Wednesday, February 20, 2008

 

Póker.

Eins og ég sagði frá um daginn spilaði ég stundum póker í gamla daga. Við gamla góða Villa og fleiri Heimdellinga í lagadeild háskólans. Við pældum ekki í hvort við værum að brjóta lög eða ekki. Nutum þess bara að spila og reyta nokkrar krónur hver af öðrum. Nú ráðast menn á einn þingmann framsóknar fyrir að hafa tekið þátt í svona athæfi, Jón Birki Jónsson.Þann hinn sama og ég kallaði stundum litla gamalmennið hér áður fyrr. Þetta er bara stormur í vatnsglasi. Nákvæmlega ekkert athugavert við þetta. Menn spila bridds, tefla skák og leggja nokkrar krónur undir. Happdrætti, lottó og spilakassar á hverju strái.Hvaða læti eru þetta? Nær væri að skjóta á þá sem í krafti embætta og aðstöðu sölsa undir sig opinberar eignir. Nærtækt dæmi er þróunarfélagið sem afhenti góss verndaranna á Keflavíkurflugvelli. Fólk man kannski eftir gömlum línumanni úr landsliðinu í handbolta sem þar kom við sögu? Bróður hrossalæknisins í fjármálaráðuneytinu. En það er gamla sagan. Það verður að gambla á réttan hátt. Vildarvinapólitíkin er lögleg og þar er lítið spáð í siðferðið. Það er skondið í sjálfu sér að þessi þingmaður sé hengdur upp fyrir þessar sakir.Einkum og sérílagi vegna spillingarsögu framsóknarflokksins undanfarin ár. Líklega brosir merarkóngurinn Finnur út í bæði um þessar mundir. Siðferði þjóðar sem leyfir mönnum að stela milljörðum úr almannaeigu en fordæmir tómstundaiðju sem felst í því að hætta nokkrum krónum úr eigin vasa er ekki uppá marga fiska. Nú mega menn vart vatni halda yfir fórnarlund Þorsteins Más Baldvinssonar að hafa lækkað laun sín sem stjórnarmaformanns Glitnis. Úr milljón á mánuði í hálfa. Þessum kvótakóngi er sem sé ekki alls varnað. Milljarðatugirnir sem honum hafa verið færðir á silfurfati úr almannaeigu hafa sannarlega ekki villt honum sýn á siðferðið. Það er ekki ónýtt fyrir okkur brauðstritsmenn að vita af svona fórnfúsu fólki í ábyrgðarstöðum. Það væri illt til þess að vita að fjárhagsáhyggjur spilltu væntingum slíks fólks til margundagsins. Eða væri kannski ástæða til að taka aðeins til í þessu bananalýðveldi?

Enn er veðrið ágætt. Aðeins kólnað en sjóinn tók þó upp í gær. Við kisi við sama heygarðshornið snemma morguns. Pollrólegir og kvíðum ekki deginum eftir góðan nætursvefn. Kominn tími á að anda að sér fersku morgunloftinu eftir kaffi og vindil.
Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Rétt svo sem. Það er þó vafasamt hjá þingmanninum að taka þátt í athæfi sem líklega er ólöglegt. Það þarf enginn að segja mér að Birkir Jón hafi ekki vitað að þátttaka í pókermóti sé í besta falli á grensunni lagalega.
Þessi lög eru líkast til mjög fáránleg og hálfgerð ólög í raun og þeim mætti vel breyta. En þingmönnum ber, öðrum fremur, að fara eftir lögum - jafnvel þó að þeim finnist þau fáránleg.
Eitt er alla vega víst að almennir borgarar þessa lands eru ekki í aðstöðu til að koma fram af sama hroka og Birkir Jón hefur gert í þessu máli þar sem að svar hans við því hvort hann hafi brotið lög hefur verið: ,,Ja, þá þarf bara að breyta lögunum!"
 
Ég ætla ekkert að bera blak af þessum sveinstaula.Fremur en af öðrum framsóknarmönnum. Finnst þó hneykslunartónn margra vera holur og innantómur og þar sé grjóti kastað úr glerhúsi. Ég ætla heldur ekki að hjálpa Gíslamarteini garminum eftir pistil Össurar. En hvar í veröldinni gæti ráðherra skrifað annað eins á bloggsíðu sína án eftirmála. Ég læt svo sem ýmislegt fjúka hér um menn og málefni og kannski ekki allt fallegt. En ég er heldur ekki ráðherra og ber enga pólitíska ábyrgð. En ég ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á því sem ég skrifa hér. Bestu kveðjur annars til þí og stelpnanna.
 
Já, alveg rétt í öllum tilvikum. Þetta eru ólög sjálfsagt og marga stærri glæpi hefur Framsókn drýgt á undanförnum árum.
Um Össur segir maður bara eins og sjallarnir segja þessa dagana um Villa Vill: ,,Hann verður bara að svara fyrir sig sjálfur."
Þakka kveðjurnar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online