Friday, February 29, 2008

 

Bónorðsdagur.

Ég var að lesa það á vef einnar bloggvinkonu minnar á moggablogginu að þessi dagur væri sérlegur bónorðsdagur kvenna. Samkvæmt gamalli hefð frá tólfhundruðogeitthvað. Bara þessi dagur á fjögurra ára fresti. Sennilega vita fáar þetta því enginn hefur leitað á mig það sem af er degi. Þetta líka prýðisgóða mannsefni. Ég er svo sem ekkert að bíða eftir einu eða neinu. Nema vorinu að sjálfsögðu.Bólar ekki á því enn og það varð aftur að moka planið framan við Ástjörn 7 í gær. En samkvæmt kortum er von á roki og rigningu þann 5. Það verður góð afmælisgjöf. Ég verð reyndar í höfuðborginni framan af degi. Kannski hugar maður að almennilegum þrifum grænu þrumunnar eftir þá ferð. Annars væri svarthvíta þruman meira réttnefni nú. Felgurnar svartar af tjöru og annað hvítt af salti. Algert ógeð. Það verður ljúf tilvera þegar þessu leiðindatíðarfari lýkur.

Lambalæri í hádeginu á dag. Þegar ég kom heim svaf Kimi á bakinu í fullri lengd. Fyndin og skemmtileg sjón. Hann vaknaði þó fljótlega til að heilsa sínum besta vini.En ekki heillaði útiveran. Hrökk til baka þegar ég opnaði úridyrahurðina og heldur sig nú innandyra og rækir húsvarðarhlutverkið.

Ég lauk við bók Jóns Kalmans í gær. Hún skilur margt eftir. Mér dettur í hug ungi maðurinn, vinur Bárðar. Tár hans yfir dauða Bárðar sem flutu niður kinnarnar eins og litlir bátar með fullfermi af sorg. Fullfermi af sorg. Hugurinn reikaði 10 ár aftur í tímann. Bara augnablik. Kannski er þetta óður til ljóðrænunnar. Fallegur og úfinn í senn. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 28, 2008

 

Ekki meir, ekki meir......

Ný snjófjöll að verða til hér. Það er nóg komið og ég vona að sá sem setti þennan snjó niður sjái sóma sinn í að fjarlægja hann hið fyrsta. Annars er þetta prýðisveður og orðið albjart um 8 leitið. Fremur rólegt í vinnunni en alltaf er þó eitthvað til að halda okkur við efnið. Styttist í vinnuvikunni og hlaupársdagurinn á morgun. Ég var heppinn 1944 að draga komu mína í heiminn um nokkra daga. Bróður mínum varð ekki að ósk sinni því hann hafði vonað mjög að ég yrði hlaupársbarn.
Ég var að lesa ritdóm Davíðs A. Stefánssonar um Fljótandi heim. Þar kveður við annan tón en hjá þurrkuntunni hér um árið. Ekki er mér nokkur leið að skilja hvernig Egill Helgason getur notast við þessa manneskju í Kiljuþáttum sínum. Yfirleitt eru umsagnir hennar illa grundaðir sleggjudómar og ef hún hrósar einhverju er nánast hægt að bóka að það er einskis virði. Ég lagði það stundum á mig í gamla daga að lesa þær bókmenntir sem þessi kona hafði dásamað og mært opinberlega. Nú er ég löngu hættur að taka mark á henni. Kannski er best að lesa bækur áður en maður les dóm um þær. Heimurinn er nú enn nokkuð fljótandi í hausnum á mér þó rúmt ár sé liðið frá lestrinum. Þessvegna var enn skemmtilegra að lesa þennan ágæta ritdóm. Nokkuð djúpar pælingar. Kolbrún gæti lært heilmikið af Davíð.

Hösmagi er að þyngjast. Étur á við 2 graðfola þessa dagana. Þorskalýsi og konfekt hjálpa til, fíkjur og saftige dadler. Það veitir heldur ekki af kjarngóðu eldsneyti í svona leiðindatíðarfari. Kveðjur frá okkur Rækó, ykkar Hösmagi.

Tuesday, February 26, 2008

 

Vofur á sveimi?

Það er gamall og góður siður að hafa það er sannara reynist. Hvort sem það er draugagangur á heimasíðu dómsmálaráðherrans eða ég svona glámskyggn er pistillinn frá því í gær nú sýnilegur. Vonbrigðareflex ráðherrans blasir við öllum. Hann segir orðrétt um Svandísi: Hún þorir ekki að axla ábyrgð með sjálfstæðismönnum á stjórn borgarinnar og hangir í pilsfaldi Samfykingarinnar. Glansinn er horfinn af Reykjavíkurarmi VG. Vonbrigði ráðherrans eru augljós og staðfesta það sem margir vissu áður að þegar Björn Ingi rauf samstarfið við flokkinn hans reyndi íhaldið með öllum ráðum að fá Svandísi til samstarfs. Glansinn er horfinn af henni af því hún vildi ekki þýðast Villa og kompaní. Fólkið sem nú gengur með sligaðar axlir af ábyrgð. Gremjan er svo sem skiljanleg. Eyðimerkurganga íhaldsins í Reykjavík mun halda áfram og blóraböggull þess er Svandís Svafarsdóttir. Það er voðalega ljótt og ábyrgðarlaust að hryggbrjóta svona föngulega biðla. Gamla sagan endurtekur sig.Stundum komast menn ekki heim með sætustu stelpunni af ballinu og verða að notast við einhverja hallærispíku.Fleiri kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Það kemur fyrir....

að bestu menn tali af sér. Björn Bjarnason er greinilega ekki sáttur við stöðu íhaldsins í höfuðborginni. Hann fór reyndar sjálfur í krossför gegn R listanum á sínum tíma. Það var sneypuför hin mesta og erfiðið meira en árangurinn. Í gær var pistill á heimasíðu þessa ráðherra með hugleiðingum um stöðuna. Þar hafði hann allt á hornum sér úti Svandísi Svafarsdóttur. Kannski vegna þess að hún átti stóran þátt í að upplýsa almenning um hvernig sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að afhenda réttum aðilum mikil verðmæti úr almannaeigu. En í leiðinni missti ráðherrann út úr sér að hin raunverulega ástæða gremjunnar var sú að Svandís var ekki tilbúinn að hlaupa undir íhaldssængina. Í morgun var ráðherrann búinn að fjarlægja pistilinn af síðunni.Ég vona að það hafi verið fleiri en ég sem lásu boðskapinn í gær. Ráðherrann veit að núverandi meirihluti er gjörsamlega vonlaus og ekkert nema afhroð blasir við íhaldinu ef hann lafir út kjörtímabilið. Þó ég hafi nú stundum áður verið talsmaður samvinnu VG við íhaldið þá er ég ánægður með að Svandís var ekki tilbúinn að bjarga íhaldinu í Reykjavík. Núverandi meirihluti er ákaflega slæmur fyrir Reykvíkinga. Það er þó huggun harmi gegn að hann mun sýna þeim hvað ekki á að kjósa í næstu kosningum.Atburðir síðustu vikna munu verða afdrifaríkir fyrir sjálfstæðisflokkinn í þessu forna höfuðvígi sínu. Það er fagnaðarefni eitt og sér.

Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.... Tveggja stiga frost og dálítið fjúk. Svali í veðurkortunum fram yfir mánaðamót. Kisi eltist við græna kúlu úr silfurpappír og undirritaður sötrar síðustu dropana af morgunkaffinu. Ró yfir tilverunni þó þráin eftir vori sé ráðandi. Bráðlega skýrist með veiðidagana í Ölfusá og hugurinn strax við bakkann. Ég skrapp upp á Flúðir í gærmorgun. Farið þangað ótrúlega oft í erindum fasteignasölunnar. Það er eitthvað notalegt og heillandi við þennan höfuðstað uppsveitanna. Þar býr glaðlynt og gott fólk og allir virðast una glaðir við sitt. Alltaf jafn skemmtilegt að stíga upp frá tölvunni og bruna uppí sveit. Besti hluti stritsins fyrir kapitalistana. Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, February 25, 2008

 

Fleiri álver.

Þegar eitthvað bjátar á er alltaf gott að eiga til lausnir á vandanum. Einkum og sérílagi þegar vandinn er stór og margþættur. Það eru ýmsir váboðar á lofti í efnahagsmálum íslendinga. Skertur þorskkvóti, loðnuveiðar bannaðar og bankarnir í gjörgæslu. Geir Haarde er þó hvergi banginn. Og nýjasta spekin er sú að ekki megi leyfa einum en banna öðrum. Á grundvelli þess verða allir sem þess óska að fá álver. Helguvík og Húsavík fyrst. Svo kemur Þorlákshöfn með orkuna frá Þjórsá. Ingibjörg Sólrún þegir þunnu hljóði. Kosningaloforðin eru alveg gleymd. Flaggskipið, Fagra Ísland, er sokkið. Enda hriplekt frá upphafi. Nýjasta hjálpræðið í hremmingum okkar er olíuhreinsunarstöð á vestfjörðum. Hvernig fórum við og forfeður okkar eiginlega að við að lifa í þessu landi fyrir 1970? Hvað skal til bragðs taka þegar hvert einasta kílóvatt hefur verið virkjað og orkunni ráðstafað til erlendra auðhringa fyrir smotterí? Mér finnst það nú ekki glæsileg framtíðarsýn að þjóðin vinni aðallega í álverksmiðjum og olíuhreinsistöðvum. Smáhluti getur þó enn verið ánauðugir
þrælar þeirra sem hafa sölsað undir sig allan fiskinn í sjónum. Háður duttlungum sægreifanna sem einungis hugsa um hámarksafrakstur af ránsfeng sínum. Meirihluti landsbyggðarinnar er sviðin jörð eftir efnahagsstjórn undanfarinna ára. Þegar ekki var hægt að nota framsóknarflokkinn meira vegna þess að hann hafði étið sig upp innanfrá þá kom íhaldið sér bara upp nýrri hækju. Sem er engu skárri en sú gamla. Það dregur enn í sundur með þjóðunum tveim sem búa í þessu landi. Misskiptingin í meira algleymi en nokkru sinni fyrr.
Líklega væri best að taka sér langt hlé á póltískum bloggskrifum. Þau gera mér eiginlega bara gramt í geði. En réttlætiskenndin er enn til staðar og alltaf blundar vonin um að ástandið skáni.

Hún er köld birtan hér snemma morguns. Frostið fór yfir 10 stig í nótt. Græna þruman á stalli sínum og hefur nánast skipt um lit. Kríthvít af salti eftir 2 ferðir á höfuðborgarsvæðið. Vatn og sápa bíða kvöldsins. Bestu kveðjur frá okkur húsverði, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 24, 2008

 

Góa.

Góan er kominn. Það er gluggaveður, sólskin og 7 stiga frost. Ég ætla að standa við spá mína um að vorið komi þann 21. mars. Föstudagurinn langi verður góður veiðidagur eins og fyrir 15 árum. Það er gúrkutíð á þessum ágæta sunnudegi. Skreppitúr í afmæli Egils sterka eftir hádegi. Örugglega eitthvað gómsætt á borðum hjá Boggu minni. Húsvörðurinn starir út um gluggann. Sýnilega í þungum þönkum. Pælandi í hagamúsum og öðru skemmtilegu.
Ekki veit ég hvað tekur við á dagskrá sjónvarpsins næsta laugardagskvöld. Laugardagslögunum lauk í gærkvöldi. Þessi ömurleiki hefur jafnvel verið enn verri en leiðindakvöldin með Gíslamarteini fyrir nokkrum árum. Dagskrá sjónvarpsins hrakar dag frá degi. Sendingarnar frá stöð 2 hafa skilað sér. Páll Magnússon og Þórhallur Gunnarsson. Best væri að reka þá báða ekki seinna en strax. Ég er kominn á þá skoðun að það eigi að gera ríkissjónvarpið að áskriftarstöð. Þá losnuðum við við að greiða 35.000 á ári fyrir ömurleika sem við viljum alls ekki. Margir sem vinna þarna hvorki mælandi né skrifandi. Þetta er reyndar orðið svona hjá dagblöðunum líka. Það er leitun á grein eða frétt sem er laus við málvillur. Sumt hrein merkingarleysa og sýnir að íslenskunni hrakar og metnaðarleysið er algjört. Ég lít á fríblöðin sem troðið er hér innum bréfalúguna sem hreint brot á mannréttinum mínum sem stjórnarskráin á að tryggja. Þetta er bara sorp sem mér er gert að fjarlægja af mínu heimili. Þessutan er þeim aðeins troðið hálfa leið innum lúguna svo snjór og regn eiga greiða leið í forstofuna ef þannig virðrar. Sama gildir um allan ruslpóstinn. Ég er ekki að sakast við fólkið sem ber út þennan hroða. Því er uppálagt að hundsa vilja íbúanna þó þeir með öllum tiltækum ráðum gefi það skýrt til kynna að þeir vilji losna við þessa áþján. Ég vona að haglabyssan mín fái ekki nýtt hlutverk á næstunni.
Þó Hösmagi nöldri aðeins á þessum fallega morgni er hann ákaflega hress sem oftast áður. Grænu bólurnar sem ég fékk í fyrradag horfnar. Það var myndskeið frá flokksráðsfundi VG í sjónvarpinu. Þar brosti Jón Hjartarson út að eyrum. Einhver alversta forsending sem íslensk stjórnmál hafa setið uppi með í áratugi. Og er þó af nógu að taka. Mér hefur alla tíð verið þvert um geð að fyrirlíta fólk. En stundum verður alls ekki hjá því komist. Lúsifer skýtur alltaf upp kollinum annað slagið.

Ég sendi öllum vinum mínum kærar kveðjur. Hinir fá engar, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 20, 2008

 

Póker.

