Thursday, August 30, 2007

 

Annir.

Það má segja að annasamt hafi verið í Sigtúnum í dag. Nóg að starfa á fasteignasölunni og ýmislegt fleira að gerast í húsinu. Í dag rann út frestur til að skila inn athugasemdum vegna skipulagstillögunnar um nýja miðbæinn. Einhverri fáránlegustu dellu sem um getur í sögu þessa bæjar. Þar er allt á hvolfi og út og suður. Gott dæmi um alröng vinnubrögð og óvenjulega harðsvíraða afstöðu meirihluta bæjarstjórnarinnar. Vitringanna 5. Þeir verða nú samt, lögum samkvæmt, að taka afstöðu til athugasemdanna. Mér finnst nú líklegt að til verði staðlað bréf sem þessir 1119 sem skrifuðu undir mótmæli muni fá.Reyndar hurfu sumir listarnir og ég veit um marga sem ekki skrifuðu undir vegna þess að skipulag undirskriftanna var ekki nógu gott. Því miður. Og svo nokkur til annara sem sendu inn nokkurra síðna rökstudd mótmæli. Bæjarstjórinn brosti sínu breiðasta þegar stjórnarmenn afhentu undirskriftalistann. Kannski hefur hún bara brosað að þessum fábjánum sem sífellt hafa verið að múðra. Nú er að bíða og sjá. Það verður allt reynt til að pína þessa dellu í gegn. En andófsmennirnir eru ekki í uppgjafarhug. Það munu vitringarnir verða varir við. En ég býst alls ekki við að það skipti þá nokkru. Allt við það sama í heilabúinu. Svona í samræmi við góða athugasemd Erlings Brynjólfssonar um samþykktina um rennsli og vatnshæð Ölfusár. Vitringunum eru allir vegir færir. Þeir munu einnig stjórna stormsveipum og skuggavarpi vegna hárra bygginga. Koma í veg fyrir jarðskjálfta. Þeir muna eitthvað úr biblíusögunum. Þar segir að Jesús hafi kyrrt vind og sjó, ef ég man rétt. Og hagsmunir íbúanna hér skipta nákvæmlega engu máli. Ég held að allar vitibornar verur sem hafa kynnt sér það sem í tillögunni felst, eigi erfitt með að skilja hvað þessu blessaða fólki gengur til með þessum óheillaverkum. Við skulum reisa gunnfánann og blása í lúðrana.

Við Raikonen báðir heimavið og höfum það ágætt. Einn vinnudagur eftir af ágúst og helgarfrí framundan. Sem er indælt að venju. Við rauðhausar sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 26, 2007

 

Síðsumarblíða.

Nokkuð um liðið frá síðasta pistli.Fallegur sunnudagur að kvöldi kominn.Brá mér aðeins niður á strandbæina sem eru hluti af Árborg. Þeir hafa þó sína sjálfstæðu tilveru og halda einkennum sínum vel. Alltaf notalegt að skreppa niður á ströndina. Herjólfur langt kominn til Þorlákshafnar þegar ég yfirgaf Eyrarbakka. Ég ók síðan gegnum Stokkseyri og upp Gaulverjabæjarveg á Selfoss. Smáskot kom í veiðina í Ölfusá í síðustu viku. Laxarnir orðnir 214 sem er bara viðunandi eftir fremur mögur síðustu ár. Við Raikonen nokkuð sáttir með úrslit Formúlunnar í dag. Nafni hans í 2. sæti og lagaði stöðu sína aðeins. Töluvert eftir af keppninni svo allt getur gerst.
Aftur brauðstrit í fyrramálið að venju. Kimi kúrir í stólnum á móti mér og virðist bara hafa það mjög notalegt. Sem sagt allt með kyrrum kjörum hjá okkur félögum. Við sendum ykkur góðar kveðjur að venju, ykkar Hösmagi.

Saturday, August 18, 2007

 

Vangaveltur.

