Monday, December 08, 2008

 

Þjóðlegheit.

Það er þjóðlegt að þjóðnýta hrun bankakerfisins. Leggja þúsundir milljarða á komandi kynslóðir meðan útrásarvíkingarnir eru stikkfrí. Þotur, snekkjur og luxusíbúðir þessara þjófa að sjálfsögðu allar ósnertanlegar. Noli tangere. Lykilfólk gömlu bankanna allt á sínum stað í hinum nýju. Allt mjög þjóðlegt. Nú heimta sumir að lögin um mat á umhverfisáhrifum verði afnumin strax. Vegna " kreppunnar ". Á sama tíma hefur verð á áli fallið úr 3.400 dollurum tonnið niður í 1.440 dollara. Og heldur áfram að falla.Rafmagnsverðið er tengt heimsmarkaðsverði á áli. Lágt hefur það verið en sumir vilja líklega gefa með því. Þórunn stendur enn í lappirnar og þeir æstustu segja hana vera ráðherra VG í núverandi ríkisstjórn. Sennilega tínir hún fjallagrös á laun þegar færi gefst. Eins og stundum áður finnst mér ég vera staddur í miðju leikriti Dostojevskís. Á hverjum einasta degi koma nýjar hliðar á spillingunni í ljós. Þúsundir íslendinga mótmæla þó. ISG segir bara að þeir séu ekki þjóðin. Það er ekki hlustað á bestu hagfræðinga okkar. Enda óþarfi, því stóra rottan á Svörtuloftum veit þetta allt mikið betur. Davíð væri góður sem sá alklikkaðasti hjá Dostojevskí. Þyrfti ekki að leika neitt nema sjálfan sig. Eða öllu heldur vera bara hann sjálfur. Þegar allt er orðið drulluskítugt heimafyrir neyðumst við til að þrífa. Enn trúi ég því að það sé hægt. Árið 2009 verður vonandi ár athafna á þessu sviði. Það verður að byrja á byrjuninni. Leysa alla sem nú hafa verið skipaðir til að kafa í drulluforinni frá störfum. Þeir voru allir þar fyrir. Á að láta þjófinn rannsaka eigin brot og una svo niðurstöðu hans? Það er örugglega þjóðlegt í augum sumra.

Ég fór vestur yfir heiði í gær. Heimsótti systur mína yngri og mág minn. Spjall og kræsingar í 4 tíma. Græna þruman stendur á bílasölu í Reykjavík. Gamli Lancerinn fór létt með að flytja mig þennan spöl og heim aftur. Skreið undir sæng mína um hálfellefu með Þórberg í hönd. Hnoðaður og malaður að venju. Svaf draumlaust í eina 6 tíma og er nokkuð ern í dag. Það styttist í vetrarsólstöður og birtan eykst á ný. Ekki einu sinni kraftaverkamennirnir geta komið í veg fyrir það. Ef ég tryði á helvíti óskaði ég þeim öllum þangað því þar ættu þeir heima. Bestu kveðjur til ykkar hinna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online