Thursday, October 22, 2009

 

Stórglæponinn Siggi Sveins.

Ég varð hugsi í gærkvöldi þegar ég sá nýja kröfu í einkabankanum. Sekt uppá 10.000 krónur. Mér er gefinn kostur á 25% afslætti greiði ég kröfuna fyrir 4. nóvember n.k.Engin skýring fylgdi og ég taldi mig alsaklausan af öllum glæpum.Ég fór í bæinn í morgun að hitta lungnadoktor. Þegar ég kom austur aftur renndi ég við á lögreglustöðinni ef húsráðendur kynnu að geta upplýst mig nánar um þetta dularfulla mál. Þetta lá alveg ljóst fyrir. Á mánudaginn var, þann 19. kl. 7.50, hafði myndavél náð að festa grænu þrumuna á filmu. Mældur ökuhraði 99 km á klukkustund. Vikmörk 3 km. Það var sem sé sannað að þessari bifreið hafði verið ekið á 96 km hraða við Kirkjuferju í Ölfusi á tilgreindum tíma. En ökumaðurinn hafði ekki náðst á filmuna. Ef ég gæti bent á annan sökudólg en sjálfan mig þá skyldi ég samkvæmt 58. gr. umferðarlaga upplýsa viðkomandi yfirvöld um hver það væri. Eins og þið vitið er ég ekkert nema heiðarleikinn. Alltaf eins og Þórbergur þegar hann gerði sig heiðarlegan í andlitinu. Samt datt mér í hug að segja löggunni að Steingrímur J. hefði verið hér á ferð á gömlu Volvodruslunni. Hún hefði bilað og sem fyrrum meðlimur í flokknum hefði ég aumkvast yfir hann og skotið þrumunni undir hann. En samviska mín mótmælti. Ég var akkúrat þarna á þessum tíma á leið í réttarhaldið í Hafnarfirði.Glæpur minn var reyndar ekki framinn af ásetningi. Það er auðséð að lítið er í ríkiskassanum. Dóms- og mannréttindaráðherra alltaf í fjárþröng. Að ég tali nú ekki um hinn skattglaða fjármálaráðherra. Það þarf að beita öllum hugsanlegum ráðum til að ná í aura í kassann. Mér finnst þetta umferðalagabrot voðalega lítilsiglt.Bókstaflega smámunir einir. Alveg yfirgengilega ómerkilegt.Finn varla snefil af iðrun í sál minni. Maður má ekki orðið keyra á rúmlega 90 við bestu skilyrði. Nánast engin umferð þarna svo snemma dags. En náð stjórnvalda bjargar heilmiklu. Hvorki meira né minna en 25% afsláttur. Ég ætla að greiða sekt mína innan tilskilins frests. Steingrímur getur notað aurana til að greiða einum skilanefndarmanni laun í korter. Sannarlega mun ég líka fagna því þegar fjármálaráðherrann kemur með tillögu að sami afsláttur verði einnig á íbúðarláninu mínu. Hann lýsti því líka yfir fyrir kosningar að hann vildi afnema verðtrygginguna á lánunum.Menn eiga að standa við orð sín eða hvað? Þá verður nú aldeilis kátt á hjalla hjá okkur Rækjunen. Og framvegis mun ég fara enn gætilegar fram hjá Kirkjuferju.Og enn heiðarlegri í andlitinu en nokkru sinni fyrr.

Það er rosaflott veður hér. Sólarglenna og Kári hefur afar hægt um sig. Glæpur minn truflar mig ekki að ráði og ég verð örugglega fljótur að sofna í kvöld. Kannski verð ég bara pínulítið stoltur yfir að geta lagt ríkissjóði lið í kreppunni. Lítið lóð á vogarskál réttlætisins. Kærar kveðjur frá brotamanni og ketti hans, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 20, 2009

 

Hræsni íhalds og framsóknar.

