Saturday, September 29, 2007

 

LSD

Hösmagi er á trippi. Ekki á svona dýri af hestakyni. Þá héti það tryppi.Og raunar alls ekki á LSD. Það er bara LCD. Nýr flatskjár eftir allar brekkurnar. Gamla góða Sharp 20 tommu er horfið á braut eftir 24 ára dygga og góða þjónustu. Þrjátíu og tvær tommur af Bush, Geir, Jóni forseta, sem er nú aðalmaðurinn, komnar í staðinn. Þetta var nú eiginlega allt sjálfgert. Eftir afgerandi morfíntripp á Lsp. um síðustu helgi ákvað Hösmagi að nota peningana sem áttu að duga fyrir jarðarförinni til annara hluta. Fresta jarðarförinni um mörg ár. Byggja nýjar borgir og elska svolítið lengur. Og miklu meira.Hver einasti dagur sem hægt er nota til góðra verka, njóta lífsins og vera hress og kátur, er mikilvægari en allt annað. Ég hitti börnin mín 3 í dag. Það er mikið. Að auki hitti ég barnabörnin mín 5. Það var alveg stórmikil viðbót. Borðaði með skáldinu mínu , sem er á leið úr landi í fyrramálið.Glasgow, Edinborg, Amsterdam og Berlín. Einu sinni sagði maður: Berlín mín. Yndislega Berlín mín. Kannski stend ég við hið laufskrýdda linditré á næsta ári. Bráðabati, jafnaðargeðið, og hin takmarkalausa ást á lífinu hafa skilað gömlum veiðiref meira á einum degi en á mörgum árum. Elsku krúttin mín kær. Við Kimi sendum kveðjur, í allar áttir. Ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 26, 2007

 

Heima á ný.

Eftir tæplega viku fjarveru er Hösmagi aftur heima hjá sér. Það er ánægjulegt og gott. Ekki spillti að dýrið rauðbröndótta beið eftir fóstra sínum og hjúfrar sig nú á teppinu góða. Skáldið skilaði föður sínum á heimaslóðir og tók svo rútuna til síns heima. Það er svona týpiskt haustveður með regni og nokkrum vindi og þokan grúfir fyrir fjallinu góða. En ég held að það sé aftur komið vor í huga mér. Glaður yfir að vera heima á ný og fullur þakklætis til yndislega fólksins sem ég kynntist síðustu daga. Þeir voru vissulega erfiðir en rólyndi hugans og hin óbilandi bjartsýni gerðu þá líka létta og bærilega. Ég mun fara mér hægt næstu daga. Allt stefnir í rétta átt með ótrúlegum hraða. Allir góðu straumarnir skiluðu sér og það er mér ómetanlegt. Nú er að byggja sig upp á ný og halda til starfa þegar rétti tíminn rennur upp. Þegar óvænt áföll skella á er gott að staldra við. Hugleiða lífið og tilveruna og vinna sig út úr aðsteðjandi vanda. Ekkert bendir til annars en að allt fari á besta veg. Ástin á lífinu er svo sannarlega enn til staðar. Og þakklæti til allra sem hafa reynst mér svo vel s.l. mánuð. Við Kimi sendum ykkur öllum fagnaðarkveðjur. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 18, 2007

 

Haustregn og blogghlé.

Blautt haust í morgunsárið. Loftið tært og gott að viðra sig. Ilmandi kaffið úr gamla brúna fantinum smakkast vel. Raikonen á rjátli út og inn um gluggann. Líklega skárra að vera innandyra í hlýjunni hjá fóstra sínum þó útiveran heilli nú einnig. Í dag er síðasti vinnudagur Hösmaga í bili. Ætla að bregða mér af bæ í nokkra daga. Skáldið mitt mun hafa tilsjón með dýrinu góða í fjarveru minni. Og það verður því blogghlé uns ég sný heim á ný. Forsetinn mikli fær þá allavega frið á meðan. Ég sá hann á reiðhjóli í gær. Í grænni skikkju með hjálm á höfði. Og ekki heilsaði hann nú fyrrum flokksfélaga sínum þar sem hann hjólaði framhjá honum reykjandi vindil fyrir utan vinnustaðinn. Og það merkilega er að ég get nú alveg á heilum mér tekið þó þessi bráðgáfaði snillingur hafi ekki virt mig viðlits. Hann var þungur á brún. Ég hugsa að skýringin sé jafnvel sú að niðursuðudósin sé enn að vefjast fyrir honum. Og menn verða nú að sýnast ábúðarfullir í svona virðingarstöðu. Skárra væri það nú. Svo er líka fullt af fábjánum að þvælast fyrir áformum þessa ofvita. Fólk sem skilur ekki snilldina og er ekkert nema hortugheitin og vanþakklætið. Shit barasta.

