Thursday, December 25, 2008

 

Jóladagur.

Jóladagur runninn upp. Jörð hefur aftur hvítnað í nótt og það hlýtur að gleðja þá sem vilja hvít jól. Hiti rúm 2 stig og gjóla. Langt síðan Hösmagi hefur sofið fram á dag. Við Kimi rumskuðum ekki fyrr en klukkan var farin að ganga tíu. Morgundöggin smakkast vel en myrkrið hefur enn völdin. Kisi var ósköp kátur þegar ég renndi í hlað um miðnætti í gær. Hann fékk 3 jólagjafir. Herta ýsubita frá Ingu systur minni. Wiskas kræsingar frá hinum aldna ketti Loka, sem er köttur Helgu Soffíu. Hann er nú 17 ára gamall. Biksvartur og afar virðulegur. Ég gaf honum herra Gorm. Einhverskonar tígrisskepnu dinglandi í spotta. Kimi er hálfsmeykur við kauða en samt afar forvitinn. Gærdagurinn var ljúfur og góður. Veðrið indælt. Ég var kominn til höfuðborgarinnar um eittleytið. Grjónagrautur í Hjallaseli hjá foreldrum Helgu Soffíu. Síðan lá leiðin í Fossvogskirkjugarð, til Ingu systur á Kársnesbraut, Greniás til Magga, Boggu og strákanna og svo til Beggu og fjölskyldu í Kjarrmóum. Þar undi ég glaður við mitt frameftir kvöldi. Frábærlega góður matur og ekki spillti samveran við dóttur, tengdason, afastelpu og lambakónginn nafna minn. Það er vandfundinn maður sem er jafn geðljúfur og sá piltur. Ekki spillti það heldur að hann hafði fósturson sinn með sér. Köttinn Júlíus Cesar. Blanda af norskum skógarketti, persa og íslendingi. Með ákaflega virðilegt skott sem stendur jafnan þráðbeint uppí loftið. Ég er því eiginlega orðinn langafi nú þegar. Heimferðin gekk greiðlega. Marauður vegur og indælis veður. Ég las jólapóstinn, naut návista við Kimi og skreið síðan undir sæng mína og hélt áfram með brunabílinn sem hvarf eftir Sjöwall og Wahlöö. Eftir nokkrar síður var unaðslegt að svífa inní draumalandið. Það verða rólegheit í dag. Meiri bóklestur og sauðahangikjöt með viðeigandi meðlæti. Kannski tek ég eins og einn rúnt á grænu þrumunni. Tilveran ljúf og góð. Við Rauðskott sendum jólaóskir til allra vina okkar og vonum að þið njótið dagsins, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online