Wednesday, October 22, 2008

 

Bein leið.

Ég sé að morgunpistillinn hefur skrifast á gærdaginn. Það gerir tímamunurinn. Ég fór til höfuðstaðarins á grænu þrumunni. Hitti doktorinn og hann var hress að venju. Ekkert óeðlilegt kom fram á myndunum frá því í september. Nú þarf ég ekki að mæta aftur fyrr en í september á næsta ári. Ég tel mig því vera á beinu brautinni heilsufarslega. Ekki veitir af í baráttu næstu mánaða. Ég fékk miklar þakkir frá dokksa fyrir Blóðberg. Þakkir sem þeir skáldið mitt og Siggi eiga bara einir að fá. Hann var mjög impóneraður af þessu kveri, sem átti 10 ára afmæli á árinu. Fannst þetta nánast ótrúlegt framtak af tveim menntskælingum. Hann er vel að sér í Magnúsi Ásgeirssyni og hugði gott til glóðarinnar að lesa hvað dóttursonurinn skrifaði um afa sinn. Þetta varð nú til þess að ég ætla að hafa Magnús á náttborðinu hjá mér næstu daga. Ég held að ég eigi megnið af því sem út hefur verið gefið eftir hann. Snilld hans mun lifa með íslenskum ljóðaunnendum. Sumir telja að það sé í raun miklu meiri kúnst að þýða ljóð en yrkja þau sjálfur. Líklega margt til í því. Einar Benediktsson mun hafa sagt Magnúsi ungum að ef hann ætlaði sér að verða skáld skyldi hann varast þýðingarnar. Sem betur fer hélt Magnús ótrauður áfram. Það er samt nokkuð til frumort eftir hann sem sýnir að hann var ekki síður fær í að yrkja á íslensku. Magnús dó ungur og ég kynntist honum aldrei. Bræðrum hans 4um kynntist ég hinsvegar allvel. Fluggreindir og skemmtilegir menn. Leif prófessor þekkti ég minnst. En ég minnist ákaflega skemmtilegra stunda í stofunni á Reykjum. Sérstaklega ef Ingimundur á Hæli var þar í heimsókn. Fremur lágvaxinn maður en heilabúið af sama kaliber og hjá bræðrum hans. Sigurður var einstaklega ljúfur og skemmtilegur maður. Honum kynntist ég langbest enda var hann tengdafaðir tveggja systkina minna. Mér er enn í fersku minni þegar ég kvaddi hann í banalegunni á sjúkrahúsinu á Akranesi.Hann var mitt á milli rænu og rænuleysis. Ég fann að hann vissi hver ég var og síðasta handtak okkar var hlýtt og þétt. Þrátt fyrir litla skólagöngu held ég að hann hafi verið einn mest menntaði maður í Íslandi um sína tíð.

Nú haugar niður snjó og veðurstofan spáir illviðri á morgun. Við Kimi munum örugglega halda okkur innivið.Hann sefur hvort eð er meirihluta sólarhringsins þessa haustdaga. Ég reyni að halda mér til verka. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 21, 2008

 

Mugga.

Smáfrost og muggan hefur gert alhvíta jörð. Það var þó ágætt að viðra sig í morgun. Raikonen yfirköttur hélt strax til veiða þegar við vöknuðum. Kom tómkjafta heim. Stundum verðum við að una við öngulinn í bakhlutanum. Bylgjuhreifingin er í veiðinni eins og annarsstaðar. Ég er á leið til höfuðstaðarins nú á eftir. Þarf að hitta hinn ágæta Eirík Jónsson, skurðlækni. Ljúfur náungi sem gott er að tala við. Þetta er bara hluti af eftirfylgni vegna uppskurðarins í fyrra. Fremur tilhlökkun en kvíði í huga mér. Ég ætla að færa honum eintak af Blóðbergi þeirra fóstbræðra. Þetta er bókmenntasinnaður maður og hann var mjög ánægður með sonnettur Keats áritaðar af þýðandanum. Sjálfur hef ég verið að rifja upp kynnin af Martin Beck. Þessar 10 skáldsögur um glæp eru frábærlega skrifaðar. Spennandi, og ekki spillir húmorinn sem svo skemmtilega er fléttaður í sögurnar. Pólís, pólís, pungurinn frýs. Ég las allar bækurnar fyrir svona 15-20 árum og var heillaður af þeim. Virkilega gott að gleyma sér yfir lestri góðra bóka og útiloka vondar staðreyndir á meðan. Ég hef eiginlega skammast mín undanfarin misseri yfir minnkandi bóklestri. Nú eru bækurnar aftur orðnar ómissandi þegar ég skríð undir rekkjuvoðirnar. Krossgáturnar eru svo sem ágætar til að drepa tímann og dreifa huganum. Þær skilja þó ekki mikið eftir sig, gagnstætt lestri góðra bókmennta.
Klukkan er nú að verða sjö að morgni á þessum svala haustmorgni. Kaffi og vindill að venju. Ég hef lokið við u.þ.b. 1/3 af stóra Brasilíuvindlinum sem mér var gefinn í fyrravetur. Það er hörkuvinna að svæla þannig drjóla. Þvermálið um 20 millimetrar og lengdin 20 cm.Allar tölur á hreinu eins og venjulega.Kimi á rjátli í kringum fóstra sinn og mun gæta hússins í fjarveru minni. Ég þakka sérstaklega fyrir skemmtilega kveðju frá Flórens. Hún skilaði sér í gær. Ég ætla líka að hugleiða hvort ekki væri ráð að taka sér netfrí í nokkra daga. Halda sig einungis við blogspot.com. Við rauðskott sendum bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

Monday, October 20, 2008

 

Vetur.