Stundum getur verið gott að setjast niður og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. T.d. á fallegum laugardagsmorgni. Nokkuð kalt í nótt en nú er sólin komin hátt á loft og hitastigið að hækka.Kimi situr hér á borðinu og malar. Finnst skárra að hafa fóstra sinn heimavið. Þiggur eina og eina stroku og virðist ánægður með það. Það er svo sem lítið í fréttum. Vond ríksstjórn og afleit bæjarstjórn. Nú er nýbúið að eyða 45 milljónum í stríðsleik með könum, norðmönnum og einhverjum fleirum. Þetta eru einhverskonar montlæti. Fretað af byssum útá sjó og miklu bensíni brennt. Svo kemur yfirlýsing frá yfirvöldunum um hvað þetta hafi verið vel heppnað og skilað miklum árangri. Allt er þetta þó yfirmáta fáfengilegt. Skilar engu og væri betur látið ógert og peningarnir notaðir til þarfari og gagnlegri hluta.
Nú er laxveiði í Eystri-Rangá komin yfir 3.000 laxa og 1.745 eru komnir úr Ytri-Rangá. Það er mikið eftir af veiðitímanum svo það stefnir í metár. Þetta er gott dæmi um hverju hafbeitin getur skilað ef vel er að verki staðið. Sannkölluð veisla fyrir þá sem nú eru að veiða í ánum. Ég held að metið í Eystri-Rangá sé 4.222 laxar. Svæðið er reyndar stórt og líklega veitt á nokkuð margar stangir. Þetta yljar gömlum veiðiref um hjartarætur.
Ekki er annað vitað en bæjarstjórnarmeirihlutinn sitji fastur við sinn keip. Stórt auglýsingaskilti komið upp við brúarsporðinn um dásemdirnar sem við eigum í vændum. Það er ekkert minnst á blokkir. Torg garðar og mannlíf heitir það. Þessu fólki er alls varnað. Það hlustar ekki á nein rök og fer sínu fram hvað sem tautar og raular. Meirihluti sem ekki hlustar á íbúana er einfaldlega slæmur. Jafnvel Gunnar Birgisson í Kópavogi lofar að taka tillit til íbúanna sem nú mótmæla þar.
En vitringarnir okkar þurfa ekki að hlusta. Þeirra er mátturinn og þeirra er dýrðin. En það á reyndar mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en þessi ósköp verða að veruleika. Við andófsmenn höfum ekki gefist upp.

Nú er komið blankalogn hér í Ástjörn og við hæfi að renna út fyrir á og kíkja eftir veiðimönnum. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, August 16, 2007

 

Lasarus.

Hösmagi hefur verið í sama stíl undanfarið og þessi þekkta persóna. Var í vinnu í gær og dag fremur af vilja en mætti. Heimsótti doktor í gær og var í ólettuskoðun og myndatöku í morgun. Ákveðinn í að kveða þennan slendraug í kútinn. Held snemma undir sæng mína. Vona að morgundagurinn verði ljúfari og ég endurheimti hreysti mína. Nú er ágætis síðsumartíð. Enn norðangjóla en sólin yljar. Kannski er það líkamsástandið sem veldur því að mig langar ekki til veiða að sinni. Veit þó að vertíðinni er ekki alveg lokið.

Nú er unnið á fullu við að gera við bílskúrinn sem kveikt var í aðfaranótt mánudagsins. Árni sagði mér í gær að þegar hann var vakinn hafi hann verið viss um að kviknaði hafi í öðrum hvorum bílnum. En svo var nú ekki. Steinolíu var hellt á vesturgafl hússins og eldur borinn að. Vonandi vitnast hver þarna var að verki. Illt að hafa brennuvarga á kreiki í bæjarfélaginu.

