Monday, February 18, 2008

 

Draumlyndi.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum
og öldungis frábært að hugsa og láta sig dreyma....

Ljúfur morgunn og andvarann leggur inn um opinn gluggann. Það er gott að sötra kaffið, lygna aftur augunum og láta sig dreyma á slíkum morgni. Þessi hlýindakafli eftir allan kuldann og ofanfallið var ákaflega kærkominn. Veldur vorfiðringi hjá gömlum veiðiref og ketti hans. Aðalfundur stangveiðifélagsins hefur verið boðaður n.k. föstudagskvöld og þá styttist í að laxveiðidagarnir í Ölfusá verði ákveðnir. Nú er 6. júlí á sunnudegi. Kannski væri athugandi að gera hann að hinum rómaða 3ja stanga degi? Það er semsé að færast mynd á sumarið hvað veiðiskapinn varðar. Það er ljúf tilhugsun þeim sem stritast við að sitja við tölvuna daginn út og inn. Lífið undir yfirborði vatnsins, fuglar himinsins og aðrar dásemdir náttúrunnar fanga hugann. Fögnuður og þakklæti yfir að fá að njóta þessa alls eitt sumarið enn.Stundum einn og stundum í góðum félagsskap. Allt ranglæti heimsins gleymist og bjartsýnin ræður ríkjum. Myrkrið víkur og birtan nær yfirhöndinni. Þá er afskaplega gaman að lifa. Engar svartar hillingar né brennandi vindur. Einungis fjólubláir draumar, gleði og fögnuður. Ég hlakka til að hitta himbrimann á ný. Hann mun verða á sínum stað þrátt fyrir fimbulkuldann um daginn. Töfrarnir lifa og halda tökum sínum. Stangartoppurinn er farinn að sveigjast nú þegar. Yngsti afkomandinn farinn að hlaupa um. Þegar við hittumst á laugardaginn beygði hann af í fyrstu. En það var stutt í brosið. Afi gamli sjaldséður gestur svo allur var varinn góður. Við eigum örugglega eftir að njóta dásemda vatnanna góðu þegar fram líða stundir.
Rólyndi og vellíðan ræður ríkjum hér í Ástjörn. Albestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Takk fyrir síðast! Kominn aftur til Barcelona en hlakka sömuleiðis til vatnaferða á komandi sumri, bestu kveðjur, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online