Nú snjóar fyrir norðan. Hér er norðanbál og hiti um frostmark. Fyrsti vetrardagur á laugardaginn kemur. Sennilega verður þessi vetur mörgum nokkuð erfiður. Veðurfarslega og á öðrum sviðum. Ég hef stundum talað um hina endalausu bylgjuhreyfingu í mannlífinu. Tinda og dali, hæðir og lægðir. Stundum eru dalirnir djúpir og lægðirnar krappar. Á dögum eins og þessum fýkur landið brott. Ég sé moldina frá hálendinu á fleygiferð undan norðanstorminum. En það mun lygna á ný. Öll él styttir upp um síðir.
Það er margt skrafað og skeggrætt um efnahagskreppuna. Nýju bankastjórarnir í Glitni og Landsbankanum voru háttsettir starfsmenn í þessum bönkum síðustu árin. Það er ekki gott. Og ef við ekki fáum nýtt fólk til að standa að rannsókn á starfsemi bankanna, fjármálaeftirlitsins, seðlabankans og annara þá er til lítils af stað farið. Það er ekki góðs viti ef glæponinn á sjálfur að ákveða sök eða sýknu. Við þurfum að gera alsherjarhreingerningu í þjóðfélaginu. Losna við sem allra flesta núverandi alþingismenn. Þó ríkisstjórnin fundi og ráðherrarnir gali um stanslausa vinnu sigla þeir sofandi að feigðarósi. Hver dagur skiptir okkur miklu. Stjórnin er klofin í herðar niður varðandi aðild að evrópusambandinu. Digurbarkalegar yfirlýsingar um að stjórnin sé sterkari nú en nokkru sinni áður eru bara hlægilegar. Ég ætla samt að vona að þessi ríkisstjórn lafi enn í nokkra mánuði og sameinist um að gera það skásta sem hægt er. Svo skulum við kjósa nýtt þing á vormánuðum. Það má reyndar búast við dræmri þátttöku þvi þjóðin er búinn að fá uppí kok af stjórnmálamönnum eftir allt sem á undan er gengið. Flokkarnir eiga þó enn nokkra stuðningsmenn. Það er söfnuður sem syngur herrum sínum lof og prís á hverju sem gengur. Náhirðin. Fólkið sem trúir og má ekki heyra gagnrýni á þá.
Við skulum koma lögum yfir glæponana sem hafa komið okkur í þessa stöðu. Og við skulum heldur ekki gleyma mönnunum sem komu þeim í aðstöðu til þess. Því miður svífa andar draugsins og yfirnagarans enn yfir vötnunum. Það má með sanni segja að þeir eigi meginsökina á því hvernig komið er. Og SF ber líka ábyrgð á aðgerðaleysi síðustu missera. Víkingarnir hafa nú endalausan tíma til að fela slóð sína og eignir sem ætti að vera búið að frysta fyrir löngu.En ætli þetta reddist ekki að lokum. Jú, það reddast einhvernveginn. Það gæti líka komið að því að þjóðinni færi að leiðast að láta krossfesta sig.
Nú hefur moldrokið breytt um lit. Orðið hvítt. Ég ætla að leggjast undir sæng mína og hugsa ráð mitt. Hlusta á gnauð vindsins. Kimi sefur á stólnum og ef ég þekki kauða rétt mun hann fljótlega elta fóstra sinn í svefnherbergið. Ég öfunda hann af að vita ekki einu sinni hver er aðalseðlabankastjóri. Kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 18, 2008

 

Fegurð himinsins.

Sólin var að koma upp. Örlítil hvít slikja efst á Ingólfsfjalli. Hitastigið leikur sér kringum núllið. Efstu toppar trjánna ná aðeins að bærast. Þrátt fyrir ástandið á þessu volaða skeri er gott að vaka og virða fegurðina fyrir sér. Hugsa framávið og sem minnst til baka. Þar er þó margt gott. Ást, veiði og fleiri lífsnautnir. Ég er svo heppinn að muna hið góða og ljúfa betur en hið slæma.Ekkert steinbarn í brjósti.Bjartsýni og lífsgleði eru ennþá fyrir hendi. Það er enn indælt að láta sig dreyma. Þó aldur færist yfir er enn ástæða til að líta vongóður til framtíðar. Ef vonin um betri tíð glatast er lítið eftir. Kannski er ég haldinn sömu hyggju og svo margir aðrir íslendingar.> Þetta reddast einhvernveginn.

Við Kimi erum báðir hér við skrifborðið. Þetta rauðbröndótta dýr vill þrífa skegg fóstra síns. Gamla Gráskeggs. Svalur andvarinn læðist innum gluggann. Við erum ákveðnir í að njóta þessa dags í rólegheitum. Slaka á og ýta því neikvæða til hliðar.Gleyma úlfahjörðinni um stund. Láta rólyndið hafa völdin. Þolinmæði og þrautsegju.

Með þrautsegju og þolinmæði
þraukað hef ég margar nætur.
Þá einatt hafa indæl kvæði
yljað mér um hjartarætur.

Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Friday, October 17, 2008

 

Langar dimmar nætur...

segir í texta Bubba Morthens. Myrkrið smávinnur á birtunni. Samt mun þetta snúast við fyrir jólin eins og ætið áður. Tíðin nú er í mínum augum góð vetrartíð og enginn snjór í kortunum á næstunni. Drungi yfir tilverunni. Raikonen sefur svona 18-20 tíma á sólarhring. Fóstri hans heldur venjum sínum og sefur í 5-6 tíma.Virðist nóg og heilsan er ágæt. Sjaldan hef ég legið jafnmikið á netinu og undanfarnar vikur. Margt í fréttum og bloggarar á útopnu. Sitt sýnist hverjum sem von er. Náhirð nagarans söm við sig. Henni finnst ljótt ef andað er á guð hennar. Mér kom á óvart að jafnvel Geir og Björn Bjarnason telja rétt að hefja rannsókn á bankamafíunni og fleiri aðilum sem hafa leikið lykilhlutverkin í atburðarás síðustu ára. Nákaldur raunveruleiki hennar blasir nú við okkur. Enn eru útrásarvíkingarnir tabú. Snekkjurnar og þoturnar enn á ferðinni. Og það var nú ekki amalegt að lesa lýsingar á útbúnaðinum um borð í snekkju þeir hjóna Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Frúin sjálf aðalhönnuðurinn. Gufubað og jafnþrýstiklefi innanborðs t.d. Enn verður mér hálfflökurt af þessu. Allir eftirlitsaðilar með bankakerfinu brugðust algjörlega. Skýrslum stungið undir stól. Enginn vissi neitt.Ekki benda á mig. Allir stikkfrí þó þjóðinni hafi verið mokað ofan í gljúfrið undir þrítugum hamrinum. Ég hef oft sagt það áður að ég hafi skammast mín fyrir að vera íslendingur. Fyrir dúettinn sem plantaði okkur á lista hinna morðóðu þjóða. Gáfu víkingunum bankana og símann. Héldu vart vatni yfir afrekum þeirra. Og forsetinn yfirklappstjóri. Andskotans bara. Við skulum brenna bænahús þeirra og láta þá strita í svita síns andlitis.

Hann gengur á með skúrum og þokan ekur sér í hlíðum fjallsins góða. Ég þarf í búð að ná mér í mjólk og fleira. Við Ræko erum nú ekki mjög þurftarfrekir. Njótum samvistanna og látum hverjum degi nægja sína þjáningu. Albestu kveðjur til hópsins míns og annars góðs fólks, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 14, 2008

 

Veisluhöld.

Það var nú ekkert kreppufæði á borðum hér í Ástjörn í gærkvöldi. Ég fann poka í frystikistunni og innihaldið var humar. Ég þýddi innihaldið. Að sjálfsögðu byrjaði ég á að telja. 25 stykki og öll af stærri gerðinni. Undir kvöld setti ég humarinn í pott, saltaði hæfilega og kveikti undir krásinni. Ég þýddi rækjur handa Raikonen og hugðist sitja einn að humarnum. Kimi fékk sér af rækjunum en fylgdist náið með fóstra sínum. Þegar ég byrjaði að plokka skelina af humrinum var kisa nóg boðið. Hann varð bókstaflega trítilóður af lyktinni. Og mér varð nú ekki kápan úr því klæðinu að ætla mér að sitja einn að humrinum. Hann rann því ljúflega ofan í okkur báða. Við sitjum nú hvort eð er við sama borð og deilum saman kjörum. Sennilega verð ég nokkra mánuði að éta allan fiskinn úr kistunni. Flakaði laxinn frá fyrra ári er enn í topplagi. Reyndar á skáldið mitt nokkurt magn frá nýliðnu sumri.Því verður til haga haldið. Ég ætla líka að gera tilraunir í eldamennsku. Nú er sláturtíð og hægt að kaupa ýmsan ódýran mat.T.d. lifur sem mér finnst mjög góð steikt. Hún er líka örugglega bráðholl.
Eftir fréttum að dæma eru nú fyrirmenn þjóðarinnar í Moskvu. Rússagullið verður til umræðu í dag. Skyldi Davíð vera þarna? Kannski verður hann þjóðnýttur þar eystra. Pútín hlýtur að hafa frétt af kraftaverkamanninum sem allt veit og allt getur. Hans mun þó örugglega ekki verða sárt saknað hér. Í mínum augum er hann verri en plágurnar sjö og hefur valdið okkur meiri ömun og tjóni en nokkur annar núlifandi íslendingur. Eini jafningi hans er kannski draugurinn sem lét kræla á sér í fyrradag. Báðir holdgerfingjar þess versta sem hent hefur í íslenskum stjórnmálum.

Við Kimi erum nokkuð slakir hér heima. Ég plokkaði restina af humrinum áðan. Hann var fljótur að renna á lyktina og fóstri gaf að smakka. Svo verður framhaldsveisla í kvöld. Það er reyndar smáfiðringur í mér. Ég sá auglýst starf og tók upp símann. Í framhaldi af því sendi ég tölvupóst. Þar tíundaði ég menntun mína og alla hina frábæru mannkosti. Aldur og fyrri störf. Bíð spenntur fram eftir vikunni.
Hitinn enn vel yfir frostmarkinu. Vindur hægur og hann hangir þurr. Helst bara nokkuð vel á geðprýðinni í þessu veðri. Ég sé að þessi pistill er nr. 555 frá þeim fyrsta í Edinborg forðum. Og datt í hug bókartitill Magnúsar storms: Ætlar hann aldrei að þagna, karlskrattinn? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Sunday, October 12, 2008

 

Sunnudagur.