Skáldið lagði land undir fót í gær. Á grænu þrumunni. Norður í Refasveit með veiðistöng í farteskinu. Hafði samband símleiðis í gærkvöldi og sagði fréttir af veiði. Einn á landi en sá stóri tapaðist. Hafði betur og verður ógleymanlegur. Það er gamla sagan. Ég er enn að hugsa um stóra Laugarbakkalaxinn frá 8. júlí 1992. Sem er enn að stækka í huga mér. Þannig er það hjá gömlum veiðirefum. Ævintýrin ljóma í hillingum. Það er unaðslegt. Svo þraukum við veturinn og nýtt ár gefur fyrirheit um ný ævintýri. Þannig er það og þannig mun það verða. Hlakka til að hitta skáldið mitt að áliðnum degi og fá söguna alla. Við Kimi sendum ykkur bestu kveðjur úr haustþokunni, ykkar Hösmagi.

Saturday, September 15, 2007

 

Það er gott.......

að búa í Kópavogi. Að sögn bæjarstjórans. Hann hefur nú hlustað á íbúana. Kannski hafa flokksbræður hans haft áhrif í þá átt. Hann lýsti því yfir í gær að nú hefðu áform um hafnarframkvæmdir á Kársnesi verið blásin af. Það yrði reynt að ná sátt um nýtt skipulag sem flestir eða allir geta sætt sig við. Kannski er það borin von að hið sama geti gerst hér á Selfossi. Hin óskiljanlega þráhyggja meirihlutans hér er sterk. Hvernig væri nú að félagar í VG hér reyndu að hafa áhrif á yfirvitringinn? Sem fyrir síðustu kosningar sveikst aftan að heiðarlegu fólki með fagurgala og handaböndum og framkvæmir svo allt annað en hann lofaði. Hann mun að sjálfsögðu alls ekki segja af sér. Virðist ekki hafa áhyggjur af smámunum eins heiðarleika og siðferðiskennd. Enda vinnubrögðin öll í samræmi við það. Hann birti t.d. mynd af miðbænum eins og hann lítur út í dag eins og hann kallar það. Og myndin var af gömlu ónýtu bílhræi sem hann var svo heppinn að finna einhversstaðar. Hræið er þó reyndar miklu fallegra en Hótel Selfoss.Eru félagar hans í VG bara aumingjar upp til hópa? Hér stendur til að framkvæma óendurkræf skemmdarverk. Byggja hús fyrir mannfjandsamlegt samfélag. Hús sem nú er verið að mölva til grunna í nágrannalöndum okkar vegna reynslunnar af þeim.Þessi áform eru með þvílíkum ólíkindum að þau eiga heima í heimsmetabókum. Það á að blása þessa skipulagstillögu út af borðinu strax. Byrja á núllpúnkti og ná sátt um nýjan miðbæ. Jafnvel maður eins og Gunnar Birgisson sér svo augljósa hluti og breytir í samræmi við það. Pre frá mér fyrir það. En líklega er meira vit í kolli hans en allra vitringanna 5 til samans. Hvernig í ósköpunum lentum við í því að sitja uppi með þessa fáráðlinga? Blinda og heyrnalausa. Sjálfumglaða og hrokafulla. Það skilur varla nokkur ærlegur maður.

Við Raikonen vökum. Hitinn um núll gráður. Dimmt og kyrrt. Nafni hans á ráspól í formúlunni í dag. Við erum kátir með það og ætlum að fylgjast með. Þetta verður notalegur dagur í rólegheitum heima. Við vonum að hann verði líka notalegur fyrir ykkur öll. Með næturkveðju, ykkar Hösmagi.

 

Sauðir.

