Saturday, February 16, 2008

 

Ilmur af góðviðri.

Suddi og 7 gráður. Hausinn á Raikonen úti en afgangurinn í gluggakistunni. Við hnusum báðir af þessu góða vetrarveðri. Það verða ekki vandræði með færð í Garðabæ síðdegis. Verð örugglega að halda aftur af bensínlöppinni. Það er freistandi að slá vel í klárinn þegar þegar svona viðrar á síðari hluta Þorra.
Ég var að tala um olíumafíuna um daginn. Mér fannst ákaflega skondið að fá upphringingu frá Atlantsolíu í fyrrakvöld. Ég var spurður hvort ég vildi ekki fá meiri afslátt á bensíninu. Ég þáði boðið en fannst þetta samt dularfullt. Skýringin var sú að ég hafði aðeins tvívegis tekið bensín á árinu. Einungis hreyft annan vagninn og bara til vinnu og heim aftur. Ég nýt góðs af þessu því liðið hjá AO hefur talið að ég héldi framhjá þeim. Margt smátt gerir eitt stórt. Safnast þegar saman kemur. Aðeins ódýrara eldsneyti og 3 krónur í aukaafslátt er betra en ekkert. Ég fékk fiðring í magann í vikunni. Fór í Bílanaust að kaupa nýjan rafgeymi í Lancerinn. Þarna stóð lítil vespa. Eldrauð að lit. Og kostaði 130.000 - Er að hugsa mig um. Það versta við þessi hagkvæmu farartæki er hvað dýrt er að tryggja þau. Dýrara en að tryggja Lancerinn. Sennilega byggir það á hærri ökumannstryggingu. Ef ég læt slag standa hef ég vespuna bara á skrá í 4-5 mánuði ár hvert. Svona maí til september. Það er ljúft að láta sig líða áfram á svona farartæki. Eyðslugrannt mjög og mengunin hverfandi. Hægt að fylla tankinn fyrir klinkið í buddunni.
Kimi er nú sofnaður á teppinu góða í horni kontorsins. Það er laugardagur og lífið er sannarlega ljúft í dag. Ég er að hugsa um að láta líða úr mér líka. Góður miðdegislúr er ágæt undirstaða undir veisluhöld kvöldsins. Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online