Saturday, February 09, 2008

 

Þrumuveður.

Mér fannst vera himnesk blíða í gærkvöldi. Hávaðarok, rigning, þrumur og eldingar. Þessi symfónía lét ákaflega vel í eyrum. Raikonen líkaði þetta þó ekki og flýði undir rúm eins og á gamlárskvöld. Nú hefur lægt og örlar á skímu. Snjófjöllin hafa lækkað en það hefur aftur fryst. Meiri rigning í næstu viku og þá sljákkar enn meira í snjónum. Góður vinnudagur í gær en samt ljúft að koma heim í helgarfrí. Pappírsvinna áfram í dag. Gamlar syndir og ný verkefni að auki. Gott þegar slíkt berst í hendur. Ég sé fram á að vinna fyrir öllum veiðileyfum sumarsins um helgina.Dásamlegt.
Rokið og rigningin sáu um moksturinn af svölunum í gær.Smávegis eftir sem rigning morgundagsins sér um. Ég sá haft eftir Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi, að kuldapollur háloftanna sé nú nær okkur en venjulega. Lægðirnar koma hver af annari næstu vikur. Ég ætla að gerast spámaður. Það vill svo til að nú ber vorjafndægur uppá föstudaginn langa. Þá byrjar að vora fyrir alvöru. Grænn apríl og gott sumar í kjölfarið. Læt mig a.m.k. dreyma um þetta. Nú er lika orðið hægt að una við föstudaginn langa. Man vel eftir eftir einum slíkum frá því ég var ungur og bjó á Nýja-Garði. Varð allt að því hungurmorða. Stúdentamötuneytið á Gamla-Garði var lokað. Og nánast allir aðrir matsölustaðir einnig. Einhverntíma undir kvöld fékk ég þó að éta. Matstofa Austurbæjar bauð uppá steik og hangikjöt. Ég held að það sé í eina skiptið sem ég hef borðað hangikjöt með brúnuðum kartöflum. Fór bara ágætlega saman. Margt breyst á þeim 40 árum sem liðin eru. M.a.s. prestar þjóðkirkjunnar hafa gefist upp á að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti komist í gegnum þennan dag. Það er gott út af fyrir sig. Guðmundur, fyrrum mágur minn, fékk einu sinnni mjög bágt fyrir að drepa flugu þennan heilaga dag. Fékk rassskellingu eða eitthvað þaðan af verra. Það var heldur ekki hákristilegt framferði okkar skáldsins á föstudaginn langa árið 1993. Drápum marga fiska í fyrstu ferð okkar í Tangavatn. Ég er samt viss um að okkur var fyrirgefið og þessi 1. apríl er mér sérlega eftirminnilegur. Kannski verður bara gott veiðiveður þann 21. mars n.k.?
Næst liggur fyrir að koma litlu drossíunni í gang. Rafgeyminum líkaði ekki 18 gráðu gaddurinn um daginn. Nýir startkaplar og græna þruman eru til reiðu. Þruman er eins og skáti. Ávallt reiðubúinn. Þrumukveðjur til allra krúttanna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ég lít hér með formlega á mig sem krútt! Bestu kveðjur sömuleiðis til dúllanna á Selfossi! Sössinn
 
Það máttu alveg. Krútt hefurðu alltaf verið. Við dúllurnar vorum að vakna af miðdegislúrnum.Fjallhressar að vanda. Og nú skaut skottdúllan sér út um gluggann. Hér ríkir hamingjan ein. Hösinn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online