Monday, April 30, 2007

 

Dásemdir.

Vorið er komið. Einn af þessum kyrru, fallegu lognmorgnum. Hér voru 15 gráður í gær og 16 í fyrradag. Það eru svona morgnar sem er það besta við þetta hrjóstuga land. Þegar það byrjar að ilma á ný eftir veturinn. Ég hugsa með fögnuði til veiði og skógræktar. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi vaknað í vondu skapi í morgun. Við kisi alsælir. Það verður bara ágætt að mæta til starfa kl. 9 og eiga svo frídag aftur á morgun. Kannski skrepp ég í Tangavatn með flugustöngina meðferðis. Herconinn og græna þruman eru bæði klár.
Véfréttin var nú nokkuð landsmóðurleg í kastljósinu í gærkvöldi. Reyndar með sömu þvæluna og vant er. Kjötkatlastefnan er þjóðinni jafnmikilvæg og áður. Það má hvorki verða hægri slagsíða á skútunni né sósíalísk vinstri villa. Framsóknarflokkurinn verður að fá umboð til áframhaldandi valda. Valda, sem hann hefur notað til að maka krókinn ótæpilega fyrir gæðinga sína. Þó grútarhaugar íhaldsins séu stórir komast þeir ekki í hálfkvisti við spillingarfjöll framsóknar. Véfréttin sagðist aðspurð ekki vilja einkavæða Landsvirkjun. Ég treysti ekki einu orði af því sem hún segir. Það eru löngu tímabært að koma í veg fyrir helmingaskiptaregluna. VG og SF þurfa að ýta ágreiningefnum sínaum til hliðar. Standa saman og fella þessa ríkisstjórn. Standa vörð um hin sameiginlegu markmið í velferðarmálum og einangra virkjunarliðið í SF. Og það er yfirmáta hlægilegt og hallærislegt að fylgjast með tilburðum stjórnarflokkanna þessa síðustu valdadaga þeirra. Nú á t.d. að auka greiðslur til tannviðgerða á börnum. Nú á að fækka á biðlistum. Byggja helling af hjúkrunarrými fyrir gamalt og sjúkt fólk. Ríkisstjórn þessara flokka hefur troðið á þessu fólki í 12 ár. Gert vini sína að milljarðamæringum með skefjalausri einkavinavæðingu. Slagorð framsóknar á vel við. Einkavæðingu áfram, ekkert stopp. Atvinnumiðlun framsóknar til framtíðar. B fyrir bitlingastefnuna. Látum ekki þennan gjörspillta flokk laumast aftan að okkur einu sinni enn. Það skulum við líka hafa ofarlega í huga hér í Suðurkjördæmi. Ef við gerum VG að næststærsta flokknum hér höfum við sannarlega unnið afrek. Það eru heldur hvorki trúðar né tughúslimir á lista VG. Ég verð sérstaklega ánægður með Atla Gíslason. Þar fá sunnlendingar mjög góðan þingmann. Og von mín er sú að Alma Lísa nái einnig kjöri. Þetta er vel hægt ef fólk lætur sannfæringu sína ráða. Þó Ómar Ragnarsson sé ágætisnáungi mun framboð hans einungis hjálpa íhaldinu. Og það er óþarfi að vorkenna Margréti þó vondir menn hafi " stolið flokknun hans pabba".
Sólin skín glatt. Þetta verður fallegur dagur. Græna þruman gljáir nýþvegin við bílskúrsdyrnar. Ég heyrði í skáldinu mínu á laugardaginn. Óvænt ánægja. Ráðgerum bleikjuveiði í byrjun júní. Frostastaðavatn og þá eru Landmannalaugar skammt undan. Eldri sonurinn mætti gjarnan koma með. Þessi för verður indæl. Ég veit það. Bestu vor- og sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, April 25, 2007

 

Höll sumarlandsins.