Rólegur dagur og letin ræður ríkjum á bænum. Það er þó áreiðanlega ekki afleiðing þrældóms síðustu viku. Ég held að þetta gildi um köttinn líka. Hann sefur meirihluta sólarhringsins. Aftur fiskur hjá okkur í gær. Lúða og ýsa sem við gerðum okkur báðir gott af. Restin varð að Ingólfsfjalli sem ég góflaði í mig undir silfri Egils. Enn lætur veturinn ekki kræla á sér. Það er haustlegt en hitastigið rokkar á milla 2 og 10 gráða. Græna þruman stendur nú á einni bílasölunni. Það verða allir að bregðast við á einhvern máta þegar að þrengir. Minnkandi tekjur og allt hækkar og hækkar. Það versta er reyndar að þetta mun bitna mjög á ungu kynslóðinni sem nú er að vaxa úr grasi. Sennilega næstu áratugina. Við eigum að þegja því stjórnarherrarnir eru að " bjarga því sem bjargað verður". Gera samt hvert axarskaftið eftir annað. Blaðra og blaðra úti eitt. Aðgerðaleysið og hikið kostar þjóðina ómældar fúlgur hvern einasta dag. Ekkert heyrist um vaxtalækkun. Þeir ætla bara að koma til móts við okkur pöpulinn eftir bestu getu. Vinna þjóðina út úr vandanum. Þetta eru mennirnir sem hafa setið aðgerðalausir í meira en heilt ár þrátt fyrir viðvörunarorð fjölda fólks sem sáu hvert stefndi. Það nýjasta er að senda forsetann á okkur. Hann á að hugga lýðinn. Hvetja hann til dáða og efla samkenndina. Mér finnst nú svona smá fnykur af þessu. Fáir hafa nú dásamað útrásarvíkingana meira en núverandi forseti vor. Enda tíður farþegi í einkaþotum þeirra. Þjóðin á erfitt með að skilja þetta. Hún á að halda gremju sinni í skefjum. Gremjunni yfir hvernig 20-40 menn hafa með gerðum sínum undanfarin ár komið meirihluta þjóðarinnar á kaldan klaka. Það má alls ekki bíða lengi með að draga þá til ábyrgðar. Nú kenna þeir öllum öðrum en sjálfum sér um hvernig komið sé. Tala um stærsta bankarán Íslandssögunnar. Þetta eru þeir hinir sömu sem flestir búa nú í útlöndum. Og hýbýlin eru ekki í neinum kömpum. Þota hér og snekkja þar. Þegar frá líður mun þessi tími verða talinn með þeim svartari í sögu okkar. Kurlin eru ekki öll komin til grafar. Vikingarnir enn í algjörri afneitun.Sorgleg staðreynd sem þjóðin á ekki að una við þegjandi. Sökudólgar eiga ekki að vera tabú. Stjórnarliðar og framsóknarflokkurinn bera fulla ábyrgð á þessum mönnum. Og allar eftirlitsstofnanir hafa brugðist. Einkum FME og seðlabankinn.

Ég vona að við sjáum nú öll til sólar að nýju. Landið okkar er enn á sínum stað. Við skulum vona að við fáum hæfara fólk að stýrinu. Og aldrei aftur verði nokkrum snillingum leyft að spila matador með eigur okkar þannig að þjóðfélagið verði í rústum eftir nokkur köst. Ég óska þess líka að það muni aldrei henda þjóðina aftur að fá menn á borð við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson til áhrifa.
Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, October 10, 2008

 

Árni í Botni....

allur rotni, ekki er dyggðin fín. Þjófabæli, það er hans hæli, þar sem aldrei sólin skín. Ég er alveg við það að æla. Vegna alls þjófahyskisins, góðgerðastarfsemi Davíðs og Dóra og afleiðinganna af verkum þeirra. Stundum er gott að vakna eftir vonda drauma. Finna gleðina yfir að raunveruleikinn er allt annar en hinn vondi draumur. Mig dreymdi ekkert í nótt. Raunveruleiki þessa dags er þó hinn sami og í gær. Kvíði og depurð yfir ástandinu. Ástandi, sem er bein afleiðing af stjórn framsóknar og íhalds frá 1995-2007. Sem betur fer hef ég aldrei kosið þessa flokka. Gagnrýnt þá harðlega. Með réttu. Þeir hafa orðið þess valdandi að þjóðfélagið er nú rjúkandi rústirnar einar. Framsóknarmenn hafa nú lagt til að seðlabankastjórar verði ráðnir á " faglegum" grunni. Það hentaði þeim nú ekki alveg meðan Steingrímur, Tómas Á. og Finnur voru skipaðir í þessa stöðu. Steingrímur hafði nógan tíma til skógræktar uppí Borgarfirði meðan hann stjórnaði í musterinu. Og uppgötvaði ástæðuna fyrir því hversu erfitt hafði verið fyrir hann að ná í Tómas í bankanum ef vel viðraði á golfvöllunum. Eins og þið vitið er ég flokkslaus maður þó lífsskoðanir mínar séu hinar sömu og verið hafa í marga áratugi. Við njótum nú ávaxtanna af samstarfi íhalds og framsóknar þessi 12 ár. Nákvæmlega ekkert væri betra fyrir okkur en að gera sjálfstæðisflokkinn áhrifalausan með öllu. Setja hann í einangrun. Flokkinn, sem hefur haft frjálshyggjuna sem trúarbrögð með þeim afleiðingum að nokkrir tugir manna hafa komið þjóðinni fram á bjargbrúnina og hyldýpið blasir við. Hnípin þjóð í vanda var einu sinni sagt. Það er ótvíræður skyldleiki með þeim nöfnum Árna í Botni og nafna hans fjármálaráðherranum. Sem í gær hélt til fundar hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekki amalegt fyrir forráðamenn sjóðsins að fá ráð frá slíkum snillingi. Skyldu bátar hans róa í dag?
Allt bendir til þess að kosningar verði á næsta ári. Fyrir þær kosningar eiga VG og SF að lýsa því yfir að flokkarnir muni starfa saman að kosningum loknum. Leggja til hliðar klisjuna um að þeir gangi óbundnir til kosninga. Sameina áherslur sínar og gleyma ágreiningsefnunum.Þá væri raunhæfur möguleiki á meirihluta þeirra. Það skásta fyrir þjóðina í þessari slæmu stöðu.