Nú er líklegt að icesave málið sé að taka enda. Í bili a.m.k. Kannski ekki alveg útséð um afstöðu allra í VG. Þetta eru að sjálfsögðu bölvuð þrælabönd fyrir íslendinga. Ömurlegt fyrir Steingrím að standa í þessu. Hann er þó saklaus af rót þessa vanda. Þar er sök íhaldsins nær algjör. Davíð afhenti vinum sínum, flokksbundnum sjálfstæðismönnum, Landsbankann. Icesave skuldin er skilgetið afkvæmi þeirra snillinga. Þetta mál var lagað nokkuð til í sumar og og að lokum var ríkisábyrgðin samþykkt með ákveðnum fyrirvörum. Nú segir íhaldið titrandi röddu að þessi lög séu heilög og það séu þjóðarsvik að hreyfa við þeim. Ekki einn einasti íhaldsmaður samþykkti þessi lög í haust. Enginn hinna sjórnarandstæðinganna heldur.Samt ætlar allt af göflunum að ganga. Hin raunverulega ástæða djöfulgangsins er að sjálfsögðu ekki hagsmunir þjóðarinnar. Nú rennur bara ljósið upp fyrir íhaldi og framsókn. Kjötkatlarnir eru fjær en þeir þóttust vissir um. Nú er ég svo sem ekki mjög ánægður með þessa ríkisstjórn. Því fer víðs fjarri. En ég syrgi heldur ekki að von íhaldsins um að hún væri að springa í frumeindir sínar rætist ekki. Sporin hræða.Það voru Geir, Árni Matt og fleiri íhaldsmenn sem lofuðu greiðslu á þessari skuld í fyrrahaust og ISG spilaði undir á fiðlu. Þeir eru fljótir að gleyma íhaldsdrengirnir eins og jafnan áður. Eðlið óbreytt. Eiginhagsmunagæsla, svik og prettir. Strax komnir aftur í skotgrafir sínar og sýndarmennskan í algleymingi. Þegar allt fer úrskeiðis af þeirra völdum er andstæðingunum kennt um og þeir tala um þjóðníðinga og skemmdarstarfsemi. Skyldi mín kynslóð eiga eftir að upplifa einhverja siðbót í pólitíkinni? Ég efast um það. Það er líka varla von til þess þar sem svo mörg okkar eru í násauðarhirð íhalds og framsóknar. Talsvert af þeim í SF líka.

Ágæt ferð í Hafnarfjörð í gær. Hösmagi langflottastur í réttarsalnum. Talfærin svínvirkuðu eins og svo oft áður ef tala þarf fyrir réttlætinu. Kimi varð yfirsig glaður við heimkomu mína. Fjarvistir okkar urðu líka einir 6-8 tímar. Flott veður og græna þruman þrælviljug að venju. Enn snjólaust og það gleður sálina.Fyrsti vetrardagur á laugardaginn. Hann mun líða eins og hinir þó langur verði og mörgum erfiður. En Hösmagi gamli heldur bjartsýninni enn. Rólyndið á sínum stað. Hvorttveggja mikils virði. Við vinirnir sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 13, 2009

 

Góðviðri.