Nú er verið að safna undirskriftum gegn skipulagstillögunni margumtöluðu. Í jólaguðspjallinu er sagt frá vitringunum þremur. Sem höfðu gull, reykelsi og mirru í fórum sínum. Við hérna í Árborg getum nú aldeilis státað af meiru. Við höfum hér 5 vitringa. Meirihlutann í bæjarstjórninni. Bókstaflega þrungna af mannviti. Þeir voru reyndar 7 í bæjarstjórn síðasta kjörtímabils. Þrír hurfu með vofeiflegum hætti í kosningunum. Í nokkra mánuði svömluðu hinir eftirlifandi í forarpyttinum sem þeir höfðu sjálfir búið til. Ættu að sjálfsögðu að vera þar enn. En það er gamla sagan. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Það var nefnilega stórvitringur sem sá til þeirra og barg þeim. Yfirvitringurinn í núverandi bæjarstjórnarmeirihluta. Skarpvitur, heiðarlegur og ábyrgur. Algjör sérfræðingur í ábyrgri stjórnsýslu. Að eigin mati að minnsta kosti.Kannski eru þeir heldur ekki miklu fleiri. Hann mun að sjálfsögðu fá uppskeru í samræmi við sáninguna. Ég lýsi enn og aftur ábyrgð á hendur þessum skemmdarvargi. Ef þessi skipulagstillaga verður að veruleika í núverandi mynd sinni er búið að eyðileggja miðbæ Selfoss í eitt skipti fyrir öll. Við andófsmenn höfum ekkert á móti því að byggja upp nýjan miðbæ. Við viljum bara gera það á annan og miklu betri hátt. Ég hvet hvern einasta íbúa hér til að kynna sér málið ofan í kjölinn. Umferðarkaosið eitt ætti að duga. Fyrir utan allt hitt. Meira að segja er haft eftir arkitektum sem tóku þátt í samkeppni um nýja skipulagið að byggingamagnið sé helmingi of mikið. Það eru margir sem sífellt eru að reisa skýjaborgir. Við þurfum þær ekki í miðbæ Selfoss.



Kimi var hress þegar ég birtist eftir vinnu. Miklu hressari en fóstri hans. Við sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, August 14, 2007

 

Vatnaskil.

Gamall veiðimaður skilaði sér úr Veiðivötnum í gær. Sáttur sem áður þó einhver andskotans pest hefði tekið sér bólfestu í honum. Búinn að sofa nánast látlaust í heilan sólarhring og er mun skárri. Hugurinn stefnir á að mæta til starfa í fyrramálið. Raikonen varla vikið frá mér eitt augnablik síðan ég kom heim. Ég veiddi svona vel í soðið. Snjóölduvatnið gaf þessa fiska en ég held helst að þeir stóru í Ónefndavatni hafi flutt búferlum á annan stað í vatninu. Um hádegisbilið í gær var sá gamli orðinn svo slappur að hann sofnaði með veiðistöngina í fanginu og svaf í klukkutíma. Og fiskarnir létu agnið alveg í friði. Ég tók hatt minn og staf og yfirgaf Ónefndavatn í síðasta sinn á árinu. Það verður kannað nánar á næsta ári. Kastaði kveðju á Bryndísi og Rúnar veiðiverði og hélt til byggða. Og græna þruman skilaði mér heim. Ég ók eiginlega í sparakstri alla leiðina. Og þegar ég kom á Selfoss sýndi tölvan bensíneyðslu uppá 12,4 lítra. Það er nú ekki há tala ef miðað er við að bifreiðin er 2,2 tonn að þyngd og hestöflin 330. Ég græddi svolítið á staðarorkunni. Verulegt hæðarfall úr veiðivötnum á Selfoss. Himbiminn var á Ónefndavatni. Kallaði til mín og ég heilsaði þessum tígulega fugli. Hann var greinilega á veiðum eins og ég. Munurinn á okkur var sá ég ég var bara að leika mér en hann í sinni lífsbaráttu. Hann hóf sig svo til flugs. Sennilega í leit að gjöfulli miðum.
Svo sá ég í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld að kviknað hafði í bílskúrnum hjá Árna Vald. Mér brá illa við. Og enn verr vegna þess að sterkur grunur er um íkveikju. Þetta er að sjálfsögðu illskiljanlegt. Og vonandi tengist þetta ekki baráttu Árna gegn margnefndri skipulagstillögu um miðbæinn. En maður hugsar sitt. Og við skulum ekki gleyma því að hér er ekki bara um peningaleg verðmæti að ræða. Líf fólks gat verið í stórhættu. Ég vona svo sannarlega að málið upplýsist. Það er jafnmikilvægt fyrir anndstæðinga skipulagstillögunnar og fylgismenn hennar. Ég sendi vini mínum Árna bestu kveðjur og veit að hann lætur þetta ekki á sig fá. Mun áfram standa vígreifur í fylkingarbrjósti gegn ofbeldinu sem á að þvinga fram í nágrenni við heimili hans. Nóg um það að sinni.
Ég vona að ég vinni bug á þessum pestarsýkli af eigin rammleik. Fæ mér eina parkódín forte fyrir svefninn. Það leiðinlegasta af öllu leiðinlegu er að liggja veikur í bæli sínu. Og bjartsýnum mönnum verður oftar að ósk sinni en hinum. Við Kimi rauðskott sendum ykkur öllum bestu kveðjur úr norðangjólunni, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 12, 2007