Hér er enn hið þokkalegasta haustveður. Við Kimi erum hér á litla kontornum. Annar sitjandi við tölvuna og hinn liggjandi láréttur á bakinu. Báðir nokkuð brattir. Ef vonin glatast er lítið eftir. Kimi áhyggjulaus meðan eitthvað er í döllum hans. Hösmagi er ekki í neinum uppgjafarhug. Langt í frá. Gamla máltækið að ekki gangi að gefast upp þó á móti blási er enn í fullu gildi. Megi gæfan vera nálægt ykkur í dag. Bestu kveðjur, Ykkar Hösmagi.

Thursday, October 09, 2008

 

Stjörnurnar.

Ég er fiskur. Fæddur í miðju fiskamerkinu. Lengstaf hef ég nú talið þessa speki alla vera óttalegt kukl. Samt sem áður er ég kominn á þá skoðun að a.m.k. eitthvað sé nú til í þessu. Þetta er allavega ágætt tómstundagaman fyrir marga. Spáin fyrir daginn í dag er að ég þrái að hrista af mér doðann og hefja afkastahrotu. Þetta er allavega satt og rétt og ég mun láta á það reyna. Það er sagt að fiskurinn sé fremur latur og værukær. Ég hef nú oft líkt þessu við laxinn sem dormar í hylnum. En ekki endalaust. Þegar rétti tíminn rennur upp tekur hann sprettinn og stekkur léttilega upp fossinn fyrir ofan hylinn. Að lokum lýkur hann verkum sínum með stíl og sæmd.
Það var fiskur á borðum okkar kisa í gærkvöldi. Tvö ýsuflök. Það minna var soðið sér, án söltunar. Kimi er hálfnaður með það. Hitt stærra og mátulega saltað fyrir Hösmaga. Stappað með smjöri og kartöflum. Í gamla daga var þetta nú gert líka. Eldri sonurinn vildi gera svona krás að Ingólfsfjalli. Þ.e.a.s. moka stöppunni í haug á miðjum diski. Svo át hann fjallið. Ég gerði þetta í gærkvöldi og held að stappan hafi bragðast enn betur fyrir vikið. Þó haust sé komið og myrkrið sé að vinna á er ég sáttur við veðrið. Hver dagur sem hitinn er vel yfir núllinu og ekki snjóar er góður dagur. Á afmælisdegi skáldsins míns í fyrradag komst hitinn í 12 gráður og sólin brosti við okkur annað slagið. Ekki amalegt veður á þessum árstíma. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða landsmálin hér núna. Fjármálaeftirlitið skipaði í nótt skilanefnd fyrir gamla Búnaðarbankann. Þennan sem Ólafur Ólafsson, Finnur merarkóngur og nokkrir aðrir vinir Dóra, draugsins, fengu að gjöf um árið. Og mér dettur alltíeinu Elton John í hug. Nú er talað um að allir standi saman og fortíðin verði að gleymast. Það verði að bjarga því sem bjargað verði. Gott og vel.Í örfáa daga. En mennina sem bera meginábyrgð á því hvernig komið er verður að draga til ábyrgðar. Ekki bara útrásarvíkingana heldur einnig þá sem auðvelduðu þeim verk sín. Ég er ekki að tala um rannsóknarrétt og nornaveiðar. Réttlæti fáum við aldrei og kapitalisminn er langt í frá dauður þó ásjónan hafi fengið skrámur. Ég vona, eins og flestir aðrir íslendingar að við komumst út úr hremmingunum. En við skulum samt ekki gleyma að gera upp við höfuðsökudólgana.
Það rignir og Kári er að ná sér á strik. Hér er hlýtt og notalegt og að venju hefur Kimi hringað sig á gamla stólnum. Áhyggjulaus yfir útrásarliði, yfirnagara, draugnum og hinu dótaríinu. Skyldu stýrivextir lækka í dag? Hvað mun dagurinn bera í skauti sér? Við verðum að bíða eftir Godot. Kærar kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 07, 2008

 

Það andar af suðri....