Eftir vinnu í gær skrapp ég upp að Birtingaholti. Þegar komið var upp fyrir Reykjaréttir var mikið af sauðfé á veginum. Einnig menn og hross. Hrepparéttir voru í gær og Skeiðaréttir í dag. Mér fannst skemmtilegt að mæta öllum þessum fénaði. Þarna var t.d. ákaflega tignarlegur hrútur. Hyrndur í betra lagi. Kannski vaninhyrndur. Og það var langt í frá að það væri nokkur sauðarsvipur á þessum grip. Þessi dýrategund er nú ekki talinn vera neitt ofhlaðinn gáfum. Sbr. orðatiltæki að þessi og hinn séu nú óttalegir sauðir. Ég þekki nú ekki inniviði heilabúsins í sauðkindinni. Finnst nú samt vænt um hana eins og flest önnur dýr. Þarna var hvít ær með svartan hnakk. Tvær svartar skellur aftan við hnakkinn og hálsinn og hausinn var í sama lit. Þetta var ákaflega falleg skepna. Og vitað af því. Hnarreist og fráneygð.Á heimleiðinni þurfti ég aftur að lötra. Komst þó heim með þolinmæðinni. Þar voru þeir Bjarni Harðarson og Róbert Marshall að rífast í kastljósi sjónvarpsins. Róbert þessi er fallkandidat SF úr síðustu kosningum. Bjarni náði þó þokkalegu kjöri. Róbert var gerður að aðstoðarsamgönguráðherra í sárabætur. Bjarni hafði nú leyft sér að gagnrýna samgönguráðherrann. Það má að sjálfsögðu ekki. Hann fékk stóra drullugusu yfir sig frá aðstoðarmanninum. Stundum þola menn ekki að heyra sannleikann. Þá er gripið til skítadreifarans eins og bændurnir gera á áliðnum vetri. Þetta er þekkt aðferð hjá SF.Og framsóknarflokknum líka. Bjarni er nú ekki alveg saklaus í þessum efnum. Kannski eru þeir bara óttalegir sauðir, báðir tveir.

Það er eiginlega hálfgert skítaveður hér. Kalsi með rigningu og dimmt í lofti. Við Kimi höfum það fínt hér. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu og höldum rólyndinu. En Jón forseti er orðinn órólegur. Enn með dósaskerann í lúkunum og botnar ekki neitt í neinu. Dósin enn að vefjast fyrir kauða. Ég gef honum helgina og afskrifa hann svo alveg.

Rólegheit framundan. Kannski tekst mér að ljúka einhverju af óloknum verkum hér heimafyrir.Það er alltaf notalegt að slappa af að góðum verkum loknum. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 11, 2007

 

Syndaflóð.

Nú hellist regnið úr loftinu með miklu offorsi. Svo sem allt í lagi. Við Kimi í góðu skjóli hér innandyra og höfum það þrælfínt eins og flesta aðra morgna. Og svo er líka gott að geta bara hringt í Jón forseta og beðið hann að skrúfa fyrir ef þetta verður of mikið. Hann munar örugglega ekkert um það frekar en önnur kraftaverk. Sbr. færslur um rennsli Ölfusár, jarðskjálfta, skuggavarp og fleira. Ég hef ekkert frétt af honum enn varðandi niðursuðudósina. Enda kannski ekki sanngjarnt að ætlast til stórtíðanda af uppfinningum og kraftaverkum á hverjum degi. En það er við öllu að búast í þeim efnum því hann hefur 4 vitringa sér til fulltingis.

Klukkan er að verða 7 að morgni og orðið svona nokkurnveginn sauðljóst. Þessi sami þungi niður tímans heldur áfram eins og ég hef svo oft minnst á áður. Jafndægri á hausti sunnudaginn 23. september. Þá erum við hálfnuð í mesta svartnættið. Stysta daginn og síðan smátt og smátt inní nýja vaxandi birtu. Meira að segja forsetinn mikli getur ekki breytt þessari staðreynd þó honum sé fátt ómögulegt. Ég hef enn góða tilfinningu fyrir næsta ári. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að framkvæmdir á fyrirheitna landinu eru ekki hafnar enn. Við skáldið mitt og Helga gengum á landið fyrir hálfum mánuði. Lyngið var mjúkt og hlýtt og þar var heilmikið af berjum. Það verður ekki ónýtt að geta lesið sér ber við kærleikskotið á haustdögum næstu árin. Ég var með hugleiðingar um daginn að selja þetta land. Til þess lágu ákveðnar ástæður. Eftir heimsóknina var þessum hugleiðingum endanlega blásið burt. Landið verður áfram í eigu Hösmaga. Og síðar afkomendanna. Það er ljúft og gott að hugsa til þess. Rætur Búrfells teygja sig ofaní þetta fyrirheitna land. Þetta fjall hefur stoð í landinu og landið nýtur góðs af þessu fallega fjalli. Og hinu megin Sogsins brosir Ingólfsfjall til nágranna síns. Þannig mun það verða um ókomin ár.