 

Draumalandið......

bíður eftir mér. Ég fékk ekki veiðileyfi í Ölfusá um helgina. Við græna þruman erum á leið í Veiðivötn í dag. Þetta er afmælisdagur móður minnar sælu. Reyndist oft drjúgur í gamla daga ef á átti veiðileyfi. Það sama gilti líka um afmælisdag föður míns, 27 júní. Fyrir nákvæmlega 3 árum kom ég í Veiðivötn eftir áralangt hlé. Þá var hitinn 26 gráður í forsælunni. Skáldið mitt var með mér og við veiddum vel þrátt fyrir þessa arfablíðu. Þetta var í fyrsta sinn sem við beittum rækju í Veiðivötnum. Hún hefur jafnan verið með í för síðan. Ég gisti innfrá næstu nótt og ætla að veiða til kl. 15 á morgun. Ónefndavatn verður í fyrirrúmi. Ef það gefur ekki er Snjóölduvatnið næst á eftir. Og bjartsýnin er til staðar sem fyrr. Sé stangartoppinn nú þegar beygjast hressilega. Það er ljúft að vera þarna í góðum félagsskap. En það getur líka verið gott að vera einn. Þessi sólarhringur innfrá verður fljótur að líða. Allt að verða klárt til farar. Smyr mér brauð í nesti og ríf svo í mig einn kjúkling eins og villidýr út í haga. Kaffi í fyrramálið svo þetta verður allt hið besta. Nú er hann í norðanáttinni og hér komst hitinn í rúm 19 stig í gær. Ég leit við í veiðihúsinu í morgun og nú hafa veiðst nákvæmlega 200 laxar úr Ölfusá í sumar. Það er nú bara nokkuð gott.
Raikonen verður einn heima þennan sólarhring. Bæti vel í skálar hans. Rækjur, þurrmatur og vatn að drekka. Hann gætir hússins en verður að sofa einn í nótt. Það verða örugglega fagnaðarfundir seinnipartinn á morgun. Eins og áður verður gott að koma heim. Ég ætla að leggja í hann svona um ellefuleitið. Held mig á löglegum hraða eins og stálheiðarlegir borgarar gera. Dimman vinnur á smátt og smátt en það er samt heilmikið af dásemdum sumarsins eftir. Hösmagi hlakkar verulega til dagsins. Við Kimi sendum öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, August 09, 2007

 

Vandamál......