Eftir vinnu í gær hélt Hösmagi á vit fyrirheitna landsins í Grímsnesinu. Í fyrsta sinn á nýbyrjuðu sumri. Græni liturinn orðinn sýnilegur og mér sýndist landið fagna mér. Kannski byggi ég höll á landinu. Eða litla kærleikskotið sem ég nefndi fyrr. Eitthvað ljúft og notalegt að standa á landinu og kaga yfir næsta umhverfi. Ekki spillti veðrið fyrir. Og í morgun hefur líka verið dásemdarveður. Það eru svona morgnar sem næra sálina. Logn og kvak fugla. Með gleðitón í röddinni. Hvað er betra en að vakna að morgni síðla í apríl, útsofinn með tilhlökkun eftir nýbyrjuðum degi? Sem heilsar þér með virktum svo morgundöggin frá Kaffi-Tár smakkast enn betur en aðra morgna ? Ekki margt held ég.
Siggi sænski hefur stundum sagt að eina leiðin til að fá komment á bloggið sitt sé að reyna að stuða svolítið. Ég þarf ekki annað en minnast á sjálfstæðisflokkinn og VG í sömu andránni. Þá á ég vís komment frá þeim Blóðbergsfóstbræðrum. Samt verð ég pínulítið undrandi. Annar þekkir mig allavega mjög vel. Og báðir lesa bloggið mitt. Þeir ættu því báðir að vita að ég er enginn sérstakur aðdáandi sjálfstæðisflokksins. Ég er einfaldlega að virða fyrir mér hið pólitíska landslag. Og reyna að gera mér grein fyrir stöðunni að kosningum loknum. Því miður eru ekki miklar líkur á að VG og SF fái meirihluta í kosningunum. Fyrir mér er mikilvægast að stöðva hryðjuverkin gegn náttúru landsins strax. Það dettur engum heilbrigðum manni í hug að það skelli á kjarnorkuvetur í efnahagslífinu þó dokað verði við. Hluti þess að upplýsa almenning ætti að vera sá að opinbera orkuverðið til álfyrirtækjanna. Þá myndu menn sjá það svart á hvítu hvernig núverandi stjórnarherrar hafa hagað sér. Dæmið af Guðna bakara er lýsandi. Þrátt fyrir mjög hátt heimsmarkaðsverð á olíu er hún ódýrari fyrir hann er rafmagnið frá Búrfellsvirkjun, sem þó er í túnfætinum. Rafmagnið brunar framhjá Guðnabakaríi suður í Straumsvík þar sem Alcan borgar nokkra aura fyrir kílóvattstundina. Það er líka að koma betur og betur í ljós að arðsemisútreikningar Kárahnjúkavirkjunar verða svartari með degi hverjum. Orkuverð stígur alls staðar í heiminum. Á meðan erum við að selja orkuna á spottprís áratugi fram í tímann.Við munum fá mjög háa vexti af ónýttri orku okkar með því að doka við.Stoppa a.m.k. næstu 4 árin og taka á þeim tíma ákvörðun um þau svæði sem eiga að fá ævarandi frið fyrir virkjanaæðinu. Glitnir er að hasla sér völl í orkugeiranum. Þar eru menn í startholunum eftir að kaupa Landsvirkjun. Og ef ríkisstjórnin heldur velli mun þeim verða að ósk sinni. Langbesta leiðin til að koma í veg fyrir þessi áform er að kjósa VG. Því öflugri sem sá flokkur verður að kosningum loknum því meiri líkur eru á farsælli framtíð landsins og fólksins sem byggir það. Og hér kemur amen eftir efninu, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 24, 2007

 

Argafas.