Eins og ég sagði frá um daginn spilaði ég stundum póker í gamla daga. Við gamla góða Villa og fleiri Heimdellinga í lagadeild háskólans. Við pældum ekki í hvort við værum að brjóta lög eða ekki. Nutum þess bara að spila og reyta nokkrar krónur hver af öðrum. Nú ráðast menn á einn þingmann framsóknar fyrir að hafa tekið þátt í svona athæfi, Jón Birki Jónsson.Þann hinn sama og ég kallaði stundum litla gamalmennið hér áður fyrr. Þetta er bara stormur í vatnsglasi. Nákvæmlega ekkert athugavert við þetta. Menn spila bridds, tefla skák og leggja nokkrar krónur undir. Happdrætti, lottó og spilakassar á hverju strái.Hvaða læti eru þetta? Nær væri að skjóta á þá sem í krafti embætta og aðstöðu sölsa undir sig opinberar eignir. Nærtækt dæmi er þróunarfélagið sem afhenti góss verndaranna á Keflavíkurflugvelli. Fólk man kannski eftir gömlum línumanni úr landsliðinu í handbolta sem þar kom við sögu? Bróður hrossalæknisins í fjármálaráðuneytinu. En það er gamla sagan. Það verður að gambla á réttan hátt. Vildarvinapólitíkin er lögleg og þar er lítið spáð í siðferðið. Það er skondið í sjálfu sér að þessi þingmaður sé hengdur upp fyrir þessar sakir.Einkum og sérílagi vegna spillingarsögu framsóknarflokksins undanfarin ár. Líklega brosir merarkóngurinn Finnur út í bæði um þessar mundir. Siðferði þjóðar sem leyfir mönnum að stela milljörðum úr almannaeigu en fordæmir tómstundaiðju sem felst í því að hætta nokkrum krónum úr eigin vasa er ekki uppá marga fiska. Nú mega menn vart vatni halda yfir fórnarlund Þorsteins Más Baldvinssonar að hafa lækkað laun sín sem stjórnarmaformanns Glitnis. Úr milljón á mánuði í hálfa. Þessum kvótakóngi er sem sé ekki alls varnað. Milljarðatugirnir sem honum hafa verið færðir á silfurfati úr almannaeigu hafa sannarlega ekki villt honum sýn á siðferðið. Það er ekki ónýtt fyrir okkur brauðstritsmenn að vita af svona fórnfúsu fólki í ábyrgðarstöðum. Það væri illt til þess að vita að fjárhagsáhyggjur spilltu væntingum slíks fólks til margundagsins. Eða væri kannski ástæða til að taka aðeins til í þessu bananalýðveldi?

Enn er veðrið ágætt. Aðeins kólnað en sjóinn tók þó upp í gær. Við kisi við sama heygarðshornið snemma morguns. Pollrólegir og kvíðum ekki deginum eftir góðan nætursvefn. Kominn tími á að anda að sér fersku morgunloftinu eftir kaffi og vindil.
Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Stærilæti.

Ríkisstjórnin má vart vatni halda yfir nýjustu afrekum sínum varðandi nýundirritaða kjarasamninga. Solla og Geiri tala um tímamótasamninga og skammast út í VG fyrir að lýsa efasemdum sínum með ágæti samninganna. Gamla lumman um að Steingrímur sé á móti öllu er endurtekin. Hversvegna eru atvinnurekendur svona ánægðir? Einfaldlega vegna þess að þeir gerðu góðan díl. Getur einhver lifað á 137.000 kr. mánaðarlaunum? Og hækkun persónuafsláttarins er blásin út. 7.000 kall. Ef staðreyndirnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós: Engin hækkun árið 2008, 167 kr. á mánuði árin 2009 og 2010og 250 kr. árið 2011. Þessi smán gengur jafnt yfir alla. Það væri auðvelt að hækka persónuafslátt láglaunafólks miklu meira ef nokkur vilji væri til þess. Þessi ríkisstjórn er engin jafnaðarstjórn frekar en sú sem síðast sat. SF fer létt með að kasta kosningaloforðum sínum á ruslahaugana. Fagra Ísland auðvitað á bak og burt enda einungis áróðursbragð fyrir kosningar. Álver í Helguvík og Húsavík og virkjanaæðið heldur áfram. Það er gapað um árangur sem enginn er. Því miður er þessi samstjórn íhalds og SF engu betri en fíneríið sem við höfðum áður. Það er enginn vilji hjá SF að standa við stóru orðin. Völd og vegtyllur eru í fyrirrúmi. Blaðrið í viðskiptaráðherranum er að verða sérstakt vandamál. Auðvitað stendur ekki til að fella stimpilgjöld niður eins og lofað var. Hrossalæknirinn í stóli fjármálaráðherra hefur ekkert breyst. Vaxtaokrið hefur aldrei verðið verra en nú og verðtryggingin étur upp eignir fólks vegna pókerspils ríkisstjórnarinnar og auðmannadekursins í skjóli hennar. Og ráðherrarnir eru að springa úr monti yfir góðum árangri. En það flökrar ekki að þeim að breyta grundvelli útreiknings neysluvísitölunnar sem myndi færa skuldsettu láglaugafólki meiri kjarabætur en allt annað.

Jörð er nú alhvít aftur eftir næturúrkomuna. Enginn rosi á ferðinni og líklega tekur þennan snjó upp von bráðar. Rólegheitadagur framundan og allt með kyrrum kjörum. Bestu kveðjur frá okkur yfirhúsverði, ykkar Hösmagi.

Monday, February 18, 2008

 

Draumlyndi.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum
og öldungis frábært að hugsa og láta sig dreyma....

Ljúfur morgunn og andvarann leggur inn um opinn gluggann. Það er gott að sötra kaffið, lygna aftur augunum og láta sig dreyma á slíkum morgni. Þessi hlýindakafli eftir allan kuldann og ofanfallið var ákaflega kærkominn. Veldur vorfiðringi hjá gömlum veiðiref og ketti hans. Aðalfundur stangveiðifélagsins hefur verið boðaður n.k. föstudagskvöld og þá styttist í að laxveiðidagarnir í Ölfusá verði ákveðnir. Nú er 6. júlí á sunnudegi. Kannski væri athugandi að gera hann að hinum rómaða 3ja stanga degi? Það er semsé að færast mynd á sumarið hvað veiðiskapinn varðar. Það er ljúf tilhugsun þeim sem stritast við að sitja við tölvuna daginn út og inn. Lífið undir yfirborði vatnsins, fuglar himinsins og aðrar dásemdir náttúrunnar fanga hugann. Fögnuður og þakklæti yfir að fá að njóta þessa alls eitt sumarið enn.Stundum einn og stundum í góðum félagsskap. Allt ranglæti heimsins gleymist og bjartsýnin ræður ríkjum. Myrkrið víkur og birtan nær yfirhöndinni. Þá er afskaplega gaman að lifa. Engar svartar hillingar né brennandi vindur. Einungis fjólubláir draumar, gleði og fögnuður. Ég hlakka til að hitta himbrimann á ný. Hann mun verða á sínum stað þrátt fyrir fimbulkuldann um daginn. Töfrarnir lifa og halda tökum sínum. Stangartoppurinn er farinn að sveigjast nú þegar. Yngsti afkomandinn farinn að hlaupa um. Þegar við hittumst á laugardaginn beygði hann af í fyrstu. En það var stutt í brosið. Afi gamli sjaldséður gestur svo allur var varinn góður. Við eigum örugglega eftir að njóta dásemda vatnanna góðu þegar fram líða stundir.
Rólyndi og vellíðan ræður ríkjum hér í Ástjörn. Albestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 17, 2008

 

Senuþjófar.