eru til að leysa þau. Ég skrapp til Reykjavíkur með Herði í gær. Hörður er minn yfirbílfræðingur og allsherjar tutor í öllu er varðar bíla. Þetta er sá hinn sami og opnaði Grána forðum við Tangavatn. Og án kúbeins eins löggan hafði fullyrt að nota þyrfti.Lancerinn hafði verið með kúnstir. Stoppaði flesta morgna eftir að hafa gengið nokkra kílómetra. Þá var að bíða dálitla stund og lofa honum að hvíla sig. Hörður skipti um bensínsíuna um daginn. En Lanci hélt kúnstum sínum áfram. Hörður taldi böndin berast að kveikjunni. Við fengum notaða kveikju hjá Vöku í gær. Þegar hún var komin í neitaði sá blái algjörlega að fara í gang. Og það kom enginn neisti frá þessari nýju gömlu kveikju. En Hörður er ekki karakter sem gefst upp fyrir smámunum. Gerðist þögull en heilabúið hélt greinilega áfram að starfa. Ég sat eins og illa gerður hlutur og svældi vindla. Hugsaði með mér að þetta væri jafnónýtt drasl og það sem fyrir var. Kveikjan var tekin úr aftur. Galdrastafurinn á lofti og kveikjan sett í á ný. Eftir smástund malaði Lancerinn. Svona eins og Raikonen nýkominn inn úr hnusverki sínu utandyra. Hörður bætti sem sagt einu priki við. Fyrir margt löngu bilaði miðstöðin í Volvoinum mínum. Það var illt verk og tafsamt að skipta um miðstöð í þeim vagni. Talið meira en heilt dagsverk á verkstæði. Hörður stytti sér leið, tók mælaborðið meira og minna úr í heilu lagi og lauk verkinu á 3 tímum. Það er andskoti gott að þekkja svona mann. Ég fór í morgunrúnt á Lancernum og hann var í banastuði. Þurfti allt að því að halda aftur af honum eins og ólmum gæðingi. Ég hugsa að ég sé skárri í lögfræðinni en í bílaviðgerðum. Líklega eðlilegt miðað við námsferil. Hösmagi er andskoti hress í morgunsárið. Enn þungbúið og greinilega búið að rigna töluvert í nótt. Hitinn kominn í tæp 13 stig og fimmtudagur hefur heilsað. Herconinn orðinn óþolinmóður í bílskúrnum. Hann á eftir að svigna vel á laugardaginn.

Nú verður ágætt að halla sér í hálftíma. Brauðstrit framundan en helgin nálgast óðfluga. Vonandi með nýjum skemmtilegum ævintýrum. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 08, 2007

 

Hversdagsleiki.

Gúrkutíðin er í algleymingi. Þokkalegur vinnudagur í gær eftir nokkra frídaga í röð. Nokkuð framundan í dag, Þorlákshöfn kl. 11 og Bláskógabyggð eftir hádegi. Ætla svo til höfðuðborgarinnar eftir vinnu að sækja nýja kveikju í Lancerinn. Ég er svo staðráðinn í að halda til fiskveiða á laugardag. Það er spáð ekta blíðu og annaðhvort læt ég duga að kíkja á elfuna góðu eða set í fluggírinn og skýst inní Veiðivötn. Einhvernveginn togar það nú meira í mig. Það er enn reytingsveiði í Ölfusá og nú eru laxarnir orðnir 190 talsins. Nokkrir góðir sjóbirtingar að auki svo við veiðimenn getum vel við unað. Ég er þó, eins og ég sagði síðast, sífellt við Ónefndavatn. Það er hrein lífsnautn að sjá stangarendann fara skyndilega á hreyfingu. Hvað er á enda línunnar? Hvað er hann þungur? Skyldi ég ná honum í land? Og nú er ég ekki smeykur við Snjóöldukvíslina lengur. Dálitið vatn í henni en botninn virðist öruggur. Það sem mikilvægast er þegar ekið er yfir kvíslarnar er að fara rólega. Þá er minni hætta á að þú fáir vatnið inná mótorinn. Líklega er áræðið orðið minna með aldrinum. Kannski ágætt því þá passarðu þig betur. Ég kallaði nú ekki allt ömmu mína í þessum efnum í gamla daga. En lukkan var ætíð með mér og ég slapp fyrir horn. Einu sinni kom ég að fljóti inná Sprengisandsleið seint að kvöldi. Þetta var Fjórðungskvíslin sem hafði vaxið skuggalega á sólbjörtum degi. Ég sá för út í ána og uppúr henni hinumegin. Setti í fyrsta gír í lága drifinu og ók svo útí. Uppúr komst ég hinumegin en ljósin á jeppanum voru komin á kaf og vatnið flæddi inn með hurðunum. Þetta myndi ég ekki reyna nú. Kaldi karlinn sem stjórnaði fyrir meira en 40 árum er nú búinn að missa kjarkinn. Það er bara allt í fínasta lagi.
Það er aðgerðalítið veðrið hér nú. Hitinn í 11 gráðum og þungbúið. Ósköp væri nú miklu skemmtilegra að halda til veiða en í vinnuna. Það er það versta við starfið hvað það truflar mann við þessa unaðslegu sumariðju. En ég verð víst að sjá fyrir okkur fóstursyninum. Fyrr ætla ég að svelta sjálfan mig en hann. Hann er svo sem ekki þungur í rekstri. Reykir ekki og smakkar ekki áfengi. Sem sagt regluketti hið mesta. Við sendum ykkur mið- og síðsumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, August 06, 2007