Það heitir argafas er maður hleypur á mann ofan og heldur sér. Svo stendur í Grágás. Einhvernveginn kemur mér framsókn í hug. Þeir hafa haldið sér í íhaldið s.l. 12 ár. Límdir fastir.Verið í hækjuhlutverkinu. Eða skækjurullunni allt eins. Ég hef nú stundum látið þá skoðun í ljós að verði ekki unnt að mynda hér vinstri velferðarstjórn eftir kosningar þá sé líklega næstbesti kosturinn að fá stjórn VG og íhaldsins. Það eru alveg skírar línur að VG færi aldrei í slíka stjórn nema áform um frekari stóriðju verði sett í pækil á meðan. Landsvirkjun yðri áfram í þjóðareign. Helstu ágreiningsmál þessara flokka yrðu geymd. Því miður eru margir stóriðjusinnar í SF. Álverin myndu rísa hvert af öðru. Hægra liðið í SF fellur vel að íhaldinu. Kannski eru hugleiðingar um þessa hluti nú útí hött. Margt óljóst í þessum póker fram að kosningunum. Þó eru yfirgnæfandi líkur á að stjórn með sjálfstæðisflokknum og öðrum hvorum þessarara flokka hefði meirihluta atkvæða á bak við sig. En litlu framboðin 3 gætu líka orðið til þess að núverandi stjórn héldi velli með stuðningi minnihluta kjósenda. Kosningalögin eru þannig að flokkur sem ekki nær 5% atkvæða fær ekki uppbótarþingmenn. Þessi regla gagnast íhaldinu langbest. Það má leiða að því líkur að Guðjón formaður FF nái kjöri í NV kjördæmi. Hann yrði þá eini þingmaður flokksins nái flokkurinn ekki 5% á landsvísu. Sjálfkjörinn þingflokksformaður. Heldur nöturlegt hlutskipti ef svo færi. Undirritaður er sannfærður um að stjórnin muni halda áfram ef íhald og framsókn nær 32 mönnum inná þing. Það bara hreinlega má ekki gerast. Digurbarkalegar yfirlýsingar Guðna um að framsókn muni fara í fýlu ef þeir missi helminginn af þingmannatölunni munu reynast hjómið eitt. Argafasið blasir þá við áfram.Og illa er komið fyrir ungum kjósendum ef það er rétt að hlutleysi þeirra sé fólgið í að kjósa bara flokkinn sem er með mest fylgi í könnunum. Það heitir víst að vera í sigurliðinu. Kannski er nú undirritaður mest spenntur vegna Suðurkjördæmis. Annar maður á lista framsóknar er nú byrjaður að kasta taðkögglum í VG. Sestur á bak skítadreifaranum. Og Guðni ekkert skárri. Dæmdur stórþjófur er miklu virðingarverðari en fjallagrasaliðið. Við skulum sjá til. Ef vinstri menn hér í kjördæminu standa við sannfæringu sína er ekkert að óttast. Þá fær VG 2 þingmenn hér.

Vorið er að koma. Held ég. Aðeins kaldara í dag en spáir mikilli blíðu á laugardaginn. Við Raikonen hressir að venju. Rólyndi hugans til staðar á ný. Tré farin að bruma. Græni liturinn að styrkjast. Tveir mánuðir í laxinn og himbriminn í Veiðivötnum kominn í ástarhug. Ég veit að hann bíður mín og ég hlakka til að hitta hann í sumar. Bestu vorkveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 22, 2007

 

Úr kýrhaus.

