Wednesday, February 20, 2008

 

Stærilæti.

Ríkisstjórnin má vart vatni halda yfir nýjustu afrekum sínum varðandi nýundirritaða kjarasamninga. Solla og Geiri tala um tímamótasamninga og skammast út í VG fyrir að lýsa efasemdum sínum með ágæti samninganna. Gamla lumman um að Steingrímur sé á móti öllu er endurtekin. Hversvegna eru atvinnurekendur svona ánægðir? Einfaldlega vegna þess að þeir gerðu góðan díl. Getur einhver lifað á 137.000 kr. mánaðarlaunum? Og hækkun persónuafsláttarins er blásin út. 7.000 kall. Ef staðreyndirnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós: Engin hækkun árið 2008, 167 kr. á mánuði árin 2009 og 2010og 250 kr. árið 2011. Þessi smán gengur jafnt yfir alla. Það væri auðvelt að hækka persónuafslátt láglaunafólks miklu meira ef nokkur vilji væri til þess. Þessi ríkisstjórn er engin jafnaðarstjórn frekar en sú sem síðast sat. SF fer létt með að kasta kosningaloforðum sínum á ruslahaugana. Fagra Ísland auðvitað á bak og burt enda einungis áróðursbragð fyrir kosningar. Álver í Helguvík og Húsavík og virkjanaæðið heldur áfram. Það er gapað um árangur sem enginn er. Því miður er þessi samstjórn íhalds og SF engu betri en fíneríið sem við höfðum áður. Það er enginn vilji hjá SF að standa við stóru orðin. Völd og vegtyllur eru í fyrirrúmi. Blaðrið í viðskiptaráðherranum er að verða sérstakt vandamál. Auðvitað stendur ekki til að fella stimpilgjöld niður eins og lofað var. Hrossalæknirinn í stóli fjármálaráðherra hefur ekkert breyst. Vaxtaokrið hefur aldrei verðið verra en nú og verðtryggingin étur upp eignir fólks vegna pókerspils ríkisstjórnarinnar og auðmannadekursins í skjóli hennar. Og ráðherrarnir eru að springa úr monti yfir góðum árangri. En það flökrar ekki að þeim að breyta grundvelli útreiknings neysluvísitölunnar sem myndi færa skuldsettu láglaugafólki meiri kjarabætur en allt annað.

Jörð er nú alhvít aftur eftir næturúrkomuna. Enginn rosi á ferðinni og líklega tekur þennan snjó upp von bráðar. Rólegheitadagur framundan og allt með kyrrum kjörum. Bestu kveðjur frá okkur yfirhúsverði, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online