 

Indæla.

Þetta er eiginlega nafnið á veðrinu núna. Sólin skín og blankalogn. Svona ágústdagur eins og þeir verða bestir. Kötturinn kominn í jafnvægi á ný og hnusar nú hér utandyra. Dagurinn í gær leið í algjöru letilífi. Nennti ekki einu sinni í bíltúr í rokinu. Ég svaf eiginlega lotusvefni í gær. Nokkrar lotur. Horfði á meirihlutann af formúlunni sem var nú lítið spennandi. Yfirleitt leiðinleg keppni á brautum þar sem framúrakstur er nánast útilokaður. Kimi Raikonen náði 2. sætinu á fíatinum sem komst nú í mark fyrir eitthvert kraftaverk. Nú hefur Bensinn ekkert bilað á þessu keppnistímabili svo mér finnst nú ekki spurning hver væri efstur að stigum ef Kimi hefði hann undir sér. Nú eru einungis 6 mót eftir og 20 stiga munur. En það er allt hægt ef lukkan er nálæg. Eldri sonurinn er aftur á leið í Veiðivötn í dag. Með nokkra skrautlega gaura með sér. Vona að þeir nái nú aðeins að bleyta færið, blesssaðir. Ég er ákveðinn í að finna dag í ágúst þar sem tryggt er að ég fái gott veður. Brenni inneftir á mettíma snemma morguns og kem svo bara heim að kvöldi. Ég er eiginlega sífellt staddur við Ónefndavatn horfandi á stangarendann. Sem skyndilega fer nánast alveg í vinkil. Sá stóri búinn að renna beitunni ofaní maga. Það mun gerast. Ekki nokkur vafi á því. A.m.k. trúir Hösmagi því og það dugar oftast. Þó er það svo að ég er ákaflega sáttur við veiðina í sumar. Bæði í Ölfusá og í nýliðnum Veiðivatnatúr. Fékk þar 5 fiska og meðalþyngdin um 3,5 pund. Við fuglarnir 5 munum svo halda á sömu mið að ári. Ég hafði ekki komið í Snjóölduvatn í meira en 20 ár. Þar kláruðum við Oddur málari koníakspelann 1983. Í hávaðaroki og koníakið rann ákaflega ljúflega niður. Því miður urðu ferðir okkar saman ekki margar. Oddur kynnti mig fyrir töfrum Veiðivatnasvæðisins og þegar ég fór þangað fyrst með honum hafði hann veitt þar í 27 sumur. Sumar ferðir hans þangað voru reyndar skrautlegar. Hann blótaði stundum Bakkus og sagði mér sögur af svaðilförum sínum. M.a. þegar hann lenti á sundi í Skyggnisvatni en komst í land með óútskýranlegum hætti. Ég hugsa hlýlega til gamla mannsins. Hann lést af veikindum sínum árið 1989, 74 ára gamall.

