Tuesday, December 09, 2008

 

Kleppur - hraðferð.

Það er ekki fallegt að hafa geðsýki fólks í flimtingum. Það hefur þó verið gert lengi. Þegar fylgst er með því sem er að gerast og hefur verið að gerast í þessu bananalýðveldi að undanförnu rifjast þó upp sögur af Kleppi. Þar ku eitt sinn hafa verið maður sem hélt að tannburstinn hans væri hundur. Hafði hann í bandi á spásseringum sínum um húsið og talaði heilmikið við hann. Hersingin sem kom á stofuganginn á morgnana heilsaði Nonna og Snata. Það varð að ávarpa báða. Sæll Nonni, góðan dag Snati. Svo bar þó við einn morguninn þegar yfirlæknirinn hafði heilsað samkvæmt venju að Nonni brást sérkennilega við. Hann spurði lækninn hvort hann væri orðinn bilaður. Það hlytu allir að sjá að þetta væri ekki hundur heldur tannbursti. Læknirinn varð undrandi á skjótum bata sjúklingsins. Hugsaði sitt og viðurkenndi strax að auðvitað væri þetta bara tannbursti. Þegar dokksi hélt á brott ásamt fylgdarliði sagði Nonni við tannburstann: Þarna lékum við laglega á hann Snati. Önnur sagan var um sjúklinginn sem fylgdist með utanhússmálningu á þessu fræga húsi inn við sundin bláu. Gekk til málarans og kallaði: Haltu þér fast í pensilinn því ég ætla að taka stigann. Ástandið er svona í ætt við þessar sögur. Enginn sem ber ábyrgð á ástandinu viðurkennir hana. Ríkisstjórnin er að bjarga því sem bjargað verður og við eigum að þegja og vera þakklát. Innherjaviðskiptin halda áfram.Embættismenn, stjórnmálamenn og allir sem enn hafa aðstöðu til hamast við að skara eld að eigin köku.Bófarnir eru sjálfskipaðir sem rannsóknarmenn á eigin glæpaverkum. Sé fólk ekki ánægt með niðurstöðuna má láta aðra glæpona yfirfara hana. Skyldi einhverntíma koma að því að fólk axli ábyrgð á gerðum sínum hér? Ekkert bendir til þess eins og er. Hér segja menn ekki af sér að ástæðulausu. Sitja meðan sætt er. Deila og drottna yfir okkur þó við möglum. Við verðum að beita okkur hörku til að halda geðheilsunni.Lögbrotin, rangindin og blindan hjá ráðamönnum þessarar þjóðar verður mörgum nánast ofviða. Siðferði þessa fólks er vandfundið, enda erfitt að finna það sem ekki er til. Verst að vera í sporum Lúthers. Hér stend ég og get ekki annað.

Mér er hugarfró að veðurlagi dagsins. Rok, rigning og 6 stiga hiti hafa fjarlægt snjóinn í nótt. Hugurinn reikar og ósjálfrátt hugsa ég til Tangavatns og þess hvað næsta sumar muni bera í skauti sér. Ýti jólakvíðanum burt og ætla að reyna að vera hress og jákvæður í dag þó ástæður til þess séu ekki mjög ærnar. Reynslan hefur kennt mér að það er besta leiðin. Uppgjöf kemur ekki til greina. Landið er enn á sínum stað og vonin um batnandi ástand er enn til. Jólaklipping eftir hádegi og svo skreppum við Hörður bílameistari og fjölfræðingur í bæinn síðdegis. Kimi á rjátlinu en tollir vart úti í vætunni. Veisluhöld hjá okkur báðum í gærkvöldi því sjófryst ýsuflök voru til kvöldverðar. Megi auðnan elta ykkur, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online