Nú þarf ég ekki lengur að vera andaktugur á sunnudögum. Geri það sem mig lystir. Líklega á ég eitthvað eftir af barnatrúnni en er feginn að hafa loks haft rænu á að segja mig úr þjóðkirkjunni. Ég trúi á hið góða og það dugar mér ágætlega. Nú bærist ekki hár á höfði og hitinn 5 gráður. Kom heim uppúr miðnættinu og færðin eins og á sumardegi. Afmælisveisla dótturinnar var frábær. Allir kátir og ekki fóru menn svangir eða þurrbrjósta úr þessari veislu.Afmælisbarnið lék á alls oddi og ég mun lengi minnast þessa kvölds. Í miðjum klíðum hélt ég að ég sæi sýnir. Það dúkkaði upp gestur sem enginnhafði búist við. Þettavar brosandi skáld. Litli bróðir tók sem sagt flugið frá Barselóna til að heiðra systur sína með nærveru sinni á ögurstundu. Sannarlega óvæntur gleðigjafi í þessa veglegu veislu. Þegar dóttla gifti sig fyrir 9 árum gerðist reyndar svipað. Þá mætti eldri bróðirinn álíka óvænt. Þá spilandi handbolta í Þýskalandi. Begga mín nýtur þess að eiga bræður sem finnst vænt um þessa stelpu. Og gömlum föður leiddist þetta ekki mjög. Ekki á hverjum degi sem ég hitti öll börnin mín saman. Það var margt skrafað í gærkvöldi. Og, aldrei þessu vant,komu laxar og silungar inn í umræðuna. Líklega átti vorfiðringur á miðjum Þorra sinn þátt í því. Mér var líka fagnað við heimkomuna. Um leið og ég stakk lyklinum í skrána heyrðist mjálm. Húsvörðurinn kátur að endurheimta fóstra sinn. Mal, hnoð og reist skott. Hann er nú búinn að kanna veiðilendurnar og ég hef lokið eftirliti með sauðum mínum. Það er vellíðan yfir okkur báðum og við munum njóta dagsins.Krúttkveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 16, 2008

 

Ilmur af góðviðri.

Suddi og 7 gráður. Hausinn á Raikonen úti en afgangurinn í gluggakistunni. Við hnusum báðir af þessu góða vetrarveðri. Það verða ekki vandræði með færð í Garðabæ síðdegis. Verð örugglega að halda aftur af bensínlöppinni. Það er freistandi að slá vel í klárinn þegar þegar svona viðrar á síðari hluta Þorra.
Ég var að tala um olíumafíuna um daginn. Mér fannst ákaflega skondið að fá upphringingu frá Atlantsolíu í fyrrakvöld. Ég var spurður hvort ég vildi ekki fá meiri afslátt á bensíninu. Ég þáði boðið en fannst þetta samt dularfullt. Skýringin var sú að ég hafði aðeins tvívegis tekið bensín á árinu. Einungis hreyft annan vagninn og bara til vinnu og heim aftur. Ég nýt góðs af þessu því liðið hjá AO hefur talið að ég héldi framhjá þeim. Margt smátt gerir eitt stórt. Safnast þegar saman kemur. Aðeins ódýrara eldsneyti og 3 krónur í aukaafslátt er betra en ekkert. Ég fékk fiðring í magann í vikunni. Fór í Bílanaust að kaupa nýjan rafgeymi í Lancerinn. Þarna stóð lítil vespa. Eldrauð að lit. Og kostaði 130.000 - Er að hugsa mig um. Það versta við þessi hagkvæmu farartæki er hvað dýrt er að tryggja þau. Dýrara en að tryggja Lancerinn. Sennilega byggir það á hærri ökumannstryggingu. Ef ég læt slag standa hef ég vespuna bara á skrá í 4-5 mánuði ár hvert. Svona maí til september. Það er ljúft að láta sig líða áfram á svona farartæki. Eyðslugrannt mjög og mengunin hverfandi. Hægt að fylla tankinn fyrir klinkið í buddunni.
Kimi er nú sofnaður á teppinu góða í horni kontorsins. Það er laugardagur og lífið er sannarlega ljúft í dag. Ég er að hugsa um að láta líða úr mér líka. Góður miðdegislúr er ágæt undirstaða undir veisluhöld kvöldsins. Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, February 15, 2008

 

Gamalt hús.

Það er langt síðan tekið var fyrir reykingar í hinu sögufræga húsi sem ég starfa í. Enda sjálfsagður hlutur. Stundum laumumst við til að fá okkur smók í nýja bílskúrnum hans Árna Vald. Úr vesturgluggum bílskúrsins blasir fornfrægt hús við sjónum manns. Pakkhúsið sem ég hef nú bloggað um áður. Í morgun glömpuðu nokkrir sólargeislar á húsinu. Hugurinn reikaði aftur til fortíðar og jafnframt inní framtíðina. Nú á sveitarfélagið allt húsið. Jarðskjálftarannsóknir eru stundaðar í 2/3 hlutum þess en 1/3 stendur auður. Sá hluti var keyptur í fyrra fyrir 70 milljónir. Það má ekki einu sinni nýta það til góðra hluta af því forseti bæjarstjórnarinnar með hinum fábjánunum getur vart beðið með að jafna þessa ágætu byggingu við jörðu. Þeir vilja líka Sigtún feigt. Húsið sem einn frumkvöðla byggðar hér reisti fyrir 72 árum. Ég tel mig þekkja þetta hús ágætlega eftir að hafa unnið þar í meira en 6 ár. Húsið er vel varðveitt í höndum núverandi eiganda þess. Það er reisn yfir þessari byggingu. Ég er einnig viss um að að meirihlutanum verður ekki að ósk sinni með húsið. Það bætir þó alls ekki hlut skemmdarvarganna sem nú stjórna þessu sveitarfélagi. Það er allt með kyrrum kjörum nú um stundir.Vargarnir ráða ráðum sínum og bíða færis þegar vorar. Þá dreymir um blokkir og turnspírur. Minnisvarða um þeirra eigin heimsku og yfirgengilegan fábjánahátt.Jafnvel íhaldið í Reykjavík lætur sig ekki dreyma um að byggja í Hljómskálagarðinum.Hér vilja snillingar meirihlutans búa til nýtt neðra Breiðholt í bæjargarðinum. Það er hið fagra mannlíf þeirra. Og til að ná takmarkinu eru öll meðul leyfileg. Bruðl,sóun,og svikin kosningaloforð. Ég vona að við Árborgarar berum gæfu til að standa saman gegn áformum um eyðilegginguna á þessum stað sem meirihlutinn rær lífróður til að koma í framkvæmd.