Það voru 11 gráður hér um miðnætti í gærkvöldi. Mér finnst þetta ofurljúft. Tveir litlir skaflar eftir í fjallinu mínu góða. Raikonen kann sér ekki læti yfir að vorið sé komið aftur.Heldur sig utandyra og nærist á blíðunni. Er á meðan er og spáin er ágæt fyrir næstu daga. Sennilega þarf ég ekki norður á föstudaginn því héraðsdómarinn býðst til að rétta í Reykjavík á mánudaginn. Það sparar bæði tíma og bensín en það hefði líka verið skemmtilegt að skreppa norður. Nú nálgast lokafresturinn vegna icesave reikninganna. Eins og ég hef áður sagt hér á blogginu finnst mér vænt um minn gamla læriföður, Sigurð Líndal. Ég varð þessvegna mjög ánægður með að heyra álit hans á þessu máli á visir.is í morgun. Ég er hreinlega alveg hættur að botna í Jóhönnu og Steingrími. Einkum Steingrími. Þó hann hafi samþykkt umsóknina að ESB geri ég nú ekki ráð fyrir að það hafi verið honum auðvelt. Jóhanna er að sjálfsögðu reiðubúinn að fórna miklu fyrir aðgöngumiða að ESB. Það hefur lengst af verið önnur af tveimur hugsjónum SF að koma okkur íslendingum inní þann félagsskap. Og ráðherrastóll fjármálaráðherrans er mjúkur. Hann langar alls ekki að standa uppúr honum. Það má eiginlega skipta VG í 2 hluta. Annarsvegar er Steingrímur með hirð tryggra sauða sinna, þær Álfheiði, Svandísi og Katrínu og svo þá Árna Þór og Björn Val. Tryggilega í tjóðri formannsins.Þuríður Bachman, Jón Bjarnason og Bjarkey virðast lausbeisluð. Restin stendur í lappirnar, þau Atli, Liljurnar báðar, Ögmundur og Ásmundur Dalabóndi. Mitt fólk í VG. Það er auðvitað mikilvægt að fólk sé samstíga í ríkisstjórn. En göngulagið má ekki stjórnast af ofbeldi og skoðanakúgun. Það er í rauninni kraftaverk að stjórnin dragi enn andann undir einræðistilburðum forsætisráðherrans. Jafnvel Össur virðist sjá þetta þó hann, aldrei þessu vant, segi frekar fátt. Þó ég elski nú framsóknarmenn svona heldur lítið finnst mér ágætt hjá Sigmundi að tala við norðmenn. Ég elska þá ekki heldur mjög heitt. Það er algjör óþarfi að hlýða gömlu nýlendukúgurunum, bretum og hollendingum möglunarlaust. Þeir kippa líka í réttu spottana hjá AGS. Þessa handrukkunarstofnun í icesave málinu. Ég bíð eins og aðrir eftir framvindunni næstu daga. Ég held nú að það verði enginn dómsdagur á næstunni. Þetta er samt vont og það getur versnað.
Kimi mættur og búinn að kroppa svolítið í sig. Liggur nú og lygnir glyrnum sínum aftur með framlöpp undir kinn. Lífið heldur áfram. Er það ekki bara ljúft og gott þrátt fyrir allt? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 07, 2009

 

Afreksdraumar.

Í fyrsta lagi hamingjuóskir til skáldsins í Edinborg. Man einkar vel eftir 7. október 1978 þegar Ingvar setti allar innihurðirnar í Hagann. Vonandi á litla fjölskyldan góðan dag.
Aðfaranótt mánudagsins síðasta dreymdi mig afar skemmtilegan draum. Ég hafði tekið uppá því á gamals aldri að rifja upp kynni mín af frjálsum íþróttum. Ég reyndi mig í þrístökki án atrennu og í 100m hlaupi. Ég var í skýjunum yfir góðum árangri. Ég hljóp hundrað metrana á 11,3 sekúndum. Mig minnir að persónulega metið mitt frá unglingsárunum sé 11,4. Ég var sem sé búinn að bæta mig aðeins. Á þeim árum var nú bara gamla góða skeiðklukkan notuð og mælingin var uppá 1/10 úr sekúndu. Svo var ég líka frábær í þrístökkinu. Ég dúndraði sjálfum mér 9,32 metra. Það þykir nú bara nokkuð gott hjá ungum mönnum enn í dag. Í apríl 1962 setti ég íslenkt drengjamet í þessari grein, 9,46 metra. Mér hefur því farið örlítið aftur. Í draumnum var ég svo yfir mig glaður og montinn af afrekum mínum að ég var strax kominn hálfa leið í heimsmetabókina. Fyrir á að giska 10 árum reyndi ég mig í langstökki án atrennu inní Veiðivötnum. Það var alveg ferlegt. Lappirnar virtust vera úr blýi. Held ég hafi varla náð heilum metra. Hræðilegt áfall eftir að hafa margoft stokkið yfir 3 metra þegar ég var ungur og efnilegur. En svona leikur tíminn góða drengi. Draumurinn yljar mér samt og ég á fjölda góðra minninga frá því ég keppti í frjálsum fyrir tæpri hálfri öld.
Það er gjóla og hitinn við eina gráðu.Sætti mig vel við það meðan ég er laus við snjó. Ég er nýkominn úr héraðsdómi og þarf þangað aftur klukkan tvö. Ég neyddist til að fara úr gallabuxunum og rúllukragapeysunni. Virðing dómsins hefði beðið hnekki ef bindið hefði ekki verið á skyrtunni. Svona er þetta bara. Lögmennskan er svona voðalega vandmeðfarin og merkileg.
Kimi var aðeins að bregða sér útí gjósturinn. Sólskinið bætir hann aðeins upp. Svo er bara að koma sér inn aftur, nasla smávegis í sig og dorma áfram. Ósköp áhyggjulítð líf. Ég hlakka til að fara á hlerann í kvöld. Kannski set ég heimsmet í stangarstökki í nótt. Hver veit? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 06, 2009

 

Stefnuræða Jóku.

