Sunday, February 10, 2008

 

Heill og hagur.

Það ríkir gerningaveður í borgarpólitíkinni. Menn vega hvern annan úr launsátri. Eftir bestu getu. Það er áberandi hjá mjög mörgum sem taka þátt í þessu ólýðræðislega ferli að hagur borgarbúa er aukaatriði.Sóun og bruðl eru af hinu góða ef það þjónar hagsmunum persónanna í þessum sjónleik. Einn ötulasti bloggarinn á moggablogginu er ungur sjálfstæðismaður norður á Akureyri.Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann leggur útaf hverri frétt sem birtist. Borgarpólítíkin og leikararnir í Hollívúdd eru honum hugleikin. Enn það sem virðist skipta hann mestu er flokkurinn hans. Heill og hagur sjálfstæðisflokksins eru honum allt. Hann krefst þess að Vilhjálmur víki til hliðar í borginni. Ekki vegna hagsmuna borgarbúa heldur vegna hagsmuna flokksins. Ég græt nú ekki hvernig komið er fyrir íhaldinu í Reykjavík. En kreppan í borgarstjórninni er ákaflega slæm fyrir borgarbúa og þetta fáránlega sjónarspil verður þeim ákaflega dýrkeypt. Þingrofsrétturinn í stjórnarskránni er þar til þess að hægt sé að höggva á hnúta í landsmálapólitíkinni og gefa þjóðinni kost á að velja nýtt þing. Því miður er þessi réttur ekki til staðar í sveitarstjórnarmálunum. Þessvegna mun tjón borgarbúa enn aukast. Kjörtímabilið ekki hálfnað og upplausnin mun halda áfram. Það verður höfuðborginni ákaflega skaðlegt. Vilhjálmur mun sitja sem fastast enn um sinn. Það á að reyna að bjarga andliti íhaldsins. Vinna tíma til að leita heppilegra lausna fyrir flokkinn.Geir neitar að tjá sig við fjölmiðla.Borgarfulltrúar íhaldsins eru í felum. Þó fólk sé ótrúlega fljótt að gleyma spái ég að íhaldið eigi eftir að súpa seyðið af þessu ástandi. Ólafur F á heldur ekki afturkvæmt í stjórnmálin. Allt bendir líka til að framsókn sé endanlega úr sögunni í borgarmálunum. Það eru því jákvæðir punktar í þessu sem öðru. Vonandi munu höfuðborgarbúar verða heppnari með stjórnendur eftir næstu kosningar.
Enn er hér þíða.Nánast logn og ferska loftið leggur innum gluggann. Einkadóttirin er fertug í dag, 11. febrúar. Hún fær knús frá mér. Veisla næsta laugardag og vonandi verður veður þá skaplegt.Þorri meira en hálfnaður svo þetta tosast allt í rétta átt.
Við Kimi sendum góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta minnir á klunnalega yfirlýsingu Jón Sigurðssonar þegar að hann settist tímabundið í formannsstólinn hjá Framsókn. Þá sagði hann einmitt að hagsmunir flokksins skiptu mestu máli í þátttöku hans í stjórnmálum. Stundum eru stjórnmálamenn óvart aðeins of heiðarlegir.
Annars er það náttúrlega um margt ágætt fyrir okkur vinstri mennina að Vilhjálmur sitji sem lengst. Þar með sjá sjálfstæðismenn um það sjálfir að bíða afhroð í næstu kosningum án þess að aðrir flokkar þurfi að lyfta svo mikið sem litlafingri.
Verra er það hins vegar ef að gg Villi heldur að hann eigi enn þá séns í borgarstjórastólinn.
 
Nokkuð góð greining á ástandinu.Þorgerður Katrín segir að framsóknarflokkurinn sé að kála sjálfum sér. Það virðist nú einnig gilda um sjálfstæðisflokkinn í höfuðstaðnum. Nú dugar okkur Tjarnardúett næst.Sannkölluð landhreinsun að brotthvarfi frjálslyndra og framsóknar.Kveðja úr hlákunni.H.
 
Tek undir þetta allt saman en er í sjálfu sér bara feginn að vera laus undan Kastljósi, Silfri og slíku. Endalaus þvæla þessara vitleysinga að viðbættri umræðunni um þá getur alveg gert mann gráhærðan. Nóg er það nú fyrir í íslenska skammdeginu. Raunar ætti að vera föstudagskastljós á hverjum degi í febrúar.

Allavega, sjái mín sæla systir þetta þá tek ég, og hvort sem er, innilega undir velferðaróskir á afmælisdaginn. Bestu kveðjur úr Börsunni, lítt eytt skýjaðari en undanfarna daga, Sössinn
 
PS. Tek þó fram að gagnrýni á hina pólitísku umræðu á ekki við um þetta blogg. Þetta blogg er ein af mínu helstu samskiptaæðum við íslensk þjóðfélagsmál og fagna ég því vitaskuld áfram. Hefurðu annars veitt lax í Tungufljóti, Hösmagi? Í fossinum Faxa?
 
Nei, það hef ég nú ekki gert. Og ekki hef ég heldur reynt fyrir mér í Tungufljóti eystra. Kannski kynnist ég nýjum veiðilendum á komandi sumri.Nú magnast hugurinn því það er hláka í kortunum a.m.k. fram á laugardag. Bestu kveðjur til ykkar, Hössinn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online