Monday, February 25, 2008

 

Fleiri álver.

Þegar eitthvað bjátar á er alltaf gott að eiga til lausnir á vandanum. Einkum og sérílagi þegar vandinn er stór og margþættur. Það eru ýmsir váboðar á lofti í efnahagsmálum íslendinga. Skertur þorskkvóti, loðnuveiðar bannaðar og bankarnir í gjörgæslu. Geir Haarde er þó hvergi banginn. Og nýjasta spekin er sú að ekki megi leyfa einum en banna öðrum. Á grundvelli þess verða allir sem þess óska að fá álver. Helguvík og Húsavík fyrst. Svo kemur Þorlákshöfn með orkuna frá Þjórsá. Ingibjörg Sólrún þegir þunnu hljóði. Kosningaloforðin eru alveg gleymd. Flaggskipið, Fagra Ísland, er sokkið. Enda hriplekt frá upphafi. Nýjasta hjálpræðið í hremmingum okkar er olíuhreinsunarstöð á vestfjörðum. Hvernig fórum við og forfeður okkar eiginlega að við að lifa í þessu landi fyrir 1970? Hvað skal til bragðs taka þegar hvert einasta kílóvatt hefur verið virkjað og orkunni ráðstafað til erlendra auðhringa fyrir smotterí? Mér finnst það nú ekki glæsileg framtíðarsýn að þjóðin vinni aðallega í álverksmiðjum og olíuhreinsistöðvum. Smáhluti getur þó enn verið ánauðugir
þrælar þeirra sem hafa sölsað undir sig allan fiskinn í sjónum. Háður duttlungum sægreifanna sem einungis hugsa um hámarksafrakstur af ránsfeng sínum. Meirihluti landsbyggðarinnar er sviðin jörð eftir efnahagsstjórn undanfarinna ára. Þegar ekki var hægt að nota framsóknarflokkinn meira vegna þess að hann hafði étið sig upp innanfrá þá kom íhaldið sér bara upp nýrri hækju. Sem er engu skárri en sú gamla. Það dregur enn í sundur með þjóðunum tveim sem búa í þessu landi. Misskiptingin í meira algleymi en nokkru sinni fyrr.
Líklega væri best að taka sér langt hlé á póltískum bloggskrifum. Þau gera mér eiginlega bara gramt í geði. En réttlætiskenndin er enn til staðar og alltaf blundar vonin um að ástandið skáni.

Hún er köld birtan hér snemma morguns. Frostið fór yfir 10 stig í nótt. Græna þruman á stalli sínum og hefur nánast skipt um lit. Kríthvít af salti eftir 2 ferðir á höfuðborgarsvæðið. Vatn og sápa bíða kvöldsins. Bestu kveðjur frá okkur húsverði, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, þetta er óttalegt tóbak. Framtíðarsýn Íslands er fremur þunglyndisleg, burt séð auðvitað frá vitjun heiða og vatna. Verður maður ekki bara að horfa þangað og leyfa þessu liði að sigla sinn sjó? Eða eigum við að hafa byltingu?

Bestu kveðjur, Sössinn
 
Við skulum þrauka vegna heiða og vatna.A.m.k.á meðan við fáum ekki eiturspúandi skrímsli við Ónefndavatn. Bestu kveðjur til Börsunga, Hössinn.
 
Sammála þér. Samfylkingin virðist vera að gefa ógnvænlega mikið eftir í þessum álversmálum öllum. Kjördæmispotararnir eru samir við sig, sama úr hvaða flokki þeir koma. Nú er Atli Gíslason, vinstri grænn, meira að segja kominn út í potið líka: Vill endilega að Vestmannaeyingar fái að veiða hval. Hvernig væri nú að reyna fyrst að selja þetta hvalkjöt sem enginn hefur viljað kaupa í eitt og hálft ár, ekki einu sinni Japanir?
 
Ég vil nú heldur drepa nokkra hvali en láta bandarískar kerlingar taka þá í fóstur. Við gætum gefið allar afurðirnar, sem við borðum ekki sjálf, til þróunaraðstoðar. Hvað skyldu mörg börn deyja úr hungri á degi hverjum? Sem betur fer eru nú nokkuð margir umhverfisvinir í SF. En þeir virðast mega sín lítils nú þegar flokkurinn þjónar íhaldinu til sængur. Það er staðreynd að við munum hafa mikla vexti af auðlindum okkar ef við dokum við. Það er nú þegar búið að taka allt of mikið og verðið á raforkunni er smánarlega lágt. Landsmenn sjálfir greiða okurverð fyrir rafmagnið eins og dæmið um Guðna bakara sannar. Hann græðir enn stórfé á að baka við olíuelda þrátt fyrir sögulegt hámark á verði olíunnar. Þetta er óttalegt óþverrarjól, enda hugsa ég bara til fjalla um þessar mundir.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online