Ég fylgdist með sjónvarpinu frá Alþingi í gærkvöldi. Eins og væntanlega margir aðrir.Kerlingarálftin í stóli forsætisráðherra er auðvitað í vanda stödd. Komst frá ræðunni svona nokkurnveginn skammlaust miðað við aðstæður.Katrín var svona la la en Svandís hrokafull og leiðinleg. Bjarni Ben einna skástur af íhaldsliðinu en svona almennt séð voru ræðumenn þess alveg vonlausir. Þorkúlugerður langt fjarri raunveruleikanum og Ragnheiður Elín með sama skætinginn og vant er. Svo einkennilegt sem það kann að virðast fannst mér formaður framsóknarflokksins flytja langbestu ræðu kvöldsins. Siv var ágæt á milli okkar Magga á sjóstönginni í sumar en hún hefur lítið skánað í pólitíkinni. Það virðist fátt um fína drætti fyrir okkur íslendinga í þessari afleitu stöðu. Það sjá flestir nema Steingrímur og Jóhanna að þessi ríkisstjórn er í raun fallin nú þegar. Það er auðvitað slæmt útaf fyrir sig og fátt til ráða. Það tíðkast mjög hjá samfylkingarbloggurum á Moggablogginu að tala um hrunflokkana, íhald og framsókn. En þeir gleyma allir þætti SF í hruninu. Formaður þeirra, ISG, bakaði pönnukökur hjá SÞ meðan allt var á leiðinni til andskotans hér heima. Mér kemur Neró og fiðluleikur hans í hug. Viðskiptaráðherrann var þó miklu verri. Gjörsamlega úti á þekju og gerði nákvæmlega ekkert af því sem honum bar að gera. Þetta er þó aðeins hluti fortíðar sem enginn fær breytt. Ábyrgð SF er þó mikil og ekki trúverðugt þegar Jóka og félagar tala um hrunflokkana 2. Steingrímur er væntanlega á heimleið. Það verður allt reynt til að halda stjórninni saman. Sumum finnst vænna um ráðherrastóla en öðrum. Ég ber virðingu fyrir fólki sem ekki vill selja sannfæringu sína fyrir völd og vegtyllur. Og mér finnst ósanngjarnt að halda því fram að slíkt fólk haldi núverandi ríkisstjórn í gíslingu. Þó ég hafi fagnað óförum íhaldsins í síðustu kosningum var í mér beygur vegna samstarfs SF og VG. Þessir flokkar hafa verið á öndverðum meiði í veigamiklum málum. Hluti af VG hefur beygt sig í duftið fyrir SF og virðist tilbúinn að fórna miklu fyrir þetta samstarf. Aðrir andæfa og eru ekki litnir réttu auga af formanninum fyrir vikið. Málamiðlun felst ekki í því að annar hópurinn fái öllu sínu framgengt. Þessi mál munu skýrast á næstu dögum. Mín spá er sú að ef Steingrímur og Jóhanna eru óbifanleg í icesave málinu þá verði þau knúin frá völdum. Það virðast nokkrar leiðir í stöðunni enn sennilega allar ófærar. Það er hið versta mál eins og Ragnar Reykás hefði orðað það.

Það er kyrrt og fallegt veður. Snjólínan í miðju Ingólfsfjalli. Snjókoman kom ekki við á Selfossi í nótt en vegir hálfófærir neðarlega í Ölfusinu. Þetta er Ísland. Landið, sem nú er því miður í erfiðum málum. Ég ætla að hugsa uppá gamla mátann. Þetta reddast einhvernveginn. Við Kimi höldum okkur inní hlýjunni. Höfum líka enn í okkur að éta. Það er nú meira en ýmsir aðrir. Ég þakka kærlega fyrir sendinguna frá Edinborg. Afrek Hrafnhildar Kristínar koma Hösmaga afa ekki á óvart. Snöfurleg snót og státin stelpa. Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online