Saturday, February 02, 2008

 

Kaldur morgunn.

Nú er 17 stiga frost hér og yfir 20 á Hellu og Þingvöllum. Nánast logn og bara notalegt að hafa gluggann opinn til norðurs og finna ferskt loftið leggja inn.Við kisi sváfum vel í hlýjunni innandyra. Eftir hálftíma verður orðið albjart. Hænufetunum fjölgar og hitastigið hækkar aftur á morgun.Ég er að reyna að magna mig upp í pappírsvinnu sem allt of lengi hefur setið á hakanum. Gæti trúað að það hafist.Við erum svona, stórlaxarnir. Dormum í hylnum og látum okkur dreyma svolítið.Stökkvum svo upp fossinn þegar nákvæmlega rétta stundin rennur upp. Trúir eðli okkar og innræti. Einstaka morgunhanar komnir á stjá en annars ró og kyrrð yfir staðnum. Nú er mánuður í að netframtalið opni hjá skattstjórum. Þeir fyrstu þegar farnir að hringja. Strax farnir að hugsa um að gjalda keisaranum það sem honum ber.Það veitir ekki af nú. Yfir 40 milljónir út í vindinn úr bæjarsjóði í janúar.Þeir sem dýrka þetta frosna vatn ættu að borga meira en við hin sem viljum ekki sjá það. Mér finnst það sanngjörn krafa.
Pattstaðan í borginni núna undirstrikar að við þurfum að endurskoða lögin um kosningar til sveitarstjórna. Það var óþarfi hjá stjórnmálafræðingnum, nafna mínum Ólafssyni, að efast um þekkingu sína á þessum lögum. Heimildina til að kjósa nú skortir í lögin. Ekkert myndi þó henta reykvíkingum betur en að hægt væri að boða til kosninga á ný. Nýi meirihlutinn hefur enga burði til að stjórna höfuðborginni.Þessi marghöfða þurs veit ekki sitt rjúkandi ráð. Örfá prósent kjósenda treysta borgarstjóranum og íhaldið margklofið í innbyrðis átökum. Þetta ástand skaðar borgarbúa mjög. Því fyrr sem því linnir, því betra. Margir sjálfstæðismenn sjá þetta og vildu fegnir að forystumennirnir áttuðu sig áður en það verður um seinan.
Frumburðurinn, Berglind Anna, var að hringja og bjóða til veislu.Mér finnst nú ekki langt síðan ég hélt frumburði hennar undir skírn. Nafna mínum og lambakóngi.Hann verður 22ja daginn eftir fertugsafmæli móður sinnar. Tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt.Aðeins rúm 3 ár í að undirritaður fái löggildingu ríkisins á að vera gamalmenni og litla barnið mitt kemst á fertugsaldurinn á árinu. Þetta er samt allt ágætt. Meðan lífsgleðin endist, heilsan er góð og fólki líður vel þá er þetta alltaf jafn skemmtilegt. Við Begga, Ingunn Anna og kannski Hrefna, ætlum í veiðitúr í sumar.Það var ákveðið um jólin og ég hlakka til.
Fjallið góða hefur nú stigið út úr myrkrinu. Það stirnir á það í kuldanum. Ráð að skreppa aðeins út og taka rúnt á grænu þrumunni. Bestu kveðjur frá okkur Raikonen.Nammidagur hjá honum í dag, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, kominn tími til að þessar tjeeeeellingar fari að veiða hérna! Annars, að öllu gríni slepptu, hið besta mál. Efast ekki um að Berglind eigi eftir að landa nokkrum, hið minnsta.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online