Tuesday, February 26, 2008

 

Það kemur fyrir....

að bestu menn tali af sér. Björn Bjarnason er greinilega ekki sáttur við stöðu íhaldsins í höfuðborginni. Hann fór reyndar sjálfur í krossför gegn R listanum á sínum tíma. Það var sneypuför hin mesta og erfiðið meira en árangurinn. Í gær var pistill á heimasíðu þessa ráðherra með hugleiðingum um stöðuna. Þar hafði hann allt á hornum sér úti Svandísi Svafarsdóttur. Kannski vegna þess að hún átti stóran þátt í að upplýsa almenning um hvernig sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að afhenda réttum aðilum mikil verðmæti úr almannaeigu. En í leiðinni missti ráðherrann út úr sér að hin raunverulega ástæða gremjunnar var sú að Svandís var ekki tilbúinn að hlaupa undir íhaldssængina. Í morgun var ráðherrann búinn að fjarlægja pistilinn af síðunni.Ég vona að það hafi verið fleiri en ég sem lásu boðskapinn í gær. Ráðherrann veit að núverandi meirihluti er gjörsamlega vonlaus og ekkert nema afhroð blasir við íhaldinu ef hann lafir út kjörtímabilið. Þó ég hafi nú stundum áður verið talsmaður samvinnu VG við íhaldið þá er ég ánægður með að Svandís var ekki tilbúinn að bjarga íhaldinu í Reykjavík. Núverandi meirihluti er ákaflega slæmur fyrir Reykvíkinga. Það er þó huggun harmi gegn að hann mun sýna þeim hvað ekki á að kjósa í næstu kosningum.Atburðir síðustu vikna munu verða afdrifaríkir fyrir sjálfstæðisflokkinn í þessu forna höfuðvígi sínu. Það er fagnaðarefni eitt og sér.

Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.... Tveggja stiga frost og dálítið fjúk. Svali í veðurkortunum fram yfir mánaðamót. Kisi eltist við græna kúlu úr silfurpappír og undirritaður sötrar síðustu dropana af morgunkaffinu. Ró yfir tilverunni þó þráin eftir vori sé ráðandi. Bráðlega skýrist með veiðidagana í Ölfusá og hugurinn strax við bakkann. Ég skrapp upp á Flúðir í gærmorgun. Farið þangað ótrúlega oft í erindum fasteignasölunnar. Það er eitthvað notalegt og heillandi við þennan höfuðstað uppsveitanna. Þar býr glaðlynt og gott fólk og allir virðast una glaðir við sitt. Alltaf jafn skemmtilegt að stíga upp frá tölvunni og bruna uppí sveit. Besti hluti stritsins fyrir kapitalistana. Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online