Kaffið hefur runnið ljúflega niður að venju. Svaladyrnar standa opnar og ferska loftið streymir í gegn. Kimi sýnir rigningunni lítinn áhuga. Hefur hringað sig og sofnað í skotinu sínu hér fyrir aftan mig. Tófti september verður ágætur þó hann verði svolítið blautur. Það verður kaupsamningur hjá mér í vinnunni klukkan 4. Sérlega ánægjulegur. Ella amma á Húsatóftum er að kaupa sér hús hér. Þá getur Siggi Þráinn, lambakóngurinn minn, slegið 2 flugur í einu höggi þegar hann kemur á Selfoss. Og nú er fyrsta barnabarnið mitt orðið stud jur. Það er líka sérlegt gleðiefni. Við Kimi sendum ykkur öllum blautar haustkveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Millur.

Þær eru margar milljónirnar sem skipta um eigendur svona annað slagið hér á landi. Slatti af mönnum hér sem hafa lagt fyrir sig stjórnmál til að láta gott af sér leiða. Eins og það heitir á þeirra eigin máli. Og nokkrum hefur tekist það. En hængurinn á ráðslagi þeirra er sá að það eru bara þeir sjálfir sem njóta ávaxtanna. Orðnir að margmilljarðamæringum á örfáum árum. Einn var að láta frá sér hlut sinn í Icelandair Group nýlega. Hann lýsti því yfir að hann væri " sæmilega sáttur" Bara þessi litli hluti af góðverkum hans við þjóðina gefur honum milljón á mánuði í 33 ár. Verkamaðurinn yrði meira en hálfa aðra öld að vinna fyrir þessum aurum. Þetta er þjóðfélagið sem Hannes H. og hans líkar dásama sem hæst. Þjóðfélagið sem státar af hinni nýju stétt sem er aðeins jafnari en við hin. Atvinnumennirnir í pókernum sem spilaður er nú um stundir hafa engar áhyggjur af neinu. Enda eru þeir með allt sitt á þurru. Með mánaðartekjur á við 100 verkamenn og spila ekki einu sinni með sitt eigið fé. Ef illa tekst til í spilamennskunni bitnar það á öðrum en þeim sjálfum. Það eru þeir löngu búnir að tryggja. Verðtryggingin og okurvextirnir hér á landi eru þeim ekki áhyggjuefni. Þeir eru sífellt í útrásum og innrásum hér og þar. Árásum mætti nú kannski kalla það öllu heldur. Og takmarkið er að sölsa undir sig allar sameiginlegar eigur þjóðarinnar. Þeim hefur miðað nokkuð vel í þeim efnum á síðastliðnum 12 árum. Og ekkert sem bendir til annars en að sú þróun muni halda áfram. Meðan þjóðin trúir á falska fána og lætur draga sig í dilka eins og sauðfé að hausti mun ekkert breytast. Því miður erum við alltof fá sem sjáum þetta. Mín von er sú að augun muni opnast áður ern það verður of seint.

Ég var á ágætum fundi í gærkvöldi. Þar var hvorki rætt um hina nýju stétt né bæjarstjórnarmeirihlutann. Þetta var góður fundur fyrir mig. Held að ég hafi bara komið heim betri maður. Ég segi ykkur frá þessum fundi seinna. Það er kyrrð yfir bænum. Fallegt þó það hausti að. Raikonen sefur hér í horninu fyrir aftan mig. Setti litla ullarteppið sem þau skáldið mitt og Helga gáfu mér undir dýrið mitt. Gamla góða rólyndið yfir okkur báðum. Hlakka til dagsins og ég veit að hann verður góður. Við Kimi sendum ykkur að venju bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, September 08, 2007

 

Dósaskerinn.

Jón forseti brosti aftur breitt í gær. Þá tókst honum að finna upp dósaskerann. En brosið hvarf fljótlega af andlitinu. Hann veit nefnilega ekki enn hvað á gera við þetta áhald. En það lagast eftir helgina. Þá finnur hann upp niðursuðudósina og getur notað þetta snilldarverkfæri. Vonandi rifnar ekki út úr munnvikunum við það.