Klakabrynjan á planinu framan við Ástjörn 7 var orðin þunn og ræfilsleg í morgun. Það var notalegt að skreppa í bíltúr snemma morguns. Lancerinn malandi hress eftir að Hörður bílameistari kom nýjum rafgeymi fyrir í gærkvöldi. Helgin nálgast og afmælisveisla annað kvöld. Ég vona að mér verði ekki hugsað til bæjarstjórnarmeirihlutans þessa helgi. Raikonen á harðaspretti með skott sitt upprétt í morgunblíðunni. Fagnaði fóstra sínum á sinn hátt, á öðru hundraðinu upp tröppurnar. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 14, 2008

 

Unaður.

Það er hlákuspá næstu 5 daga. Það er mér sannarlega gleðiefni. Þó rigningin sé ekki skemmtilegasta veðrið svona yfirleitt þá er hún sérdeilis fagnaðarefni núna eftir kulda og óvenjumikla fannkomu. Klakinn að mestu horfinn af götunum hér og lífið miklu bærilegra en í síðustu viku. Næstum orðið albjart þegar haldið er til vinnu um níuleitið. Reyndar fór ég fyrr af stað en venjulega. Kom við á heilsugæslustöðinni uppúr átta. Ég sagði við meinatækninn á rannsóknarstofunni að hún mætti ekki tæma mig alveg. Ég skildi eftir 6 skammta af blóði í þágu 2ja rannsókna sem ég tek þátt í.Mér fannst sjálfsagt að segja já þegar eftir þessu var leitað. Þróun læknavísindanna er enn ör sem betur fer. Það er meira en hægt er að segja um guðfræðina. Þar eru menn í sömu sporum og fyrir 2.000 árum. Ef framlag mitt getur einhverntíma orðið einhverjum öðrum til hjálpar þá er það gott.
Fremur rólegt í starfinu þessa viku. Aðstæður ekki sem bestar. Vaxtaokur, verðbólga og vond ríkisstjórn hjálpa ekki uppá sakirnar. Yfirnagarinn hélt stýrivöxtum óbreyttum samkvæmt tilkynningu í morgun. Ósköp verð ég feginn þegar sá maður hættir störfum. Hann hefur engu gleymt og lítið lært. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort ekki mætti leggja seðlabankann niður. Þetta er hvort eð er ekki nema elliheimili fyrir stjórnmálamenn sem búið er að úrelda. Bankinn beitir nákvæmlega sömu aðferðum í þenslu og samdrætti. Musterisriddararnir mættu missa sig. Það er líka dýrt að láta menn naga blýanta og leika golf fyrir milljónir í mánuði hverjum.

Nú bíður fólk eftir næsta leik í borgarstjórnarpólitíkinni.Þar er uppi vond staða fyrir borgarbúa. Galdramaðurinn hugsar og hugsar.Búinn að vera í þessu í 25 ár eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni. Það er stundum erfitt að ljúga sig út úr klúðri.
Gammarnir bíða og vona hið besta. Við Kimi biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Tuesday, February 12, 2008

 

Mafíósarnir....

eru enn við sama heygarðshornið.Bensín og hráolía stórhækkuðu í verði í gær.Eldsneytisverð hefur aldrei verið hærra hér en nú. Ég fæ ekki betur séð en samráðsokrið sé sprelllifandi ennþá. Hvernig má það vera að stóru félögin 3 þurfi öll að hækka verðið á sama klukkutímanum um sömu krónu- og auratölu? Væri ekki rétt að rannsaka það aðeins? Hvað segir Árni Matt við þessu? Auðvitað já og amen því ríkið græðir enn meira. Hvað sem líður áliti fólks á bílismanum þá er það staðreynd að við verðum að nota þetta farartæki hér. Fáar hræður í stóru landi. Engar lestir og strandsiglingar aflagðar. Fáar neysluvörur eru skattlagðar jafn ofboðslega og eldsneyti. Verðið er líka inní neysluvísitölunni sem þýðir að verðtryggðu lánin hækka um leið og eldsneytisverð hækkar. Líka hjá hjólreiðamönnum og göngugörpum sem eiga ekki bíl. Hér þarf stóruppskurð. Réttlæti í stað ranglætis. Sektargreiðslur olíufélaganna renna beint í ríkissjóð. Ekki til almennings sem rændur var af mafíósum þessara fyrirtækja. Sem eru stikkfrí. Félögin eru sektuð en ekki mennirnir sem rottuðu sig saman um að svindla á almenningi með svívirðilegum vélabrögðum. Ef þjófur er gripinn með þýfi sem hann hefur stolið frá mér á þá að afhenda það Árna Matt? Það virðist vera réttlæti dagsins. Og glæponarnir glotta útí annað og ekki sýnilegt að samviskan plagi þá. Kannski er þetta eðlilegt í bananalýðveldinu Íslandi þar sem kaupréttarsamningar eru meira virði en hagsmunir almennings. Hafi einhverntíma verið siðferði í stjórnmálum þessa útskers er það að hverfa. Það sanna atburðir síðustu daga betur en allt annað. En það er nú huggun harmi gegn hjá ggV að hann hefur fengið ótvíræðan stuðning. Þingmaður með æruna uppreista og glampandi af heiðarleika hefur talað. Sannarlega ekki ónýtt fyrir lúinn galdramann.

Mannlífið er að kvikna hér að morgni dags. Veðrið ágætt og snjórinn verður enn að hopa næstu daga. Mér og dýrinu mínu líður prýðisvel þrátt fyrir allt ranglæti. Sá rauðbröndótti vakti mig klukkan 5 í morgun. Tærnar sem stóðu undan sænginni góðu freistuðu of mikið. Þetta var bara gott því ég var vel útsofinn. Nýtt tímann til að lækka pappírshaugana enn frekar. Held hress og kátur til starfa klukkan 9 og er fullviss um að þetta verður ágætur dagur. Sá 13. af febrúar. Það er flott tala. Við sendum góðar kveðjur að venju, ykkar Hösmagi.

Monday, February 11, 2008

 

Spilaborg.