Ég ætla nú að fara og skola Veiðivatnarykið af grænu þrumunni. Þessum snilldarvagni sem ætið er eiganda sínum til yndis. Ég hélt að bensínið dygði varla niður að hálendismiðstöðinni. Þar er dropinn dýrari en annarsstaðar á landinu. En ég komst alla leið á Selfoss eftir tæplega 400 km akstur. Ég hefði m.a.s. komist til Reykjavíkur. Afbragðs ferðavagn og veiðibifreið.

Að lokum legg ég til að bæjarstjórnarmeirihlutinn segi af sér. Þá verður þó hægt að segja að hann hafi einu sinni hagað sér skynsamlega. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 05, 2007

 

Heimkoma.

Allir komumst við heilir heim, feðgar og langfeðgar. Mér varð að ósk minni að Veiðivatnasvæðið var friðað fyrir óveðri veiðidagana okkar í þessari paradís. Gerðum góða ferð og veiddum ágæta fiska. Og það var ljúft fyrir Hösmaga gamla að hafa 2 afastráka með, auk sonanna tveggja. Himbriminn beið á Ónefndavatni. Kallaði til mín og ég veifaði honum á móti. Við vorum í skála við endann á Langavatni. Í gærmorgun drakk ég kaffið mitt í dyrunum. Reykingar bannaðar innandyra. Það voru 3 Himbrimar á vatninu. Fljótlega hóf einn sig til flugs og flaug yfir mig í svona 3ja metra fjarlægð. Held hann hafi brosað til mín í leiðinni. Hann hefur sennilega verið á leið til kærustunnar á stóra Fossvatni. Við gerðum víðreist milli vatna í þessari ferð. Veiddum i Rauða gígnum í Hraunvötnum. Litla Skálavatnsgíg, Ónýta og Ónefndavatni og brugðum okkur í Snjóölduvatn. Þar setti skáldið í stóran urriða. Ég kom að í því sem fiskurinn var í flæðarmálinu. Þar losnaði úr urriðanum. Ég kom löppunum fyrir hann og skáldið stökk á hann eins og eldflaug. Ég sá fiskinn fljúga í loftinu eina 15-20 metra uppá land. Þar var hann rotaður og reyndist stærsti fiskur veiðitúrsins, 2,7 kg að þyngd. Líklega skrepp ég einn skottúr inneftir seinna í mánuðinum. Það er eiginlega áskorun frá stóra urriðanum í Ónefndavatni. Þessu vatni sem stundum hefur komið manni svo skemmtilega á óvart. Það státar nú af að hafa gefið stærsta urriðann af Veiðivatnasvæðinu í sumar. Hann var 5,8 kg að þyngd. Að venju yfirgáfum við Veiðivötnin sáttir. Það er alltaf indælt að koma heim. Raikonen hafði yfirgefið íbúðina og lítið orðið vart við kauða. Ég lagði mig nú fljótlega eftir að skáldið hélt með móður sinni til Reykjavíkur. Vaknaði um kvöldmatarleitið og kláraði að taka dótið úr grænu þrumunni. Hélt að Ölfusá og kíkti í veiðibókina. 177 laxar á landi. Það skásta í mörg ár. Endurnýjaði bensínbirgðirnar hjá olíumafíunni og hélt heimleiðis. Enginn köttur. Ég vaknaði snemma að venju og kveikti undir kaffinu. Klukkan 5 heyrði ég mjálm. Og viti menn. Rauðhaus og rauðskotti vælandi utan við gluggann. Þegar hann hafði fullvissað sig um að þetta væri fóstri mættur heim á ný kom hann inn um dyrnar. Beint í rækjurnar. Afganginn af lúxusrækjunni sem hafði verið beita í Veiðivötnum. Sefur nú úr sér þreytuna eftir langt útstáelsi.
Það er ósköp notalegt að vera í fríi í dag og sjá fram á annan frídag á morgun. Síðan byrjar brauðstritið á þriðjudag. Ágætt út af fyrir sig. Hösmagi er sem sagt ákaflega sáttur við tilveruna. Gott veiðisumar, góð heilsa og rólyndi hugans ætíð til staðar. Það er helst að rót komi á hugann þegar hugsað er til meirihluta bæjarstjórnarinnar. Ég legg til að limir hans verði sendir í geðrannsókn ekki seinna en strax. Ég hugsa reyndar að geðlæknar og sálfræðingar stæðu gersamlega á gati ef þeir fengju þetta lið til athugunar.