yndislegt veður í bænum. Mér kom þessi ljóðlína í hug í morgun. Hitinn tæpar 10 gráður en nokkuð þungskýjað. Skáldið mitt 30 ára í dag. Þessi dagur fyrir 30 árum er enn ferskur í huga mér. Daginn áður vorum við fjölskyldan í Reykjavík. Ég man meira að segja erindið. Við komum nokkuð seint heim. Rétt fyrir miðnætti sofnaði undirritaður. Sennilega var ég búinn að dorma svona 5 mínútur þegar ég vaknaði við hróp. Vatnið er komið, vatnið er komið. Ég var svo ringlaður að ég vissi ekkert hvað var að gerast. Hvaða fjandans vatn? Var ofninn farinn að leka? En ég var fljótur að átta mig. Hjónarúmið var nánast á floti. Ég klæddi mig og hringdi á sjúkrabíl. Þá annaðist lögreglan sjúkraflutningana. Þeir komu og móðirin var flutt á Ljósheima sem þá var fæðingarheimili okkar Selfyssinga. Ég fór með löggunni á stöðina og drakk heilmikið kaffi og spjallaði lengi við þessa laganna verði. Þeir keyrðu mig svo heim í Laufhaga og einhvernveginn tókst mér að sofa til morguns. Ingvar Jónsson smiður birtist. Það stóð til að setja innihurðirnar í húsið þennan dag.Við hófumst þegar handa. Klukkan hálfellefu var hringt frá fæðingardeildinni. Lítill strákur kominn í heiminn. Lítill og stór um leið. Ingvar hélt áfram en ég dreif mig uppeftir. Mikill fögnuður braust út í brjósti mér. Begga var 10 ára og Maggi 8. Um kvöldmatarleitið voru allar 9 innihurðirnar komnar í. Karmar og gerefti fullfrágengin. Við höfðum flutt í nýja húsið okkar tveim árum áður. Eins fljótt og hægt var. Flest gólfin máluð, lítið um gólfefni, engar innihurðir en eldhúsið var alveg klárt.Tæpu ári síðar, líklega 25. september, kom teppi á ganginn, fjölskylduherbergið og stofuna. Um kvöldið þegar teppalagningamenn höfðu yfirgefið húsið hljóp lítill snáði eftir nýlögðum teppunum. Það voru fyrstu skrefin hans. Svona u.þ.b. hálfum mánuði fyrir eins árs afmælið. Tíminn er afstæður eins og svo margt. Mér finnst eiginlega eins og þetta sé nýskeð þó 30 ár séu liðin. Það hefur löngum verið kært með okkur Sölva mínum. Mér finnst þó að sjálfsögðu jafn vænt um hin 2. En það er líklega algengt í fjöldskyldum að litla barnið njóti eilítillar sérstöðu. Þegar við móðir hans slitum samvistum 1983 var Sölvi bara 4ra ára. Sem betur fer rofnaði sambandið aldrei.Þegar Begga og Maggi voru lítil var ég sífellt meira og minna að heiman. Í skólanum yfir veturinn og leitandi að heitu vatni út um allt land á sumrin. Mér er mjög minnisstætt þegar ég kom einu sinni heim seint að kvöldi eftir 5 vikna fjarveru norður við Kröflu. Begga flaug upp um hálsinn á mér. En bróðir hennar setti upp skeifu. Hann var ekki sáttur við föður sinn að hafa látið sig hverfa.Sármóðgaður. Daginn eftir var allt gott. Maggi hafði fyrirgefið föður sínum og vék ekki frá mér. Ég var í fríi og átti yndislegan dag með fjölskyldunni. Þó langt sé um liðið er indælt að rifja þetta upp á þessum merka degi. Skáldið mitt dvelur fjarri Íslandsströndum í dag. Hann og haldreipið fá ástarkveðjur frá mér. Ég ætla ekki að hringja í afmælisbarnið fyrr en líður á daginn. Náfrændi þess, Auðunn systursonur minn, er fertugur í dag. Hann fær líka hamingjuóskir með daginn.
Aðeins stöku hvítur díll eftir á Ingólfsfjalli. Svipuðu veðri spáð a.m.k. fram á sunnudag. Viðraði mig nokkuð snemma. Hleypti kisa mínum út. Sem betur fer gekk honum ekkert við fuglaveiði í sumar. En hann hefur verið kátur nú í morgunsárið. Það var dauð mýsla á ganginum þegar ég kom heim. Veiðieðlið enn innbyggt í hann eins og mig. Ég ætla að láta mig hlakka til næsta sumars. Klettsvíkin verður á sínum stað og Veiðivötnin líka. Svörtu skýin sem hrannast hafa upp munu gefa eftir. Það mun vora aftur. Í bókstaflegri merkingu og í óeiginlegri einnig. Sölvi minn fær spes góðar kveðjur í dag. Hlakka til að heyra í honum. Bið líka að heilsa öllu öðru góðu fólki, ykkar Hösmagi.

Monday, October 06, 2008

 

Hagfræði.