Hún er undarleg umræðan í pólitíkinni um þessar mundir. Þegar 3 vikur eru í kosningarnar snýst umræðan að mestu um skoðanakannanir. Lítið rætt um málefnin. Sjálfstæðismenn þegja þunnu hljóði og eru hressir með að hafa þetta svona. Aldrei í Íslandssögunni hafa orðið meiri tilfærslur á fjármunum frá hinum smærri til þeirra stærri en undir stjórn íhalds og framsóknar undanfarin ár. Og sumir stjórnmálamennirnir eru horfnir úr pólitíkinni eftir að hafa rakað að sér slíkum auði, að þeir vita varla hvað þeir eiga að gera við hann. Á sama tíma er nokkur hluti þjóðarinnar á hungurmörkunum. Nánast enginn minnist á stríðið í Írak og þátt foringja þessara flokka í því. Ef þessir flokkar fá endurnýjað umboð frá þjóðinni til sinna verka munu þeir halda áfram á sömu braut. Landsvirkjun verður einkavædd. Seld fyrir slikk eins og allt hitt. Fólki sem eyðir nokkurhundruðmillum í fertugsafmælið sitt. Fólkinu sem ferðast um á einkaþotum sínum og hefur ekki áhyggjur af biðlistum. Mig klígjar af að hugsa um þetta. Verður flökurt af að sjá Véfréttina í sjónvarpinu. Með anda draugsins á heilanum. Talandi um fyrsta sætið. Velferðina og árangurinn stórkostlega. Bara fjallagrasasúpa ef við kjósum eitthvað annað en núverandi stjórnarflokka. Ég er farin að efast um að formaður framsóknarflokksins hafi nokkra sjálfstæða hugsun í pólitíkinni. Draugurinn vissi þetta líka þegar hann handvaldi þennan mann sem eftirmann sinn. Það eina sem eftir er af framsóknarflokknum er valdasýkin. Kjötkatlastefnan. Allar hinar fornu hugsjónir eru dauðar. Falski fáninn blaktir við hún í golunni. Og fnykinn leggur af dulunni.
Við þurfum að breyta kúrsinum .Tína svolítið af fjallagrösum. Taka þjófa og ræningja og festa þá upp. Eyða biðlistunum. Færa svolítið aftur frá hinum stærri til þeirra sem þurfa á því að halda. Koma í veg fyrir að erlendir auðhringir haldi áfram að mala gullið burt frá þjóðinni. Nytinni úr Kárahnjúkavirkjun eins og Guðni myndi orða það. Það er kannski nóg komið af pólitísku bloggi í bili. Ég ætla að kjósa flokk sem ekki villir á sér heimildir. Langtrúverðugasta flokkinn sem nú er í boði. Og mér er alveg sama þó kjarnorkuvetur skelli á sum fertugsafmælin á næstunni. Diskótekin verða bara að duga.

Í horninu hérna fyrir aftan mig sefur köttur vært. Úttroðinn af rækjum. Þær kostuðu svona helminginn af verði ýsunnar í fiskbúðinni. Ívið ódýrari en dósamaturinn. Og hann át þær með áfergju þó ég hafi keypt þær í Bónus. Þetta voru eiginlega afmælisrækjur. Magnús minn átti afmæli í gær, 21. Ef ég man rétt var mamma Helgu Soffíu líka afmælisbarn. Og Urður, sem um tíma var hálfgildings fósturdóttir mín. Nýbúinn að eignast lítinn kút eins og Maggi. Þetta var góður dagur. Svolítið blautur, en hlýr. Hlustaði lika á Ögmund ræða um fátækt á Íslandi. Hann er í flokknum mínum. Ósköp væri gaman ef hann kippti Guðfríði Lilju með sér inná þing. Það er kona að mínu skapi. Rakar kveðjur úr vorblíðunni, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 19, 2007

 

333

Gleðilegt sumar. Pistil 333 skrifar postulinn Hösmagi. Sól hátt á lofti en kuldinn flæðir innum gluggann. Gerir líklega ekkert til. Man einhver eftir frostlausum fyrsta degi sumars hér? Kannski hefur verið slagveður svona einn og einn. Ég er alveg hroðalega latur í dag. Svona á mörkunum að ég nenni að draga andann. Hendir mig nú ekki oft. Eins gott að vera í fríi. Eða er það bara fríið sem veldur þessu. Það hefði mátt sveigja Herconinn ef ekki hefði verið 5 stiga frost í morgun. Lítið gaman þegar frýs í lykkjunum.
Ég komst að því áðan að einkaköttur minn, Kimi hinn rauðhærði, á fleiri vini hér í blokkinni en mig einan. Ég var að koma úr bílskúrnum og Kimi með mér. Einn neðrihæðaríbúi tók mig tali og sagðist stundum gefa þessum ketti að éta. Fisk og fleira fínerí. Hefði skál utan við dyrnar úr stofunni sem vísa út á baklóðina. Kötturinn legði sig stundum þarna í sólinni og væri voða góður. Spurði mig svo hvort ég vissi hver ætti þennan garm. Mér kom þetta mjög á óvart en viðurkenndi eignarhald mitt á þessu dýri. Þarna var kominn skýring á því að kötturinn lítur stundum kæruleysislega á matinn sem ég ber fyrir hann, ypptir öxlum og horfir í aðrar áttir. Svona er lífið nú stundum og alltaf gott að eiga góða vini.
Ég hafði nú hugsað mér að planta tré á fyrirheitna landið þann 27. Kannski verður það hægt þó frost sé nú. Það bíður þá aðeins. Þó sumir séu sínöldrandi yfir veðurfarinu hér á klakanum þá koma nú góðir dagar. En svo kemur einnig annað til. Ég þarf að embætta þennan dag. Í nýju skammtímaembætti sem mér áskotnaðist nýlega. Og embættið verður líka til þess að ég get ekki setið við sjónvarpið að kvöldi kosningadagsins. Líklega er það satt sem yngri systir mín segir. Þó að ég sé nú svona og svona þá sé ég ákaflega bóngóður maður. Manni verður stundum hált á því að eiga erfitt með að segja nei. Annars er ég slakur yfir þessu. Engjar áhyggjur af því. Skyldi Steingrímur H. hafa allar áhyggjurnar enn? Af Guðmundi syni sínum dansandi við Gunnu Ögmunds? Og öldunareinkennum framsóknarflokksins? Best gæti ég trúað því. Kaldar sumarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 17, 2007

