Thursday, May 11, 2006

 

Svartur dagur.

Í gær var gamli lokadagurinn. Vetrarvertíðarlok. Sjómenn fengu sér margir ærlega í ranann á þessum degi í gamla daga. Sem þeir áttu sannarlega skilið. Íhaldið í útgerðarstaðnum Þorlákshöfn notaði tækifærið og leyfði áframhaldandi eyðileggingu á Ingólfsfjalli. Kannski hafa þeir fengið sér í ranann á eftir að loknu vel unnu verki. Og meirihlutinn í bæjarstjórn Árborgar sennilega líka. Honum varð að ósk sinni eftir að hafa lagst á hnén og ákallað íhaldið í Þorlákshöfn. Grátbeðið það að halda áfram að eyðileggja eitt af aðalsmerkjum fegurðarinnar á Selfossi. Engin Beluga vottun. Það er nefnilega ekki hægt að éta fjallið. Ég er fæddur á árbakkanum með brúna og fjallið fyrir augunum. Hef orðið að þola það undanfarana áratugi að horfa uppá afskræmingu þessa mjög svo merkilega og fallega fjalls. Sem betur fer eru margir Selfyssingar sammála mér um þessa fyrirlitlegu meðferð á fjallinu. Við verðum öll að standa saman í kosningunum. Aðeins einn flokkur stendur einhuga gegn eyðileggingunni. Komist hann til áhrifa er hægt að halda baráttunni áfram og reyna að fá þessari ákvörðun hnekkt. Efnahagslegu áhrifin eru mjög ýkt. Af hverju ráðast ekki Reykvíkingar á Esjuna?Hún er við bæjardyrnar en þeir sækja grúsina í Lambafell. En hér eru það bara krónurnar sem telja. Versti sjúkdómur íslendinga um þessar mundir, græðgin, hefur unnið áfangasigur. Komum í veg fyrir lokasigurinn. Snúum vörn í sókn og björgum því sem enn er hægt að bjarga. Stuðningur við vinstri græna er skref í áttina. Við skulum hafa það Varnarborg í stað Barborgar.
Skæni á pollum í morgun. Sólin skín glatt á fjallið mitt. Líka á svöðusárið stóra. Þar sem ég sit við tölvu mína sé ég það ekki. En ég veit nákvæmlega í huganum hvernig það lítur út. Þriðji maður á lista Barborgara hér lýsti því yfir í fyrra að gott væri að fá turnana við brúarsporðinn af því hér væri ekkert útsýni. Líklega í flokki þeirra blindu hér. Vonandi er þetta ekki einu sinni baráttusæti á listanum. Lista sem skammst sín svo fyrir nafnið á flokknum sínum að ekki má nefna það. Gefum þessu liði frí. Þá hefur það tíma til að fara héðan og sjá eitthvað.
Raikonen lagstur eftir útiveruna. Hann hefur örugglega komið auga á fjallið. Gæti best trúað að hann kynni ekki að meta hryðjuverkin gegn því. Sammála mér. Við mótmælum báðir. Ykkar Hösmagi, hálfhnuggin í morgunsárið.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online