Saturday, April 17, 2010

 

Borubrattir vinir.

Við Kimi höldum okkur hér á kontórnum. Hann liggur í glugganum og lætur sig dreyma. Fallegt gluggaveður. Sól og svali. Gosmökkurinn liðast uppúr gíg Eyjafjallajökuls. Það er tignarleg sjón en samt vona ég að þessu gosi ljúki sem allra fyrst.Mig rámar í Heklugosið 1947 en þá var ég nýorðinn 3ja vetra gamall.Síðan þá hef ég upplifað u.þ.b. 2 tugi eldgosa. Mesta návígið var við gosið í Vestmannaeyjum 1973 en þar var ég í hálfan mánuð. Minnisstæður tími og enn heyri ég hvæsið í gígnum. Hluti af tilveru okkar er að búa á þessari eldfjallaeyju hér norður í Ballarhafi.Veðráttan og dyntir náttúrunnar eru samofin lífinu og því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við verðum að sætta okkur við það.
Ég hef verið linur við þessa gömlu síðu mína. Finnst þó reyndar miklu vænna um hana en Moggabloggið og facebook. Reyndar að hugsa um að hætta við Moggabloggið. Einkum vegna þess að þar gilda ósanngjarnar reglur og bloggið er ekki blogg nema að hluta til. Þar er viss hópur með sérréttindi. Hópur fólks sem leyfir engar athugasemdir á eigin síðu en finnst sjálfsagt að troða skoðunum sínum uppá aðra. Menn á borð við Hannes Hólmstein, allmarga þingmenn og ýmsa aðra. Ég held að Mogginn sé deyjandi dagblað. Á tímabili var hann ágætur. Allt að því blað allra landsmanna. Nú er öldin önnur eins og í svo mörgu öðru.Ég ætla að láta mér það í léttu rúmi liggja.

Það er heilmikið að gera í fjölskyldulífinu. Nýbúið að ferma Egil sterka Magnússon. Faðir hans verður svo fertugur á miðvikudaginn og Eyþór bróðir hans er að ljúka stúdentsprófi. Hösmagi gamli reynir að taka þátt í öllu og það er bara indælt. Mér leist líka afar vel á Apótek Hafnarfjarðar þegar ég kom þar í marslok. Ég vona að þetta gangi vel hjá Magga mínum og er verulega stoltur af þessu framtaki hans. Ég vildi gjarnan hafa svona apótek hér á Selfossi. Þá myndi ég losna við að skipta við lyfjamafíuna sem hefur tröllriðið markaðnum hér allt of lengi. Kannski er það borin vona að við íslendingar getum lifað í sátt hver við annan.Rannsóknarskýrslan hlýtur þó að hreyfa við fólki. Ekki öllum að sjálfsögðu. Spillingin er yfirþyrmandi í pólitíkinni, öllu stjórnkerfinu og því miður er dómskerfið ekki undanskilið heldur.Sýslumenn, dómarar og embættismenn hafa eingöngu verið valdir eftir flokksskírteinum um langan aldur. Það kann ekki góðri lukku að stýra.Núverandi stjórnvöld eru í sama farinu. Á stuttum tíma hafa þau ráðið 52 einkavini sína á ríkisjötuna. Vini, vandamenn og jábræður. Það er skrautleg hjörð á beit á stjórnarráðstúninu. Stjórnskipunarlögin þverbrotin eftir þörfum. Mér finnst þetta afar sárt. Það var að vísu ekki annars að vænta úr ranni samfylkingarinnar. Sem, nóta bene, ber mikla ábyrgð á efnahagshruninu þó fólki á þeim bæ sé tamt að tala um hrunflokkana 2. Vg er ungur flokkur sem enga ábyrgð ber á því sem gerðist 2008. Flokkurinn sem ég hafði stutt frá stofnun hans 1999. Þar er enn mikið af góðu fólki sem ég treysti. En það er alþekkt að völd spilla. Ég vona að þeir sem þar hafa farið út af sporinu nái áttum. Þegar heiðarleikinn víkur er voðinn vís. Það eru gömul sannindi og ný.

Þetta er notalegur dagur og rólegheit framundan. Ég fer í nýja sneiðmyndatöku 30. apríl.Mér líður vel nú og er jafnbjartsýnn og jafnan áður. Hlakka til útiverunnar við veiðiskap og aðra yndislega iðju í sumar. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Bestu kveðjur frá okkur kisa mínum. Ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online