 

Þrumufleygur.

Munurinn á hægri og vinstri er nú stundum enginn. Það sá ég gærkvöldi. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma fór ég í íþróttahúsið til að fylgjast með handbolta. Leikurinn var byrjaður og staðan 4-4. Fyrirfram var ég viss um að þekkja a.m.k. einn leikmanninn. Kom líka fljótlega auga á hann í treyju með tölunni 18 á bakinu. Það hafa örugglega fleiri tekið eftir honum því á nokkrum mínútum hafði hann þrykkt tuðrunni 6 sinnum í netmöskvana. Það lá við að þetta væri svona einskonar desjavú. Minnti mig á það sama og ég hafði séð alloft áður í den. Sú skytta er örvhent og náskyld þessari nýju stórskyttu. Og Hösmaga leiddist þetta ekki. Látum úrslit leiksins liggja milli hluta. En það var nú bara nokkuð stoltur afi sem yfirgaf húsið þegar leiknum lauk.

Síðasti dagur vetrar runninn upp. Það var alveg sérlega indælt að bregða sér út snemma morguns. Eða síðla nætur. Ekki bærist hár á höfði og hitinn vel yfir frostmarkinu. Veðurfræðingar spá því að veturinn og sumarið muni frjósa saman. Þótti það ekki boða gott sumar samkvæmt gömlum fræðum?
Mikill annadagur hjá lögmanni í gær. Þeytingur og hræringur. Holt, Grímsnes, Hreppur og Skeið.Og þetta er það besta við starfið. Stundum kapphlaup við tímann og þá þarf oft að slá í drógina milli staða. Svo verða litlu atvikin minnisstæð. Atvikin sem gera einn daginn skemmtilegri öðrum. Í Hrunamannahreppi er vaxandi sumarhúsabyggð. Þurfti að skoða eitt í gær. Samkvæmt símtali átti lykillinn að vera á vísum stað. Hvernig sem ég þreifaði, fitlaði og rjálaði fann ég hann ekki. Ég hugsaði til kveikjarans og geimverunnar. Gat verið að alíensinn væri farinn að leggja mig í einelti? Það var farið að síga í mig. Tók upp símann og hringdi í eigandann. Hann sagði að lykilskrattinn hlyti að vera þarna. Lyklar gufa ekki upp fremur en Zippóar. Er ekki timburstæða á planinu spurði eigandinn?Jú það passar svaraði ég og hélt áfram að rjála. Svo spurði ég eigandann um hvort ekki væri grænn litur á þakinu. Nei, bara ómálað bárujárn. Andskotinn. Næsta hús við. Ég fór mjúkum höndum um sama stað þar. Sem sagt engin geimvera í spilinu frekar en fyrri daginn. Og lykillinn rann í skrána og ég gat lokið verkum mínum í Hrunamannahreppi þann daginn. Mér leið notalega á leiðinni heim. Fannst þetta virkilega sniðugt. Lenti stóru Toyotunni við kontorinn rétt fyrir 5. Þegar inn kom biðu líka góðar fréttir. Margar eignir seldar í gær. Þetta er nákvæmlega eins og í veiðiskapnum. Stundum er hann við og stundum ekki. Bestu sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, April 14, 2007

