fyrir netframtalið í gær. Langt kominn með eigið framtal. Ekki flókið nú orðið eftir að ég gerðist launamaður hjá Hösmaga ehf.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur traust 9% kjósenda. En það gerir ekkert til. Hann ætlar að endurvinna traustið. Borgarstjórinn heilsandi handboltaliðunum í sjónvarpinu í gær. Með bros á vör. En alveg ómeðvitaður um stöðuna. Mér detta í hug Dostojevskí og Kafka. Ef fram fer sem horfir verður afhroð hans og íhaldsins mikið. Það er þó ljós í svartnættinu. Meðan borgarfulltrúarnir geta ekki komið sér saman um eitt eða neitt og vega hver annan í bróðerni rekur allt á reiðanum.Eftir 6 vikur stendur það eitt að hafa kastað hálfum milljarði út um gluggann. Grátlegt fyrir reykvíkinga.

Eftir ljóðrænu Jóns Kalmans tók Þráinn Bertelsson við. Eiturlyf, lík og afslitnir limir. Kannski kemur skýrsla um þennan glæpakrimma Þráins að lestri loknum. Of fljótt að dæma eftir að hafa lesið þriðjunginn. Ég ætla þó ekki að bókablogga. Læt það færara fólki eftir. Ég ætla að endurreisa bóklesturinn. Hef staðið mig að því að draga verulega úr honum á síðustu árum. Góðar bókmenntir eru mikil lífsgæði. Ég á eftir að njóta Jóns Kalmans og hlakka til að lesa hann meira. Fyrir utan öll hin. Tilveran er sem sagt góð um þessar mundir. Meira að segja sjónvarpið sýndi Bagdad café um daginn. Perlu innanum allt sorpið. Kannski koma grænir tómatar líka.
Nú er kominn tími að kíkja eftir sauðunum. Smágjóla og 2ja stiga frost. Ég og Dýri biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online