Ég var með gg Villa í lagadeildinni í þá gömlu góðu daga. Við júristar höfðum aðstöðu á Aragötunni. Til lestrar og annara hluta. Við spiluðum stundum Yatsi uppá peninga. Ræddum jus og heimsins gagn og nauðsynjar.Og gg Villi framkvæmdi spilagaldra.Hann var ótrúlega snjall galdramaður. Ég brýt enn heilann um hvernig hann fór að þessu. Ég reyndi mikið til þess að veiða leyndardóma galdranna uppúr honum. Án árangurs. Mér varð hugsað til þessa skemmtilega tíma í gær. Það voru engir galdrar á blaðamannafundi gg Villa í gær. Hann sat einn fyrir svörum. Félagar hans í borgarstjórnarflokknum flúnir af hólmi. Berandi fullt traust til foringjans.Mannsins, sem margstaðinn hefur verið að lýgi og ótrúlegu dómgreindarleysi að undanförnu.Mannsins, sem ætlar að vinna traust fólksins aftur. Enda búinn að biðjast afsökunar.Og formaður flokksins getur í hvoruga löppina stigið.Þetta verður bara að ráðast. Hann er stikkfrí.Og borgarstjórinn má vart vatni halda af fögnuði.Hann er bjartsýnn. Málaefnaskráin er góð og nú verða verkin látin tala. Þetta er raunveruleiki núverandi meirihluta í höfuðborginni. En spilaborgir eru fallvaltar. Það þarf ekki nema einn fret til að hreysið hrynji til grunna.Það væri affarasælast fyrir borgarbúa og reyndar fyrir okkur sveitavargana líka að það gerðist hið fyrsta. Það er mál allra landsmanna hvernig höfuðborginni er stjórnað. Skrípaleikur núverandi valdhafa skaðar alla. Galdrameistarinn mikli segist hafa axlað ábyrgð á mistökum sínum. Hokinn af reynslu og ábyrgð.Þetta er ótrúlega ömurlegt sjónarspil. En það er gömul saga að tilgangurinn helgar meðalið. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vinna tíma. Flokkshagsmunirnir í öndvegi sem jafnan fyrr. Hroðanum er sópað undir teppisbleðilinn. Samt munu illdeilurnar og klofningurinn halda áram. Og höfuðborgarbúum blæðir. Uppskera íhaldsins í Reykjavík í næstu kosningum verður vonandi í samræmi við sáninguna sem við höfum orðið vitni að að undanförnu. Ekkert er Reykvíkingum nauðsynlegra en að losna við núverandi stjórnendur borgarinnar. Mesta skaðræði sem yfir þá hefur dunið. Það mun gerast fyrr en margir halda.

Þó ekki sé nú beinlínis vorlegt umhorfs á fæðingarstað undirritaðs, unir hann nokkuð glaður við sitt. Fósturbarnið líka. Kyrrt veður og hitastigið réttu megin við núllið.Ég talaði við dóttlu mína í gærkvöldi. Mér fannst það mjög ljúft.Minnist 11. febrúar fyrir 40 árum þegar ég leit lítið stelpukríli í fyrsta sinn.Ég held að hún sé hamingjusöm og við ætlum að njóta samveru í veiðiskap næsta sumar. Það er ekki leiðinlegt að dvelja við Þingvallavatn á fallegum sumardegi. Murtur og bleikjur vakandi á víkum. Einn og einn stórurriði á ferli líka. Þær Ingunn Anna og Hrefna munu heldur ekki spilla deginum. Það er létt yfir gömlum veiðiref í morgunsárið. Fölskvalaus tilhlökkun til komandi dásemda sumarsins. Nafni minn elskulegar fær sérstakar árnaðaróskir. Tuttuguogtveggja í dag, þann tólfta. Bestu kveðjur frá okkur Kimi á þessum kyrrðarmorgni, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 10, 2008

 

Heill og hagur.

Það ríkir gerningaveður í borgarpólitíkinni. Menn vega hvern annan úr launsátri. Eftir bestu getu. Það er áberandi hjá mjög mörgum sem taka þátt í þessu ólýðræðislega ferli að hagur borgarbúa er aukaatriði.Sóun og bruðl eru af hinu góða ef það þjónar hagsmunum persónanna í þessum sjónleik. Einn ötulasti bloggarinn á moggablogginu er ungur sjálfstæðismaður norður á Akureyri.Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann leggur útaf hverri frétt sem birtist. Borgarpólítíkin og leikararnir í Hollívúdd eru honum hugleikin. Enn það sem virðist skipta hann mestu er flokkurinn hans. Heill og hagur sjálfstæðisflokksins eru honum allt. Hann krefst þess að Vilhjálmur víki til hliðar í borginni. Ekki vegna hagsmuna borgarbúa heldur vegna hagsmuna flokksins. Ég græt nú ekki hvernig komið er fyrir íhaldinu í Reykjavík. En kreppan í borgarstjórninni er ákaflega slæm fyrir borgarbúa og þetta fáránlega sjónarspil verður þeim ákaflega dýrkeypt. Þingrofsrétturinn í stjórnarskránni er þar til þess að hægt sé að höggva á hnúta í landsmálapólitíkinni og gefa þjóðinni kost á að velja nýtt þing. Því miður er þessi réttur ekki til staðar í sveitarstjórnarmálunum. Þessvegna mun tjón borgarbúa enn aukast. Kjörtímabilið ekki hálfnað og upplausnin mun halda áfram. Það verður höfuðborginni ákaflega skaðlegt. Vilhjálmur mun sitja sem fastast enn um sinn. Það á að reyna að bjarga andliti íhaldsins. Vinna tíma til að leita heppilegra lausna fyrir flokkinn.Geir neitar að tjá sig við fjölmiðla.Borgarfulltrúar íhaldsins eru í felum. Þó fólk sé ótrúlega fljótt að gleyma spái ég að íhaldið eigi eftir að súpa seyðið af þessu ástandi. Ólafur F á heldur ekki afturkvæmt í stjórnmálin. Allt bendir líka til að framsókn sé endanlega úr sögunni í borgarmálunum. Það eru því jákvæðir punktar í þessu sem öðru. Vonandi munu höfuðborgarbúar verða heppnari með stjórnendur eftir næstu kosningar.
Enn er hér þíða.Nánast logn og ferska loftið leggur innum gluggann. Einkadóttirin er fertug í dag, 11. febrúar. Hún fær knús frá mér. Veisla næsta laugardag og vonandi verður veður þá skaplegt.Þorri meira en hálfnaður svo þetta tosast allt í rétta átt.
Við Kimi sendum góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 09, 2008

 

Þrumuveður.

