Wednesday, December 17, 2008

 

Kæla.

Rúmlega 5 stiga frost. Nánast logn og það breytir miklu. Ég hitti þau ágætu hjón, Bryndísi og Rúnar, veiðiverði í Veiðivötnum, í gær. Átti við þau gott spjall.Þau dveljast jafnan nokkuð innfrá eftir að veiðitíma lýkur. Í október fór vindhraðinn þar í 43 metra á sekúndu. Í fyrravetur komst frostið niðurfyrir 30 gráður á sömu slóðum. Undirritaður var þarna með skáldinu sínu í ágúst 2004. Logn og 27 gráður. Þetta er nú blessað landið okkar. Þó harnað hafi á dalnum vonast ég til að mér auðnist að veiða þarna næsta sumar. Bryndís sagði mér að margar fyrirspurnir hefðu borist frá veiðimönnum sem hafa veitt á urriðasvæði Laxár í Þingeyjarsýslu undanfarin ár. Kostnaðurinn við það er kominn úr böndunum. Það er allt fullbókað í Veiðivötnin næsta sumar. Hætt er þó við að nokkrir gangi úr skaftinu. Gömlu bankarnir skulda 10.000 milljarða erlendis. Þessi afkvæmi Davíðs og draugsins. Svokallaðir eigendur þeirra halda óáreittir áfram að gambla. Ingunn Anna, Gústi og öll hin eiga að erfa skuldirnar. Arfleifð þessara manna mun verða þung í skauti. Skauti þeirra sem enga ábyrgð bera á henni.Rangindi og ráðaleysi núverandi stjórnvalda eru allsráðandi. Þetta blasir við flestum nema þeim sjálfum. Þó innan við þriðjungur þjóðarinnar séu fylgjandi ríkisstjórninni samkvæmt könnunum, mun hún stritast við að sitja meðan sætt er. Ráfandi stefnulaust um rústirnar.
Kimi enn lagstur hér á borðið. Hann hefur enn traust á vini sínum og fóstra enda ekki aðrir fyrir hendi. Merkimiðar, jólapappír og límband eru ákaflega freistandi í augum þessa rauðskotts. Líklega verð ég að loka Dýra útí kuldanum ef ég á að fá frið til að ljúka vafstrinu. Bestu kvaðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við förum í vötnin, það er einfaldlega ekki spurning. Reikna með að sá er þetta skrifar muni veiða mest eins og síðast (undir pundi ekki talið með).
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online