Monday, February 04, 2008

 

Uppreisn.

Ég gerði uppreisn í gær. Gegn sjálfum mér. Að undanförnu hef ég haft einstakt lag á að koma mér undan ákveðnum verkum heimafyrir. Starað á sumar möppurnar á kontornum og síðan stokkið á flótta fram í stofu til einhverra fáfengilegra hluta. Teningarnir ávallt á sínum stað og kannski vantar eitt orð í einhverja krossgátuna. Hvort tveggja ágætt þegar ekki er neitt þarfara að gera. Svona gekk þetta á laugardaginn þó ég hefði reiknað með öðru. Í gærmorgun sprakk svo blaðran. Ég réðist með offorsi að pappírshaugnum og byrjaði að gramsa. Smátt og smátt kom mynd á það sem ég ætlaði að klára. Um fjögurleitið hringdi Hörður bílameistari. Ég var snöggur til hans því græna þruman þurfti athugunar við eftir stormsveip fimmtudagsins. Að venju var Hörður rólegur og yfirvegaður. Önnur lömin hafði skekkst við átökin. Síðan tóku við fumlaus handtök og brátt var allt í réttum skorðum á ný. Sjálfur hafði ég fiktað í tölvu þessa fína vagns. Hún var nú komin með spænsku í stað ensku. Blikkið sást ekki ef vagninn vagninn var opnaður. Og hann flautaði þegar honum var læst. Ég er þvílíkur fáviti í svona hlutum að ég ætti sennilega heima í heimsmetabókum fyrir fávisku mína og vankunnáttu. Þetta lagfærði töframaðurinn fljótt og vel og lokahnykkurinn var að bæta nokkrum pundum í varadekkið. Og nú er þruman hætt að kvarta og við bæði fjallhress með þetta. Pappírsverkinu lauk í morgun. Sálin hefur tekið fjörkipp. Og næsta mappa verður tekin á beinið í kvöld og í fyrramálið. Engin grið gefin fyrr en fullnaðarsigur vinnst. Þetta veitir líka mikla ánægju þegar upp er staðið. Að auki léttir það lífsbaráttuna. Fyrsti reikningurinn farinn í póst.

Hér er nú glampandi sól í dúnalogni. Frostið 4 stig og spáð heldur hlýnandi. Bollur út um allt og gulu baunirnar í bleyti heima. Saltkjötið og beikonið í ísskápnum. Það verður veisla í Ástjörn 7 annað kvöld. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ósköp skilur maður þetta nú samt vel . . . Ég er til að mynda með skákforrit í tölvunni minni sem freistar stundum meira en öll verkin sem hún vill kveða mann til. Það er ágætt að hafa þetta í bland. Til hamingju með sigurinn þó. Alltaf gott að sópa leiðindaverkunum í burtu. Bestu kveðjur, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online