Friday, December 26, 2008

 

Letilíf.

Við Kimi höfum slappað vel af það sem af er jólum. Vöknuðum þó nokkuð snemma. Hitinn við frostmarkið, grá jörð og blankalogn. Kimi dvaldi utandyra á annan klukkutíma og undirritaður fór í eftirlitsferð um gamla þorpið sitt sem nú er titlað bær. Þegar heim kom lagðist ég flatur í beð minn og lauk við brunabílinn sem týndist. Þá var hæfilegt að leggja sig aftur. Draumalandið kom strax til mín. Gekk svo frá minniháttar uppvaski og þaðan lá leiðin aftur til sængur með Rimbaud. Eftir lestur u.þ.b. 4 hluta kversins lognaðist ég enn útaf. Lauk við að ryksuga hornin sem útundan höfðu orðið og Kimi lagði niður skott sitt og flýði fram á kontórinn. Aldrei hrifinn af óhljóðunum í þessu apparati. Hann situr í glugganum og horfir heimspekilega á Ingólfsfjall. Þar eru skaflar í giljum en stórir flekkir auðir. Jólasólin er komin upp fyrir nokkru og sendir geisla sína á þetta tignarlega fjall sem blasir við hér úr norðurglugganum.

Ég hef stundum sagt að við breytum ekki því sem liðið er. Kraftaverkaliðið í stjórn landsins getur það ekki einu sinni. Þar er líka fremur lítill áhugi á að reyna að gera eitthvað vitrænt eftir öll afglöpin. ISG ætlar ekki að skipta út ráðherrum af því íhaldið ætlar ekki að gera það. Það sýnir vel hvað SF er límd föst við þennan flokk. Þetta ættu allir sannir vinstri menn sem glæptust á að kjósa SF á alröngum forsendum að athuga vel. Því miður trúðu of margir á fagurgalann fyrir síðustu kosningar. SF hefur ekki reynst hótinu skárri en gamli alþýðuflokkurinn sem var hækja íhaldsins öll " viðreisnarárin". Það þarf mikla endurnýjun í stjórnmálin. Það gildir raunar um alla flokkana. Hlutverki framsóknar er löngu lokið. Það á bara eftir að róta yfir þetta hræ. Frjálslyndi flokkurinn er klofinn í marga smáflokka. Hann hefur reyndar aldrei gegnt neinu hlutverki í stjórnmálum landsins og á líka eftir að hverfa.Þegar búið verður að taka ærlega til í SF verður kannski von til að hægt verði að mynda vinstri velferðarstjórn í þessu landi. Íhaldið úti í frostinu og ný gildi sett í öndvegi.Græðginni hent á haugana og hinn smái tekinn fram fyrir þann stóra og sterka. Þá munum við ekki þola yfirnagarann í musterinu. Þá verður tekið til í FME. Þá verður miklu betra að lifa hér en áður. Þetta er engin draumsýn. Undiraldan er til staðar. Gremjan og fyrirlitningin á glæpahyskinu. Á stjórnvöldum sem hafa staðið aðgerðalaus. Láta hyskið rannsaka sjálft sig og ræður stjórnendur gömlu bankanna sem yfirmenn í nýju ríkisbönkunum. Stjórnvöld eru með allt niðrum sig. Berstrípuð eins og keisarinn forðum. Ég vona að eitthvað mikið og gott gerist á næsta ári. Nýr fallegur fáni rísi og landinu verði stjórnað með hag almennings að leiðarljósi. Þó nú sé útlitið ekki mjög bjart ætla ég að láta bjartsýnina hafa völdin eins og áður. Vorið kemur enn einu sinni á næsta ári.Útivera,lax og urriði.Langar bjartar nætur. Við Kimi sendum öllum vinum og vandamönnum bestu óskir um farsæld á nýju ári, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online