Mér fannst vera himnesk blíða í gærkvöldi. Hávaðarok, rigning, þrumur og eldingar. Þessi symfónía lét ákaflega vel í eyrum. Raikonen líkaði þetta þó ekki og flýði undir rúm eins og á gamlárskvöld. Nú hefur lægt og örlar á skímu. Snjófjöllin hafa lækkað en það hefur aftur fryst. Meiri rigning í næstu viku og þá sljákkar enn meira í snjónum. Góður vinnudagur í gær en samt ljúft að koma heim í helgarfrí. Pappírsvinna áfram í dag. Gamlar syndir og ný verkefni að auki. Gott þegar slíkt berst í hendur. Ég sé fram á að vinna fyrir öllum veiðileyfum sumarsins um helgina.Dásamlegt.
Rokið og rigningin sáu um moksturinn af svölunum í gær.Smávegis eftir sem rigning morgundagsins sér um. Ég sá haft eftir Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi, að kuldapollur háloftanna sé nú nær okkur en venjulega. Lægðirnar koma hver af annari næstu vikur. Ég ætla að gerast spámaður. Það vill svo til að nú ber vorjafndægur uppá föstudaginn langa. Þá byrjar að vora fyrir alvöru. Grænn apríl og gott sumar í kjölfarið. Læt mig a.m.k. dreyma um þetta. Nú er lika orðið hægt að una við föstudaginn langa. Man vel eftir eftir einum slíkum frá því ég var ungur og bjó á Nýja-Garði. Varð allt að því hungurmorða. Stúdentamötuneytið á Gamla-Garði var lokað. Og nánast allir aðrir matsölustaðir einnig. Einhverntíma undir kvöld fékk ég þó að éta. Matstofa Austurbæjar bauð uppá steik og hangikjöt. Ég held að það sé í eina skiptið sem ég hef borðað hangikjöt með brúnuðum kartöflum. Fór bara ágætlega saman. Margt breyst á þeim 40 árum sem liðin eru. M.a.s. prestar þjóðkirkjunnar hafa gefist upp á að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti komist í gegnum þennan dag. Það er gott út af fyrir sig. Guðmundur, fyrrum mágur minn, fékk einu sinnni mjög bágt fyrir að drepa flugu þennan heilaga dag. Fékk rassskellingu eða eitthvað þaðan af verra. Það var heldur ekki hákristilegt framferði okkar skáldsins á föstudaginn langa árið 1993. Drápum marga fiska í fyrstu ferð okkar í Tangavatn. Ég er samt viss um að okkur var fyrirgefið og þessi 1. apríl er mér sérlega eftirminnilegur. Kannski verður bara gott veiðiveður þann 21. mars n.k.?
Næst liggur fyrir að koma litlu drossíunni í gang. Rafgeyminum líkaði ekki 18 gráðu gaddurinn um daginn. Nýir startkaplar og græna þruman eru til reiðu. Þruman er eins og skáti. Ávallt reiðubúinn. Þrumukveðjur til allra krúttanna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 07, 2008

 

Logn.

Það er stund milli stríða. Blankalogn og hitastigið rétt ofan við núllið.Snjófjöllin hækkuðu töluvert í gær en von er á rigningu og roki þegar líður á daginn.Veður sem Hösmagi kann að meta nú. Við kisi nokkuð snemma á fótum og hann djöflast hér með bréfkúlur um alla íbúð.Helgin að ganga í garð og pappírshaugarnir eiga ekki von á góðu frá mér. Þegar ísinn hefur verið brotinn verður leiðin greiðfær.
Nú hefur verið gengið frá Veiðivatnadögum komandi sumars. Við feðgar og langfeðgar verðum þar 12.-14. ágúst og skáldið með sitt lið 3.-5. ágúst. Ég hef góða tilfinningu fyrir sumrinu þó nú sé leiðindatíðarfar. Ég er fegin að halda ró minni og sálarheill þó allt sé á bólakafi í snjó. Búinn að brynja mig gegn ástandinu, m.a. með lýsi og vítamínum. Hef bætt við mig kílói með bollu- og baunaáti vikunnar.Markmiðin eru misjöfn. Margir hoppa hæð sína af hrifningu ef eitt kíló hverfur. Þessu er öfugt farið hjá mér. Viðbótarkíló er áfangi og sigur hjá mér.Í fyrradag fékk ég boðun frá Lsp. um sneiðmyndatöku. Fer þangað á þeim ágæta degi, 5. mars. Ég kvíði engu. Ekkert bendir til annars en að allt sé í góðu lagi. Það er að sjálfsögðu góð tilfinning fyrir lífsglaðan mann sem enn nýtur tilverunnar út í hörgul. Lífsgleði og jákvæðni eru góðir bandamenn þegar eitthvað bjátar á. Það hef ég sannfærst um í hremmingum undanfarinna áratuga. Það er sem sagt bjart yfir gömlum veiðimanni þó ekki sé mjög veiðilegt í augnablikinu. Við Raikonen sendum ykkur bestu kveðjur úr morgunkyrrðinni.Báðir alveg rosalega flottir, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 06, 2008

 

Lífræna.

Hún er flott bílaauglýsingin um Lexus Hybrid bílinn. Sérstaklega er akurinn sem bifast í vindinum fallegur. Þarna eru upplýsingar um kosti þessa glæsivagns. Hann gefur frá sér aðeins minna af CO2 en aðrir bílar. Gengur fyrir lífrænu eldsneyti sem unnið er úr korninu af þessum fallega akri. Og sumir umhverfissinnar mega vart vatni halda yfir þessu undraverki tækninnar. En það eru fleiri hliðar á málinu. Matvælaverð í heiminum hækkar með stjarnfræðilegum hraða eftir að menn tóku að nota korn og ýmis önnnur matvæli til framleiðslu á eldsneyti. Framboðið af korni minnkar og verðið hækkar. Ræktunarland er ekki ótakmarkað og því er gripið til þess ráðs að ryðja skóg og brjóta nýtt land til ræktunar. Við það minnkar upptaka skóganna af CO2
og sumir tala því um að eigendur nýja Lexus bílsins séu í raun enn meiri umhverfissóðar en við hin sem ökum með gamla bensínrokkinn innanborðs. Það má líka nefna að miklar tækniframfarir hafa orðið í gömlu bensínvélinni. T.d. með Hemi systeminu sem er í grænu þrumunni minni. Ég átti 6 strokka Cherokee árgerð 1995. Vélin 190 hestöfl. Í sparakstri tókst mér að koma honum í 14,8 l af bensíni á 100 km.Græna þruman er með 8 strokka 330 ha vél. Í sparakstri eyðir hún um 12 lítrum á 100 km. Og er þó hálfu tonni þyngri en sá gamli. Ég held að stundum sé rétt að skoða þessa hluti vel. Það er gamall sannleikur að við búum stundum til nýjan vanda þegar sá gamli er leystur. Og það kann ekki góðri lukku að stýra að stara alltaf á sama blettinn og loka augunum fyrir augljósum hlutum. T.d. stríði og stríðsleikjum. Þetta var nú bara smáhugleiðing í tíðindaleysi dagsins. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, February 05, 2008

 

Vítamín og lýsi.

