Saturday, December 20, 2008

 

Vetrarsólstöður.

Merkisdagur í dag. Upphafið að sigri birtunnar á myrkrinu. Það er enn snjóhraglandi en hitastigið vel yfir frostmarkinu. Ef spár ganga eftir verður mikið asald og nauðsynlegt að vera vel skóaður. Stígvélaveður. Þið munið kannski eftir ævintýrinu um stígvélaða köttinn. Kannski ég ætti að útbúa stígvél á Dýra. Við erum báðir búnir að sofa heil ósköp. Sjálfur fór ég í eftirlitsferð um bæinn. Tókst að festa Lancerinn vestan Ölfusár en fyrir eitthvert kraftaverk tókst mér líka að losa hann. Hann er svo aftur kolfastur hér í heimreiðinni í Ástjörn. Beislið komið aftaní grænu þrumuna og nú vantar bara spotta. Það reddast þegar venjulegt fólk vaknar. Ég hef það sem reglu að hringja ekki í fólk fyrir hádegi á sunnudögum.
Ég lauk við lestur laxveiða í Jemen í gærkvöldi. Þessi bók skilur heilmikið eftir sig og ég naut lestrarins afar vel. Fer á bókasafnið á morgun og tryggi mér eitthvað bitastætt að lesa um jólin. Fátt er betra á jóladag en að liggja útaf í rúmi sínu með góða bók í hönd. Svo mókir maður aðeins, nartar í kræsingarnar og skríður aftur uppí. Það nægir að vera á nærbrókinni einni við þessa iðju. Í dag mun ég taka upp þráðinn frá verkum gærdagsins. Þrif og tiltektir. Skatan í gær, ásamt hömsum, kartöflum og rófum reyndist staðgóð undirstaða fyrir allan daginn. Það er sem sé allt nokkuð gott að frétta af Hösmaga og sambýlisketti hans. Pollrólegir bíðum við eftir birtunni á þessum stysta degi ársins. Ég hlakka til að losna við Sollu og Geira. Og reyndar miklu fleiri landsfeður og mæður. Það flökrar ekki lengur að mér að sitja heima í næstu kosningum. Þegar nýi gunnfáninn blaktir við hún og glæponarnir hafa fengið makleg málagjöld verður miklu skemmtilegra að vakna á morgnana. Þá verður græðgisvæðingunni kastað á haugana. Hagsmunir hins smáa verða teknir fram yfir gróðæri þeirra sem traðkað hafa á þeim undanfarin ár. Það mun takast þó tíma taki. Krúttkveðjur til vina frá okkur Rækjunen, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, sól hækkar á lofti og nú fer að hlána. Góðar fréttir fyrir laxabana.

Reyndar er ég orðinn hálflinur liðsmaður í félagi andstæðinga snjósins, sérstaklega eftir nokkrar salíbunur með þriggja ára barnið á sleðanum. Þannig að ég græt sjálfur komandi umhleypingar.

Gleðileg jól annars austur yfir fjall.
 
Ég ætla að sætta mig við jólaveðrið hvernig sem það verður. Andvarann leggur hér í gegn en samkvæmt spám verður hann að roki þegar á daginn líður. Stend nú í þrifum svo veðrið úti skiptir ekki öllu. Kærar kveðjur frá mér til þín og stelpnanna.
 
...og glænýja stráksins, gleymdu honum ekki.

Vona bara að ár flæði ekki yfir bakka í þínu kjördæmi næstu klukkutímana. Nóg er nú jólastússið samt.
 
Bið forláts að hafa ekki fylgst nógu vel með. Þetta er þá semsagt að verða stórfjölskylda. Bestu kveðjur til unga sveinsins líka.
 
Já, við erum orðin dæmið sem ferðaskrifstofurnar taka alltaf.

Kveðjur aftur yfir heiðina.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online