Friday, December 19, 2008

 

Pækillinn...

er að kólna á svölunum. Jólalærið góða bíður í ísskápnum. Þó harðara sé í ári en oft áður, er lærið ómissandi þáttur í jólahaldinu. Daginn fyrir Þorláksmessu 2001 féll vinstra lungað í Hösmaga gjörsamlega saman og hann þurfti nauðbeygður á spítala í grænum hvelli.Lærið var tilbúið til steikingar og voru nú hin góðu ráð dýr. Vinkona mín frysti lærið sem skipti um hlutverk og varð Páskalæri í staðinn. Bragðaðist dásamlega eins og ævinlega. Ég ætla að steikja lærið þann 22. og reykti sauðurinn fer í pottinn á Þorláksmessu. Þá kemur rétta anganin í vistarverurnar. Ég legg ekki í að sjóða skötu. Það hefur líka verið bannað í flestum fjölbýlishúsum. Ég hef etið skötu hjá Kiwanismönnum undanfarin ár og geri það örugglega nú. Enn er hann að puðra niður snjó. Samt vel fært um götur. Nú er logn og þetta myndi væntanlega vera vinsælt jólaveður. Því miður er spáð mikilli rigningu og hvassviðri á aðfangadag.Það verða því flekkótt jól. Ég kvíði þó ekki ferðalagi til höfuðborgarinnar. Græna þruman enn í eigu Hösmaga og hún mun skila honum heilum heim. Dýri gætir hússins og fær svo eitthvað virkilega gott í gin sitt. Planið er nú að eyða helginni í þrif og tiltektir. Svo verður letilíf um jólin. Bóklestur, krossgátur og sífellt rennerí í kræsingar jólanna. Skáldið og Helga komin heim á gamla Frón. Vonast eftir að sjá þau á Selfossi áður en þau halda aftur af landi brott. Ég fór of snemma að sofa í gærkvöldi og vaknaði á óguðlegum tíma. Fór í eftirlitsferð um bæinn snemma morguns. Vegheflar og önnur snjóruðningstól á fullu. Kyrrt veður og lítið frost. Ef vind fer að hreyfa að ráði verður aftur þæfingsfærð. Þegar birtir fer ég í annan leiðangur og sæki laxinn í reyk. Hann verður örugglega sama lostætið og áður. Flínkir strákar hjá Krás ehf. Við Kimi Högnason sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hækillinn af lærinu sem fer í pækilin er bara snilld. Ef einhver vogar sér að stela honum frá mér á þessu heimili kostar það einfalda rassskellingu. Skötustækja er hins vegar ekki snilld.
Bjóst við sterkari viðbrögðum við síðasta kommenti varðandi veiði. En sumum staðreyndum er líklega erfitt að hafna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online