Hösmagi greip til þess ráðs í harðindunum að undanförnu að éta vítamín og drekka þorskalýsi. Hann telur að þetta sé byrjað að virka nú þegar. Vaknar hressari að morgni og betur undirbúin fyrir átök nýs dags.Nú er 7 stiga frost hér og hægur vindur. Föstudagurinn kemur með rok og rigningu. Kjörveður undirritaðs nú um stundir.Þó mér leiðist rok svona yfirleitt er gott að fá það með plúsgráðunum til að vinna á snjónum. Skipulagningin á veiðidögum komandi sumars hófst í gær með samtali við Bryndísi veiðivörð í Veiðivötnum. Bíð nú eftir að heyra frá skáldinu mínu svo hægt verði að samræma þessa dásamlegu daga við aðrar dásemdir sumarsins. Dagarnir í Ölfusá ráðast í mars og það er einnig tilhlökkunarefni. Ég er við sama heyrarðshornið og undanfarin ár. Brauð og leikir verða áfram hluti tilverunnar. Gera brauðstritið bærilegt og næra sál og líkama.
Baunasúpa sprengidagsins klikkaði aldeilis ekki. Beikonið mallaði með í 20 mínútur.Rófur, kartöflur og saltkjöt með. Raikonen leist ekki á þennan mat og hélt sig að döllum sínum. Stóðum báðir á blístri að kvöldverði loknum og sváfum eins og lömb til morguns.Hann er nú nýkominn inn með snjóugt skott og snuddar í kringum fóstra sinn. Þetta er sem sagt góður morgunn þrátt fyrir snjó og kulda. Ylurinn af tilhlökkun til komandi sumars vegur leiðindi tiðarfarsins upp.Við Kimi sendum ykkur öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, February 04, 2008

 

Uppreisn.

Ég gerði uppreisn í gær. Gegn sjálfum mér. Að undanförnu hef ég haft einstakt lag á að koma mér undan ákveðnum verkum heimafyrir. Starað á sumar möppurnar á kontornum og síðan stokkið á flótta fram í stofu til einhverra fáfengilegra hluta. Teningarnir ávallt á sínum stað og kannski vantar eitt orð í einhverja krossgátuna. Hvort tveggja ágætt þegar ekki er neitt þarfara að gera. Svona gekk þetta á laugardaginn þó ég hefði reiknað með öðru. Í gærmorgun sprakk svo blaðran. Ég réðist með offorsi að pappírshaugnum og byrjaði að gramsa. Smátt og smátt kom mynd á það sem ég ætlaði að klára. Um fjögurleitið hringdi Hörður bílameistari. Ég var snöggur til hans því græna þruman þurfti athugunar við eftir stormsveip fimmtudagsins. Að venju var Hörður rólegur og yfirvegaður. Önnur lömin hafði skekkst við átökin. Síðan tóku við fumlaus handtök og brátt var allt í réttum skorðum á ný. Sjálfur hafði ég fiktað í tölvu þessa fína vagns. Hún var nú komin með spænsku í stað ensku. Blikkið sást ekki ef vagninn vagninn var opnaður. Og hann flautaði þegar honum var læst. Ég er þvílíkur fáviti í svona hlutum að ég ætti sennilega heima í heimsmetabókum fyrir fávisku mína og vankunnáttu. Þetta lagfærði töframaðurinn fljótt og vel og lokahnykkurinn var að bæta nokkrum pundum í varadekkið. Og nú er þruman hætt að kvarta og við bæði fjallhress með þetta. Pappírsverkinu lauk í morgun. Sálin hefur tekið fjörkipp. Og næsta mappa verður tekin á beinið í kvöld og í fyrramálið. Engin grið gefin fyrr en fullnaðarsigur vinnst. Þetta veitir líka mikla ánægju þegar upp er staðið. Að auki léttir það lífsbaráttuna. Fyrsti reikningurinn farinn í póst.

Hér er nú glampandi sól í dúnalogni. Frostið 4 stig og spáð heldur hlýnandi. Bollur út um allt og gulu baunirnar í bleyti heima. Saltkjötið og beikonið í ísskápnum. Það verður veisla í Ástjörn 7 annað kvöld. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 02, 2008

 

Kaldur morgunn.

Nú er 17 stiga frost hér og yfir 20 á Hellu og Þingvöllum. Nánast logn og bara notalegt að hafa gluggann opinn til norðurs og finna ferskt loftið leggja inn.Við kisi sváfum vel í hlýjunni innandyra. Eftir hálftíma verður orðið albjart. Hænufetunum fjölgar og hitastigið hækkar aftur á morgun.Ég er að reyna að magna mig upp í pappírsvinnu sem allt of lengi hefur setið á hakanum. Gæti trúað að það hafist.Við erum svona, stórlaxarnir. Dormum í hylnum og látum okkur dreyma svolítið.Stökkvum svo upp fossinn þegar nákvæmlega rétta stundin rennur upp. Trúir eðli okkar og innræti. Einstaka morgunhanar komnir á stjá en annars ró og kyrrð yfir staðnum. Nú er mánuður í að netframtalið opni hjá skattstjórum. Þeir fyrstu þegar farnir að hringja. Strax farnir að hugsa um að gjalda keisaranum það sem honum ber.Það veitir ekki af nú. Yfir 40 milljónir út í vindinn úr bæjarsjóði í janúar.Þeir sem dýrka þetta frosna vatn ættu að borga meira en við hin sem viljum ekki sjá það. Mér finnst það sanngjörn krafa.
Pattstaðan í borginni núna undirstrikar að við þurfum að endurskoða lögin um kosningar til sveitarstjórna. Það var óþarfi hjá stjórnmálafræðingnum, nafna mínum Ólafssyni, að efast um þekkingu sína á þessum lögum. Heimildina til að kjósa nú skortir í lögin. Ekkert myndi þó henta reykvíkingum betur en að hægt væri að boða til kosninga á ný. Nýi meirihlutinn hefur enga burði til að stjórna höfuðborginni.Þessi marghöfða þurs veit ekki sitt rjúkandi ráð. Örfá prósent kjósenda treysta borgarstjóranum og íhaldið margklofið í innbyrðis átökum. Þetta ástand skaðar borgarbúa mjög. Því fyrr sem því linnir, því betra. Margir sjálfstæðismenn sjá þetta og vildu fegnir að forystumennirnir áttuðu sig áður en það verður um seinan.
Frumburðurinn, Berglind Anna, var að hringja og bjóða til veislu.Mér finnst nú ekki langt síðan ég hélt frumburði hennar undir skírn. Nafna mínum og lambakóngi.Hann verður 22ja daginn eftir fertugsafmæli móður sinnar. Tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt.Aðeins rúm 3 ár í að undirritaður fái löggildingu ríkisins á að vera gamalmenni og litla barnið mitt kemst á fertugsaldurinn á árinu. Þetta er samt allt ágætt. Meðan lífsgleðin endist, heilsan er góð og fólki líður vel þá er þetta alltaf jafn skemmtilegt. Við Begga, Ingunn Anna og kannski Hrefna, ætlum í veiðitúr í sumar.Það var ákveðið um jólin og ég hlakka til.
Fjallið góða hefur nú stigið út úr myrkrinu. Það stirnir á það í kuldanum. Ráð að skreppa aðeins út og taka rúnt á grænu þrumunni. Bestu kveðjur frá okkur Raikonen.Nammidagur hjá honum í dag, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online