Klukkan er rúmlega 13 á mánudegi. Fundir stjórnvalda með atvinnurekendum, samtökum launafólks, bankastjórum og fleirum um helgina virðast ekki hafa skilað miklu. Menntun Geirs virðist engu skipta. Það eina sem við erum upplýst um er að staðan sé grafalvarleg.Aðgerðaleysi síðustu mánaða verður mörgum dýrkeypt. Á Þorra sagði Geir að bjart væri framundan. Nú væri botninum náð og allt færi að ganga betur. En nú, hálfu ári síðar, er allt annað uppi á teningnum. Það er eins og við séum í sjálfheldu á klettabrík í miðjum hamri. Bíðum með öndina í hálsinum. Það kann vel að vera að rétt sé að óska eftir viðræðum um aðild að ESB. En það gagnar lítið nú. A.m.k. 5 ár yrðu í að við gætum tekið upp evru í stað krónu. Þessvegna verðum við að leita annara leiða í bili. Því miður eru engar töfralausnir í augsýn og aðildarviðræður við EES er engin lausn nú, hvað sem síðar kann að verða. Margir bankar í Evrópu loga nú stafnanna á milli. Og evrópusambandið er ráðþrota og getur ekki hjálpað.Ríkisstjórnir margra evrópulanda verða sjálfar að leysa málin. Og virðast vera að því. Eiginlega gagnstætt því sem virðist vera hér á landi.Mín sýn er sú að eignir bankanna erlendis verði að selja strax. Allt sem hægt er að selja. Ég hef miklar efasemdir um aðkomu lífeyrissjóðanna að vandanum eins og sakir standa.Óttast að eignir þeirra erlendis hyrfu fljótt ef þær yrðu færðar heim og settar í hítina. Þó ég sé lítið hrifinn af þessari ríkisstjórn þá væri það versta að hún springi á ástandinu. Við þurfum allra síst upplausn og nýjar kosningar akkúrat nú. Þegar og ef fárviðrinu í efnahagskreppunni lýkur getum við skoðað málin. Við viljum ekki að þúsundir heimila verði gjaldþrota með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Neyslufylleríinu er sjálfkrafa lokið. Við verðum að vera meðvituð um ástandið og bregðast við, hvert eftir sinni bestu getu. Undirritaður er byrjaður. Ét úr kistunni og mér hefur tekist að minnka notkun vindlanna um 42% það sem af er mánuðinum. Staðráðinn í gera betur í þeim efnum. Það eru margir margfalt verr staddir en Hösmagi garmurinn.Því miður. Þetta er heldur dapurlegt í dag.Við verðum að doka við og vona hið besta.
Hitastigið komið í rúmlega 8 gráður og snjórinn að hverfa. Smáljós í myrkrinu. Ég hef oft rætt um verðtrygginguna í þessum pistlum. Þrátt fyrir hana á ég enn hluta af þrumunni góðu. Ég hitti kunningja minn og fyrrverandi starfsfélaga í morgun. Hann keypti sér nýjan bíl í fyrra. Nákvæmlega ár síðan. Hann tók myntkörfulán að fjárhæð kr. 2,7 milljónirkróna. Bíllinn kostaði um 3,5 millj. Hann hefur greitt samviskusamlega af láninu í eitt ár og eftirstöðvar þess nú eru 5 milljónir. Hann tók mark á ráðgjöf í banka. Eins og ástandið er nú er ég betur settur með 10,75% vexti og 15% verðbólgu. Ef einhverntíma hefur verið til bananalýðveldi er það Ísland nú um stundir. Þessi pistill gæti orðið að mörgum síðum. Við súpum nú seyðið af því hvernig þessu landi hefur verið stjórnað síðustu 17 árin. M.a. að hafa haft aflóga stjórnmálamenn fyrir seðlabankastjóra. Menn sem enga menntun hafa í embættið og óhæfir með öllu. Kannski verður á því breyting fyrr en varir. Ég lifi í voninni.
Við Kimi sendum öllum vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 04, 2008

 

Allt er........

í heiminum hverfult.Vinskapur okkar Kimi er þó hinn sami og jafnan áður. Við erum báðir búnir að viðra okkur í morgun. Það er gjóla, en hitastigið er aftur ofan við núllið. Ég lá á netinu í gær. Fylgdist með útvarpinu og fylgdist með fréttum á báðum sjónvarpsstöðvunum. Það er nú frekar óvenjulegt. Ástandið er ótryggt. Öryggisleysi hins venjulega almúgamanns blasir við. Ekki öllum reyndar. Botninum er náð segir Vilhjálmur Egilsson og Geir tekur undir. Það er skotið úr mörgum áttum. Það má tæpast segja sannleikann. Gylfi Magnússon dósent við HÍ sagði í gærmorgun að í reynd væru allir íslensku bankarnir gjaldþrota. Og mörg fyrirtæki líka. Hann hefur verið snupraður rækilega. T.d. af Sigurði Einarssyni hjá Kaupþingi. Einum af aðalpókerspilurum landsins undanfarin ár. Ég vona að sjálfsögðu að við íslendingar komumst einvernveginn frá núverandi ástandi, en er jafnframt viss um að Gylfi hefur rétt fyrir sér. Spilaborgir eiga það til að hrynja. Þing BNA hefur nú samþykkt 700 milljarða frumvarpið. Á sama tíma er verið að bera níræð gamalmenni út úr íbúðum sínum. Þessi gamla kona sem bera átti út skaut í sig tveimur skotum. Hún lifir þó enn og er á spítala. Sumum á Wall Street líður þó betur. Vofa kapítalsins glottir í skúmaskotunum. Nú er búið að finna Hannes Smárason. Einn af hinum mikilvirku spilurum við græna borðið undanfarin ár.Þótti spila frábærlega. Kraftaverkamaður, sem hamaðist við að búa til peninga.Einn af útrásarvíkingum ÓRG. Hann er í London, ásamt sambýliskonu, börnum og barnfóstru. Og líður mjög vel. Afskaplega mikilvægt fyrir okkur pöpulinn hér heima að fá vitneskju um það.Yljar væntanlega einhverjum þegar fógetinn mætir til útburðar. Eða hvað? Allir spilararnir hafa löngu tryggt sjálfa sig í bak og fyrir. Þó allt hrynji eru þeir á ládauðum sjó. Þeir munu heldur aldrei viðurkenna glæfraspil sitt. Ekki benda á mig segir varðstjórinn.
Einhvernveginn finnst mér mig skorta einbeitingu við verk mín þessa dagana. En það þýðir alls ekki að aka lengi í lágadrifinu. Vonandi er stutt í fluggírinn. Margt er jákvætt. Uppgjöf er víðs fjarri. En gremjan yfir pókerspilinu og afleiðingum þess er þó enn til staðar. Líklega best að láta hér staðarnumið þó nægur sé efniviðurinn til að skrifa um. Ég les að sjálfsögðu enn pistla nafna míns Ólafssonar. En mér hefur ekki tekist að kommentera á þá að undanförnu. Hann fær kveðju mína eins og allir sem kíkja á skrif mín hér. Með kveðju frá okkur Kimi á fallegum laugardagsmorgni, ykkar Hösmagi.

