Wednesday, December 22, 2010

 

Desemberpistill.

Óralangt síðan síðast. Það er eins og facebokk síðan hafi yfirtekið alla mína ritgleði. Þessi síða er þó aðgengileg enn og kannski ágætt að ljúka árinu með einum jólapistli. Klukkan er nú að ganga sex á Þorláksmessumorgni og pækillærið góða var að fara í ofninn. Það hefur margt á dagana drifið frá síðasta pistli. Gott og illt eins gengur í lífinu. Kimi minn er nú kominn á nýjar veiðilendur og það var mér afar þungbært. Þetta yndislega dýr kvaddi þennan heim þann 4. október. Skyndilega, eins og þegar hann kom inn í líf mitt þann 1. júlí 2005. Þau voru erfið sporin er ég fór og gróf hann í landi bróður míns morguninn eftir. Tómleiki og depurð. Maður stendur frammi fyrir staðreyndum og lífið heldur áfram. Það eru ekki ný sannindi fyrir mér. Þegar ég greindist með krabbameinið fyrir rúmu ári hugsaði ég til kisa míns. Hvað um hann yrði ef eg færi frá honum. Hann var mér alla tíð félagi og vinur. Ég hugsaði minn gang og mánuði seinna sótti ég annan kött suður í Hafnarfjörð. Ungur fressköttur fæddur 3. júní. Svartur að mestu með smá hvítan blett á bringu og kvið. Hann hefur aðlagast vel hér og framhaldið lofar góðu. Ég gaf honum nafnið Kolbakur og hann ber það með sóma.
Það má segja að barátta mín við meinið hafi gengið frábærlega og eins og nú horfir er ég á beinu brautinni. Hress og glaður yfir árangrinum. Lífslöngunin, baráttuviljinn og hjálpin frá góðum læknum og hjúkrunarfólki hafa fleytt mér yfir erfiðan tíma. Þetta ár hefur því að mörgu leyti verið mér ágætt þó það skilji eftir sig sorgina eftir Kimi. Allar góðu minningarnar um hann á ég áfram þó leiðir okkar hafi skilið um sinn.
Það voru vetrarsólstöður í fyrradag. Það eru alltaf tímamót desembermánaðar og mér mikils virði. Ég hef margsinnis minnst á gangrimlahjólið sem alltaf snýst með sama hætti. Kannski herðir það aðeins á sér með hverju árinu sem líður. Allt er afstætt. Mest er um vert að halda ró sinni hvað sem á dynur. Þessi eilífu viðmið sem mér hafa alltaf verið mikilvæg. Í gleði og sorg. Eftir hin válegu tíðindi þann 30. nóvember í fyrra hugaði ég ráð mitt. Kveikti mér í vindli og hugsaði. Kannski að ég ætti að fá mér í glas og slá þessu uppí kæruleysi. Ég sá fljótlega að nú þyrfti ég á öllum mínum mínum kröftum að halda. Lét glasið eiga sig og hætti að reykja þann 4. desember. Hvort tveggja skynsamlegt og örugglega hjálpað í baráttunni. Ég er líka sannfærður um að ég muni ekki byrja aftur að reykja. Ávinningurinn af því er stórkostlegur á svo mörgum sviðum að það flökrar ekki að mér að fá mér smók. Þó ég láti mig stundum dreyma og hlutir reki tímabundið á reiðanum þá hef ég oftast nægilega staðfestu til að komast fram úr vanda sem ég stend frammi fyrir. Það er gott og mikilvægt í hverri baráttu. Kolbakur snuddar nú hér á borðinu og heimtar athygli. Ekki alveg ókunnugt frá liðnum árum. Brakandi malið gefur til kynna að hann sé sáttur. Það gefur mér heilmikið. Við sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online