Thursday, February 14, 2008

 

Unaður.

Það er hlákuspá næstu 5 daga. Það er mér sannarlega gleðiefni. Þó rigningin sé ekki skemmtilegasta veðrið svona yfirleitt þá er hún sérdeilis fagnaðarefni núna eftir kulda og óvenjumikla fannkomu. Klakinn að mestu horfinn af götunum hér og lífið miklu bærilegra en í síðustu viku. Næstum orðið albjart þegar haldið er til vinnu um níuleitið. Reyndar fór ég fyrr af stað en venjulega. Kom við á heilsugæslustöðinni uppúr átta. Ég sagði við meinatækninn á rannsóknarstofunni að hún mætti ekki tæma mig alveg. Ég skildi eftir 6 skammta af blóði í þágu 2ja rannsókna sem ég tek þátt í.Mér fannst sjálfsagt að segja já þegar eftir þessu var leitað. Þróun læknavísindanna er enn ör sem betur fer. Það er meira en hægt er að segja um guðfræðina. Þar eru menn í sömu sporum og fyrir 2.000 árum. Ef framlag mitt getur einhverntíma orðið einhverjum öðrum til hjálpar þá er það gott.
Fremur rólegt í starfinu þessa viku. Aðstæður ekki sem bestar. Vaxtaokur, verðbólga og vond ríkisstjórn hjálpa ekki uppá sakirnar. Yfirnagarinn hélt stýrivöxtum óbreyttum samkvæmt tilkynningu í morgun. Ósköp verð ég feginn þegar sá maður hættir störfum. Hann hefur engu gleymt og lítið lært. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort ekki mætti leggja seðlabankann niður. Þetta er hvort eð er ekki nema elliheimili fyrir stjórnmálamenn sem búið er að úrelda. Bankinn beitir nákvæmlega sömu aðferðum í þenslu og samdrætti. Musterisriddararnir mættu missa sig. Það er líka dýrt að láta menn naga blýanta og leika golf fyrir milljónir í mánuði hverjum.

Nú bíður fólk eftir næsta leik í borgarstjórnarpólitíkinni.Þar er uppi vond staða fyrir borgarbúa. Galdramaðurinn hugsar og hugsar.Búinn að vera í þessu í 25 ár eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni. Það er stundum erfitt að ljúga sig út úr klúðri.
Gammarnir bíða og vona hið besta. Við Kimi biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online