Nú höfum við kallað herlið okkar heim frá Írak. Bara nokkuð snöfurmannlegt framtak hjá ISG. Eitt prik fyrir það. En utanríkisráðherrann er haldinn sömu þráhyggjunni og 2 síðustu fyrirrennarar. Ísland á að fá sæti í öryggisráði SÞ. Nú þegar hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljóna. Boðuð er mikil herferð sem standa á næstu 12 mánuði. Þar fara nokkur hundruð milljónir í súginn í viðbót. Við höfum nákvæmlega ekkert að gera þarna. Einar Oddur Kristjánsson, sá orðsnjalli maður, lýsti áliti sínu á þessu montbrölti vel í sjónvarpinu. Yfirgengilega fáfengilegt og vitlaust. Bruðl með fjármuni til einskis. Í fyrsta lagi mun okkur aldrei takast að komast þarna inn. Sem betur fer segi ég. Og í öðru lagi, jafnvel þó það tækist, er það okkur einskis virði. Alla þessa fjármuni á að nota til skynsamlegri hluta. Einvernveginn virðast valdamenn þessarar þjóðar halda að við séum eitthvað miklu meira en við erum. Svona stórveldisdraumahugur. Kannski pínulítið í sömu átt og meirihluti bæjarstjórnarinnar hér. Selfoss að verða miðja alheimsins. Aðvitað þarf slíkur bær háan turn beint ofan á miðju jarðskjálftasprungunnar við brúarsporðinn. Þegar hégómi , heimska og valdasýki sameinast, er ekki von á góðu. Það sanna þessi 2 dæmi mjög vel. Ef við myndum nota peningana sem við eyðum til einskis vegna framboðsins til þróunaaðstoðar við fátækar þjóðir, myndum við vinna okkur inn miklu fleiri stig á alþjóðavettvangi. Það virðist langt í land að íslenskir stjórnmálamenn geri sér grein fyrir raunverulegri stöðu sinni. Ef það er ekki sleikju- og undirlægjuhátturinn er það stórmennskubrjálæðið. Hvorttveggja skaðlegt í meira lagi.

Eftir sólskin í morgun er komin þoka. Yndislegt haustveður samt sem áður. Eftir nokkurt hlé fór undirritaður í skoðunarferð um bæinn snemma morguns. Ljúft að venju. Og Kimi birtist kátur á planinu hér fyrir utan þegar fóstri kom til baka. Skottið þráðbeint uppí loftið. Kannski kemur hér óboðinn gestur að næturþeli. Maturinn úr dallinum hverfur ískyggilega hratt. Eða Kimi bara svona þurftarfrekur þessa dagana. Veðrið gott til útiveru fyrir menn og ketti. .Gott mál. Við hér í íbúð 205 sendum ykkur bestu haustkveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 04, 2007

 

Strjálingur.

Miðað við venjulegt bloggæði Hösmaga má segja að nú sé bara eitt og eitt á stangli. Ég hef nú stundum sagt að bloggiðjan má aldrei verða að kvöð. Hún hefur heldur ekki verið það hjá mér. Ef svo væri yrði það ekkert annað en puð og basl, japl jaml og fuður. En bloggið er ágæt tómstundaiðja svona með öðru. Vertíð Fiskihrellis lokið að sinni og nú verður beðið næstu vertíðar.
Pakkhúsið verður að víkja samkvæmt nýja skipulaginu. Ég skoðaði pakkhúsið í vetur samkvæmt beiðni. Það er hluti af starfi mínu sem fasteignasali. Þetta hús er í mjög góðu ásigkomulagi. Þegar það var byggt var framleidd alvöru steypa á Íslandi. Og það var sett mikið af steypustyrktarjárni í þetta hús. Ragnheiður bæjarstjóri yrði lengi að vinna á því með handverkfærum. Kannski ætlar hún bara að sprengja það í loft upp. Það er auðvitað hreint brjálæði að ætla sér að eyðileggja þetta ágæta hús. Ekki bara vegna þess að það á sér langa og merkilega sögu heldur er það slík sóun á verðmætum að engu tali tekur. Vitringana munar líklega ekki um einn kepp í sláturtíðinni. Þetta hús er ekki fyrir neinum. Mörgum finnst vænt um það. Ég man vel eftir lykt af kolum og grásleppu í þessu húsi. Hundruð eða þúsundir manna hafa unnið í þessari byggingu. En það er fyrir vitringunum 5. Og ef til vill ekki síst forseta bæjarstjórnarinnar. Ég sá mynd af Jóni forseta í einhverju blaði í síðustu viku, Glugganum líklega. Hann var þar ásamt öðrum manni sem ég man ekki hver er. Og forsetinn brosti breitt. Það er svo ljúft fyrir suma að vera við völd. En svo var mér sagt að brosið stafaði af allt öðru.Daginn sem myndin var tekin uppgötvaði þessi brosandi snillingur að hann hefði fundið upp hjólið daginn áður. Það er nú stundum brosað af minna tilefni.

Það er haustlegt en þó bærileg tíð. Sýnishorn af íslensku veðri á þessum árstíma. Óhemjuslagveður með köflum í gær en nú skín sólin og kári leikur sér að laufunum. Og lífið hjá okkur Kimi svipað og áður. Rólyndi yfir báðum. Vinnuvikan hálfnuð á morgun og bara nokkuð líflegt á þeim slóðum.Þröstur mætti hinn hressasti með sólbakaðan skallann eftir dvöl á Mallorka. Sem sagt gott, bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online