Norðangjóla og nokkuð svalt. Gott að skríða aftur undir dúnsængina. Og ekki verra að Kimi sefur hinumegin í rúminu. Við sendum ykkur bestu kveðjur á þessum vindasama sunnudegi. Ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 01, 2007

 

Veðrabrigði.

Það er smákæla og sól komin hátt á loft. Hann mun að líkindum hanga þurr í dag en svo spáir hann hvassri austanátt og mígandi rigningu á morgun. Það er grábölvað að veiða í roki. Kannski verður Veiðivatnasvæðið friðað fyrir óveðri á morgun. En það er nú ekki nýtt að það rigni um verslunarmannahelgina. Þessa helgi sem verslunarmenn vinna meira en aðrir. En bjartsýnn maður eins og undirritaður vonar það besta. Teningarnir verða meðferðis svona til öryggis. Allt að verða klárt til brottfarar. Það þarf að huga að mörgu þegar farið er til fjalla að veiða. Skáldið kemur úr bænum með móður sinni, Siggi kemur svo beint á Landróver afa síns sæla og Maggi og Eyþór koma frá Birtingaholti. Þrír jeppar undir 5 gaura ættu að duga. Vonandi verður fiskurinn svangur þegar við komum inneftir. Grimmur og gírugur.
Ég sá í gær að bæjarfulltrúi íhaldsins er farinn að vitna í blogg Hösmaga. Það er að sjálfsögðu ágætt. Þessi fráleita skipulagstillaga sem meirihlutinn samþykkti varðar hvern einasta íbúa Árborgar hvar í flokki sem hann stendur. Það ætti að vera aðalsmerki góðra bæjarstjórna að sameinast um að framkvæma vilja íbúanna. En núverandi meirihluti er ekki aldeilis á því. Hann felldi tillögu um að við fengjum að kjósa um þessa tillögu. Það er óumdeilanleg staðreynd. Það hefur nú aldrei þótt par fínt að vera talinn laumukommi. En fulltrúi VG virðist enn verri. Laumuframmari. Er hægt að komast neðar? Ef kosið yrði nú fengi VG sennilega 2 atkvæði. Yfirfábjánans og frúarinnar. Varla mikið meira en það. Enn og aftur lýsi ég algjöru vantrausti á þennan bæjarfulltrúa. Hann skrifaði grein í síðustu Dagskrá sem er þvílík þvæla að maður veltir því fyrir sér hvort geimvera hafi tekið sér bólfestu í honum. Og mér er óskiljanlegt hvers vegna þessi maður er ekki rekinn úr VG. Sagt er að fólk uppskeri eins og það sáir. Ég hef nú ætíð sagt að önnur lögmál gildi í bæjarstjórnarkosningum enn í landsmálapólitíkinni. Og ég hef fylgt stefnu VG í umhverfis-, utanríkis- og velferðarmálum. En úr því flokkurinn getur notast við núverandi bæjarfulltrúa sinn í Árborg hugsa ég minn gang. Svo mun örugglega um fleiri Árborgarbúa sem kusu VG síðast. Verði þessi tillaga að veruleika mun ég ekki kjósa VG framar. Það yrði saga til næsta bæjar ef ég neyddist til að kjósa íhaldið á gamals aldri. Nóg um þessi firn í bili.

Rauðhausarnir í Ástjörn 7 senda ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online