Sunday, December 07, 2008

 

Stuttir dagar.

Það er tæpast hægt að segja að það hafi dagað í gær. Dimmt í lofti en snjóinn tók upp að mestu. Aftur alhvít jörð í morgun og lognið hefur unnið sigur á storminum. Kimi nýtti sér það í klukkutíma utandyra en situr nú hugsi hér á borðinu hjá vini sínum og fóstra. Mér varð nú minna úr verki í gær en til stóð. Lauk við útgerðarsögu Ása í Bæ í gærkvöldi. Fljótur að sofna uppúr miðnætti en friðurinn var úti uppúr kl. 5. Kimi óvenjuharðskeyttur í morgunsárið. Linnti ekki látum fyrr en ég reis upp við dogg.Legg mig bara á eftir í staðinn. Spaugstofan nokkuð góð í gær. Þar kom yfirnagarinn við sögu að venju. Atferli hans að undanförnu hefur sannfært mig enn og aftur um að hann gengur ekki heill til skógar andlega. Sólkonungar haga sér í samræmi við andlegt ástand. Enginn ber meiri ábyrgð á hvernig komið er fyrir okkur skerverjum nú en einmitt þessi maður. Hann segist hafa fullt starfsþrek og hefur í hótunum við lufsurnar sem nú sitja í ríkisstjórn um hvað hann muni gera verði hann þvingaður út úr musterinu. Hvað með okkur hin sem höfum líka starfsþrek? Þúsundum saman höfum við misst okkar starf. Hér er hnípin þjóð í vanda. Það er brýnt að fjarlægja þessa yfirrottu Svörtulofta og ýmsar smámýslur í leiðinni. Það væri fyrsta skrefið í rétta átt. Ætli hann sér í stjórnmál aftur vil ég benda á góða leið fyrir hann. Það vantar nýjan formann í framsóknarflokkinn. Suðurkjördæmi væri alveg rakið fyrir þetta ofurmenni. Guðni og Bjarni báðir flognir og sunnlendingar hafa löngum verið lagnir við að kjósa rétta fólkið á þing. Hann þarf ekki einu sinni að hafa fyrir því að fá æru sína uppreista.Formlega hefur hann hana ennþá. Skítlegt eðli vefst heldur ekkert fyrir okkur íslendingum. Siðferðismat okkar í stjórnmálum er óbreytt.O tempora o mores.

Það væri sennilega heillaráð að viðra sig aðeins.Teyga að sér tæra loftið og reyna að víkja leiðindunum burtu. Depurðinni yfir ástandinu og reiðinni útí þá sem mér finnst bera höfuðábyrgð á því. Einu sinn var mér sagt að það væri dyggð að geta fyrirgefið. Það átti vel við þá og ég fór eftir því og leið betur í kjölfarið. En það er bara ekki hægt að fyrirgefa sumu fólki. Því miður. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að fá þig á stjá í bloggheimum aftur. Nú styttist í vetrarsólhvörfin, Ingólfsfjallið er á sínum stað og fiskurinn gengur í vötn og ár í vor. Allt það mikilvægasta blívur og er gott.

Kveðjur frá Baunalandi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online