 

Ég er ekki alveg...

hættur að blogga. Stundum geta orðið stílbrot í skrifunum. Fer líkast til eilítið eftir hugarfarinu. En það verður bara að líta á það sem skönhedsfeiler. Og þessvegna hvarf síðasti pistill út í eterinn. En Himbriminn mun örugglega verða jafn tignarlegur í sumar og hann hefur ávallt verið. Ég hlakka til að sjá hann þar sem veröldin er hvað fegurst.Keppa við hann við vatnið góða.
Nú er að styttast í sumarið samkvæmt almanakinu. Vorið er þó ekki komið þó veðrið sé ágætt.Það kemur samt, veðurfarslega og vonandi líka í pólitíkinni. En það verða örugglega hret þar. Fyrir suma a.m.k. Tveir landsfundir í síðustu viku. Mér fer nú líkt og sumum öðrum bloggurum. Finnst þetta yfirgengilegar skrautsýningar. Eins og á fjöldafundunum þegar il duce hafði talað og allir klöppuðu mikið og lengi. Og mér finnst líka fyndið að þegar vonarstjarnan eina hafði lokið máli sínu ætlaði fagnaðarlátum viðstaddra aldrei að linna. Var það fögnuðurinn yfir boðskapnum eða því að hún hafði loksins þagnað? Að vera eða ekki, það er spurningin.
Heilmikil vinnutörn hjá undirrituðum í gær. Skattmann þarf sitt á réttum tíma. Fór svo seinnipartinn niður á strönd. Sjávarlyktin ljúf að venju. En ekki var nú Ölfusá falleg við ósa sína. Enda opnuðust allar flóðgáttir himinsins á föstudaginn. Stanslaust úrfelli fram undir kvöldmat. Maður varð holdvotur við það eitt að stökkva af kontórnum útí grænu þrumuna. Kisi hélt sig innandyra. Nú er hann í gluggakistunni. Það er að segja afturhlutinn. Trýnið hnusar af logninu.Formúlan í dag og við Kimi fylgjumst með að venju. En Hösmagi er í svolítið pínlegri stöðu. Heldur að sjálfsögðu með sínum manni áfram. Vill þó fremur Bens en Fíat. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 05, 2007

 

Loftbóla.

Draugurinn gerði vart við sig í útvarpinu í gær. Fylgi við vinstri græn er loftbóla. Hann veit þetta allt. Framsóknarflokkurinn hefur séð hann svartari. Hann er með sterka forustu. Góð málefni. Allt mun breytast þegar talið hefur verið upp úr kössunum í vor. Hin handvalda Véfrétt mun koma á óvart. Man annars nokkur eftir henni. Mér kemur í hug lína úr lagi sem ég hlustaði á í morgun. " Ég held ég áfram þrauki, þó hugurinn sé í mauki." Draugsi sagði líka fleira. Vanmetakenndin tröllríður íslendingum. Kunna ekki gott að meta frekar en fyrri daginn. Góðu verkin sem hann vann á meðan hann var meðal vor öll höfð í flimtingum. Andskotinn barasta. Pókerinn er merkilegt spil. Tvöhundruð milljarðar fóru á milli einkavina í gær. Einkavinanna elskulegu. Kannski hefur Stikilsberjafinnur verið á stjái líka. Fyrrverandi nagari sem nú á fyrir visa reikningnum. Draugsi sér um sína. Á sama tíma er verið að velta vöngum yfir því hvort hægt sé að fjölga rýmum á stofnunum fyrir hina gömlu. Spá í það hvort hinir smæstu í samfélaginu geti lifað mánuðinn af. En þetta er gamla sagan. Allsnægtir fyrir suma, aðra ekki. Þettar er sýn draugsins enn. Sýn þess versta sem hefur komist til áhrifa í íslensku þjóðfélagi. Ég ætla að vona að breytingar verði.Bjartsýnn að venju.

