Tuesday, February 12, 2008

 

Mafíósarnir....

eru enn við sama heygarðshornið.Bensín og hráolía stórhækkuðu í verði í gær.Eldsneytisverð hefur aldrei verið hærra hér en nú. Ég fæ ekki betur séð en samráðsokrið sé sprelllifandi ennþá. Hvernig má það vera að stóru félögin 3 þurfi öll að hækka verðið á sama klukkutímanum um sömu krónu- og auratölu? Væri ekki rétt að rannsaka það aðeins? Hvað segir Árni Matt við þessu? Auðvitað já og amen því ríkið græðir enn meira. Hvað sem líður áliti fólks á bílismanum þá er það staðreynd að við verðum að nota þetta farartæki hér. Fáar hræður í stóru landi. Engar lestir og strandsiglingar aflagðar. Fáar neysluvörur eru skattlagðar jafn ofboðslega og eldsneyti. Verðið er líka inní neysluvísitölunni sem þýðir að verðtryggðu lánin hækka um leið og eldsneytisverð hækkar. Líka hjá hjólreiðamönnum og göngugörpum sem eiga ekki bíl. Hér þarf stóruppskurð. Réttlæti í stað ranglætis. Sektargreiðslur olíufélaganna renna beint í ríkissjóð. Ekki til almennings sem rændur var af mafíósum þessara fyrirtækja. Sem eru stikkfrí. Félögin eru sektuð en ekki mennirnir sem rottuðu sig saman um að svindla á almenningi með svívirðilegum vélabrögðum. Ef þjófur er gripinn með þýfi sem hann hefur stolið frá mér á þá að afhenda það Árna Matt? Það virðist vera réttlæti dagsins. Og glæponarnir glotta útí annað og ekki sýnilegt að samviskan plagi þá. Kannski er þetta eðlilegt í bananalýðveldinu Íslandi þar sem kaupréttarsamningar eru meira virði en hagsmunir almennings. Hafi einhverntíma verið siðferði í stjórnmálum þessa útskers er það að hverfa. Það sanna atburðir síðustu daga betur en allt annað. En það er nú huggun harmi gegn hjá ggV að hann hefur fengið ótvíræðan stuðning. Þingmaður með æruna uppreista og glampandi af heiðarleika hefur talað. Sannarlega ekki ónýtt fyrir lúinn galdramann.

Mannlífið er að kvikna hér að morgni dags. Veðrið ágætt og snjórinn verður enn að hopa næstu daga. Mér og dýrinu mínu líður prýðisvel þrátt fyrir allt ranglæti. Sá rauðbröndótti vakti mig klukkan 5 í morgun. Tærnar sem stóðu undan sænginni góðu freistuðu of mikið. Þetta var bara gott því ég var vel útsofinn. Nýtt tímann til að lækka pappírshaugana enn frekar. Held hress og kátur til starfa klukkan 9 og er fullviss um að þetta verður ágætur dagur. Sá 13. af febrúar. Það er flott tala. Við sendum góðar kveðjur að venju, ykkar Hösmagi.

Comments:
já, sækjast sér um líkir, þeir ÁJ og ggV. Enginn skilur betur ofsóknir skrílsins út af ,,tæknilegum mistökum" en ÁJ. Allir svo vondir við þá báða, greyin.

Sammála að mörgu leyti með bensínspillinguna en þó ósammála þeim sem segja að ríkisvaldið eigi að grípa inn í til að lækka bensínverð. Allir vinstriflokkar og umhverfisflokkar í vesturheimi berjast fremur fyrir því að umhverfisskattar á bensín séu lagði á fremur en að hvatt sé óbeint til einkabílisma með ódýrara bensíni. Allir nema VG á Íslandi þar sem Jón Bjarnason hefur farið fremstu í flokki.
Hins vegar rétt að að mörgu leyti eru íslenskir neytendur í spennitreyju enda hafa stjórnmálamenn hérlendir klúðrað því um áratugaskeið að byggja hér upp almennilegt almenningssamgangnanet.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online