Thursday, October 02, 2008

 

Frostmark.

Sama nepjan og í síðasta pistli.Kaldast snemma á morgnana. Hitinn hér er nú mínus 0,2gráður. Veðrið fallegt með sólskini.Eftir atburði síðustu daga og vikna líður mörgum illa. Krónan fellur stöðugt. Þó vextir af myntkörfulánunum séu lágir miðað við hérlent vaxtaokur, þá standa margir mjög illa að vígi sem eru með þessi lán. Það geta fáir sem eru með venjuleg laun ráðið við. Allar nauðsynjavörur hækka og reyndar hinar líka. Tóbak og áfengi eiga að hækka um 11,5% um áramótin. Þessar vörur eru inní neysluvísitölunni og munu hækka lán landsmanna um milljarða króna á sekúndubroti.Skiptir þar engu hvort þú kaupir þessar vörur eða ekki. Stýrivextirnir enn í himinhæðum. Og vafasamt að þeir lækki nokkuð. Greiningardeild Kaupþings hvetur yfirnagarann til að hækka þá enn.Og þá hækkar verðbólgan meira og gengið heldur áfram að falla. Auðvitað á að byrja á að lækka stýrivexti. Ástandið er orðið þannig að engin hætta er á frekara neyslufylleríi okkar í bili. Flestir eiga nóg með það sem komið er. Og miklu meira en nóg. Atvinnuleysið eykst stöðugt. Og þeir sem hafa þó enn atvinnu eru margir komnir í vandræði nú þegar.Forsetinn setti þingið í gær. Venju samkvæmt. Innihald ræðunnar kom mér svo sem ekki á óvart.Talaði um forna baráttu okkar fyrir fullveldi, landhelgi okkar og fl. Við eigum ekki að hafa áhyggjur af ástandinu núna. Þjóðin á að styðja ríkisstjórnina. Einhvernveginn kemur fílabeinsturninn aftur uppí hugann. Forseti vor hefur verið duglegur við heimsóknir til fólksins í landinu. Hann hefur líka verið duglegur að ferðast til útlanda.Dásamað útrás íslensku víkinganna. Það virðast engar efasemdir vera í huga hans um ágæti verka þessara víkinga. Ég ætla síður en svo að draga úr áhrifum efnahagskreppunnar víða erlendis á efnahag okkar lýðsins á þessu skeri. Hún er þó bara hluti vandans. Pókerspil tiltölulega fámenns hóps stjórnmálamanna og mannanna sem ýmist fengu eigur okkar landsmanna gefins eða stálu þeim, er meginorsök þess hvernig komið er fyrir almenningi nú. Þeir eru með allt sitt á hreinu. Gætu flestir sest í helgan stein og lifað af gjöfum og þýfi það sem eftir lifir ævi þeirra. Það er dapurlegt að upplifa þetta ástand. Þegar ég lít til baka frá bloggbyrjun 2004 þá sé ég að ég var aldrei of stórorður um þessa hluti. Og því miður sjáum við ekki enn fyrir endann á afleiðingum gjörða snillinganna sem ráðið hafa förinni undanfarin ár.Plágan í seðlabankanum er farin að tala um þjóðstjórn. Nær væri að þessi versta plága sem riðið hefur yfir þetta volaða sker á síðustu áratugum dregði sig burt strax. Það væri ágætt skref í rétta átt.
Þó ég væri snemma á fótum í morgun kom ég mér ekki út úr húsi.Nepja og myrkur. Ég þarf út á eftir í eigin og annara erindajörðum. Kimi sefur á stólnum að venju. Heldur sig fast að fóstra sínum þessa dagana. Ég held að hann skynji að ástandið gæti verið betra. Heilsa mín er þó ágæt. Ég hef ekkert heyrt frá spitalanum. Það þýðir ekki annað en að allt sé í góðu lagi vegna uppskurðarins í fyrra. Það er mér að sjálfsögðu fagnaðarefni. Baráttan heldur áfram. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online