Fékk símtal frá Indlandi í gær. Indælt. Og Indland indælt að sögn viðmælanda. Kannski það indælasta að ég var að aka yfir Ölfusárbrúna. Komandi úr reisu ofan úr Grímsnesi. Laxarnir rétt ókomnir úr sjónum. Spikaðir, bjartir og fagrir. Ég hlakka til þess að hitta skáldið mitt og Helgu í vor. Enn sjóaðri af reynslu en áður. Lífið heldur áfram og Hösmagi gamli glaður á skírdagsmorgni. Andstreymi er til að þess að sigrast á þvi. Það er svo langt síðan að ég lærði það að það er nánast óþarfi að minnast á það. Við Kimi sendum að venju okkar bestu kveðjur. Gleðilega páska, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 01, 2007

 

Núll.

Gaflararnir kusu um deiliskipulag í gær. Mér hefur lengi þótt vænt um Hafnarfjörð. Bjó þar í 4 ár til forna. Á Vitastíf sjö eins og dóttla orðaði það þegar hún bar út Þjóðvilluna. Það var gott að sitja í stofunni á Vitastígnum og horfa á togarana sigla inná höfnina. Færandi varninginn heim svona óbeint a.m.k. Þá var álverið nýrisið. Með tilstuðlan Hösmaga. Rigningarsumarið mikla, 1969, starfaði sá gamli, þá ungur og ferskur, við að mæla jarðviðnámið undir möstrunum sem fluttu rafmagnið frá Búrfellsvirkjun. Endalaust regn og mikil drulla. Rússajeppinn þungur af rafgeymum, vistum og mannviti farþeganna. Sífastur í sunnlensku mýrunum. Breska dieselvélin var 55 hestöfl. Seig en ekki snörp. Ekki svona þotuhreyfill eins og er í grænu þrumunni.Afbragðsfarartæki samt sem áður.
Mér finnst niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni í gær merkileg. Eiginlega núllniðurstaða. Aðeins fleiri á móti en með. Smáskeifa á Rannveigu. Fyrir mér er þetta mikilvæg niðurstaða. Peningalýðræðið laut í gras. Og kannski verður þetta til að verðfella þessa verksmiðju í pókernum. Þessum alþjóðlega sem starfar eftir nákvæmlega sömu lögmálunum og mafían.
Gróði handa mér, burtséð frá hag annara. Tilgangurinn helgar meðalið. Ég kíkti á moggabloggið í morgun, as júsúal. Dofri og Guðmundur eru kátir. Þeir tilheyra stjórnmálahreyfingunni sem fann upp íbúalýðræðið. Kratar fengu svona u.þ.b. 60% atkvæða í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði.. Ellefu af sjö bæjarfulltúum.Kosningar framundan og það má reyna flest. Hvað með íbúalýðræði okkar hinna? Fólksins á bökkum Þjórsár? Prump líklega. Þetta lýðræði Sf í Hafnarfirði finnst mér ekki mikils virði. Fagra Ísland heitir það. Þessi stjórnmálahreyfing er á heljarþröm. Stóri flokkurinn, mótvægi íhaldsins. Andstæðingar Vg eru glaðir yfir síðustu könnun Gallups. Vg er að tapa fylgi. Fylgistapið felst í því að þeir fara úr 8,8% í 24%. Það er sárt fyrir marga andstæðinga okkar að kyngja slíku. Ég fékk staðfestingu á þessari þróun í gær. Sanntúaðir íhaldsmenn hér Suðurkjördæmi ætla að venda sínu kvæði í kross. A.m.k. 2. Kjósa nýja stefnu, með önnur gildi, betri gildi. Og ekki bara vegna þess að þeir vilja ekki tugthúslimi á þing. Þeir vilja vor eins og undirritaðir. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ( sem aftur fékk rækjur í morgun), ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online