Friday, February 15, 2008

 

Gamalt hús.

Það er langt síðan tekið var fyrir reykingar í hinu sögufræga húsi sem ég starfa í. Enda sjálfsagður hlutur. Stundum laumumst við til að fá okkur smók í nýja bílskúrnum hans Árna Vald. Úr vesturgluggum bílskúrsins blasir fornfrægt hús við sjónum manns. Pakkhúsið sem ég hef nú bloggað um áður. Í morgun glömpuðu nokkrir sólargeislar á húsinu. Hugurinn reikaði aftur til fortíðar og jafnframt inní framtíðina. Nú á sveitarfélagið allt húsið. Jarðskjálftarannsóknir eru stundaðar í 2/3 hlutum þess en 1/3 stendur auður. Sá hluti var keyptur í fyrra fyrir 70 milljónir. Það má ekki einu sinni nýta það til góðra hluta af því forseti bæjarstjórnarinnar með hinum fábjánunum getur vart beðið með að jafna þessa ágætu byggingu við jörðu. Þeir vilja líka Sigtún feigt. Húsið sem einn frumkvöðla byggðar hér reisti fyrir 72 árum. Ég tel mig þekkja þetta hús ágætlega eftir að hafa unnið þar í meira en 6 ár. Húsið er vel varðveitt í höndum núverandi eiganda þess. Það er reisn yfir þessari byggingu. Ég er einnig viss um að að meirihlutanum verður ekki að ósk sinni með húsið. Það bætir þó alls ekki hlut skemmdarvarganna sem nú stjórna þessu sveitarfélagi. Það er allt með kyrrum kjörum nú um stundir.Vargarnir ráða ráðum sínum og bíða færis þegar vorar. Þá dreymir um blokkir og turnspírur. Minnisvarða um þeirra eigin heimsku og yfirgengilegan fábjánahátt.Jafnvel íhaldið í Reykjavík lætur sig ekki dreyma um að byggja í Hljómskálagarðinum.Hér vilja snillingar meirihlutans búa til nýtt neðra Breiðholt í bæjargarðinum. Það er hið fagra mannlíf þeirra. Og til að ná takmarkinu eru öll meðul leyfileg. Bruðl,sóun,og svikin kosningaloforð. Ég vona að við Árborgarar berum gæfu til að standa saman gegn áformum um eyðilegginguna á þessum stað sem meirihlutinn rær lífróður til að koma í framkvæmd.

Klakabrynjan á planinu framan við Ástjörn 7 var orðin þunn og ræfilsleg í morgun. Það var notalegt að skreppa í bíltúr snemma morguns. Lancerinn malandi hress eftir að Hörður bílameistari kom nýjum rafgeymi fyrir í gærkvöldi. Helgin nálgast og afmælisveisla annað kvöld. Ég vona að mér verði ekki hugsað til bæjarstjórnarmeirihlutans þessa helgi. Raikonen á harðaspretti með skott sitt upprétt í morgunblíðunni. Fagnaði fóstra sínum á sinn hátt, á öðru hundraðinu upp tröppurnar. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online